Death Proof (2007) ***1/2
4.8.2007 | 10:08
Þegar Quentin Tarantino og Robert Rodriguez gáfu út að þeir væru að gera bíómynd saman sem kallaðist Grindhouse, varð ég strax spenntur og gat varla beðið eftir útkomunni. Grindhouse var sett upp sem kvikmyndakvöld sem enginn átti að geta gleymt. Fyrst var uppvakningamyndin Planet Terror (2007) sýnd, í leikstjórn Rodriguez, og sú seinni Death Proof í leikstjórn Tarantino. Það eina sem átti að skilja myndirnar að voru sýnishorn úr myndum sem eru ekki til. Þótti þessi upplifun sérstaklega vel heppnuð og er Grindhouse sem ein kvikmynd með einkunnina 8.4 á Internet Movie Database, sem þýðir að hún er 98. besta kvikmynd sem gerð hefur verið samkvæmt því kerfi.
Vandamálið er að Grindhouse náði ekki inn nógu miklu af peningum. Hinn almenni kvikmyndagestur fattaði ekki hvað Tarantino og Rodriguez voru að gera, og margir fóru heim í hlénu og misstu af kvikmynd Tarantinos. Þetta þýddi að þegar til Íslands kom var Grindhouse einfaldlega ekki í boði. Þess í stað eru myndirnar sýndar í sitthvoru lagi og í ólíkum kvikmyndahúsum, þannig að manni er jafnvel gert erfitt fyrir með að horfa á þær í röð.
Ég var búinn að ákveða að fara ekki á þessar myndir í bíó, né kaupa þær á DVD. Ég var virkilega svekktur yfir að fá ekki að sjá bíómyndina eins og leikstjórarnir ætluðu upphaflega að hafa hana, og skil ekki hvers vegna kvikmyndahúseigendum dettur ekki í hug að halda Grindhouse kvöld a.m.k. einu sinni til að gera þetta mögulegt. Ljóst er að græðgishyggjan er að drepa íslenskt bíó; það kostar 900 kall í bíó sem fólki finnst einfaldlega alltof mikið (álíka mikið og kostar í bíó á dýrustu sýningar í stærstu höfuðborgum heims), og þannig eru Íslendingar vandir af því að stunda þessa mikla skemmtun. Þess í stað virðist fólk annað hvort bíða eftir myndinni á DVD eða hlaða þeim niður af netinu, sem er ekki góð hugmynd þegar um sjóræningjaútgáfur er að ræða, aðallega vegna þess að gæði slíkra mynda jafnast sjaldan á við að sjá flotta mynd í bíó. Reyndar hafa fyrirtæki víða um heim tekið upp á að bjóða löglegt niðurhal á myndum gegn gjaldi, sem er reyndar varla raunhæfur kostur á Íslandi þar sem rukkað er ansi stíft fyrir megabætið í erlendu niðurhali. Þar að auki, fyrir 900 kall í bíó ætlast maður til að fá einhverja þjónustu, en það bregst ekki; gólfið í íslenskum bíóhúsum er með því ógeðslegasta sem maður upplifir í heiminum; klístrug og skítug, og það sama má segja um sætin. Þau lykta oft ansi illa og eru ekkert endilega þægileg. Svo eru líka alltaf þessi andskotans hlé sem klippa bíómyndirnar í sundur hvort sem að maður vill eða ekki. Það er engin furða að heimabíóin eru orðin vinsælli en kvikmyndahúsin.
Vissulega vandist ég á góða hluti í Mexíkó, þar sem kvikmyndahúsin eru snyrtileg, það kostar ekki nema um kr. 250 á hverja sýningu, engin hlé, stólarnir eru þægilegir og bæði mynd- og hljóðgæði eins góð og hægt er að hugsa sér; og svo er spænskur texti með myndunum, sem maður kippir sér reyndar ekkert upp við. Á Íslandi eru flest bíó því miður þriðja flokks. Ég fór oft tvisvar í viku á bíó, en þegar ég kom heim til Íslands nánast hætti ég bíóferðum af öllum þeim ástæðum sem að ofan greinir. Það er nánast búið að venja mig af þessari fíkn. Þess í stað leigi ég og kaupi fleiri myndir á DVD, en að kaupa eina DVD mynd er oft ódýrara en einn bíómiði.
Út af öllu þessu ætlaði ég ekki að fara á Death Proof í bíó. Mér finnst alltof mikið vaðið yfir mig sem bíógest á Íslandi, en ég er bara ekki sterkari persóna en svo að ég stóðst ekki freistinguna. Mig langaði í bíó og Death Proof gat orðið að góðri skemmtun.
Jæja, hvað um það.
Death Proof fjallar um hóp kvenna sem skuggalegur maður, kallaður Stuntman Mike (Kurt Russell) eltir á röndum. Persónurnar eru sérstaklega vel byggðar. Manni finnst þær vera til. Tarantino tekst í þessari mynd að gera það sem gerði Pulp Fiction (1994) að svo frábærri skemmtun, hann fylgir gamalreyndri formúlu, snýr svo uppá hana og gengur lengra en nokkur myndi þora að vona. Hann er meistari í því að koma áhorfandanum á óvart, og það að honum skuli takast það í mynd sem segir allt sem segja þarf í titlinum, er mikið afrek. Tvisvar snýr hann myndinni upp á rönd og mölvar formúluna í spað á áhrifaríkan hátt.
Kurt Russel nær að skapa besta karakter síðan hann var Snake Pliskin í John Carpenter myndunum Escape from New York (1981) og Escape from L.A. (1996) Hann á heima á sama stalli og Vincent Vega úr Pulp Fiction og Mr. White úr Reservoir Dogs (1992). Hefði mátt kalla hann Stuntman Vega. Konurnar eru líka góðar, sérstaklega Pam (Rose McGowan), Abernathy (Rosario Dawson) og Zoe Bell sem leikur sjálfa sig.
Langbesti bílaeltingaleikur sem ég hef séð í kvikmynd birtist á tjaldinu þar sem Tarantino tekst að slá við myndum eins og Bullit (1968) og French Connection (1971) með æsilegasta eltingaleik sem gerður hefur verið, þar sem ein aðalpersónan hangir lengi á húddi bílsins sem verið er að elta.
Ekki má gleyma því að Tarantino tekst að lauma inn sígerattutegundinni Blue Apple, og minnist á hamborgarastaðinn Big Kahuna, nokkuð sem gladdi mikið Sancho félaga minn sem fór með mér á myndina. Einnig vísar hann töluvert í gamlar bílaeltingamyndir, eins og Vanishing Point (1971), sem ég einfaldlega hef ekki séð, en Sancho dásamaði mikið.
Ég mæli tvímælalaust með Death Proof, en hún inniheldur gífurlega mikið af samtölum, eins og Tarantino er von og vísa, sem sumum gæti leiðst ef þeir leita bara eftir spennu og hasar. Aftur á móti tekst með samtölunum að skapa sterkar og eftirminnilegar persónur sem manni stendur ekki á sama um þegar hasarinn byrjar. Það er svona sem ég vil hafa spennumyndirnar mínar; með smá dýpt og persónum sem lögð er vinna í.
Þrátt fyrir að fá Death Proof ekki sem hluta af Grindhouse veislunni, stendur hún sterk ein og sér.