Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2025

Eldgos, óvissa og innri ró

480249948_10163447975206410_7330994597418433375_n.jpg?_nc_cat=104&ccb=1-7&_nc_sid=127cfc&_nc_ohc=FlJV7mkwpUoQ7kNvgEEZKvU&_nc_zt=23&_nc_ht=scontent.frkv2-1

Jarðskjálftarnir halda áfram að hrista Reykjanesskagann og spurningin er ekki hvort, heldur hvenær næsta eldgos hefst. Vísindamenn vara við því að eldgos geti hafist með litlum sem engum fyrirvara. Ástandið við Sundhnúkagíga er óstöðugt og sérfræðingar segja að mögulegt sé að hraun muni renna í átt að Grindavík.

Fyrir okkur sem misstum heimili okkar er þetta meira en bara frétt – þetta er sagan okkar, aftur og aftur. Við slíkar fréttir rifjast upp minningar frá nóvember 2023 þegar bærinn var rýmdur á örfáum klukkustundum, og bílaröð fór eins og ljósberar um Suðurstrandarveg þar sem Grindavíkurvegur hafði farið í sundur.

Þann 10. nóvember 2023 neyddumst við til að yfirgefa heimili okkar í Grindavík ásamt tveimur barnabörnum á leikskólaaldri án þess að vita hvort við myndum nokkurn tímann snúa aftur. Konan mín hafði gleymt veskinu sínu, en það skipti í raun engu máli á því augnabliki – húsið lék á reiðiskjálfi og allt sem við gátum gert var að fara, með skilninginn á því að ekkert væri undir okkar stjórn nema viðbrögð okkar sjálfra.

Nokkrum dögum síðar fengum við nokkrar mínútur til að fara aftur inn í húsið. Við þurftum að sækja nauðsynlegustu hlutina í flýti. Þó að tíminn væri takmarkaður fengum við aðstoð björgunarsveitar. Þau veittu okkur dýrmæt augnablik til að velja það sem skipti okkur mestu máli. Það fór kvöldstund í að skrifa miða um þá hluti sem þurfti að sækja, og þegar við komum loks inn, þá hurfu mínúturnar fimm í þoku.

Við höfum þurft að horfast í augu við þá staðreynd að við getum ekki lengur búið þar sem við höfðum fjárfest í framtíð okkar. Þetta hefur verið erfitt, en það er hér sem stóísk hugsun verður að nauðsynlegri stoð. Það sem gerist er ekki undir okkar stjórn, en hvernig við bregðumst við er það sem skilgreinir okkur.

Þessi reynsla minnir okkur á að beina athyglinni að því eina sem við raunverulega stjórnum: okkar eigin huga og viðbrögðum, því hvernig við tökumst á við aðstæðurnar, hvernig við höldum ró okkar í óvissum aðstæðum, og hvernig við beinum orkunni að því sem við getum breytt frekar en að syrgja það sem er glatað.

Lífið mun ávallt vera ófyrirsjáanlegt, en eins og Markús Árelíus sagði: „Þú hefur vald yfir huga þínum og ekki ytri atburðum. Skildu þetta, og þú munt finna styrk.“

Undanfarin ár hef ég skrifað eina spurningu hvern einasta dag á Facebook, sem endurspeglar nákvæmlega þessa speki. Í kjölfar hverrar spurningar skrifa ég svar sem ég stöku sinnum birti umheiminum.

Hvernig getum við lært að lifa með óvissunni frekar en að óttast hana?


mbl.is „Fyrirvarinn verður mjög stuttur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju gefum við röngum einstaklingum völd – aftur og aftur?

Hvers vegna gefum við einstaklingum völd sem síðan brjóta niður samfélagið sem þeir hafa lofað að verja? Sagan sýnir okkur að einræðisherrar og valdagráðugir leiðtogar komast ekki til valda með hnefunum heldur með kosningum, loforðum og stuðningi fjöldans.

Fyrir rúmum 2000 árum varaði Platón við því að lýðræði gæti í ákveðnum aðstæðum leitt til harðstjórnar. Í dag stöndum við frammi fyrir sömu spurningum. Af hverju er þetta mynstur alltaf að endurtaka sig? Í Ríkinu benti hann á að frjáls samfélög sem vanrækja menntun og gagnrýna hugsun séu sérstaklega viðkvæm fyrir leiðtogum sem segjast tala fyrir fólkið en stefna á eigin valdastöðu. 

Þessir leiðtogar nýta sér óánægju og ótta til að sanka að sér völdum, en þegar þeir hafa náð þeim breyta þeir lýðræðinu í einræði. Ef við lítum yfir söguna frá dögum Platóns til dagsins í dag sjáum við að þetta mynstur hefur endurtekið sig aftur og aftur, og er reyndar að raungerast í dag, enn einu sinni.

Þetta gerist aftur og aftur, ekki aðeins vegna þess að einstaklingarnir eru útsmognir og valdgráðugir, heldur líka vegna þess að lýðræðið getur sjálft verið viðkvæmt fyrir misnotkun ef það er ekki varið með sterkum stofnunum og samfélagsvitund.

Þessi hegðun er alls ekki ný af nálinni, heldur hefur hún viðgengist frá örófi alda, og er í raun ástæða þess að lýðræðishugmyndin varð til og henni beitt, til þess að kveða niður þessa „sterku’ einstaklinga sem vilja allt eftir þeirra eigin höfði. Og það sem hefur gerst þegar þessir einstaklingar komast til valda, að þeir valda oft gríðarlegum skaða áður en þeir enda á spjöldum sögunnar sem dæmi sem ber að forðast.

Málið er að illmenni eiga mun auðveldara með að komast til valda heldur en góðmenni, einfaldlega vegna þess að þessi illmenni eiga svo auðvelt með að höfða til einfaldra tilfinninga og vekja hatur og reiði meðal fólks, út af einhverju, nánast sama hverju, á meðan góðmenni myndu reyna að efla skilning fólks á því sama.

Friedrich Nietzsche hélt því fram að viljinn til valda væri grunnþáttur í mannlegu eðli. Hann taldi að sumir gætu beint þessum vilja í skapandi áttir, til vísinda, lista eða fræða, en aðrir myndu nota hann til að kúga aðra. Af þessu leiðir að vald verður aldrei sjálfkrafa jákvætt eða neikvætt, heldur ræðst það af því hvernig samfélagið setur því skorður. Þetta þýðir að við ættum ekki að vera hissa þegar valdagráðugir einstaklingar komast til valda – spurningin er frekar hvernig við getum stjórnað þessum vilja svo hann verði samfélaginu til góðs fremur en ills.

Það er eins og fjöldinn hafi meiri áhuga á átökum en friði, á því illa heldur en því góða, á hörðum dómum frekar en visku. En ég held að það sé tímabundið ástand, einhvers konar múgsefjun, brjálæði eða sturlun. Þegar allt er í óefni komið, þá áttar fólk sig á endanum á eigin mistökum og gjörðum, áttar sig á eyðileggingunni sem hefur átt sér stað og vill hana ekki lengur, snýst gegn hatrinu og byrjar af einlægni að berjast fyrir betri heimi.

Sigmund Freud hélt því fram að í stórum hópum missa einstaklingar hluta af sjálfstæðri dómgreind sinni og verða móttækilegri fyrir sterkum tilfinningalegum skilaboðum. Þetta getur útskýrt af hverju harðstjórar ná oft völdum þegar samfélög eru í óvissu eða ótta, ekki vegna þess að fólk sé illt, heldur vegna þess að múgsefjun getur dregið úr skynsemi einstaklinganna. Í stað þess að vega og meta, fylgja þeir þeim sem virðast sterkir og öruggir, jafnvel þótt það leiði þá á verri stað.

Og þá verður það einstaklingurinn sem kemst til valda og hefur dreift hatri og illsku allt í kringum sig sem verður að þeim sem fær að þjást, sú manneskja fær að kenna fyrir því, því varla getur allt samfélagið upprætt sjálft sig öðruvísi.

Nú eru áratugir liðnir frá síðustu heimsstyrjöld, en mannkynið virðist ófært um að læra af fortíðinni. Sömu hneigðir til valdagræðgi og múgsefjunar sjást enn, og merki um ógnir við lýðræði og mannréttindi eru eins áberandi í samtímanum og fyrir öld síðan.

Kostnaðurinn við að gefa röngum einstaklingum völd er mældur í þjáningum og hörmungum. Í hvert sinn sem eftirlifendur lofa að koma í veg fyrir harmleiki fortíðar, virðist mannkynið samt bregðast því loforði. Sagan er dæmd til að endurtaka sig, ekki bara í fjarlægri framtíð, heldur strax á meðan við lifum, því friður er aldrei sjálfgefinn. Því það er skrímsli ekkert endilega undir rúminu, heldur ofan á því, þar sem við erum ekki að leita.

Ég trúi því að þrátt fyrir þessa hringrás harmleikja sé enn von. Þó svo að mannkynið virðist endurtaka mistök sín, þá býr í okkur einnig þörf og viska fyrir réttlæti og leit að sannleikanum.

Spurningin sem við þurfum að spyrja okkur er ekki aðeins af hverju við gefum þessum einstaklingum völd, heldur hvernig við getum hindrað þá í að misnota þau. Við verðum að gera meira en að horfa á söguna sem óhjákvæmilega endurtekningu. Við þurfum að læra af henni og spyrja okkur: Hvernig stöndum við gegn múgsefjun? Hvernig kennum við næstu kynslóð að greina lýðskrum frá raunverulegri forystu? Það er aðeins með menntun, sterkum stofnunum og borgaralegri þátttöku sem við getum brotið þetta mynstur og tryggt að sagan endurtaki sig ekki aftur.

Það krefst menntunar, virkrar þátttöku og skýrra siðferðisviðmiða. Það krefst þess að við séum meðvituð um hvernig stjórnmál, fjölmiðlar og samfélagslegar aðstæður búa til skilyrði fyrir valdníðslu. Við verðum að spyrja okkur: Hvernig er hægt að koma í veg fyrir að múgsefjun og tilfinningasemi leiði til þess að við veitum röngum einstaklingum of mikil völd?

Lærdómurinn frá fyrri kynslóðum er að enginn verður einráður án samþykkis fjöldans. Hver þjóð hefur val, þótt valið virðist stundum þvingað. En með sameiginlegri ábyrgð og skýrri hugsun getum við mótað samfélög þar sem réttlæti og viska, frekar en ótti og heift, verða ráðandi öfl.

Það er ekki auðvelt, en það er mögulegt. Og í því felst sú von sem við megum ekki missa úr höndum okkar. En spurningin er: Hvenær munum við loksins taka af skarið og tryggja að sagan endurtaki sig ekki á okkar vakt?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband