Stórmyndir: Pan's Labyrinth (El Laberinto del Fauno) (2006) ****

LaberintoDelFauno

Pan's Labyrinth kemur svolítið aftan að manni ef maður veit ekki fyrirfram um hvað hún fjallar. Áður en ég sá myndina hélt ég að hún væri ævintýri líkt Lísu í Undralandi. Þó að hún gefi Lísu ekkert eftir þegar kemur að ímyndunarafli, sköpunargáfu og áhugaverðum aðstæðum, þá er þessi mynd alls ekki ætluð börnum og inniheldur mörg atriði sem gætu verið erfið fyrir viðkvæma einstaklinga.

PansLabyrinth01Faðir Ofeliu (Ivana Baquero) hefur fallið í seinni heimstyrjöldinni, en hann var klæðskeri Vidal kafteins (Sergi López), en hann tekur móður Ofeliu, Carmen Vidal (Ariadna Gil) upp á arma sína, kvænist henni og barnar. Í upphafi myndar eru mæðgurnar á leið að herstöð Vidal kafteins, en hann er kafteinn meðal spænskra fasista árið 1944. Markmið þeirra er að útrýma uppreisnarmönnum sem leynast í grenndinnni. 

Ofelia verður var við undarlegar verur í skóginum og reynir að segja þeim fullorðnu að hún hafi fundið álf. Allir blása á sögu hennar og telja hana einfaldlega vera búna að lesa yfir sig af ævintýrum. Hún villist inn í völundarhús þar sem hún finnur brunn. Neðst í brunninum er forn vera sem gefur henni þrjú verkefni sem hún þarf að leysa, en samkvæmt honum er sál fornrar prinsessu læst í líkama hennar, og vilji hún sleppa úr prísundunni verður hún að leysa þessar þrautir með visku og vönduðu vali.

Það sem er frábært við þessa kvikmynd:

  • Leikur
  • Tæknibrellur
  • Myndataka
  • Hljóðsetning
  • Saga
  • Spenna
  • Dýpt
  • Sköpunargleði
  • Merking

Vidal kafteinn er upptekinn af nákvæmni og stundvísi. Hann passar upp á að úr sem ætti ekki að virka, gangi, er duglegur að pússa skóna sína og drepur þá sem passa ekki inn í hans sýn á lífið og tilveruna. Ofelia lendir strax í mikilli hættu þegar hún kynnist hinum nýja stjúpföður sínum, enda er hún draumórabarn, en stjúpi hennar lifir fyrir að útrýma draumum.

PansLabyrinth02Uppreisnarmennirnir reynast vera venjulegar manneskjur sem berjast fyrir því að geta lifað sínu lífi án ógnarvalds fasismans hangandi yfir sér; þar sem að þeir hátt settu geta drepið almenna borgara eða misþyrmt þeim án þess að þurfa réttlætingar við. Ofelia uppgötvar mikilvægi þess að styðja uppreisnarmennina í baráttunni við stjúpföður sinn, og verður þetta til þess að barnið og stjúpinn berjast við hvort annað upp á líf og dauða. 

Fantasían fléttast skemmtilega inn í atburðarrás sem virðist sönn og raunveruleg, og ekki nóg með það, heldur tekst leikstjóranum Guillermo del Toro að flétta fantasíuna það vel inn í veruleikann að á endanum er ekki auðvelt að gera greinarmun á hvað er hvað.

Þetta er frábær kvikmynd sem ég mæli eindregið með fyrir þá sem áhuga hafa á góðri frásögutækni og sögum sem skilja mikið eftir sig. Það er einfaldlega ótrúlegt að sami leikstjóri skuli hafa gert b-myndirnar Hellboy og Blade 2, en ljóst er að hann hefur lagt sig allan fram við gerð Pan's Labyrinth, sem minnir reyndar mikið á mynd hans frá 2001, El Espinazo del Diablo, eða Hryggur djöfulsins .

Vidal er eitt eftirminnilegasta illmenni kvikmyndasögunnar. Bara til þess að sjá gaur sem jafnast á við þá Hannibal Lecter og Svarthöfða, er það hrein skylda fyrir kvikmyndaáhugamenn að sjá þessa mynd. Ekki skemmir fyrir að hún var tilnefnd til sex Óskarsverðlauna, og mér að óvörum var hún ekki valin besta erlendi kvikmyndin fyrir árið 2006.

Frábær mynd og stórgóð skemmtun. 

Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.


Bloggfærslur 9. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband