Færsluflokkur: Bloggar

Eldgos, óvissa og innri ró

480249948_10163447975206410_7330994597418433375_n.jpg?_nc_cat=104&ccb=1-7&_nc_sid=127cfc&_nc_ohc=FlJV7mkwpUoQ7kNvgEEZKvU&_nc_zt=23&_nc_ht=scontent.frkv2-1

Jarðskjálftarnir halda áfram að hrista Reykjanesskagann og spurningin er ekki hvort, heldur hvenær næsta eldgos hefst. Vísindamenn vara við því að eldgos geti hafist með litlum sem engum fyrirvara. Ástandið við Sundhnúkagíga er óstöðugt og sérfræðingar segja að mögulegt sé að hraun muni renna í átt að Grindavík.

Fyrir okkur sem misstum heimili okkar er þetta meira en bara frétt – þetta er sagan okkar, aftur og aftur. Við slíkar fréttir rifjast upp minningar frá nóvember 2023 þegar bærinn var rýmdur á örfáum klukkustundum, og bílaröð fór eins og ljósberar um Suðurstrandarveg þar sem Grindavíkurvegur hafði farið í sundur.

Þann 10. nóvember 2023 neyddumst við til að yfirgefa heimili okkar í Grindavík ásamt tveimur barnabörnum á leikskólaaldri án þess að vita hvort við myndum nokkurn tímann snúa aftur. Konan mín hafði gleymt veskinu sínu, en það skipti í raun engu máli á því augnabliki – húsið lék á reiðiskjálfi og allt sem við gátum gert var að fara, með skilninginn á því að ekkert væri undir okkar stjórn nema viðbrögð okkar sjálfra.

Nokkrum dögum síðar fengum við nokkrar mínútur til að fara aftur inn í húsið. Við þurftum að sækja nauðsynlegustu hlutina í flýti. Þó að tíminn væri takmarkaður fengum við aðstoð björgunarsveitar. Þau veittu okkur dýrmæt augnablik til að velja það sem skipti okkur mestu máli. Það fór kvöldstund í að skrifa miða um þá hluti sem þurfti að sækja, og þegar við komum loks inn, þá hurfu mínúturnar fimm í þoku.

Við höfum þurft að horfast í augu við þá staðreynd að við getum ekki lengur búið þar sem við höfðum fjárfest í framtíð okkar. Þetta hefur verið erfitt, en það er hér sem stóísk hugsun verður að nauðsynlegri stoð. Það sem gerist er ekki undir okkar stjórn, en hvernig við bregðumst við er það sem skilgreinir okkur.

Þessi reynsla minnir okkur á að beina athyglinni að því eina sem við raunverulega stjórnum: okkar eigin huga og viðbrögðum, því hvernig við tökumst á við aðstæðurnar, hvernig við höldum ró okkar í óvissum aðstæðum, og hvernig við beinum orkunni að því sem við getum breytt frekar en að syrgja það sem er glatað.

Lífið mun ávallt vera ófyrirsjáanlegt, en eins og Markús Árelíus sagði: „Þú hefur vald yfir huga þínum og ekki ytri atburðum. Skildu þetta, og þú munt finna styrk.“

Undanfarin ár hef ég skrifað eina spurningu hvern einasta dag á Facebook, sem endurspeglar nákvæmlega þessa speki. Í kjölfar hverrar spurningar skrifa ég svar sem ég stöku sinnum birti umheiminum.

Hvernig getum við lært að lifa með óvissunni frekar en að óttast hana?


mbl.is „Fyrirvarinn verður mjög stuttur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju gefum við röngum einstaklingum völd – aftur og aftur?

Hvers vegna gefum við einstaklingum völd sem síðan brjóta niður samfélagið sem þeir hafa lofað að verja? Sagan sýnir okkur að einræðisherrar og valdagráðugir leiðtogar komast ekki til valda með hnefunum heldur með kosningum, loforðum og stuðningi fjöldans.

Fyrir rúmum 2000 árum varaði Platón við því að lýðræði gæti í ákveðnum aðstæðum leitt til harðstjórnar. Í dag stöndum við frammi fyrir sömu spurningum. Af hverju er þetta mynstur alltaf að endurtaka sig? Í Ríkinu benti hann á að frjáls samfélög sem vanrækja menntun og gagnrýna hugsun séu sérstaklega viðkvæm fyrir leiðtogum sem segjast tala fyrir fólkið en stefna á eigin valdastöðu. 

Þessir leiðtogar nýta sér óánægju og ótta til að sanka að sér völdum, en þegar þeir hafa náð þeim breyta þeir lýðræðinu í einræði. Ef við lítum yfir söguna frá dögum Platóns til dagsins í dag sjáum við að þetta mynstur hefur endurtekið sig aftur og aftur, og er reyndar að raungerast í dag, enn einu sinni.

Þetta gerist aftur og aftur, ekki aðeins vegna þess að einstaklingarnir eru útsmognir og valdgráðugir, heldur líka vegna þess að lýðræðið getur sjálft verið viðkvæmt fyrir misnotkun ef það er ekki varið með sterkum stofnunum og samfélagsvitund.

Þessi hegðun er alls ekki ný af nálinni, heldur hefur hún viðgengist frá örófi alda, og er í raun ástæða þess að lýðræðishugmyndin varð til og henni beitt, til þess að kveða niður þessa „sterku’ einstaklinga sem vilja allt eftir þeirra eigin höfði. Og það sem hefur gerst þegar þessir einstaklingar komast til valda, að þeir valda oft gríðarlegum skaða áður en þeir enda á spjöldum sögunnar sem dæmi sem ber að forðast.

Málið er að illmenni eiga mun auðveldara með að komast til valda heldur en góðmenni, einfaldlega vegna þess að þessi illmenni eiga svo auðvelt með að höfða til einfaldra tilfinninga og vekja hatur og reiði meðal fólks, út af einhverju, nánast sama hverju, á meðan góðmenni myndu reyna að efla skilning fólks á því sama.

Friedrich Nietzsche hélt því fram að viljinn til valda væri grunnþáttur í mannlegu eðli. Hann taldi að sumir gætu beint þessum vilja í skapandi áttir, til vísinda, lista eða fræða, en aðrir myndu nota hann til að kúga aðra. Af þessu leiðir að vald verður aldrei sjálfkrafa jákvætt eða neikvætt, heldur ræðst það af því hvernig samfélagið setur því skorður. Þetta þýðir að við ættum ekki að vera hissa þegar valdagráðugir einstaklingar komast til valda – spurningin er frekar hvernig við getum stjórnað þessum vilja svo hann verði samfélaginu til góðs fremur en ills.

Það er eins og fjöldinn hafi meiri áhuga á átökum en friði, á því illa heldur en því góða, á hörðum dómum frekar en visku. En ég held að það sé tímabundið ástand, einhvers konar múgsefjun, brjálæði eða sturlun. Þegar allt er í óefni komið, þá áttar fólk sig á endanum á eigin mistökum og gjörðum, áttar sig á eyðileggingunni sem hefur átt sér stað og vill hana ekki lengur, snýst gegn hatrinu og byrjar af einlægni að berjast fyrir betri heimi.

Sigmund Freud hélt því fram að í stórum hópum missa einstaklingar hluta af sjálfstæðri dómgreind sinni og verða móttækilegri fyrir sterkum tilfinningalegum skilaboðum. Þetta getur útskýrt af hverju harðstjórar ná oft völdum þegar samfélög eru í óvissu eða ótta, ekki vegna þess að fólk sé illt, heldur vegna þess að múgsefjun getur dregið úr skynsemi einstaklinganna. Í stað þess að vega og meta, fylgja þeir þeim sem virðast sterkir og öruggir, jafnvel þótt það leiði þá á verri stað.

Og þá verður það einstaklingurinn sem kemst til valda og hefur dreift hatri og illsku allt í kringum sig sem verður að þeim sem fær að þjást, sú manneskja fær að kenna fyrir því, því varla getur allt samfélagið upprætt sjálft sig öðruvísi.

Nú eru áratugir liðnir frá síðustu heimsstyrjöld, en mannkynið virðist ófært um að læra af fortíðinni. Sömu hneigðir til valdagræðgi og múgsefjunar sjást enn, og merki um ógnir við lýðræði og mannréttindi eru eins áberandi í samtímanum og fyrir öld síðan.

Kostnaðurinn við að gefa röngum einstaklingum völd er mældur í þjáningum og hörmungum. Í hvert sinn sem eftirlifendur lofa að koma í veg fyrir harmleiki fortíðar, virðist mannkynið samt bregðast því loforði. Sagan er dæmd til að endurtaka sig, ekki bara í fjarlægri framtíð, heldur strax á meðan við lifum, því friður er aldrei sjálfgefinn. Því það er skrímsli ekkert endilega undir rúminu, heldur ofan á því, þar sem við erum ekki að leita.

Ég trúi því að þrátt fyrir þessa hringrás harmleikja sé enn von. Þó svo að mannkynið virðist endurtaka mistök sín, þá býr í okkur einnig þörf og viska fyrir réttlæti og leit að sannleikanum.

Spurningin sem við þurfum að spyrja okkur er ekki aðeins af hverju við gefum þessum einstaklingum völd, heldur hvernig við getum hindrað þá í að misnota þau. Við verðum að gera meira en að horfa á söguna sem óhjákvæmilega endurtekningu. Við þurfum að læra af henni og spyrja okkur: Hvernig stöndum við gegn múgsefjun? Hvernig kennum við næstu kynslóð að greina lýðskrum frá raunverulegri forystu? Það er aðeins með menntun, sterkum stofnunum og borgaralegri þátttöku sem við getum brotið þetta mynstur og tryggt að sagan endurtaki sig ekki aftur.

Það krefst menntunar, virkrar þátttöku og skýrra siðferðisviðmiða. Það krefst þess að við séum meðvituð um hvernig stjórnmál, fjölmiðlar og samfélagslegar aðstæður búa til skilyrði fyrir valdníðslu. Við verðum að spyrja okkur: Hvernig er hægt að koma í veg fyrir að múgsefjun og tilfinningasemi leiði til þess að við veitum röngum einstaklingum of mikil völd?

Lærdómurinn frá fyrri kynslóðum er að enginn verður einráður án samþykkis fjöldans. Hver þjóð hefur val, þótt valið virðist stundum þvingað. En með sameiginlegri ábyrgð og skýrri hugsun getum við mótað samfélög þar sem réttlæti og viska, frekar en ótti og heift, verða ráðandi öfl.

Það er ekki auðvelt, en það er mögulegt. Og í því felst sú von sem við megum ekki missa úr höndum okkar. En spurningin er: Hvenær munum við loksins taka af skarið og tryggja að sagan endurtaki sig ekki á okkar vakt?


Af hverju krefjast raunveruleg góðverk alltaf áreynslu?

Ég hef haft gríðarlegan áhuga á dyggðasiðferði og held að þjálfun á dyggðum sé lykillinn að góðu lífi, en nú var ég að lesa textabrot eftir Kant sem færir hugmyndir mínar í aðeins dýpri vídd, en hann segir í bók sinni, ‘Grundvöllur að frumspeki siðferðilegrar breytni’: “Ávani er aldrei góður, ekki einu sinni sá ávani að gera góðverk. Góðverk, þegar þau verða að ávana, eru ekki lengur dyggðug verk. Raunverulegt góðverk nást aðeins með áreynslu”.

Þetta passar afar vel inn í reynslu mína. Á meðan dyggðirnar hjálpa manni að stýra lífinu í rétta átt, og virka eins og lyklar sem opna réttu gáttirnar og læsa þeim röngu, þá krefst það að fara í rétta átt og velja rétt gagnrýnnar umhugsunar og áreynslu, því ekki er allt það sem við vitum að sé rétt eitthvað sem er þægilegt.

Það er hárrétt athugað hjá Kant að við þurfum að beita okkur þegar á reynir, við þurfum að sinna skyldu okkar frekar en að haga okkur eins og við höfum alltaf gert, þó að slík hegðun og slíkir ávanar hafi komið okkur vel í lífinu.

Þess vegna þurfum við dómstóla sem taka hvert mál fyrir sig, þar sem grafið er eftir réttlætinu, þar sem hver og einn aðili þarf að segja satt og rétt frá málavöxtum, þar sem vitur dómari þarf að vera til staðar, ekki aðeins einhver sem þekkir lögin, heldur hefur þekkingu á siðferðinu og sterka tilfinningu fyrir réttlætinu.

Þegar kemur að árekstri milli fólks, þegar við verðum vitni að einni manneskju beita aðra ofbeldi, þá er ekki nóg að við horfum á sem vitni og þegjum, heldur þurfum við að bregðast við með hugrekki og gera það sem við metum að sé rétt, þó að það sé óþægilegt og krefjandi. Þegar ég fæ slík mál inn á borð til mín, þá langar mig helst að láta slíkt vera og láta það fjara út, langar ekkert endilega til að taka slaginn, en geri það ef ég met það sem hið rétta í stöðunni.

Á meðan við hugleiðum mikilvægi áreynslu í góðverkum, þá megum við ekki gleyma að áreynslan sjálf er ekki markmiðið, heldur leiðin að dyggðugu lífi. Kant bendir á nauðsyn þess að yfirvinna ávana en það krefst að við verðum vakandi fyrir því hvernig við högum okkur og hvað liggur að baki gjörðum okkar.

Markús Árelíus skrifaði: „Þegar þú berð byrði þína ættir þú að vita að það er gott fyrir þig að hafa hana.“ Þetta snýst ekki einungis um þrautseigju, heldur um að nýta byrðina sem tækifæri til þroska dýpri skilning. Líkt og eldur brennur bjartar með viðbættum viði, getur andleg barátta tendrað ljós viskunnar í lífi okkar.

Eitt atriði sem við ættum að leggja áherslu á er hvernig við skilgreinum „rétt“. Réttlæti er oft flókið, en það er á okkar ábyrgð að láta ekki ótta eða óþægindi hindra okkur í að standa með því sem er rétt. Réttlætið krefst hugrekkis, rétt eins og dyggðin.

Ég held að næsta skref í umræðunni sé að skoða hvernig við getum hjálpað öðrum að rækta dyggðir sínar. Hvernig getur samfélag okkar skapað aðstæður sem hvetja til réttlátrar hegðunar? Og hvernig getum við, sem einstaklingar, orðið betri leiðtogar í þessu ferli?

Með því að rækta siðferðilega dómgreind okkar og styrkja siðferðilegan kjark, getum við mótað réttlátt líf. Þetta krefst ekki einungis áreynslu heldur stöðugrar áminningar um að lifa lífinu í samræmi við æðstu gildi okkar.

Á hverjum degi stöndum við frammi fyrir vali: að taka auðveldu leiðina eða fylgja þeirri leið sem krefst meiri áreynslu, en leiðir til betra lífs. Þessi valkostur, þó að hann sé ekki alltaf skýr, felur í sér siðferðilega ábyrgð okkar.

Ég tel að lykillinn sé þjálfun siðferðis og dyggða, bæði hjá einstaklingum og í samfélaginu í heild sinni. Þessi þjálfun krefst hugrekkis, ekki aðeins til að mæta ytri áskorunum heldur einnig til að horfast í augu við eigin veikleika og takmarkanir. Með því að styrkja hugrekki okkar og siðferðilega dómgreind getum við lagt okkar af mörkum til réttlátara og þroskaðra samfélags.


Um líkama og sál - Í tilefni áttræðisafmælis föður míns, Baldurs S. Baldurssonar

Ef við skoðum himinhvolfin og áttum okkur á að jafnvel plánetan sem við búum á er ósýnileg þegar kemur að alheiminum, hvað er þá ein manneskja? Jafnvel minni en sandkorn á strönd í víðasta samhengi, en samt, ef við nálgumst jörðina og síðan mannkynið og síðan eina manneskju, jafnvel ársgamalt barna sem hefur nýlega lært að ganga, þá finnum við svo mikið, jafnvel í einu augntilliti eða einu brosi.

Þó að heimurinn sé svona víðfeðmur, og það sé svo mikið efni í honum og innihald að við náum aldrei nokkurn tíma að kynnast því öllu, þá er það ekki heimurinn sem skilgreinir hvað við erum, kjarna okkar. Líkaminn er efnislegi hluti okkar, en síðan höfum við andlega hlið, og það er í þessari andlegu hlið sem við finnum djúp gildi.

Það er þar sem við finnum manneskjuna og skilgreinum hana, það er þar sem við finnum ástina og kærleikann, hugrekkið og réttvísina, gjafmildina og auðmýktina, öll þessi gildi sem gera okkur að betri manneskjum, og ekkert endilega í þeim skilningi að við séum að sigra heiminn eða samkeppni við annað fólk, heldur í þeim skilningi að einbeiting á þessi gildi og þær dyggðir sem tengjast þeim, eru það sem hjálpar okkur að skapa tilgang í lífinu.

Því ef við horfum út í kaldann himingeiminn og komumst að þeirri niðurstöðu að þetta sé allt svo tilgangslaust því heimurinn er svo stór, eða á allar þær fréttir um þá alvarlegu og sorglegu atburði sem eiga sér stöðugt stað um víða veröld, þá erum við að horfa á heiminn út frá sjónarhorni sem tæmir sál okkar. 

En ef við horfum á heiminn út frá því kraftaverki sem hvert og eitt okkar er, öllum þeim hugsunum og tilfinningum og gildum sem við búum yfir og hvernig við tengjumst öðru fólki, þá höfum við kannski þrengt sjónarhornið, en það er fyllandi og safaríkt, gerir okkur glöð og sátt með lífið og tilveruna.

Þrátt fyrir að líkaminn sé áþreifanlegur og skynjanlegur, þá er það sálin sem veitir okkur þann tilgang sem við leitum að í lífinu. Þessi andlegi þáttur, sem oft er ósýnilegur og óskiljanlegur í hinum efnislega heimi, er í raun það sem gefur lífi okkar merkingu. Þegar við horfum út í alheiminn, getum við auðveldlega gleymt eigin litlu tilveru í stærðinni. En það er ekki stærðin eða umfangið sem skiptir máli; það er sú merking sem við finnum í okkar innra lífi, í tengslum okkar við aðra og í þeim gildum sem við veljum að lifa eftir.

Við getum ekki leyft að efnisheimurinn yfirgnæfi þá andlegu dýpt sem býr innra með okkur. Það er þessi andlega dýpt sem gerir okkur að því sem við erum,, sem gefur okkur getu til að elska, fyrirgefa og skapa. Við megum aldrei láta heiminn segja okkur að við séum minna virði en það sem býr innra með okkur. Í staðinn verðum við að líta inn á við, finna þann kjarna sem fær okkur til að þrífast, og leyfa honum að leiða okkur í gegnum lífið með von og tilgangi.

Þegar við veltum fyrir okkur því hvort sálin sé kjarni hverrar manneskju, eða hvort líkaminn eigi þann heiður, stöndum við frammi fyrir spurningu sem hefur angrað heimspekinga í árþúsundir. En ef við nálgumst spurninguna af innsæi og gagnrýnni hugsun sjáum við fljótt að við erum ekki bara samansafn efnislegra þátta. Við erum meira en líkaminn, meira en sú efnismassavél sem hreyfist í gegnum lífið.

Heimspekingurinn Descartes, sá frægi tvíhyggjumaður, var sannfærður um að líkaminn og sálin væru tvær sjálfstæðar einingar. Hann sagði: „Cogito, ergo sum“, eða „Ég hugsa, þess vegna er ég til“, sem undirstrikar að það er hugurinn eða andinn sem gefur okkur meðvitund og tilveru, ekki bara efnisleg tilvist. Á hinn bóginn, telja vísindalegir efnishyggjumenn að hugsanir okkar séu aðeins afleiðingar efnislegra ferla í heilanum, og að við þurfum ekki andlega vídd til að útskýra vitund okkar, að það sé ekkert annað en sjálfsblekking að telja eitthvað andlegt vera raunverulegt.

Þetta kallar á gagnrýna hugsun. Er það satt að allt sé hægt að útskýra með vísindum og efnishyggju, eða er eitthvað meira til í þessum heimi, eitthvað sem vísindin geta ekki mælt? Hvað með alla þá reynslu – fegurð, kærleika, hugrekki, hugleiðingar – hvernig getum við skilið þær ef við nálgumst heiminn aðeins með efnislegri nálgun?

Heimspekin gefur okkur engar einhlítar niðurstöður. Hið tvíþætta eðli mannsins, líkami og sál, þarf samhljóm. Þó að við getum ekki útskýrt hið andlega út frá hinu efnislega, þá felst styrkur okkar í því að samþætta þessi svið, ekki aðskilja þau. Því þó að við skilgreinum þau og notum tvö heiti, má vel vera að líkami og sál séu hluti af órjúfanlegri heild, jafnvel enn stærri og mögulega enn minni heild en við gerum okkur grein fyrir.

Það er ekki spurning um að vanrækja líkamann eða sálina, heldur um að viðurkenna að hvort tveggja hefur mikilvægt og samofið hlutverk í tilveru okkar.

Ef við einblínum of mikið á hina efnislegu hlið, getum við gleymt að meta virði þess sem gerir okkur mannleg. Ef við setjum sálina ofar öllu öðru, er okkur hætt til að hunsa þá reynslu sem líkaminn veitir okkur. En þegar við náum jafnvægi – þar sem líkaminn þjónar sálinni, og sálin veitti líkamlegri tilveru okkar tilgang – þá náum við mögulega að lifa merkingarbæru og áhugaverðu lífi.

Ef okkur tekst að lifa þessu stutta og litla sandkornslífi okkar með hugrekki, kærleika og visku, hver þarf þá að komast upp úr sandkassanum?


Hrós til þjónustuborðs Costco

Fór á þjónustuborðið í Costco. Þar tók kona á móti mér af erlendum uppruna. Eins og alltaf byrjaði ég með að segja frá erindi mínu á íslensku. Hún svaraði, svolítið hikandi og bjagað: “Er þér sama að ég tala íslensku?”
 
Auðvitað var ég meira en sáttur við það.
 
Þessi starfsmaður fær hrós fyrir að sýna áhuga og vilja til að tala íslensku.

Hætturnar sem felast í fáfræði

Fáfræði skil ég, ef ég reyni að skilgreina hana, sem skort á gagnrýnu viðhorfi og áhuga til að leita sér þekkingar og visku.

Það var einhvern tíma sem ég var að lesa samræðu eftir Platón að Sókrates sagði að fáfræðin væri uppspretta alls hins illa í heiminum. Og þessi setning festist í huga mínum með því að skoða hana frá ólíkum sjónarhornum tel ég hana vera sanna. 

Fyrst langar mig að skoða hana frá stóísku sjónarhorni, en samkvæmt stóuspekinni er illska ekki eitthvað sem gengur laust í heiminum og í öðru fólki, heldur er hún einungis eitthvað sem þú getur valdið í þínum eigin huga. Ef þú kærir þig ekki um að læra, ef hið sanna skiptir þig engu máli og þú stekkur á skoðanir sem eru illa ígrundaðar og ferð að básúna þær út um allar trissur, þá ertu að valda sjálfum þér skaða.

Ein afleiðing af slíkum skaða er að þú getur með orðum þínum og verkum skapað aðstæður sem gætu valdið því að aðrir valdi sjálfum sér sams konar skaða, og þegar við erum komin með samfélag í gang sem nærist á fáfræði, þá má kannski segja að við séum komin með spillt samfélag.

En fáfræðin hefur ekki bara með upplýsingar að gera, því nóg er af misjafnlega áreiðanlegum upplýsingum út um allt, heldur með þekkingu. Á meðan upplýsingar eru gögn sem liggja eins og hráviði út um allar trissur, í bókum, tímaritum, á netinu, hvar sem er, þá er þekking eitthvað sem við höfum eftir að hafa nýtt okkur þessar áreiðanlegu upplýsingar, en ef það sem við byggjum upp er byggt á röngum upplýsingum, þá erum við búin að byggja um blekkingu.

Það er gríðarlegur munur á þekkingu og blekkingu, svo mikill að fátt er þýðingarmeira í samfélögum heimsins en að slítast úr viðju blekkingar og inn í heim þekkingar. Þetta hefur stöðugt gerst í sögunni, að heimspekingar og fræðimenn benda á hvernig heimurinn er í raun og veru, að það kemur gríðarlegt bakslag þegar þeir sem trúa að heimurinn sé eins og þeir hafa alltaf upplifað hann, hafna þessum nýju upplýsingum, og setja þær ekki í þekkingarbankann sinn. Þetta er hugsanlega helsta ástæða þess að samfélög slíta sig ekki út úr blekkingum nema á afar löngum tíma. 

Í nútíma samfélögum, jafnt okkar á Íslandi sem erlendis, er ekki skortur á upplýsingum. Það er til mikið af góðum upplýsingum víða sem gefur okkur nákvæm svör við alls konar spurningum. Það sem skortir er hins vegar vilji til að nýta þær upplýsingar sem eru aðgengilegar. 

Dæmi um þetta er neitun á tilvist COVID-19, loftlagsbreytingum og jafnvel því að jörðin sé hnöttur frekar en flöt. Í þessum tilvikum ákveður fólk hvað það vill trúa og myndar sér síðan rök út frá því. Það er andstætt vísindalegri aðferð, byggir á tilfinningum og trú sem á sér ekkert endilega rætur í veruleikanum. Vísindaleg nálgun væri að finna upplýsingarnar fyrst, tengja þær saman með traustum rökum, og eftir það ekki mynda sér skoðun, heldur þekkingu sem er þessi eðlis að hún getur vaxið með nýjum upplýsingum og breytingum á veruleikanum. Skoðanir breytast ekki, þær standa í stað, en þekking flæðir áfram og vex með tíð og tíma.

Dreifing falsfrétta og rangra upplýsinga gegnum samfélagsmiðla er annað dæmis sem getur haft alvarlegar afleiðingar bæði fyrir einstaklinga og samfélög. Eins og sést á stjórnmálum víða um heim og hvernig stjórnmálaflokkar hafa nýtt sér gögn um fólk, til dæmis út frá Like notkun á Facebook, hefur sumum þjóðarleiðtogum tekist að komast til valda með því að beita lygum og röngum upplýsingum. Það sér ekki enn fyrir endann á þeim vanda.

En vandinn er fyrst og fremst persónulegur. Við megum ekki vera of fljót að stökkva á skoðanir sem okkur líkar, því þá lifum við í fáfræði.

Betra væri að þróa með sér gagnrýna hugsun, þar sem við byrjum á að velta fyrir okkur hvort heimildir séu áreiðanlegar eða óáreiðanlegar og spyrja síðan gagnrýnna spurninga um þær upplýsingar sem stöðugt berast okkur.

Við þurfum að leggja vinnu í nám, sýna forvitni og reyna að kynnast nýjungum sem stöðugt spretta upp, eins og þegar kemur að sýndarveruleika og gervigreind, því ef við lærum ekki um hvernig hægt er að nýta þessa öflugu tækni, er líklegt að við verðum ekki samkeppnishæf, hvorki gagnvart tækninni né öðru fólki sem kann að nýta sér hana.

Til að útrýma fáfræði úr okkar eigin huga er gagnlegt að taka þátt í málefnalegum umræðum með opnum huga, hlusta á sjónarmið annarra og vera tilbúinn að endurskoða eigin skoðanir í ljósi nýrra upplýsinga. Þannig byggjum við upp þekkingu.

Fyrsta skrefið er að vinna í okkar eigin málum, því þar höfum við mestu völdin. Næsta skref er síðan að átta okkur á hvar við getum gert gagn í samfélaginu. 

Til að takast á við fáfræði í samfélaginu er öflugasta tækið menntun. Ef við stuðlum að auknum gæðum menntunar og þrýstum á að menntakerfið bjóði upp á gagnrýna hugsun og fræðslu um mikilvæg samtímamál, þá eflir það grundvöll þekkingar, og getur dregið úr mætti blekkinga.

Þá væri gott að nýta nýjungar við fræðslu, til dæmis samfélagsmiðla, sýndarveruleika og gervigreind, frekar en að forðast þessa hluti eins og þeir séu uppspretta einhvers ills. Nýjungar eru aðeins breyting á samfélaginu, þróun sem gerist með hugviti og uppfinningum. Ef við útilokum slíka þætti frá námi, eins og með því að banna farsíma í skóla, þá erum við komin á villigötur. Betra væri að kenna fólki að nýta sér slíka tækni í samhengi við nám og síbreytilegan heim.

Við getum hvatt fólk til þátttöku í samfélaginu, hvatt fólk til að kjósa, taka þátt í sjálfboðaliðastörfum, taka þátt í stjórnmálum eða opinberri umræðu. 

Fáfræði er eitthvað sem leiðir til verri heims, hvort sem það er á persónulegum eða samfélagslegum forsendum, en góðu fréttirnar eru þær að við getum með markvissum hætti unnið að því að draga úr fáfræði og byggja upp samfélag sem á rætur í þekkingu, skilningi og samkennd.  

 


Mistök og það sem við getum lært af þeim

Mistök eru framkvæmd sem hafa aðrar afleiðingar en við stefnum að, og eru þannig mótsögn í sjálfu sér við vilja okkar.

Það er óhjákvæmilegt að gera fjölmörg mistök hvern einasta dag, svo framarlega sem við framkvæmum einhverja hluti. 

Mistökin geta verið einföld og saklaus, við förum óvart í ósamstæða sokka, við ýtum aðeins of oft á Snooze takkann þannig að við mætum of seint til vinnu, við gleymum að borða morgunmat, og setjum ekki á okkur gleraugun áður en við byrjum morgunlesturinn.

Síðan er hægt að gera mun stærri mistök, eins og þegar við veljum okkur maka og eftir einhver ár kemur í ljós að sambandið er hvorugum aðilanum gott, við ráðum okkur til starfa hjá fyrirtæki og áttum okkur á mörgum árum síðan að þessi tími sem við vörðum í starfinu var að miklu leyti tímaeyðsla, eða í fjármálum þegar við ofnotum kreditkort og leggjum ekki nógu mikið til hliðar. Allt eru þetta frekar alvarleg mistök, sem hugsanlega hefði verið hægt að koma í veg fyrir með góðri fyrirhyggju, en raunin er samt sú að svona mistök eru gerð alla daga og skapa mikla óhamingju til lengri tíma lítið.

Svo eru það ennþá stærri mistök, en það er þegar við vísvitandi brjótum lög, reglur eða gegn dyggðum til að ná einhverju með auðveldum hætti eitthvað sem okkur langar í.  Þjófur heldur sjálfsagt ef honum tekst að fremja glæp og græða þannig einhvern pening og ekki komst upp um hann, að hann hafi alls ekki gert mistök, en vissulega gerði hann samt mistök, því hann valdi að gera eitthvað sem er gegn dygðinni, gegn því sem er að framkvæma það sem er gott og rétt, og hann veit það sjálfur, og hann hefur með því valið löst, að gera frekar eitthvað sem er rangt og illt. 

Málið er að afleiðingin er ekkert endilega sú að hann verður dæmdur fyrir brotið af öðrum, ennþá verra er að hann verði dæmdur af sjálfum sér, og verði fyrir vikið að verri manneskju sem þykir allt í lagi að brjóta af sér til að ná fram markmiðum sínum. Til lengri tímahafa slíkar ákvarðanir og framkvæmdir persónuleg áhrif sem enginn getur mælt, og því miður verður hugsanlega aldrei sýnilegt, því samfélagið gerir ekkert endilega þær kröfur á fólk að það sé sátt með sjálft sig.

Hins vegar hefur slík hegðun þau áhrif að viðkomandi á erfiðara með að treysta en vantreysta, hann er líklegri til að segja ósatt en satt, slík manneskja verður óheil í verkum sínum, og áttar sig sjálfsagt seint á því, sérstaklega ef hún er upphafin af öðrum manneskjum í kringum hana, sem sætti sig við sambærileg gildi, eða réttara sagt, sambærilega persónulega spillingu.

Málið er að þegar við gerum það sem okkur langar, erum við ekki nauðsynlega að gera það sem við viljum. Við viljum að sjálfsögðu byggja betri heim og þroska sjálf okkur, hafa góð samskipti og samvinnu við aðra, og gera það sem er gott og rétt, þannig að það hafi ekki aðeins víðtæk áhrif út á við, heldur einnig inn á við. En ef við gerum frekar það sem okkur langar heldur en það sem við viljum, þá erum við gjörn á að gera mistök sem við höldum kannski að hafi ekkert svo slæm áhrif, og kannski eru þau það ekki út á við, þegar við skoðum stóra samhengið, en þau geta verið það inn á við, sem er frekar slæmt, því það hindrar okkur frá því að láta gott frá okkur leiða, bæði út á við, og inn á við.

Góðu fréttirnar eru þær að við getum bæði komið í veg fyrir mistök og lært af þeim. Þetta helst allt í hendur. 

Hér eru nokkur ráð sem geta hjálpað til við að forðast mistök:

Staldraðu við og íhugaðu málin áður en þú tekur mikilvægar ákvarðanir, veltu fyrir þér mögulegum afleiðingum þeirra, bæði fyrir alla þá sem að málinu koma og samfélagið, og ekki síst, fyrir þig. Reyndu að átta þig á kostum og göllum slíkra ákvarðana út frá þeim gildum sem þú metur mest í lífinu. Leitaðu einnig ráða hjá fólki sem þú treystir.

Skoðaðu reglulega eigin hug og tilfinningar, reyndu að átta þig á fyrri ákvörðunum og hegðun, hvort þær hafi verið góðar eða mistök, og ef þú finnur mistök, reyndu að átta þig á hvaðan þau spruttu og hvort þú getir lagfært ferlið sem þú fylgdir til að valda þeim.

Þegar þú hefur uppgötvað eigin mistök, reyndu að nota þau sem tækifæri til að læra, frekar en að ásaka þig um eitthvað sem þú hefðir getað gert betur, eða sem verra er, ásaka aðra um mistök sem þú framkvæmdir, því þá lærirðu ekkert á þeim. Veltu fyrir þér hvað þú getur lært og hvernig þú getur notað þessa reynslu til að bæta þig.

Þegar þú skoðar fyrri verk þín og áttar þig á að þú gerir sífellt færri mistök, þá er um að gera að fagna því með einhverjum hætti og gera það sem þig langar til, svo framarlega sem það er í samhljómi við það sem þú vilt.

Okkar eigin mistök geta verið verkfæri sem stuðlar að eigin vexti og þroska. Mistök eru ekki endastöð, heldur hindranir í veginum sem við þurfum að komast yfir. Með því að vera opin fyrir okkar eigin mistökum getum við lært hraðar og haft betri áhrif bæði á samfélagið og okkur sjálf. Lífið er nám og nám er breytingar á hæfni okkar til að lifa lífinu betur. Bæði skref sem stigin eru klaufalega og líka þau sem eru stigin vel, skila okkur á leiðarenda, eina spurningin er hver það er sem kemur í mark.

Mistökin geta þannig fært okkur mikla ógæfu ef hugur okkar er lokaður, en með opnum huga gefa þau okkur tækifæri til að læra, bæta við sjálfsþekkingu, visku og geta jafnvel leitt til djúpstæðrar hamingju.

 


Heimspeki í morgunmat: að byrja hvern dag með krefjandi spurningu

Ég hef unnið við heimspekikennslu, ekki bara á Íslandi, heldur víða um heim, þá mest með unglingum. Nú er staðan þannig að ég starfa ekki mikið við heimspeki lengur, en eins og alltaf er hún mér hugleikin.

Hvern einasta morgun les ég texta úr einhverju heimspekiriti, velti honum fyrir mér og bý til spurningu úr honum, eitthvað sem mig langar sjálfum að velta fyrir mér og reyna að svara. Eftir að hafa skrifað um eina blaðsíðu um spurninguna, leyfi ég ChatGPT að skoða textann sem ég skrifað og búa til mynd út frá honum.

Síðan birti ég spurninguna og myndina á Facebook og Instagram, og pælingarnar á minni eigin heimasíðu. Mig langar með tíð og tíma að gefa út eitthvað af þessum pælingum, en hef ekki ennþá mótað með mér hvernig best væri að bera þær fram, né veit ég hvort nægilegur áhugi væri á þeim til að réttlæta bókaútgáfu.

En þetta er það sem ég geri þessa dagana, birti spurningu á Facebook. Í störfum mínum þar sem ég vinn við ýmis viðfangsefni fullorðinsfræðslu, verkefnastjórnun, hæfnigreiningu, námskrárgerð og kennslu við framhaldsskóla og háskóla, þá beiti ég stöðugt heimspekinni í verkum mínum, því ég hef gætt þess að vera dygðug manneskja sem stöðugt leitar sér þjálfunar í visku, hugrekki, réttlæti og skapgerð. 

Fyrir utan það velti ég fyrir mér öllum þeim mögulegu dyggðum sem til eru, og eftir að hafa velt þeim fyrir mér, reyni ég að framkvæma þær í daglegri hegðun minni. Og sjáðu til, það hefur gert mig að manneskju sem mér líkar að vera. Ég er sáttur við sjálfan mig og alla þá sem ég umgengst í daglegu lífi, því ég pirra mig ekki á hvernig aðrir haga sér, heldur velti meira fyrir mér mínum eigin viðbrögðum, þar sem ég hef enga stjórn á hegðun annarra, en fullkomna stjórn á minni eigin hegðun, og því sem ég vel að gera, hugsa eða vinna við.

Út frá þessu þá má sjá að ég er daglega að ýta undir minn eigin áhuga á heimspeki, og hendi svo bæði spurningum mínum og pælingum út í kosmóið, sem verður hugsanlega til þess að kveikja áhuga hjá öðrum. Ég held áhuga mínum lifandi með að kasta einum viðarbút í glóðirnar hvern einasta morgun, sem síðan brennur gegnum daginn, og ef slíkur neisti nær að kveikja eld í öðrum hug, þá er það sigur fyrir heimspekina.

 


Af hverju trúum við stundum blekkingum frekar en því sanna?

Sönnun byggir á staðfestum og rekjanlegum upplýsingum og sannanir er hægt að endurtaka hvar og hvenær sem er, svo framarlega sem þær eru framkvæmdar á kerfisbundinn hátt og með gagnrýnni hugsun að leiðarljósi. Sannanir sýna hvort að ákveðin fullyrðing sé sönn út frá sönnum forsendum og röklegt gildri niðurstöðu.

Þær manneskjur sem þekkja ekki þessi ferli geta á auðveldlegan máta látið glepjast. Það sem villir oftast sýn eru tilfinningar, trú eða órökréttar ákvarðanir. Þess vegna er afar mikilvægt fyrir hverja einustu manneskju að hafa gott skynbragð á gagnrýnni hugsun, þar sem þess er krafist að rætt er út frá áreiðanlegum upplýsingum og gildum rökum. Það sem flækir málið er að oft eru tilfinningar, trú og órökréttar ákvarðanir afar sannfærandi, og þegar maður telur þær sannar, flækjast þær inn í heimsmynd manns og villa sýn á sannleikanum. 

Nú vil ég minnast á nokkra hluti sem geta ruglað mann í kollinum, eins og einn vinur minn var vanur að segja. 

Tilviljanir: segjum að tvær manneskjur rekist á hvora aðra á skemmtistað og verða hrifnar af hvorri annarri, sýna hvoru öðru mikinn áhuga og byrja síðan í sambandi, giftast, eignast börn og verða gömul saman. Það má segja að þetta sé eitthvað sem átti að gerast, að einhver örlög hafi átt sér stað. Samt sem áður má vel vera að þetta hafi verið hrein tilviljun og líf þeirra hefðu getað verið alveg jafn góð og áhrifarík með annarri manneskju, eða jafnvel án einhvers annars. 

Dæmi: Einhver gæti fengið símtal frá nánum vin eftir að hafa hugsað til hans, og trúir því að þessar hugsanir hafi haft áhrif á veruleikann. Fólk tengir saman atburði vegna þess að ekkert er mannlegra en að leita eftir skýringum og merkingu í mynstrum og tengingum, jafnvel þegar slíkt er ekki til staðar. Á sambærilegan hátt hafa mynstur verið sköpuð af mönnum þegar stjörnumerki hafa verið búin til. Það er dæmi um þegar ímyndunin verður veruleikanum sterkari.

Sögur: Íslendingar virðast sérstaklega hrifnir af frásagnarlistinni, og um þessar mundir sérstaklega af glæpasögum, þar sem fleiri eru drepnir á blaðsíðum einnar bókar heldur en í marga áratugi á landinu. Þarna er oft mikil fjarlægð á milli veruleika og skáldskapar, en samt getur hinn ímyndaði veruleiki skáldsögunnar virst það raunverulegur að fólk fer að trúa því að hann eigi sér stoð í veruleikanum, sem reyndar getur orðið til þess að breyta veruleikanum sjálfum í eitthvað sem líkist hinum ímyndaða heimi skáldsögunnar. Stundum velti ég því fyrir mér hvort fólk trúi á veruleika sem sést í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og slíkum skáldsögum, umfram þann veruleika sem við lifum í, og hvort slík trú, ef hún breiðist mikið út, geti haft áhrif á hvernig veruleikinn þróast.

Dæmi: Þegar fólk baktalar aðra eru sumir gjarnir á að trúa slíkum sögum þó að ekkert sé satt í þeim. Það er nóg að þær virki sennilegar og byggi á tilfinningu sem einhver hefur, en þessi tilfinning getur verið tengd einhverju allt öðru en þeirri manneskju sem talað er um. 

Fordómar: Við höldum að veruleikinn sé á einhvern ákveðinn hátt vegna þess hvernig við felldum dóm, til dæmis um kynþátt, kyn, trúarbrögð eða hegðun sem okkur líkaði illa við hjá einhverjum einstaklingi úr hópi fólks sem okkur líkar ekki við. Þessir fordómar styrkjast ef eitthvað gerist sem staðfestir að fordómurinn sé réttur, en slík staðfesting er engan veginn sönnun, heldur þvert á móti, eitthvað sem vinnur gegn því að við sjáum sannleikann í málinu og afhjúpum fordómana fyrir það sem þeir eru, villur og mistök.

Dæmi: Unglingar í dag er ómögulegir, aldrei var ég svona á mínum unglingsárum. Þarna er verið að dæma heilan hóp, sjálfsagt út frá einhverju dæmi og upplifun manneskju, og þegar hún deilir slíkri upplifun fær hún sjálfsagt undirtektir frá einhverjum hóp, en ekki frá öðrum. Það fer líklega eftir því hversu skynsöm þessi manneskja er, hvort hún hlusti aðeins á staðfestinguna eða gagnrýnina.

Hefðir: Sumir réttlæta að hlutir séu gerðir á ákveðinn hátt út frá þeirri staðreynd að þeir hafa alltaf verið gerðir á ákveðinn hátt og hafa alveg virkað nógu vel. Ferlinu má helst ekki breyta, og þá alls ekki til þess eins að breyta. Það er alltaf hægt að taka til einhver rök sem vinna gegn þróun og rannsóknum, slíkt tekur of mikinn tíma, kostar of mikið eða getur haft slæm áhrif á gæði. Til að einhver þróun geti átt sér stað, þarf hins vegar að leggja á sig tíma, kostnað og gera hlutina á ólíkan hátt til að hægt sé að bæta þá. Þessi tilfinning um að hlutirnir eigi að vera á ákveðinn hátt því þannig hafi þeir alltaf verið, getur verið afar sterk og sannfærandi, en hún er engin sönnun fyrir því að þannig þurfi hlutirnir endilega að vera.  

Dæmi: Á alltaf að hlusta á yfirvaldið, það er þingmanninn, prestinn eða kennarann, og leyfa viðkomandi að tala stanslaust án þess að tækifæri gefast til að velta hlutunum fyrir sér? Sumir segja kannski já, því þannig hefur það yfirleitt verið og þannig verður það áfram, en aðrir segja nei, því enginn, sama hvaða stöðu hann gegnir, veit allt um nokkurn skapaðan hlut. 

Tilfinningar og áróður: Mér verður hugsað til einræðisherra og popúlista í pólitík þegar kemur að tilfinningum. Slíkar manneskjur reyna stöðugt að höfða til tilfinninga fólks frekar en til skynsamlegrar hugsunar, því það er svo miklu auðveldara að reita fólk til reiði, hneyksla það, vekja hjá því vorkunn, og þannig stjórna því heldur en þegar skynsemin og staðreyndir ráða ríkjum. Hver kannast ekki við fólk sem er stjórnsamt, ætlast til að aðrir fylgi eftir löngunum þeirra, frekar en að ræða málin? Þetta er oft kallað frekja, og í mínum augum er frekar löstur en dyggð, það er bæði að haga sér með frekju að leiðarljósi, gera bara það sem mann langar, og leiða aðra með sér þá leið, á móti því að finna leið sem er áhugaverðari og jafnvel betri fyrir alla þá sem eru í hópnum. Glæpagengi, klíkur, sumir stjórnmálaflokkar og einræðisríki stjórnast af slíkri frekju, því frekjan sjálf getur verið nóg til að virkja fólk í að trúa leiðtoganum. En þessar tilfinningar hafa ekkert með það sem er satt eða raunverulegt að gera, þetta eru bara tilfinningar sem notaðar eru til að stjórna, og markmiðið gæti verið eitthvað eins asnalegt og að gera leiðtogann ríkan á meðan hinir leitast stöðugt eftir brauðmolum frá honum. Það að einhver sé áhrifaríkur leiðtogi, með mikinn sannfæringakraft og sterkar tilfinningar, þýðir alls ekki að hann hafi rétt fyrir sér, og það er fljótt að koma í ljós, því svona manneskjur ljúga til að sannfæra, og ein lygi ætti að vera nóg til að fólk treysti honum ekki; en það treystir honum samt, því það hefur keypt lygina án þess að beita gagnrýnni hugsun.

Dæmi: Nasistar úthrópuðu og niðurlögðu gyðinga og þá sem þeim þóknaðist ekki með lygum og áróðri sem byggði á tilfinningu, í áróðrinum var fólki líkt við meindýr og þegar lesendur sáu þetta, samþykktu þau áróðurinn og tóku þannig þátt í hreyfingunni, eða samþykktu hana ekki, og urðu þá samstundis að nákvæmlega þessum meindýrum sem áróðurinn beindist gegn.

Það er afar auðvelt að læra um hvað er satt og ósatt, og hvernig hægt er að vinna með þetta, og það er jafn auðvelt að átta sig á hvernig ósannindin leiða okkur í rangar áttir á meðan hið sanna hjálpar okkur að byggja upp góða leið. En eins og allt sem gott er, krefst það einhverjar vinnu og aga, eitthvað sem borgar sig margfalt, en því miður eru margir sem hunsa það að leggja á sig þessa vinnu og haga sér í samræmi við það sem er gott, og þannig verður til óreiða sem getur valdið því að heilar kynslóðir missi sjónar á því sem er satt, og glepjast frekar í átt að því sem virkar sannfærandi.

 


Meðan bærinn okkar brennur

Nú er eldgos komið inn í Grindavík og hús farin að brenna.

Við konan mín fórum í pottinn okkar í gær. Það væri kannski ekki í frásagnir færandi nema að potturinn er í Grindavík og hugsanlega var þetta í síðasta skipti sem hægt er að nota hann, enda rafmagn, hiti og heitt vatn í uppnámi og líklegt að flestar pípulagnir verði fljótar að skemmast, sérstaklega ef það frystir mikið aftur og ástandið muni lengi standa yfir; nema náttúrulega ef húsið verði farið undir hraun og jafnvel allur bærinn brunninn. 

Við höfum í rúmlega tvo mánuði, frá rýmingu 10. nóvember, verið á hálfgerðum vergangi ásamt flestum öðrum Grindvíkingum. Sumir hafa búið á mörgum heimilum og sumir neyðst til að flytja aftur í bæinn þar sem ekkert húsnæði hefur verið laust. Við erum meðal þeirra heppnu, fengum húsnæði gegnum fjölskyldu og vini. En ekki eru allir jafn heppnir. 

Mikið hefur verið rætt um æðruleysi Grindvíkinga. Það hefur verið misjafnlega mikið eins og gengur og gerist, og kannski finnst fólki það mikið því fólk heldur áfram að lifa lífinu og heldur höfði þó að gangan sé löng, óvís og mikil.

Síðustu ár hef ég lesið mikið af heimspeki Epíktetar, og skrifað út frá henni spurningu hvern einasta dag í rúm tvö ár og svarað þeim sjálfur, og nýlega tekið að birta þessar spurningar á Facebook síðu mína og fengið góð viðbrögð frá fjölskyldu, vinum og kunningjum. Þessi dagbókarskrif hafa haft einhver áhrif út á við, en ennþá meiri áhrif inn á við. Ég finn hvernig innri styrkur hefur aukist, hvernig skýrleiki hugsunar, óháð aðstæðum, helst skarpur, og er ánægður með hversu mikla einbeitingu ég hef þrátt fyrir allt.

Tilgangurinn með slíkri heimspeki er að móta aðstæður fyrir  lífshamingju sama hvað gengur á í lífinu. Og eitt af því sem hún kennir fólki er að rækta með sér æðruleysi, og þá með því að vinna í sjálfu sér, átta sig á hvað því þykir mest virði í heiminum, og þá með sérstaka nánd á það sem við ráðum yfir sjálf, frekar en ytri hlutum. Því við getum stjórnað því hvort við verðum vitur, hugrökk, réttlát og skapgóð; aðeins ef við ræktum þessar dyggðir. 

Þó að fólk upplifi Grindvíkinga sem hugrakkt fólk sem tekur hlutunum af æðruleysi, þá er það samt aðeins upplifun. Fólkið í Grindavík er eins og alls staðar, við erum allskonar. Okkur langar að kíkja í heitan pott eða upp í sófa eftir vinnudag, okkur langar að sitja í góðum stól með góða bók, okkur finnst skemmtilegt að hittast og borða saman.  Okkur finnst gott að geta gengið út í búð og spjallað við kunningja, okkur finnst leiðinlegt að rífast yfir hversu illa gengur með ruslahirðu, en okkur finnst það samt betra en að bíða í óvissu.

Þegar jarðskjálftar og eldgos ryðjast inn í líf okkar, þá er aðeins eitt hægt að gera, að ná stjórn á sjálfum sér og stjórna því sem maður hefur vald yfir, og það er ekki mikið meira en manns eigið val. 

Við höfum heyrt frá yfirvöldum að þau ætli að grípa okkur. Þau hugsa greinilega um okkur, en það væri gott að fá fljótlega hugmyndir um hvað við getum gert til lengri tíma. Eigum við að tapa öllum okkar eignum ef við veljum að búa utanbæjar? Eða eru yfirvöld tilbúin að leggja til hugmyndaríkar og góðar ráðstafanir sem tryggja það að fólk þurfi ekki að byrja aftur á byrjunarreit í lífinu, og halda áfram þar sem frá var horfið, þó það verði á nýjum stað?

Æðruleysi Grindvíkings er vissulega mikið og aðdáunarvert, og þannig er það líka með flesta Íslendinga. Við vitum að við komumst aldrei af á þessu skeri ef við hjálpuðumst ekki af í gegnum erfiðleika, ef við leggjumst ekki öll á árarnar, ef við stöndum ekki saman. Því við erum öll á þessu landi til að hjálpast að með einum eða öðrum hætti, að komast í gegnum lífið, kannski ekki áfallalaust, en með úrræði sem við getum öll sætt okkur við.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband