Trú eða þekking?

Hvernig vitum við hvað af því sem við trúum er trú og hvað þekking?

Áður en þessu er svarað veltum aðeins fyrir okkur hvað hugtökin þýða. 

"Trú" er eitthvað sem við höldum að sé satt, að það miklu marki að við teljum okkur vita það fyrir víst, það er mögulega satt og mögulega ekki, en við höfum ekki sönnunargögn til staðar sem réttlæta það að þessi trú sé sönn, og þar af leiðandi þekking. Sama hversu sannfærð við erum um að eitthvað sé satt, gerir algjör sannfæring hlutinn ekki sannan.

"Þekking" er eitthvað sem vitum að er satt, en þessi þekking er réttlætanleg með sönnunargögnum sem eru til staðar fyrir þá grennslast fyrir um staðreyndir og rök að baki þekkingarinnar.Þekking hefur ekkert með sannfæringu að gera, heldur er sumt sem við einfaldlega vitum og getum síðan rökstutt út frá staðreyndum og rökum.

Það sem flækir þetta mál er að búin hafa verið til kerfi utan um þessi hugtök, trú og þekkingu, annað kerfið er kallað trúarbrögð og hitt vísindi.

Annað sem flækir málið er umfang trúar annars vegar og þekkingar hins vegar. Trúin hefur engin takmörk, getur náð yfir upptök alheimsins, eðli Guðs, grunnhvatir allra manneskja, og svo framvegis. Þekking nær hins vegar alls ekki svona langt, því hún þarf að byrja á einhverju sem við skynjum og getum sannreynt, sem passar inn í hugtakaheim okkar og er rökrétt. Þannig getum við rökstutt ýmislegt um upptök alheimsins, en getum ekki sannað það endanlega. Hins vegar má vel vera að við þekkjum lögmál sem gera okkur fært að gera okkur hugmynd um hvernig hlutirnir eru, en þessar hugmyndir eru kallaðar kenningar.

Trú krefst ekki sönnunar, það sem við trúum krefst einungis þess að einhverju sé trúað.

Þekking krefst sönnunar og hugtakakerfis, eins og til dæmis að vatn sé búið til úr vetni og súrefni. Það er reyndar auðvelt fyrir þann sem ekkert skynbragð hefur á efnafræði að efast um að þetta séu sannindi. Á sama hátt er ekkert mál fyrir vísindamanninn að efast um sannindi sem felast í trúarbrögðum.

Þeir sem eru trúaðir safnast í hóp og kallast söfnuður. Þeir sameinast í trú sinni og það er fátt eða ekkert sem getur vakið efasemdir hjá þeim.

Þeir sem hafa þekkingu eru annars konar, þeir safnast í hóp og kallast vísindamenn. Þeir sameinast í trú á lögmálum sem eiga við um svið þeirra fræðigreinar, og sannfæring þeirra er aldrei hundrað prósent örugg, það er alltaf rúm fyrir vafa, því það er sífellt hægt að læra meira um þennan heim.

Það er eins og þeir sem trúi, trúi að þeir hafi þekkingu, en þeir sem hafa þekkingu, trúi ekkert endilega að þeir hafi þekkingu.

Að sjálfsögðu eru þetta aðeins vangaveltur á föstudagskvöldi, og ég reyni ekki að sannfæra neinn um eitt eða neitt, heldur langaði mig einfaldlega að skoða betur þessar pælingar sem veltast um í mér. 

Þessi blogg eru ekki skrifuð fyrst og fremst til að fræða, heldur til að læra, til að hefja samræðu, til að spá í hlutina. Mér finnst gott að deila þessum pælingum, en þær eru alls ekki einhver endanlegur sannleikur. Þær eru hins vegar skref í löngum göngutúr míns eigin hugar.

 


Um gagnrýnið viðhorf

Gagnrýnið "viðhorf er altækt í tvennum skilningi: hvað sem er getur orðið viðfang þess og verkefnið er endalaus leit sanninda um heiminn og hugsun manna." - Páll Skúlason, Pælingar II Fátt er mikilvægara meðal lýðræðisþegna en gagnrýnið viðhorf. Fátt er...

Hvað þýðir að vera heimspekilegur?

"Afstaða heimspekinga er stundum talin bera vott um óraunsæi á vandamál og verkefni daglegs lífs. Samkvæmt almannarómi eru þeir með hugann bundinn við fjarlæga eða fjarstæða hluti, stundum skýjaglópar eða draumóramenn, stundum óskaplegir orðhenglar sem...

Hugmynd um heimspeki

"Einn hefðbundinn skilningur á heimspeki er sá að hún sé endalaus leit þekkingar og skilnings á heiminum . Annar hefðbundinn skilningur er sá að hún sé heild eða kerfi allrar öruggar þekkingar á veruleikanum , vísindi allra vísinda. Hinn þriðji...

Dýrmætasta sameign Íslendinga?

"Oft er sagt að tungumálið sé dýrmætasta sameiginlega eign okkar Íslendinga. Önnur dýrmæt sameign eru hugmyndir og skoðanir á lífinu og tilverunni, sjálfum okkur og heiminum." (Páll Skúlason, Pælingar II, 1989) Mig langar að pæla aðeins. Hugmyndin er...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband