Þekkir þú muninn á fordómum og þekkingu?

Halla Rut gerði athugasemd við síðustu færslu mína: Hver vill losna við eigin fordóma og fyrirfram mótaðar hugmyndir?

 

Spurning Höllu Rutar:

"Hvenær  umbreytist fyrirbærið úr fordómum yfir í þekkingu. Hver er mælistikan á því?"


Spurningin er mjög spennandi, en ég hef ekkert einfalt svar við henni. Hún sýnist mér kalla á skilgreiningu þekkingar, sem er hægara sagt en gert. Ég geri mér í mesta lagi vonir um að varpa ljósi á eina hlið hennar.

Sókrates benti á hvað þekking er vandmeðfarin og stutt í fordómana. Véfréttin í Delfí hafði sagt hann vitrastan allan manna. Eftir langar rannsóknir og viðtöl við fjölda fólks, komst Sókrates á þá skoðun að véfréttin hafði rétt fyrir sér. Ekki dæma Sókrates sem hrokafullan eða merkikerti fyrir þessa skoðun. Sókrates trúði því að hann vissi ekki neitt.

Samkvæmt hans rannsóknum, þegar fólk hefur þá trú að það hafi yfir áreiðanlegri þekkingu að ráða, einmitt þá byrji það að þykjast vita hluti sem það getur í raun ekki vitað, og er því fyrir vikið ekkert sérlega viturt. Sá sem þykist vita meira en hann veit er ekkert sérlega vitur, er það nokkuð?

Samkvæmt þessu er spurning hvort að maður geti nokkurn tíma öðlast fullkomna þekkingu á nokkrum sköpuðum hlut.


 
Við hljótum því að setja okkur mælikvarða um hvenær sú þekking sem við höfum yfir að ráða um ákveðna hluti sé ásættanleg. Sumir rannsaka hlutina af dýpt, aðrir láta sér nægja að heyra um þá og sumir hafa kannski engan áhuga á að vita um þessa hluti, en gera sér samt upp einhverjar hugmyndir.
 
Mín reynsla er sú að eftir því sem bætist við þekkingu mína, því betur geri ég mér grein fyrir hversu takmörkuð hún er. Ég geri mér stöðugt grein fyrir því að það er margfalt meira um það sem ég ekki þekki, en það sem ég þekki.
 

 
Við getum sagt að þekkingarheimur okkar sé eins og sápukúla. Sápukúlan springur hins vegar ekki þegar við bætum við þekkingu,  heldur stækkar hún stöðugt, jafnvel þegar við höldum að lengra verði ekki komist. Þegar sápukúlan okkar rekst á aðrar sápukúlur, í stað þess að springa, þá sameinast hún hinum sápukúlunum sem sameiginlega verða mun stærri. 
 
Þó að við tökum þátt í að blása þekkingu inn í sápukúluna áttum við okkur vonandi á að okkar framlag er á endanum afskaplega lítið þegar á heildina er litið, og við uppgötvum að ef við viljum þekkja forsendur allrar þeirrar þekkingar sem er í sápukúlunni, þurfum við að fræðast sérstaklega um þær.
 
Þannig að þekking okkar er í eðli sínu þannig að þegar nýjar upplýsingar bætast við, þá hafa þær áhrif á þær upplýsingar sem eru fyrir, og það þarf stöðuga vinnu við að læra um, átta sig á og skilja þessa þekkingu við nýjar aðstæður.
 
Síðan er það viðfangsefnið, til dæmis heimurinn sjálfur, kvikmyndir, eigin hugur, hið góða; nefndu það. Upplýsingarnar um sérhvert fyrirbæri virðast óendanlegar og í stað þess að hafa endanlega þekkingu á þessum hlutum, hefur maður aðeins skoðanir. Hvort þær eru vel mótaðar eða ekki fer eftir hverjum og einum, þeim heilindum sem þeir hafa og þeirri vinnu sem lögð er í að kynnast eigin þekkingu.
 
Þannig að mitt svar við spurningu Höllu Rutar er þessi: þessi mælistika er ekki til. Við hins vegar búum til okkar eigin mælistiku um hvenær okkur finnst okkar þekking orðin ásættanleg, og svo finnum við okkur eitthvað viðmið. Þeir sem trúa því að sú þekking sem er ásættanleg sé fordómalaus fara villu vegar, en þeir sem átta sig á að mælistikan er ekki fullkomin, og alltaf er hægt að uppfæra eigin þekkingu, það fólk er líklegra til að vera meðvitað um takmarkanir eigin þekkingar í daglegum samskiptum og samtölum.
 
Síðan er það spurning hvernig fólk tekur á þessari þekkingu um þekkinguna. Gefst það upp vegna þess að erfiðara er að festa sér eigin þekkingarleysi í hugarlund, og fer auðveldari leiðina: það að nóg sé að þekkja hlutina betur en aðrir, eða að nóg sé að trúa því sem þér er sagt að trúa? Ég hef á tilfinningunni að vinsæl mælistika á Íslandi í dag sé  einmitt að gera samanburð á eigin þekkingu og annarra, sem mér finnst reyndar langt frá því að vera áreiðanleg aðferð, og lítið skárri en að leyfa sér að trúa öllu því sem predikað er ofan í mann. 
 
Heimspekingar hafa stungið upp á fleiri mælistikum fyrir þekkingu, Plató til dæmis að við verðum að bera hlutina saman við raunverulega mynd hlutana. Til að vita hvort að við séum góðar manneskjur þurfum við að átta okkar á því hvað hið raunverulega góða er. Þetta flokkast undir hughyggju. Síðan eru aðrir heimspekingar sem telja betra að miða við reynsluheiminn og allt það sem við skynjum og lærum, sem flokkast undir raunhyggju; og kvíslast í fjölda hugmynda um hvernig reynsla og hugur tengjast þekkingu. 
 
Ég fer ekki dýpra í þessari bloggfærslu, en get vel hugsað mér að pæla meira í hughyggju og raunhyggju, og skrifa um þær í færslum framtíðarinnar.
 
Mjög áhugavert myndband á ensku þar sem heimspekingurinn Barbara Forrest útskýrir grundvöll þekkingar og jarðfræðingurinn James L. Powell fjallar um muninn á fólkinu sem þykist allt vita og þeim sem eru enn að leita svara: 
 
 

Bloggfærslur 17. nóvember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband