Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 16. sæti: Predator
12.11.2007 | 21:32
Af fimm fyrstu myndunum sem ég hef tekið fyrir á þessum lista hafa þrjár þeirra verið með Arnold Schwarzenegger í aðalhlutverki. Ég vissi ekki til þess að ég væri sérstakur aðdáandi ríkisstjóra Kaliforníu, en ljóst er að sumar myndir hans hafa heldur betur hitt í mark hjá mér.
Predator er einhvers konar blanda af Alien og Rambo, en tekst samt að skapa sinn eigin spennandi heim, sem kemur ímyndunaraflinu í gang, enda hafa verið gerðar tvær framhaldsmyndir og sú þriðja á leiðinni. Engin þeirra hefur þó náð hæðum Predator. Hún er dúndurspennandi og stundum óhugnanleg, en Schwarzenegger stendur sig býsna vel í hlutverki sínu. Það er ekki hverjum sem er sem tekst að vekja samúð með vöðvatrölli í sérsveit Bandaríkjahers sem drepur fólk á þeirra eigin landssvæði. Geimveran sem Arnold tekst á við er eitt vel heppnaðasta skrýmsli kvikmyndasögunnar.
Predator (1987) ***1/2
Sveit hæfustu sérsveitarmanna bandaríkjahers eru sendir inn í Suður-Amerískan frumskóg án þess að vita nákvæmlega hvert verkefni þeirra er. Leyniþjónustumaðurinn Dillon (Carl Weathers) hefur nokkuð skýrar hugmyndir um tilgang ferðarinnar. Skæruliðar hafa komið sér upp herbúðum og safnað að sér gífurlegu magni vopna. Bandaríkjamenn reikna með að þeir ætli sér stóra hluti. Þeir vita ekki nákvæmlega hvað, en bara það að áætlanir séu í gangi þýðir að það verður að stoppa þær.
Dutch (Arnold Schwarzenegger) fer fyrir sérsveitarhópnum en meðlimir hans eru meðal þeirra skrautlegri sem sést hafa í bíómynd. Fremstur þeirra fer Blain (Jesse Ventura), skrotyggjandi hörkutól sem svarar eftir að félagi hans bendir á að hann hafi orðið fyrir skoti: "I ain't got time to bleed." Annar eftirminnilegur sérsveitarmaður er leiðsögumaðurinn Billy (Sonny Landham) en hann er sá fyrsti sem áttar sig á hversu hættulegur hinn raunverulegi óvinur er.
Þegar sérsveitin mætir í regnskóginn finna þeir leyfar af fyrri sveit, sem hefur öll verið slátruð á ómanneskjulegan hátt. Þegar Schwarzenegger njósnar um búðir skæruliðanna sér hann þá taka Bandaríkjamann af lífi. Það er nóg til að sveitin stormar inn í búðirnar og slátrar þar öllum nema Önnu (Elpidia Carrillo). Leyniþjónustumaðurinn Dillon er ánægður með árangur ferðarinnar og haldið er af stað til þyrlunnar sem sækja mun hópinn.
Á leiðinni að þyrlunni verður hópurinn óþægilega var við einhverja dularfulla veru í skóginum, sem getur hulist sjáandi augum, slóð hennar er órekjanleg og vopnin öflugri en nokkuð sem sérsveitarmennirnir hafa áður kynnst. Þegar veran byrjar að drepa hermennina einn af öðrum verður Dutch ljóst að það voru ekki skæruliðarnir sem drápu fyrri sérsveitina, heldur þessi undarlega vera sem virðist vera að veiða hina hættulegu mannskepnu sér til skemmtunar. Anna segir að þessar verur komi í skóginn á tíu ára fresti og drepi bestu hermennina, að hún sé einfaldlega að safna verðlaunagripum.
Einn af öðrum týna sérsveitarmennirnir tölunni þar til Schwarzenegger stendur einn eftir gegn þessari veru, sem kemur utan út geimnum betur vopnuð en nokkur jarðarbúi. Tekst honum að ráða niðurlögum hennar og hvernig þá? Hvaða vera er þetta? Hvaðan kemur hún? Til hvers er hún að þessu?
Það er skemmtilegt hvernig sérsveitarmönnunum er komið í stöðu dýra sem sífellt verða veiðiþjófum að bráð. Yfirleitt eru veiðiþjófar vel undirbúnir og eru aldrei í hættu, og drepa dýrin sér til gamans. Hvað gerist hins vegar ef eitt af dýrunum fær nóg af þessari vitleysu og leggur gildrur fyrir veiðiþjófinn?
Predator er leikstýrð undir sterkri leiðsögn John McTiernan, en hann átti tvö mjög góð ár, 1987 og 1988, en síðara árið leikstýrði hann Die Hard með Bruce Willis. Því miður tókst honum ekki að halda dampi, gerði hina ágætu The Hunt for Red October (1990) og síðan urðu verkefnin innihaldslausari og lélegri með hverju árinu. Síðasta mynd sem hann leikstýrði var Basic, árið 2003, sem var ansi léleg.
Tilnefning til Óskarsverðlauna
Bestu tæknibrellur
Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum:
16. sæti: Predator
17. sæti: Terminator 2: Judment Day
18. sæti: Blade Runner
19. sæti: Total Recall
20. sæti: Pitch Black
Kvikmyndir | Breytt 13.11.2007 kl. 19:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)