Íslendingar heimsmeistarar í grunnskólaskák!


Lengstu tveimur klukkustundum í lífi mínu lauk núna rétt áðan. Salaskóli þurfti að vinna S-afríska sveit 3-1 til að tryggja sér titilinn, en það væri ef hin sveitin sem var að keppa við okkur um 1. sætið næði 4-0 sigri á Qatar U-14.

Þetta var æsispennandi.

Páll Snædal Andrason vann sína skák á 20 mínútum. Þá þurftum við aðeins tvo til viðbótar og sigurinn í höfn. Stuttu síðar sigraði Qatar á 1. borði mjög örugglega, en Birkir Karl Sigurðsson, hinn snjalli varamaður Salaskólaliðsins hafði heitið á 1. borðsmann Qatar að ef honum tækist að vinna gæfi hann honum ísbjarnarleikfang. Snjallræði hjá Birki! Mætti kalla þetta ísbjarnabragð! Nú þurftum við bara einn vinning til að tryggja okkur sigur.

Þá tapaði Guðmundur Kristinn Lee eftir miklar flækjur á 4. borði. Staðan hjá Qatar og S-Afríku var jöfn á þeirra 4. borði, en Qatar drengurinn tefldi betra endatafl mjög illa og koltapaði þeirri skák. Spennan hékk ennþá í loftinu. 

Nú var komið að Jóhönnu Björgu Jóhannsdóttur. Hún hafði í upphafi skákar náð fínni stöðu, var peði yfir; en tapaði því svo aftur. Andstæðingnum tókst að koma hrókunum innfyrir vörn Jóhönnu, en samt tókst henni að standa í honum. Eftir að hafa loks snerið á hann og komin með frípeð og öruggt jafntefli, þar sem andstæðingurinn þurfti að þráskáka hana til að hún fengi ekki drottningu, þá var hún aðeins of bjartsýn, ætlaði sér að vinna frekar en ná jafntefli; lék af sér peðinu og tapaði. Nú var okkar helsta von að  Patrekur næði að knýja fram sigur.

Í þá mund tókum við eftir að Qatar voru manni yfir á þriðja borði. Þegar þeirri skák lauk með sigri Qatar var heimsmeistaratitillinn í höfn. Patti þurfti ekki að vinna síðustu skákina. Sigurinn var gulltryggður.

Patrekur Maron Magnússon lauk sinni skák með jafntefli, og tryggði Íslendingum vinnings forskot á næstu sveit. Þar með var heimsmeistaratitillinn í höfn. Qatar tapaði á 2. borði, en það skipti ekki lengur máli.

Úrslit í U-14

1. sæti: Salaskóli, Ísland, 17 vinningar

2. sæti: Gene Louw Primary, S-Afríka, 16 vinningar

3. sæti: Uitkyk Primary, S-Afríka, 13,5 vinningar (8 stig)

4. sæti: Qatar: 13,5 vinningar (6 stig)

 

Einstaklingsárangur:

1. borð: Jóhanna Björg Jóhannsdóttir (2 vinningar / 9)

2. borð: Patrekur Maron Magnússon (6 vinningar / 9)

3. borð: Páll Snædal Andrason (5 vinningar / 9)

4. borð: Guðmundur Kristinn Lee (3,5 vinningar / 7)

Varamaður: Birkir Karl Sigurðsson   (0,5 vinningur / 2)

 

Keppendur vilja þakka eftirtöldum stuðninginn:

  • Kópavogsbæ
  • Glitni
  • Skáksambandi Íslands
  • Salaskóla 
  • Tómasi Rasmus
  • Eddu Sveinsdóttur
  • Hafrún Kristjánsdóttur
  • Sigurði Braga Guðmundssyni
  • Eiríki Erni Brynjarssyni
  • Ragnari Eyþórssyni
  • Ómari Yamak
  • Foreldrum og aðstandandum keppenda og þjálfara 
  • Öllum þeim Íslendingum sem studdu okkur og hvöttu í orði og verki

Bloggfærslur 18. júlí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband