Nýtt á DVD: Deja Vu (2006) ***
29.4.2007 | 10:58
Hryðjuverk hefur verið framið í New Orleans. Skip var sprengt í loft upp, fórnarlömb yfir 500 talsins. ATF (Bureau of Alcohol, Tobacco and Firearms) fulltrúinn Doug Carlin (Denzel Washington) kemur að rannsókn málsins. Hann er valinn í rannsóknarhóp sem hefur það hlutverki að hafa uppi á hryðjuverkamönnunum, enda fljótur að finna mikilvægar upplýsingar.
Þessi hópur hefur fundið upp svolítið sérstakt tæki, sem gerir rannsóknarmönnum fært að skoða atburði sem gerðust fyrir fjórum og hálfum degi, frá fjölmörgum sjónarhornum. Þarna flýgur trúverðugleiki út um gluggann og maður áttar sig á að nú er maður ekki lengur að horfa á einfalda spennumynd, heldur á vísindaskáldskap. Það er í góðu lagi.
Þegar Doug uppgötvar að hann getur haft áhrif á atburði sem gerðust fjórum dögum áður, fer fjör að færast í leikinn. Hann og hópurinn hefur fylgst með lífi Claire Kuchever (Paula Patton) en lík hennar skolaði upp á strönd eftir sprenginguna. Hann hefur ástæðu til að trúa því að hún hafi ekki dáið í sprengingunni og telur að hún geti leitt þá að hryðjuverkamanninum. Það gengur eftir, og tekst þeim að handsama Carroll Oerstadt (Jim Caviezel), sem gefur Doug nógu margar vísbendingar til að setja saman djarfa áætlun.
Eftir að hafa fylgst með Claire í rúman sólarhring fer Doug að bera tilfinningar til hennar, og reynir að bjarga henni með því að senda sjálfum sér skilaboð fjóra daga aftur í tímann. Þegar áætlunin gengur ekki alveg upp, ákveður hann að láta senda sig með tímavélinni fjóra daga aftur í tímann.
Deja Vu er gott ævintýri, en hún fellur í margar gryfjur tímaflakksþversagna, en losar sig samt út úr þeim með því að benda á deja vu, þetta undarlega og þversagnarkennda fyrirbæri sem fólk upplifir þegar því finnst það upplifa eitthvað aftur á nákvæmlega sama hátt og það gerði áður.
Ég hef sjálfur upplifað deja vu, og var gífurlega undrandi yfir þessari upplifun. Ég trúði því að Deja Vu tengdist tímaflakki á þann hátt að maður gæti hugsanlega skynjað eitthvað inn í framtíðina þegar maður er í ákveðnu draumaástandi. Síðar las ég að viðteknar útskýringar á fyrirbærinu væru að tilfinning fyrir minni og upplifun gæti stundum víxlast; að þetta væri einhvers konar skammhlaup í huganum. Þó að sennilega sé það nær sannleikanum, þykir mér mín gamla kenning miklu skemtilegri.
Deja Vu er vel leikin, sérstaklega af Denzel Washington og Jim Caviezel, en alltof lítið hefur sést af þeim síðarnefnda undanfarið, eða síðan hann lék Jesús í The Passion of Christ. Paula Patton skilar sínu hlutverki vel, en Val Kilmer er algjörlega flatur í hlutverki FBI mannsins Andrew Pryzwarra.
Leikstjórn Tony Scott hefur lítið breyst. Hann er þekktur fyrir MTV stílinn, stuttar klippingar og óvenjuleg sjónarhorn, en hann hefur góð tök á þessum stíl. Handritið er ágætt, fyrir utan það að erfitt er að taka atburðina trúanlega innan ramma sögunnar.
Deja Vu minnir svolítið á Frequency (2000), enn betri tímaflakksmynd með Dennis Quaid og Jim Caviezel í aðahlutverkum.
Ég mæli með Deja Vu, enda fín skemmtun, en held þó að þessir hæfileikaríku kvikmyndagerðarmenn hefðu getað gert betur.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 12:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)