Fimm rithöfundar í uppáhaldi hjá mér, II. hluti

Ég ákvað að skrifa stuttan úrdrátt um þá rithöfunda og ritverk sem eru í mestu uppáhaldi hjá mér. Ég er ekki jafnmikill lestrarhestur og ég er kvikmyndagúrka, en ákvað að henda frá mér nokkrum línum um þessa áhrifavalda í mínu lífi.

William Shakespeare (1564-1616, enskur)

shakespeare

Það getur verið gaman að lesa leikrit Shakespeare, sérstaklega myndríkar lýsingar sem þar má finna, en mér finnst þó þægilegra að kynnast honum í gegnum kvikmyndir sem gerðar hafa verið eftir verkum hans, sem eru fjölmörg, heldur en með hráum lestri. Einnig mæli ég með sjónvarpsútgáfum BBC á verkum Shakespeare.  Hér eru nokkrar af mínum uppáhalds sögum Shakespeare.

four

Gerð var ágæt kvikmynd (ekki frábær) um ástina í lífi Shakespeare árið 1998, Shakespeare in Love.

Hamlet

Af verkum Shakespeares hefur Hamlet hrifið mig mest. Það er eitthvað sem mér finnst spennandi við tilvistarkreppu danska prinsins, sem er svo tvístígandi í því hvort að hann eigi að hefna morðsins á föður sínum, eða láta sig einfaldlega hafa það og kyngja veruleikanum eins og hann er. Þessi vafi sem umlykur Hamlet er það sem gerir hann að frábærri ljóslifandi persónu, og ég get svo sannarlega skilið hversu erfitt það getur verið að taka mikilvægar ákvarðanir, sérstaklega þegar þú veist að það mun hafa áhrif á alla þína nánustu og þína eigin farsæld.

Til eru þeir sem segja að best sé að taka ákvarðanir og standa við þær sama hvað á dynur. Aðrir telja að mikilvægt sé að geta skapað sér ákveðna fjarlægð við slíkar ákvarðanir og fresta þeim. Ég hef fylgt báðum stefnunum, en í sannleika sagt get ég ekki enn í dag greint á milli hvort skynsamlegra sé sem almenn regla í lífi einstaklings.

hamlet8

Ég mæli með kvikmyndaútgáfu Sir Lawrence Olivier á Hamlet frá árinu 1948.

Rómeó og Júlía

Hver þekkir ekki söguna um Rómeó og Júlíu? Júlía var aðeins 13 ára gömul og Rómeó sem var litlu eldri kvæntist henni. Þessi ástarsaga sýnir ástina sem æðsta gildi alls. Fyrir Rómeó og Júlíu var ástin mikilvægari en lífið sjálft. 

Einhverju sinni las ég spurningu í prófi þar sem spurt var hvert þemað væri í Rómeó og Júlíu. Ég tel það einmitt vera mikilvægi ástarinnar, að ekkert getur sigrað sanna ást, ekki einu sinni dauðinn. Þessi valmöguleiki var ekki á þessu prófi. Því fór ég og spurði kennarann hvert þemað væri. Hann sagði að Rómeó og Júlía fjölluðu um heimskuleg afglöp tveggja unglinga og hversu illa fór fyrir þeim vegna þess að þau hlustuðu ekki á foreldra sína.

Ég gapti og reyndi að þræta fyrir, og vorkenndi nemendum hans ógurlega. En hann sagðist kenna söguna svona og þannig ættu nemendur að skilja söguna, eftir hans höfði. Þegar ég gekk í burtu óskaði ég þess að hann þyrfti ekki að upplifa sjálfur þann harmleik sem hann áttaði sig greinilega engan veginn á að hann var að bjóða heim til sín.

20051201212937_romeo+juliet(take2)

Uppáhalds kvikmyndaútgáfa mín af Rómeó og Júlíu var gerð árið 1996, leikstýrð af Baz Luhrmann, og með Leonardo DiCaprio í hlutverki Rómeós og Claire Danes í hlutverki Júlíu. 

Macbeth 

Sagan fjallar um pólitísk svik og pretti, launmorð og nornir. Macbeth er skoskur heiðursmaður sem myrðir konung og kemur sér sjálfum fyrir í hásætinu. Á meðan reynir sonur þess sem hann myrti að sanna á hann morðið. 

ShakespeareInTranslation6

Ég fattaði ekki Macbeth fyrr en ég sá útgáfu Akira Kurosawa á þessu leikriti með kvikmyndinni Throne of Blood (1957).

 

Othello

Othello fjallar um Mára í Feneyjum, sem er yfir sig ástfanginn af eiginkonu sinni; en þrjótnum Iago tekst að læða inn í huga hans efasemdum um tryggð eiginkonu hans, þannig að Othello verður sálsjúkur fyrir vikið.

Til er mjög góð kvikmynd um Othello frá 1995 með Laurence Fishburne í titilhlutverkinu.  

Einnig má minnast á kvikmyndirnar Henry V (1989) eftir Kenneth Brannagh og Richard III 1995 með Ian McKellen í aðalhlutverki, en þær eru báðar fyrirtaks kvikmyndir gerðar eftir samnefndum verkum Shakespeare.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Orðaleikir Shakespeares og það hvernig hann býr til myndir er hrein snilld. „There is a tide in the affairs of men which taken at the flood leads on to fortune ...“ o.sv. frv. Þetta er ein af mínum uppáhaldsræðum og er úr Júlíusi Sesari. Önnur er hin yndislega kvenlýsing í Anthony og Cleopatra sem byrjar svona: „Age can not whither her nor custom stale ...“ Þú verður að lesa þessar ræður. Ég er viss um að þú munt kunna að meta þær. Það hljóp hreinlega sæluhrollur niður eftir bakinu á mér þegar ég las þær í fyrsta sinn.

Steingerður Steinarsdóttir, 27.4.2007 kl. 12:21

2 identicon

Kurosawa útgáfan af Lér Konungi (RAN) kom mér á óvart! Svo eru margar sögurnar svo bráðfyndnar eins og Taming of the Shrew (bnedi á Elizabeth Taylor og Richard Burton sem eru í einni kvikmyndaútgáfunni frá ´67), Midsummer Night´s Dream og Twelfth Night og As You Like It.

Algjör snilld en Skoski kóngurinn skipar fyrsta sætið hjá mér enda ekki leiðinlegt að fá að leika eins og eina norn en í uppsetningu leikstjórinn setti nornirnar í algjöran fókus þar sem þær voru hugarástand Macbeth og sáðu fræjunum svo vandlega í hann sem gerðu atburðarrásina ennþá meira spennandi!

Gaman að þessu! 

Anna Brynja (IP-tala skráð) 27.4.2007 kl. 23:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband