Hvaðan koma Pólverjar?

Mikið hefur verið rætt um Pólverja síðustu misserin, um það hversu margir hafa flutt til Íslands og hvernig fjöldi þeirra hefur tekið að sér lægst launuðu störfin á Íslandi. Á laugardaginn var birtist svo frétt um að pólsk mafía væri að störfum á Íslandi sem legði fjölskyldur pólskra verkamanna í einelti. Ég var frekar hissa á þessu öllu saman, og þar sem ég var farinn að heyra orðið Pólverji í annarri hverri setningu, ákvað ég að leita mér upplýsinga um þennan þjóðflokk, - og þá sérstaklega um sögu hans.

SverdÞað er óhætt að segja að Pólverjar komi úr allt öðru evrópsku umhverfi en Íslendingar. Íslendingar hafa lifað í friðsæld og fátækt  en Pólverjar hafa aftur á móti þurft að lifa og deyja í styrjöldum og lifað við fátækt frá örófi alda - og síðast í síðari heimstyrjöldinni var fjórðungur þjóðarinnar drepinn af nasistum fyrir engar sakir. Ég hef ekki dug í mér að telja allar þær styrjaldir sem Pólverjar hafa tekið þátt í síðustu 1000 árin, en einu blóðugu deilurnar sem ég man eftir á Íslandi yfir þetta tímabil voru á Sturlungaöld, milli Oddverja og Sturlunga á 13. öld.

Fólk hefur búið á landssvæðinu þar sem Pólland er núna í rúm 500.000 ár.  Þar lifði fólk gegnum steinöld, bronsöld og járnöld. Rómverjar réðust inn í Pólland og töpuðu því svo aftur þegar herflokkar úr austri réðust að Rómaveldi. En heimsveldið átti eftir að ná völdum á ný.

Árið 966 staðfestir Ottó hinn mikli leiðtogatitil Miezko I, sem gerir Póland aftur að hluta rómverska heimsveldisins, en nú í samvinnu við páfa og þar af leiðandi kaþólsku kirkjuna. Fyrstu konungar Póllands voru öflugir og tókst að efla og styrkja ríkið töluvert, en erfingjar krúnunnar fóru að takast á um hver ætti að fara með hvaða völd í ríkinu, og var því loks skipt í fjóra hluta á 13. öld. Þetta varð til þess að þjóðin var veikari sem heild og illa undirbúin fyrir innrás Mongóla á germönsk svæði. Þetta þýddi að gífurlegur fjöldi af þýskum innflytjendum fluttist inn til Póllands, sem varð til þess að Pólverjar þurftu að aðlagast þýskum lögum og menningu, - innflytjendur tóku yfir Pólland.

Á 14. öld sameinuðust Pólverjar og Litháar í stríði gegn Riddarareglunni frá Riga, sem hafði framið fjöldamorð á pólskum bændum og riddurum.

Á 16. öld ríkti samveldi Pólverja og Litháa, en þetta ástand ríkti fram á 18. öld. En árið 1572 gerðist sá stórmerkilegi hlutur að Sigmundur II Ágústus konungur Póllands lést án erfingja. Eftir miklar pælingar var ákveðið að kjósa næsta kóng, en aðalsmenni fengu kosningarétt. Sá sem fékk kosningu yrði við völd til dauða, og þá færi næsta kosning fram. Þeir sem buðu sig fram voru engir Pólverjar: Henri frá Valois (bróðir Frakkakonungs); rússneskur zsar, Ivan IV, Ernest erkigreifi frá Austurríki og Svíakonungur, Jóhann Vasa III. Henri frá Valois vann kosningarnar, en þremur árum síðar lést Frakkakonungur og hann flutti til Frakklands til að taka við krúnunni, og skyldi Pólland eftir konungslaust.  

Mikið var um styrjaldir og uppreisnir á þessu tímabili og eftir styrjaldir 17. aldar var Pólland loks gjaldþrota.

Á 18. öld gerðu Pólverjar samkomulag með Rússum og tóku þátt í stríði gegn Svíum um yfirráð baltneska landsvæðisins. Barist var í Póllandi um pólska hásætið. Svíar sigruðu árið 1704. Svíar töpuðu svo fyrir Rússum 1709. Eftir að borgarastríð árið 1717 var Pólland gert að fylki í rússneska ríkinu. Árið 1732 gerðu Rússar, Prússar og Austurríkismenn samþykkt um að halda Póllandi óvirku sem ríki í Evrópu. Afleiðingin var sú að stjórnleysi ríkti í landinu næstu árin.

Ólíkar þjóðir voru með puttana í stjórnun Póllands næstu áratugina, og Pólverjar sáu fyrst tækifæri til að öðlast sjálfstæði eftir fyrri heimsstyrjöldina árið 1918, enda höfðu þær þjóðir sem vildu stjórna Póllandi allar farið illa út úr stríðinu. 

Frá 1918-1930 fengu Pólverjar loks að lifa í friði frá styrjöldum og fátækt. En blómaskeiðið var ekki langt, því árið 1930 skall á kreppan mikla, en samt ríkti friður í Póllandi til 1939 þegar nasistar réðust inn Pólland og hófu þannig síðari heimstyrjöldina. Póllandi var skipt upp í svæði sem sovétmenn og nasistar skiptu á milli sín.

Pólverjar voru mjög andsnúnir nasistum og gerðu margar tilraunir til að berjast gegn þeim, en talið er að um sex milljón Pólverjar hafi verið myrtir af þýskum nasistum og tvær og hálf milljón Pólverja fluttir til Þýskalands í nauðungarvinnu. Aðeins um 500.000 þeirra sem drepnir voru, voru hermenn. Það er útbreiddur misskilningur að það hafi aðallega verið pólskir gyðingar sem voru fórnarlömb nasista, en það rétta er að um helmingur þeirra sem voru drepnir voru kristnir og hinn helmingurinn gyðingar. Árið 1945 höfðu Pólverjar tapað um 25% þjóðarinnar í síðari heimstyrjöldinni, og skyldi eftir sig um eina milljón munaðarleysingja. Þjóðin tapaði um 38% af eigum sínum, á meðan Bretar töpuðu um 1% og Frakkar einnig um 1%.

Í júní, árið 1945 fengu Pólverjar aftur sjálfstæði. Næstu áratugir voru erfiðir. Kommúnistar héldu völdum. Starfsskilyrði voru erfið, laun lág og fátækt mikil. Mikið var um verkföll, sem jafnvel var brugðist við með hervaldi.

Árið 1989 var kommúnismi aflagður í Póllandi, og loks fór ástandið að skána. Pólland gekk í NATO 1999 og í Evrópusambandið árið 2004. 

 

Myndir og upplýsingar: Wikipedia.org. Hægt er að finna upprunalega slóð allra mynda með því að hægrismella á þær og velja properties.


Bloggfærslur 24. mars 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband