Er baráttan gegn einelti fyrirfram töpuð?

Við vitum að einelti er eitthvað slæmt. Þegar börn eru beitt einelti lenda þau í áhættuhóp yfir þá ólánsömu einstaklinga sem geta villst á þjóðvegum lífsins.

Ég skilgreini einelti sem hvaða form ofbeldis sem átt getur sér stað og er síendurtekið beitt gegn einstaklingi eða hópi. Ofbeldi getur verið misjafnlega harkalegt og valdið misjafnlega miklum skaða, en ofbeldi ber ávallt að taka alvarlega.

Ég hef rætt við fólk sem lítur á einelti sem sjálfsagðan þátt í tilveru barna. Það sé rétt eins og íslenska veðrið. Börnin verða að standa þetta af sér, herðast gegn því, læra að þola það. Þetta er slæm leið.

Ég er á þeirri einföldu skoðun að rót alls hins illa í heiminum felist í ofbeldi og að ofbeldi nærist á fávisku og heimsku. Það að þekkingu og visku þurfi til að koma í veg fyrir ofbeldi þýðir að hér er um vandasamt mál að fást. 

Við teljum réttlætanlegt að beita ofbeldi við ákveðnar aðstæður. Til dæmis eru lögreglumenn og hermenn þjálfaðir til að beita ofbeldi á agaðan hátt. Afbrotamenn eru beittir ofbeldi þar sem þeir eru útilokaðir frá samfélaginu, en þetta ofbeldi þykir réttlætanlegt þar sem það fylgir ströngum ferlum kerfisins og samfélagsins.

Allir vita að ofbeldi er rangt, en átta sig ekki alveg á hvað "einelti" þýðir og af hverju það er líka rangt.

Dæmi um líkamlegt ofbeldi er þegar einhver er laminn. Dæmi um andlegt ofbeldi er þegar einhver er kallaður illum nöfnum eða skilinn útundan. Einelti er hins vegar þegar einhver er stöðugt laminn, stöðugt kallaður illum nöfnum, stöðugt skilinn útundan. Þannig er einelti í raun jafn djúpt og alvarlegt fyrirbæri og ofbeldi, án þess að ég vilji gera lítið úr ofbeldi, sem getur verið það harkalegt að það skilur þolandann eftir örkumla og jafnvel lífvana. Það getur einelti reyndar líka gert, það er bara erfiðara að sjá það.

Merki eineltis eru sjaldnast sýnileg, enda algengasta form þeirra sprottið úr illskuverkum sem erfitt er að sanna: úr andlegu ofbeldi. Það þekkja flestir þá tilfinningu að hafa einhvern tíma verið skilinn útundan. Hvernig verður sú tilfinning þegar hún er endurtekin fimmtíu sinnum á mánuði? 

Við þekkjum þá tilfinningu sem fylgir því að hafa verið refsað fyrir eitthvað sem maður hefur ekki gert. Hvernig tilfinning ætli það sé að vera refsað reglulega fyrir eitthvað sem maður hefur ekki gert?

Við þekkjum þá tilfinningu sem fylgir því að lítið sé gert úr manni, að gert sé grín að einhverju í fari manns. Það er óþægilegt einu sinni. En hvað ef slíkt gerist ekki bara daglega, heldur oft á dag?

Listinn hér fyrir neðan er dæmi um einelti, og alls ekki tæmandi:

EINELTI SEM ANDLEGT OFBELDIEINELTI SEM LÍKAMLEGT OFBELDI
 Stríðni sem þolanda finnst ekki fyndin
 Að sparka í einhvern
 Að uppnefna einhvern
 Að berja einhvern
 Að hóta einhverjum
 Að neyða einhvern til að gera hluti gegn vilja
 Að stela hlutum frá einhverjum
 Að neyða einhvern til að borga pening eða eigur  fyrir að vera látinn í friði
 Að eyðileggja hluti einhvers
 Að níðast á einhverjum vegna trúarbragðaskoðana
 Að gera óvinsamlegt grín að einhverjum
 Að níðast á einhverjum vegna húðlits
 Að láta einhvern finna fyrir óþægindum
 Að níðast á einhverjum vegna þjóðernis
 Að hræða einhvern
 Að níðast á einhverjum vegna tungumáls
 Að hunsa einhvern eða skilja útundan
 Að níðast á einhverjum vegna fötlunar (t.d. nærsýni)
Að baktala einhvern 
Að dreifa gróusögum um einhvern 
Að segja eða skrifa illkvittna hluti um einhvern 

Langvarandi einelti er líklegt til að vekja eftirfarandi tilfinningar, sérstaklega ef þolanda vantar stuðningsnet fjölskyldu, og jafnvel þó að viðkomandi hafi það:

  • Þunglyndi
  • Minnimáttarkennd
  • Feimni
  • Áhugaleysi gagnvart verkefnum
  • Einmanaleika
  • Sjálfsvígshugleiðingum

Af hverju leiðist fólk út í að stunda einelti?

  • Hegðun sem allir hinir stunda
  • Sjálfsvörn gegn mögulegu einelti frá öðrum
  • Vilja frekar vera gerendur en fórnarlömb
  • Lélegt sjálfsálit
  • Vilja vera töff
  • Finnst allt í lagi að særa aðra
  • Annað...

Og nú er það spurningin sem enginn virðist geta svarað í verki:

Er baráttan gegn einelti fyrirfram töpuð?

Hvernig útrýmum við einelti og ofbeldi?

Í eitt skipti fyrir öll?

Einu atviki í einu?

Horfum í kringum okkur.

Upplifum daginn í dag án ofbeldis.

Lifum lífinu án eineltis.


Bloggfærslur 15. mars 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband