Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2024

Um líkama og sál - Í tilefni áttræðisafmælis föður míns, Baldurs S. Baldurssonar

Ef við skoðum himinhvolfin og áttum okkur á að jafnvel plánetan sem við búum á er ósýnileg þegar kemur að alheiminum, hvað er þá ein manneskja? Jafnvel minni en sandkorn á strönd í víðasta samhengi, en samt, ef við nálgumst jörðina og síðan mannkynið og síðan eina manneskju, jafnvel ársgamalt barna sem hefur nýlega lært að ganga, þá finnum við svo mikið, jafnvel í einu augntilliti eða einu brosi.

Þó að heimurinn sé svona víðfeðmur, og það sé svo mikið efni í honum og innihald að við náum aldrei nokkurn tíma að kynnast því öllu, þá er það ekki heimurinn sem skilgreinir hvað við erum, kjarna okkar. Líkaminn er efnislegi hluti okkar, en síðan höfum við andlega hlið, og það er í þessari andlegu hlið sem við finnum djúp gildi.

Það er þar sem við finnum manneskjuna og skilgreinum hana, það er þar sem við finnum ástina og kærleikann, hugrekkið og réttvísina, gjafmildina og auðmýktina, öll þessi gildi sem gera okkur að betri manneskjum, og ekkert endilega í þeim skilningi að við séum að sigra heiminn eða samkeppni við annað fólk, heldur í þeim skilningi að einbeiting á þessi gildi og þær dyggðir sem tengjast þeim, eru það sem hjálpar okkur að skapa tilgang í lífinu.

Því ef við horfum út í kaldann himingeiminn og komumst að þeirri niðurstöðu að þetta sé allt svo tilgangslaust því heimurinn er svo stór, eða á allar þær fréttir um þá alvarlegu og sorglegu atburði sem eiga sér stöðugt stað um víða veröld, þá erum við að horfa á heiminn út frá sjónarhorni sem tæmir sál okkar. 

En ef við horfum á heiminn út frá því kraftaverki sem hvert og eitt okkar er, öllum þeim hugsunum og tilfinningum og gildum sem við búum yfir og hvernig við tengjumst öðru fólki, þá höfum við kannski þrengt sjónarhornið, en það er fyllandi og safaríkt, gerir okkur glöð og sátt með lífið og tilveruna.

Þrátt fyrir að líkaminn sé áþreifanlegur og skynjanlegur, þá er það sálin sem veitir okkur þann tilgang sem við leitum að í lífinu. Þessi andlegi þáttur, sem oft er ósýnilegur og óskiljanlegur í hinum efnislega heimi, er í raun það sem gefur lífi okkar merkingu. Þegar við horfum út í alheiminn, getum við auðveldlega gleymt eigin litlu tilveru í stærðinni. En það er ekki stærðin eða umfangið sem skiptir máli; það er sú merking sem við finnum í okkar innra lífi, í tengslum okkar við aðra og í þeim gildum sem við veljum að lifa eftir.

Við getum ekki leyft að efnisheimurinn yfirgnæfi þá andlegu dýpt sem býr innra með okkur. Það er þessi andlega dýpt sem gerir okkur að því sem við erum,, sem gefur okkur getu til að elska, fyrirgefa og skapa. Við megum aldrei láta heiminn segja okkur að við séum minna virði en það sem býr innra með okkur. Í staðinn verðum við að líta inn á við, finna þann kjarna sem fær okkur til að þrífast, og leyfa honum að leiða okkur í gegnum lífið með von og tilgangi.

Þegar við veltum fyrir okkur því hvort sálin sé kjarni hverrar manneskju, eða hvort líkaminn eigi þann heiður, stöndum við frammi fyrir spurningu sem hefur angrað heimspekinga í árþúsundir. En ef við nálgumst spurninguna af innsæi og gagnrýnni hugsun sjáum við fljótt að við erum ekki bara samansafn efnislegra þátta. Við erum meira en líkaminn, meira en sú efnismassavél sem hreyfist í gegnum lífið.

Heimspekingurinn Descartes, sá frægi tvíhyggjumaður, var sannfærður um að líkaminn og sálin væru tvær sjálfstæðar einingar. Hann sagði: „Cogito, ergo sum“, eða „Ég hugsa, þess vegna er ég til“, sem undirstrikar að það er hugurinn eða andinn sem gefur okkur meðvitund og tilveru, ekki bara efnisleg tilvist. Á hinn bóginn, telja vísindalegir efnishyggjumenn að hugsanir okkar séu aðeins afleiðingar efnislegra ferla í heilanum, og að við þurfum ekki andlega vídd til að útskýra vitund okkar, að það sé ekkert annað en sjálfsblekking að telja eitthvað andlegt vera raunverulegt.

Þetta kallar á gagnrýna hugsun. Er það satt að allt sé hægt að útskýra með vísindum og efnishyggju, eða er eitthvað meira til í þessum heimi, eitthvað sem vísindin geta ekki mælt? Hvað með alla þá reynslu – fegurð, kærleika, hugrekki, hugleiðingar – hvernig getum við skilið þær ef við nálgumst heiminn aðeins með efnislegri nálgun?

Heimspekin gefur okkur engar einhlítar niðurstöður. Hið tvíþætta eðli mannsins, líkami og sál, þarf samhljóm. Þó að við getum ekki útskýrt hið andlega út frá hinu efnislega, þá felst styrkur okkar í því að samþætta þessi svið, ekki aðskilja þau. Því þó að við skilgreinum þau og notum tvö heiti, má vel vera að líkami og sál séu hluti af órjúfanlegri heild, jafnvel enn stærri og mögulega enn minni heild en við gerum okkur grein fyrir.

Það er ekki spurning um að vanrækja líkamann eða sálina, heldur um að viðurkenna að hvort tveggja hefur mikilvægt og samofið hlutverk í tilveru okkar.

Ef við einblínum of mikið á hina efnislegu hlið, getum við gleymt að meta virði þess sem gerir okkur mannleg. Ef við setjum sálina ofar öllu öðru, er okkur hætt til að hunsa þá reynslu sem líkaminn veitir okkur. En þegar við náum jafnvægi – þar sem líkaminn þjónar sálinni, og sálin veitti líkamlegri tilveru okkar tilgang – þá náum við mögulega að lifa merkingarbæru og áhugaverðu lífi.

Ef okkur tekst að lifa þessu stutta og litla sandkornslífi okkar með hugrekki, kærleika og visku, hver þarf þá að komast upp úr sandkassanum?


Hrós til þjónustuborðs Costco

Fór á þjónustuborðið í Costco. Þar tók kona á móti mér af erlendum uppruna. Eins og alltaf byrjaði ég með að segja frá erindi mínu á íslensku. Hún svaraði, svolítið hikandi og bjagað: “Er þér sama að ég tala íslensku?”
 
Auðvitað var ég meira en sáttur við það.
 
Þessi starfsmaður fær hrós fyrir að sýna áhuga og vilja til að tala íslensku.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband