Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 18. sæti: Blade Runner

18. sætinu nær Blade Runner í leikstjórn Ridley Scott. Kolsvört og drungaleg framtíðarsýn þar sem risastór auglýsingaskilti og fljúgandi bílar leika aukahlutverk innan um manneskjur í eltingarleik við vélmenni.

 

Blade Runner (1982) ***1/2 

Blade Runner er gerð eftir smásögunni 'Do Androids Dream of Electric Sheep?' (Dreyma vélmenni rafrollur?) eftir Philip K. Dick, þann sama og skrifaði smásöguna sem Total Recall er gerð eftir, 'We Can Remember it For You Wholesale' (Við munum það fyrir þig á heildsöluverði). Kvikmyndin er drungaleg framtíðarsýn. Vélmenni, sem hönnuð hafa verið til að líkjast manneskjum nákvæmlega eru notuð sem þrælar til að vinna erfiðisstörf. Þessi vélmenni geta ekki lifað lengur en fjögur ár í senn.

Nú gerist það að nýjustu útgáfurnar af vélmenna sem kallast 'replicants' taka upp á því að hugsa sjálfstætt, og þroska með sér tilfinningar eins og ást og þrá til að lifa. Þessi þrá til að lifa verður til þess að nokkur vélmennin gera allt sem í þeirra valdi stendur til að framlengja eigin líf. Það kostar blóðug átök. Roy Batty (Rutger Hauer) er leiðtogi þessara rafrænu vera, en Rick Deckard (Harrison Ford) er þeirra helsta hindrun. Hann er fenginn til að leita vélmennin uppi og útrýma þeim. Í rannsókn sinni uppgötvar hann að hugsanlega hefur líf þeirra meira gildi en hann hafði áður gert sér grein fyrir, og þarf að takast á við undirstöðu trúar sinnar um lífið og tilveruna.

BladeRunner01

Segjum að mannkynið slysist til að búa til vél sem hefur sams konar tilfinningar, hugsanir, þrár og vilja til að lifa að eilífu, rétt eins og manneskja og gæti hugsanlega verið með sál, hefðum við rétt til að taka slíka vél úr sambandi þegar okkur þóknast, bara vegna þess að við bjuggum hana til?

Ef við höfum þennan rétt, hefur skapari okkar þá ekki rétt til að taka okkur úr sambandi þegar honum sýnist, án þess að velta sér upp úr samviskubiti og væli?

BladeRunner02

Ridley Scott skapar framtíðarsýn þar sem tæknin hefur farið langt fram úr mannfólkinu og það er farið að gjalda fyrir það. Hvert einasta atriði er skemmtilega útfært. Það er stutt í að út komi endanleg útgáfa Ridley Scott á Blade Runner, en hana er til dæmis hægt að panta á amazon.co.uk.

Blade Runner er góð mynd, en frekar drungaleg og þunglyndisleg á köflum. Harrison Ford og Rutger Hauer eru eftirminnilegir í hlutverkum sínum, og þá sérstaklega Hauer, sem hið ofurmannlega vélmenni. Önnur eftirminnileg persóna er lögreglumaðurinn Gaff (Edward James Olmos) sem býr stöðugt til og skilur eftir sig pappírsdýr út um allt.

Nokkrar spurningar:

  1. Ef þú starfaðir við að framkvæma skítverk fyrir lögregluna, að útrýma vélmennum sem hafa alla sína stuttu ævi unnið skítverk fyrir annað fólk, og unnið sér til dauðadóms að þau leita eftir leið til að komast lífs af, færi þá eins fyrir þér ef þú uppgötvaðir að þú værir vélmenni, forritað til að deyja eftir ákveðinn dagafjölda?
  2. Hvað myndir þú gera ef þú vissir að líf þitt myndi fjara út eftir viku, af mannavöldum?
  3. Myndriðu láta það yfir þig ganga eða gera eitthvað í málinu?
  4. Er réttlætanlegt að grípa til vopna þegar verið er að verja eigið líf?

 

 

Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum:

18. sæti: Blade Runner 

19. sæti: Total Recall 

20. sæti: Pitch Black


The Manchurian Candidate (1962) ****


Í Kóreustríðinu árið 1952 er bandarísk herdeild svikin af leiðsögumanni sínum í hendur kommúnista. Með lyfjum og samráði rússneskra og kínverskra stjórnmálamanna, sálfræðinga og vísindamanna eru Bandaríkjamennirnir dáleiddir, allir sem einn. Kommúnistum gengur sérstaklega vel að dáleiða liðsforingja hópsins, Raymond Shaw (Laurence Harvey), sem hefur alla tíð verið illa liðinn af sínum mönnum og virðist alltaf geta fundið eitthvað að öllu og öllum. Í dáleiðslu myrðir hann tvo af undirmönnum sínum fyrir framan alla hina félagana, án þess að finna fyrir samviskubiti eða trega. Spurning hvort að það sé manngerðarinnar vegna eða þeirrar staðreyndar að hann er dáleiddur hermaður sem hefur vanist á að drepa.

Hermennirnir eru heilaþvegnir. Þeim er talin trú um að Raymond Shaw hafi einn síns liðs sigrast á óvinaherflokki andstæðinganna og bjargað þeim úr klóm óvinarins. Þeir eru forritaðir til að halda því fram að Raymond Shaw sé í miklu áliti meðal manna sinna, og nánast dýrkaður af þeim, á meðan andstæðan er hið sanna í málinu. Fyrir vikið fær Raymond heiðursorðu bandaríska þingsins, en hann trúir ekki að hann eigi hana skilið og heldur að móðir hans, Mrs. Iselin (Angela Lansbury) og stjúpi, öldungadeildarþingmaðurinn John Yerkes Iselin (James Gregory) hafi hagað málum þannig til að auka stjúpanum vinsældir fyrir komandi kosningar. Kenning hans reynist alls ekki svo galin.

Foringi í hópnum dáleidda, Bennett Marco (Frank Sinatra) fer að fá matraðir þar sem hann dreymir sig og hina í herflokknum á fundi með húsmæðrum í New Jersey, en jafnframt finnst honum að sömu manneskjur séu svarnir óvinir sem ætla að nota hermennina til illvirkja heima fyrir, sem leynivopn. Marco fer með málið til yfirmanna sinna sem halda í fyrstu að hann hafi einfaldlega verið undir of miklu álagi og taugar hans séu að gefa sig. Þegar hann kemst að því að hann er ekki einn um að fá þessar martraðir ákveður hann að leggja harðar að sér og komast að sannleikanum.

Á meðan eru óvinirnir að nota Raymond sem morðtæki, að honum óafvitandi, en þeir geta gefið honum skipun um að gera hvað sem er með því að sýna honum tíguldrottningu úr spilastokk. Þegar hann sér tíguldrottningu er hægt að gefa honum hvaða skipun sem er og hann framkvæmir skilyrðislaust það sem honum er sagt að gera. Ljóst er að áætluð fórnarlömb eru pólitískir óvinir einhverra leppa meðal heimamanna.

Marco fær tækifæri til að brjótast inn í harða skel Raymonds, og kemst að því að hann á sér ljúfa hlið og að það sé von um að brjóta dáleiðsluna á bak aftur án þess að skaða Raymond eða aðra í kringum hann, og afhjúpa um leið þá sem eru að nota hann, en Raymond er yfir sig hrifinn af Jocelyn Jordan, dóttur eins af pólitískum andstæðingum foreldra hans. Óvæntir atburðir og mannleg mistök verða ti að hleypa af stað keðjuverkun atburða sem ekkert fær stöðvað nema hetjudáðir þeirra sem þekkja til málsins.

Myndinni er vel leikstýrt af John Frankenheimer og standa þeir Frank Sinatra og Laurence Harvey sig afar vel í sínum hlutverkum. Einnig er Angela Lansbury mögnuð sem hin kaldrifjaða og framagjarna móðir. Myndin var endurgerð árið 2004 af Jonathan Demme, þar sem Denzel Washington, Meryl Streep og Liev Schreiber fóru með aðalhlutverkin. Sú mynd var langt frá þeirri klassík sem frumgerðin er.

Ég mæli eindregið með The Manchurian Candidate frá 1962. Betri skemmtun er erfitt að finna á DVD í dag.

 

The Manchurian Candidate var tilnefnd til tveggja Óskarsverðlauna árið 1963:

  • Besta leikkona í aukahlutverki: Angela Lansbury
  • Besta klipping og samskeyting atriða: Ferrist Webster

 

Stutt atriði úr The Manchurian Candidate:


Bloggfærslur 6. nóvember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband