Færsluflokkur: Bækur

Hvað er svona merkilegt við Harry Potter? (Bækur 1-7) ***1/2

Árið 2001 las ég fyrstu Harry Potter bókina áður en fyrsta kvikmyndin kom út. Mér þótti hún mjög góð og spennandi, og mun betri en kvikmyndin. Síðan hef ég lesið allar hinar bækurnar og kláraði þá síðustu í gær. Nú vil ég einfaldlega gera grein fyrir hvað mér finnst um þessar bækur. Ég vil taka það fram að ég las þær allar á ensku og hef ekki kynnt mér íslensku þýðinguna. Hægt er að segja að J.K. Rowling hafi unnið mikið þrekvirki með þessum bókum, en 765 persónur eru nafngreindar í þeim, þannig að ekki er ofsagt að hún hafi skapað með þessum skáldsögum heilan heim.

Harry Potter and the Philosopher's Stone (1997) fjallar um upphafið á sögu Harry Potter. Hinn illi galdramaður Voldemort myrti foreldra hans og ætlaði að myrða hann, vegna þess að spádómur sá fyrir að þessi drengur væri það eina sem gæti staðið í vegi fyrir því að Voldemort næði heimsyfirráðum í galdraheiminum. Þegar hann reyndi að drepa drenginn sundraðist hann sjálfur og varð að nánast engu. Það tekur Voldemort mörg ár að ná fullum kröftum á nýjan leik. Þegar vinir foreldra Harry Potters koma á staðinn og sjá að þau hafa verið myrt, þurfa þau að finna honum einhvern stað. Þau fara með hann til systur móður hans og biðja hana að gæta hans næstu árin. Hún gerir það, en Harry Potter verður stöðugt fyrir andlegu ofbeldi frá öðrum fjölskyldumeðlimum. Hann er látinn gista í kytru undir stiga og fær ekki almennilegt herbergi fyrr en hann er orðinn of stór fyrir kytruna.

Árin líða og Harry uppgötvar að hann er ekki eins og önnur börn. Til dæmis stendur hárið alltaf í allar áttir og þó að það sé klippt af vex það aftur á ofurhraða. Hann uppgötvar líka að hann getur hreyft sig á ofurhraða, sérstaklega þegar hann er á flótta undan jafnöldrum sínum. Og síðast og ekki síst uppgötvar hann að hann getur talað við slöngur.

Þegar Harry er kominn á aldur er honum boðið að fara í Hogwarts, skóla fyrir börn með galdrablóð í æðum. Hann þiggur boðið með þökkum, þrátt fyrir mótmæli fósturforeldranna. Þar kynnist hann góðum vinum, Ron Weasley og Hermoine Granger, sem eiga eftir að fylgja honum gegnum öll hans ævintýri næstu sjö árin. Einnig kynnist hann hinum illkvittna Draco Malfoy, sem virðist vera náttúrulegur óvinur Harry.

Kennarar skólans eru einnig mjög skrautlegir og of margir til að telja upp. Fremstur þeirra er Albus Dumbledore, skólastjóri og magnaður galdramaður. Helsti aðstoðarmaður hans er svo Minerva McGonagall sem getur skipt um ham eftir geðþótta. Besti vinur Harry á meðal starfsmanna er hinn hálfmennski og hálfur risi Hagrid, en galdrar hans misheppnast oftast, en hann hefur mikla þekkingu á meðhöndlun skrímsla og annarra galdravera. Harry er meinilla við Severus Snape, kennara sem virðist holdgerving hins illa, en er annað hvort hliðhollur Dumbledore eða Voldemort, nokkuð sem kemur ekki í ljós fyrr en í síðustu bókinni.

Í ljós kemur að Voldemort er aftur kominn á kreik og er á höttunum eftir heimspekisteininum (Philosopher's Stone) og Harry tekur að sér það verkefni að koma í veg fyrir að Voldemort nái aftur fullum styrk. Næstu fimm bækur fjalla um það nákvæmlega sama, nema að Voldemort og Harry eru á höttunum eftir ólíkum hlutum, og skemmtilegum persónum fjölgar stöðugt, þar til að stríðið á milli Dauðahers Voldemorts og Fönix-reglan (Order of the Phoenix - leynisamtök hinna góðu) takast á í síðustu bókinni, þá hríðfækkar þeim enda að minnsta kosti fimmtíu manns drepnir á síðustu hundrað blaðsíðum sögunnar, og af þeim nokkrir sem komið hafa mikið við sögu. Ég ætla ekki að gefa upp hvað verður um Harry Potter og félaga hans, en endirinn er nokkuð óvæntur sama hvað maður hefur reiknað með.

Ekki má gleyma Qudditch, sem er knattleikur spilaður á fljúgandi kústsköftum. Mér finnst alltof mikið gert úr þessum leik í bókunum, þó að hugmyndin sé vissulega sniðug.

Í Harry Potter and the Chamber of Secrets (1998) berst Harry og félagar við gríðarlega stóran snák sem sloppið hefur úr leyniherbergi með hjálp Ginny Weasley, en hún er andsetin af minningum Voldemorts sem geymdar voru í dagbók Tom Riddle, sem hún fann og las, en Voldemort hét Tom Riddle áður en hann tók sér illmennisnafnið.

Í Harry Potter and the Prisoner of Azkaban (1999) stækkar heimur Harry Potter enn meira þegar í ljós kemur að guðfaðir hans, Sirius Black, hefur sloppið úr fangageymslum Azkaban, en Sirius þessi hefur löngum verið talinn svikarinn sem sveik foreldra Harry í hendur Voldemort, og nú er óttast um að hann ætli að myrða Harry sjálfan. Besti vinur Black er varúlfurinn Remus Lupin, og ljóst að þeir hafa mikinn áhuga á Harry Potter. Til að vernda Potter og félaga eru Dementors (Afhugarar) fengnir til að umkringja skólann og gæta þess að enginn skaði nemendurnar, en þessi afhugarar sjúga sálir úr líkömum þeirra sem þeir ná. Ætlun Voldemorts er að þessir Afhugarar nái Potter, en Sirius Black hefur komist að þessu tilræði og vill gera allt sem hann getur til að bjarga Harry Potter. Það er skemmtilega unnið með tímaflakk í þessari sögu.

Í Harry Potter and the Goblet of Fire (2000) er haldið alþjóðlegt mót í Hogwarts þar sem Harry Potter er meðal þátttakenda þrátt fyrir að vera of ungur til að keppa. Keppa skal í þremur greinum. Í ljós kemur að Voldemort hefur komið að skipulagi keppninnar, sem er gildra til að drepa Harry Potter.

Í Harry Potter and the Order of the Phoenix (2003) kemst Harry að því að leynisamfélagið Fönix-reglan hefur verið stofnuð til að veita Voldemort mótspyrnu, þar sem að völd hans og áhrif vaxa stöðugt. Í ljós kemur að Voldemort og Harry hafa órjúfanlega tengingu, þannig að Voldemort getur lesið hug Harry og öfugt. Með þessari tengingu leiðir Voldemort Harry í enn eina gildruna, sem verður góðum manni að bana.

Í Harry Potter and the Half-Blood Prince (2005) finnur Harry bók með upplýsingum sem hjálpa honum að blanda töfraseiði á óaðfinnanlegan hátt. Hann þarf að komast að því hver þessi Half-Blood Prince er. Dumbledore hefur á sama tíma áttað sig á hvernig mögulega er hægt að sigrast á Voldemort, en til þess þarf að finna sjö hluti. Voldemort hefur öðlast ódauðleika með því að skipta sál sinni í sjö hluta, og eina leiðin til að drepa hann, er með því að útrýma fyrst þessum sjö hlutum, sem kallaðir eru horkrossar (horcrux). Voldemort hefur lagt gildrur fyrir þá sem nálgast þessa hluti, en þeir Harry og Dumbledore fara saman í leit að þeim. Ein af þessum leitum endar með ósköpum, þegar einn af þeim einstaklingum sem er Harry kærastur er myrtur af einum kennara skólans, og ljóst að Dauðaher Voldemorts hefur opinberað sig.

Í Harry Potter and the Deathly Hallows (2007) er reynt að fela Harry fyrir Voldemort, en þegar Harry nær 17 ára aldri hverfa verndargaldrar af heimili hans, og hann verður auðveldara skotmark fyrir Voldemort og dauðaherinn. Harry Potter leggur á flótta ásamt Ron og Hermoine, og snýr vörn í sókn þar sem hann leitar að horkrossum Voldemorts og eyðileggur þá einn af öðrum, þar til í ljós kemur að aðeins tveir horkrossar standa í vegi fyrir Voldemort, snákur sem fylgir honum alltaf og örið sem er fast á enni Harry Potter. Dauðaherinn nær völdum í galdraheimum og ofsækja alla þá sem eru ekki með hreint galdrablóð í æðum, og kúga alla til samvinnu sem sýna hana ekki að fyrra bragði. Harry Potter verður að tákni frelsisbaráttu og sameiningarafl fyrir hið góða, sem leiðir til mikils bardaga undir lok sögunnar, sem lýkur með dramatískum hætti, þar sem Severus Snape leikur lykilhlutverk.

Það má segja að þessar bækur séu vel lestursins virði. Þær eru ekki hugsaðar sem barnabækur, heldur fantasíur sem hafa börn í margbrotnu þroskaferli, í aðalhlutverkum. Ég mæli sérstaklega með bókum 1 og 7, en finnst hinar hafa of mikið af uppfyllingarefni, þó að margar skemmtilegar persónur og aðstæður séu skapaðar í þeim.

Ég held að það væri vel þess virði að kvikmynda aftur þessar sögur í heild sinni, og gera þá þrjár kvikmyndir: Þá mætti byrja á forsögunni, og sýna hvernig Tom Riddle breytist í Voldemort og drepur Lily og James Potter til þess að öðlast enn meiri krafta. Í lok þeirrar sögu mætti sýna hvernig Harry Potter er komið fyrir hjá fjölskyldu sinni, hvernig hann uppgötvar að hann er öðruvísi en annað fólk og fyrstu ferðinni til Hogwarts, ásamt fyrsta ævintýrinu. Kvikmynd tvö mætti svo fjalla um allt sem gerist í bókum 2-6. Þriðja og síðasta kvikmyndin mætti svo taka á síðustu skáldsögunni, sem er afar gott efni í spennandi kvikmynd. Reyndar er ætlunin að skipta The Deathly Hallows upp í tvær kvikmyndir sem báðar verða frumsýndar á árinu 2010.

Stjörnugjöf fyrir bækurnar (af fjórum mögulegum):

Harry Potter and the Philosopher's Stone ****

Harry Potter and the Chamber of Secrets **1/2

Harry Potter and the Prisoner of Azkaban ***

Harry Potter and the Goblet of Fire ***

Harry Potter and the Order of the Phoenix **1/2

Harry Potter and the Half-Blood Prince ***

Harry Potter and the Deathly Hallows ****


Fimm rithöfundar í uppáhaldi hjá mér, II. hluti

Ég ákvað að skrifa stuttan úrdrátt um þá rithöfunda og ritverk sem eru í mestu uppáhaldi hjá mér. Ég er ekki jafnmikill lestrarhestur og ég er kvikmyndagúrka, en ákvað að henda frá mér nokkrum línum um þessa áhrifavalda í mínu lífi.

William Shakespeare (1564-1616, enskur)

shakespeare

Það getur verið gaman að lesa leikrit Shakespeare, sérstaklega myndríkar lýsingar sem þar má finna, en mér finnst þó þægilegra að kynnast honum í gegnum kvikmyndir sem gerðar hafa verið eftir verkum hans, sem eru fjölmörg, heldur en með hráum lestri. Einnig mæli ég með sjónvarpsútgáfum BBC á verkum Shakespeare.  Hér eru nokkrar af mínum uppáhalds sögum Shakespeare.

four

Gerð var ágæt kvikmynd (ekki frábær) um ástina í lífi Shakespeare árið 1998, Shakespeare in Love.

Hamlet

Af verkum Shakespeares hefur Hamlet hrifið mig mest. Það er eitthvað sem mér finnst spennandi við tilvistarkreppu danska prinsins, sem er svo tvístígandi í því hvort að hann eigi að hefna morðsins á föður sínum, eða láta sig einfaldlega hafa það og kyngja veruleikanum eins og hann er. Þessi vafi sem umlykur Hamlet er það sem gerir hann að frábærri ljóslifandi persónu, og ég get svo sannarlega skilið hversu erfitt það getur verið að taka mikilvægar ákvarðanir, sérstaklega þegar þú veist að það mun hafa áhrif á alla þína nánustu og þína eigin farsæld.

Til eru þeir sem segja að best sé að taka ákvarðanir og standa við þær sama hvað á dynur. Aðrir telja að mikilvægt sé að geta skapað sér ákveðna fjarlægð við slíkar ákvarðanir og fresta þeim. Ég hef fylgt báðum stefnunum, en í sannleika sagt get ég ekki enn í dag greint á milli hvort skynsamlegra sé sem almenn regla í lífi einstaklings.

hamlet8

Ég mæli með kvikmyndaútgáfu Sir Lawrence Olivier á Hamlet frá árinu 1948.

Rómeó og Júlía

Hver þekkir ekki söguna um Rómeó og Júlíu? Júlía var aðeins 13 ára gömul og Rómeó sem var litlu eldri kvæntist henni. Þessi ástarsaga sýnir ástina sem æðsta gildi alls. Fyrir Rómeó og Júlíu var ástin mikilvægari en lífið sjálft. 

Einhverju sinni las ég spurningu í prófi þar sem spurt var hvert þemað væri í Rómeó og Júlíu. Ég tel það einmitt vera mikilvægi ástarinnar, að ekkert getur sigrað sanna ást, ekki einu sinni dauðinn. Þessi valmöguleiki var ekki á þessu prófi. Því fór ég og spurði kennarann hvert þemað væri. Hann sagði að Rómeó og Júlía fjölluðu um heimskuleg afglöp tveggja unglinga og hversu illa fór fyrir þeim vegna þess að þau hlustuðu ekki á foreldra sína.

Ég gapti og reyndi að þræta fyrir, og vorkenndi nemendum hans ógurlega. En hann sagðist kenna söguna svona og þannig ættu nemendur að skilja söguna, eftir hans höfði. Þegar ég gekk í burtu óskaði ég þess að hann þyrfti ekki að upplifa sjálfur þann harmleik sem hann áttaði sig greinilega engan veginn á að hann var að bjóða heim til sín.

20051201212937_romeo+juliet(take2)

Uppáhalds kvikmyndaútgáfa mín af Rómeó og Júlíu var gerð árið 1996, leikstýrð af Baz Luhrmann, og með Leonardo DiCaprio í hlutverki Rómeós og Claire Danes í hlutverki Júlíu. 

Macbeth 

Sagan fjallar um pólitísk svik og pretti, launmorð og nornir. Macbeth er skoskur heiðursmaður sem myrðir konung og kemur sér sjálfum fyrir í hásætinu. Á meðan reynir sonur þess sem hann myrti að sanna á hann morðið. 

ShakespeareInTranslation6

Ég fattaði ekki Macbeth fyrr en ég sá útgáfu Akira Kurosawa á þessu leikriti með kvikmyndinni Throne of Blood (1957).

 

Othello

Othello fjallar um Mára í Feneyjum, sem er yfir sig ástfanginn af eiginkonu sinni; en þrjótnum Iago tekst að læða inn í huga hans efasemdum um tryggð eiginkonu hans, þannig að Othello verður sálsjúkur fyrir vikið.

Til er mjög góð kvikmynd um Othello frá 1995 með Laurence Fishburne í titilhlutverkinu.  

Einnig má minnast á kvikmyndirnar Henry V (1989) eftir Kenneth Brannagh og Richard III 1995 með Ian McKellen í aðalhlutverki, en þær eru báðar fyrirtaks kvikmyndir gerðar eftir samnefndum verkum Shakespeare.

 


Fimm rithöfundar í uppáhaldi hjá mér - I. þáttur

Ég ákvað að skrifa stuttan úrdrátt um þá rithöfunda og ritverk sem eru í mestu uppáhaldi hjá mér. Ég er ekki jafnmikill lestrarhestur og ég er kvikmyndagúrka, en ákvað að henda frá mér nokkrum línum um þessa áhrifavalda í mínu lífi.

Hómer (8. eða 7. öld fyrir Krist, grískur)

Hómer, hvort sem hann var einstaklingur eða hópur manna sem safnaði saman munnmælasögum á ljóðaformi, þá eru fáar bókmenntir sem jafnast á við skemmtanagildið sem hægt er að fá út úr Hómerskviðunum, Ilionskviðu og Odysseifskviðu.

photo_17_hires

Ilionskviða fjallar um stríðið á milli Grikkja og Trójubúa sem í sögubókum er kallað Trójustríðið. Reyndar var efast um tilvist Tróju allt fram á 20. öldina, en þá fundust einmitt leifar þessarar fornu borgar. Aðalhetjurnar eru öflugir hermenn í báðum herjum. Annars vegar eru það þeir Akkíles og Agamemnon í liði Grikkjanna, og hins vegar er  Hector mesta hetja Trójumanna, en bróðir hans, París, hefur rænt drottningunni Helenu fögru frá eiginmanni hennar, spartneska konunginum Menelási, sem er bróðir Agamemnons. Reyndar er hægt að deila um það hvort að Helenu hafi verið rænt eða hún farið viljug með París.

Til að endurheimta Helenu fögru, leggur grískur her í mikla siglingu til Tróju undir forystu Agamemnons. Meðal Grikkjanna eru hálfguðinn Akkíles og Odysseifur, sem sagt er meira frá í Odysseifskviðu. Bardaginn við Tróju inniheldur margar mikilfenglegar lýsingar af manndrápum, sem lýst er á ljóðrænan hátt, rétt eins og tókst að gera með kvikmyndinni 300 sem sýnd er enn í kvikmyndahúsum.

photo_47_hires

Á sama tíma og manneskjurnar herja á jörðu niðri er sagt frá guðunum sem fylgjast spenntir með og hafa gaman af ofbeldinu á jörðu niðri. Sumir guðanna halda með Grikkjum, en aðrir með Trójumönnum, og hjálpa þeir stundum þeim sem eru í uppáhaldi. Frá sjónarhorni hermannanna er stríðið mikill harmleikur, en aðeins gamanleikur frá sjónarhorni guðanna.

Sagt er frá herkænsku Odysseifs þegar hann finnur upp Trójuhestinn, sem notaður er til að smygla nokkrum hermönnum inn fyrir borgarvirki Tróju.

Þema sögunnar er reiði. Allir virðast vera reiðir og pirraðir út í einhvern annan. Agamemnon er brjálaður út í Trójumenn fyrir að vanvirða bróður hans og Spartverja fyrir ránið á Helenu fögru. Þessi reiði hans bitnar á þeim sem síst skyldi, því að í heift sinni tekur hann konu Akkílesar og sefur hjá henni. Við það verður Akkíles að sjálfsögðu brjálaður út í Agamemnon, og er nánast vonlaust að fá hann til að taka þátt í bardaganum, fyrr en góður vinur hans er drepinn af óvininum. Þá fyrst beinir hann heift sinni að Trójumönnum. Þeir Hektor og Akkíles er lýst sem ofurmönnum, þeir drepa yfirleitt marga í einu og fara létt með auma andstæðinga sína. Það er ekki fyrr en þeir mætast að óvíst verður um hvort stendur uppi.

Nokkrar tilvitnanir úr þýðingu Sveinbjörns Egilssonar á Ilionskviðu:

Bókin byrjar á þessari málsgrein: “Kveð þú, gyðja, um hina fársfullu heiftarreiði Akkils Peleifssonar, þá er olli Akkeum ótölulegra mannrauna, og sendi til Hadesarheims margar hraustar kappasálir, en lét sjálfa þá verða hundum og alls konar hræfuglum að herfangi, eftir það að þeir höfðu eitt sinn deilt og skilið ósáttir, herkonungurinn Atreifsson og hinn ágæti Akkilles. Svo varð fyrirætlan Seifs framgeng.”

Eða með öðrum orðum: “Þessi saga fjallar um reiði Akkílesar, sem drap og kvaldi marga hermenn á vígvelli, og það eftir ósætti Agamemnons og Akkílesar. Þetta er örlagasaga þeirra.”

Málsgrein úr bardaganum: “Turnarnir og vígin voru hvervetna drifin mannablóði, hvorratveggju, Trójumanna og Akkea, þó gátu Trójumenn ekki snúið Akkeum á flótta. Þeir voru hvorirtveggju, sem ráðvönd spunakona, er heldur á metinu og ullinni, og jafnar svo niður, að jafnþungt verður á hvorri skálinni, svo hún fái lítilfjörleg vinnulaun handa börnum sínum: svo hélzt bardaginn og orustan jöfn milli þeirra, áður en Seifur veitti Hektori Príamssyni vegsmuninn, þá hann hljóp fyrstu upp á garð Akkea. Hann kallaði hátt til Trójumanna, svo þeir heyrðu allir: “Rísið upp, þér hestfimu Trójumenn, brjótið garð Argverja, og skjótið loganda eldi í skip þeirra!”

Hér er eftirminnilegt bardagaatriði, þar sem Akkílesi er lýst: “Hinn seifborni kappi lét þar eftir spjót sitt, og lagði það í einn porsviðarrunn, stökk síðan, líkur óvætti, út í fljótið, með eintómt sverðið, og hafði ill verk í hyggju. Hann hjó á báða bóga; risu þá upp hræðileg andvörp, er mennirnir voru slegnir með sverðinu, en vatnið varð rautt af blóðinu. Svo sem aðrir fiskar flýja hræddir undan ákafastórum vagnhval, og fylla upp allar víkur í vogskornum fjarðarbotni, því vagnan étur drjúgum hvern fisk, er hún nær: svo flýðu Trjójumenn undir vatnsbakkana í straumum hins óttalega fljóts. En er Akkilles var þreyttur orðinn í handleggjunum að drepa, veiddi hann upp úr fljótinu tólf unga sveina, í vígsbætur fyrir Patróklus Menöytsson, og dró þá á land; voru þeir þá rænulausir af hræðslu, sem hindarkálfar. Hann batt hendur þeirra á bak aftur með vel sniðnum ólum, er þeir sjálfir höfðu á sér við hina riðnu brynstakka sína, fékk þá svo félögum sínum, að flytja þá til enna holu skipa, en hljóp sjálfur fram að fljótinu aftur, því hann langaði enn til að höggva niður mennina.”

Ilíonskviða er stórskemmtilegt bókmenntaverk. Reynt var að kvikmynda hana með kvikmyndinni Troy (2004) þar sem Brad Pitt lék Akkíles en Eric Bana lék Hector. Því miður var myndin ekki jafngóð og bókin. Aftur á móti var kvikmyndin 300 gerð árið 2006, og náði hún mjög vel andrúmsloftinu sem hægt er að finna með lestri á Ilíonskviðu.

Odysseifskviða fjallar aftur á móti um heimför Ódysseifs eftir Trjóustríðið. Þetta ferðalag tók hann um tuttugu ár! Heima býður hans eiginkonan Penelópa, trú honum fram á síðustu stundu, og sonur hans Telemakkus. En fjöldi manna biðla stöðugt til Penelópu, þar sem þeir halda að Ódysseifur hafi farist á heimleiðinni, en þeir girnast bæði hana og ríkidæmið, en Ódysseifur var konungur yfir Íþöku.

Ulysses-sirens-Draper-L

Á heimleiðinni lendir Ódysseifur í miklum þolraunum, og við þær þroskast hann úr villtum stríðsmanni í mann sem lesandinn þekkir af dýpt sem tilfinningaveru. Á leiðinni heim berst Ódysseifur við eineygða risa, sírenur sem tældu menn til dauða, Skyllu - skrýmsli með sex höfuð, hann þurfti að takast á við mögulega uppreisn á skipi sínu, fara til heljar, og margt fleira, - áður en hann lendir í lokauppgjörinu þar sem hann þarf að berjast við hlið sonar síns gegn öllum ofstopafullu biðlunum sem girnast eiginkonu hans.

ulysses

Odysseifskviða er æsispennandi skáldsaga, og mun léttari aflestrar en Ilíonskviða. Ævintýri Ódysseifs eru spennandi og grípa ímyndunaraflið heljartökum, og sleppa ekki lesandanum fyrr en eftir blóðugan lokabardaga.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband