The Thing from Another World (1951) **1/2

Hópur hermanna úr bandaríska flughernum er sendur á rannsóknarstöð á Norðurpólnum þar sem vísindamenn urðu varir við fljúgandi furðuhlut. Stór hópur fer með herflugvél að svæðinu þar sem hluturinn lenti, og í ljós kemur að þetta er disklaga skip utan úr geimnum. Það hefur gefið frá sér mikinn hita, sokkið í ísinn sem fraus aftur saman. Ákveðið er að losa skipið með hitasprengjum, en það fer ekki betur en svo að þeir sprengja geimskipið í tætlur. Þegar þeir skoða svæðið finna þeir geimveru frosna undir yfirborði klakans, höggva bút úr ísnum og taka með heim í búðirnar.

Ákveðið er að geima veruna frosna, þrátt fyrir mótmæli vísindamanna, sem vilja rannsaka hana og vekja til lífsins. Einn af vörðunum yfir klakanum er svo gáfaður að leggja hitateppi sem er í sambandi ofan á ísinn, þannig að hann bráðnar, og veran losnar.

Fljótt kemur í ljós að þessi vera er langt frá því að vera vinsamleg. Hún ræðst á sleðahunda og drekkur úr þeim allt blóð. Það sama gerir hún við vísindamenn sem hún nær í. Hópurinn sér að nauðsynlegt er að drepa geimveruna, áður en hún næði að drepa þá og drekka úr þeim allt blóð. Vísindamaðurinn Dr. Carrington (Robert Cornthwaite) vill allt gera til að vernda geimveruna, en flugmaðurinn Patrick Hendry (Kenneth Tobey) vill hins vegar drepa hana sem allra fyrst.

Því miður er persónusköpun fyrir neðan allar hellur, fyrir utan kannski vísindamanninn Dr. Carrington, en samt er hann frekar klisjukennd flatneskja, en ekkert í samanburði við alla hina, sem eru eins og klipptir út úr klisjumetbók Guinnes. Það er lítið mál að fyrirgefa úreltar tæknibrellur, en staðnaðan og stirðan leik er erfiðara að fyrirgefa. Geimskrímslið er samt skemmtilega ógnvekjandi og það eru til nokkur atriði sem fá mann til að bregða.

Ég er viss um að The Thing from Another World hafi þótt frábær á sínum tíma, en hún hefur einfaldlega ekki elst vel, annað en hægt er að segja um endurgerð hennar frá 1982, The Thing, í leikstjórn John Carpenter. Maður sér bara betur hvílíkt þrekvirki John Carpenter hefur unnið með því að endurskrifa söguna frá grunni og skapa eftirminnilegar persónur sem erfitt er að gleyma.

Á meðan The Thing frá 1982 fjallaði um tortryggni og það hvernig samskipti og traust manna molna við erfiðar aðstæður, er 1951 útgáfan mun bjartsýnni á megn mannsins til að ráða við hverja þá ógn sem skotist getur upp á yfirborðið. Þó að ég sé frekar bjartsýnn maður, þá er ég hrifnari af raunsæju og jafnvel bölsýni John Carpenter, enda varð eitthvað til í því ferli sem er erfitt að gleyma.

 

Sýnishorn:


Eastern Promises (2007) ***1/2

Nikolai (Viggo Mortensen) er bílstjóri og útfararstjóri, eða með öðrum orðum hreingerningarmaður rússnesku mafíunnar í London. Hann starfar fyrir hinn óreglusama Kirill (Vincent Cassel) son mafíuforingjans.Semyon (Armin Mueller-Stahl). Kirill lætur myrða vin sinn án samráðs við föður sinn, en þessi vinur hans hafði verið að halda því fram að Kirill væri samkynhneigð fyllibytta. Nikolai þarf að hreinsa upp sönnunargögnin eftir morðið.

Annars staðar í borginni deyr unglingsstúlka af barnförum á sjúkrahúsi. Hún skilur eftir sig dóttur og dagbók, sem ljósmóðirin Anna (Naomi Watts) tekur með sér heim. Þar sem að bókin er á rússnesku fær hún frænda sinn til að þýða hana fyrir sig. Hún finnur nafnspjald í bókinni sem leiðir hana á heimili mafíuforingjans, og fljótlega veit hann um bókina og að frændi hennar er að lesa hana. Í bókinni segir unglingsstúlkan frá því hvernig Semyon hafði nauðgað henni og haldið henni nauðugri og dópað upp með heróíni.

Semyon fær Nikolai til að þagga niður í Önnu og fjölskyldu hennar, en málið er ekki það einfalt, því að Nikolai ber virðingu og hugsanlega einhverjar tilfinningar til Önnu, en á sama tíma komast bræður mannsins sem Kirill lét myrða, að því hverjir sökudólgarnir eru. Semyon vill að sjálfsögðu ekki láta drepa son sinn, og gefur því Nikolai það verkefni að deyja í stað sonar síns, án þess náttúrulega að segja Nikolai frá því. En Nikolai hefur meira til brunns að bera en nokkurn grunar, og hefur aðeins meiri metnað en að vera bílstjóri og útfararstjóri mafíuforingja.

Eastern Promises er meistaraleg söguflétta frá David Cronenberg sem borgar sig ekki að útskýra um of. Hún er uppfull af trúarlegum tilvísunum, og þá sérstaklega í húðflúrum þeim sem Nikolai hefur um líkamann allan. Yfir brjóstkassann er húðflúraður kross, og hegðun hans og viðmót gefa alls ekki til kynna að hann sé harðsvíraður glæpamaður. Hann er nær því að vera heilagur maður eða munkur, sem þarf að gera hræðilega hluti til að ná markmið sem bæta skal heiminn. Hann er maður sem fórnar sér fyrir málstaðinn.

Ef einhvern veikan hlekk er að finna í Eastern Promises, þá myndi ég helst benda á óvenju slakan leik Naomi Watts. Hún les sig einfaldlega í gegnum hlutverkið og myndina, á meðan þeir Vincent Cassel og Viggo Mortensen gefa sig alla og Viggo jafnvel meira en það til að gera hlutverki sínu almennileg skil.

Eastern Promises situr í mér og hvetur mig til umhugsunar um siðferði og fórnir sem sumir einstaklingar færa til að bæta samfélagið á einhvern hátt. Og mér verður hugsað til þess hvernig gott siðferði og fórnir fyrir betri heimi virðast verið orðin  hugtök alltof fjarlæg fólki sem er sokkið í líf sem snýst um fátt annað en að eignast sem mest af hlutum og þægilegri aðstöðu en allir hinir. Við búum í skrítnum heimi, og fáum áhugaverða áminningu í þessari mynd um það hvernig fer þegar venjulegt fólk lendir í hringiðu hinnar eilífu baráttu hins góða og illa.

Sýnishorn:


Bloggfærslur 27. janúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband