Bloggfærslur mánaðarins, desember 2023

Hreinskilni í orðavali: hvernig orðin skapa heimsmynd okkar

DALL·E 2023-12-07 09.55.14 - A grand and realistic image of a cowboy in a setting that reflects the importance of honesty and clear communication. The cowboy is engaging in a dial

Ímyndaðu þér ef þú kallaðir kött hund, og hund mús, og mús rottu. Hvað myndi gerast? Myndir þú rugla sjálfan þig í rýminu og kannski í leiðinni byrja að rugla aðra í rýminu? Segjum að þú kallaðir gulan rauðan og rauðan bláan og bláan grænan. Fljótlega færi allt í hnút, sérstaklega ef þú reyndir að ræða dýr og liti við annað fólk.

Það að nota réttu nöfnin yfir hlutina er eins og að vera hreinskilinn á eigin tungumáli, það snýst um að blekkja hvorki aðra né sjálfan sig. Ímyndaðu þér að einhver leggi aðra manneskju í einelti, og síðan þegar hún er ásökuð fyrir það, stígur eitt skref til baka og segir afsakandi: “djók!” Væri sú manneskja að kalla hlutina réttu nafni? Væri hún að beita öðru nafni til að rugla nærstadda í rýminu, varpa smá vafa á hlutina til að hún geti hugsanlega sloppið? Mögulega.

Þegar við höfum samskipti við annað fólk eru nákvæmni í orðavali og hreinskilni algjörlega nauðsynleg. Það er nefnilega vandasamara en margur heldur að geta rætt málin þrátt fyrir að allar forsendur séu á hreinu. Það er hægt að misheyrast og misskilja, þó að fólk geri sitt besta til að ræða saman af skynsemi. Það krefst þjálfunar og aga að ræða vel saman, sem felur í sér að hlusta á orð hinnar manneskjunnar og velja rétt eigin orð, og tengja síðan saman í það sem við viljum segja, hugsanir okkar, og í eðlilegu samhengi við samræðuna.

Þegar við veljum réttu orðin þá erum við að byggja forsendur fyrir góðri ákvarðanatöku og trausti. Þetta tryggir að við erum að ræða það sem við í raun og veru viljum ræða.

Fyrir manneskju sem vill rækta eigin hug, nálgast þekkingu og visku, og velta fyrir sér hugmyndum sem ná þúsundir ár aftur í tímann, þarf hún að þjálfa sig í að sjá hugmyndirnar skýrt fyrir sér og af heilindum. Hún þarf kannski að átta sig á því að orð yfir sömu hlutina breytast stundum, út frá samhengi orðræðunnar, og jafnvel út frá hefðum ólíkra menningarheima. Með því að greina og skilja forna og nýja texta, þjálfum við okkur í að hugsa rökrétt, en besta þjálfunin er samt þegar við beitum þessum orðum með okkar eigin hætti.

Það að velja réttu orðin er tengt því að sjá hlutina skýrt og greinilega, hreinskilni, skilningi og góðum samskiptum. 

Því miður gætir stundum að óvarkáru orðavali í daglegu tali, og þá þurfum við að vera á varðbergi, og gæta þess að kalla hlutina réttum nöfnum. Til dæmis þegar við sjáum einhvern beita mikilli hörku er betra að gagnrýna það sem manneskjan gerði fyrir að beita of mikilli hörku frekar en að kalla viðkomandi “fasista”, því slíkt orð er merkingarhlaðið og getur þýtt ólíka hluti fyrir ólíkt fólk. Það er nógu slæmt að beita of mikilli hörku, og það að bæta hugtaki eins og ‘fasisti’ við mun aðeins gera eitt, ýfa upp ófyrirsjáanlegar tilfinningar og reiði.

Það er nákvæmlega þetta sem gerist þegar við köllum hlutina ekki réttu nöfnunum, það verður til þess að umræðan fer í rugl og fólk verður ringlað, í stað þess að halda sig við staðreyndir og átta sig á hlutunum.

 


Hvernig verður siðferði okkar til?

DALL·E 2023-12-06 11.29.40 - A grand and realistic image of a cowboy in a setting that reflects a cosmic balance. The cowboy is surrounded by diverse elements representing family,

Við ákveðum öll að lifa lífinu einhvern veginn, og við ákveðum að lifa því á ólíkan hátt. Sum okkar viljum við hlíða fornum hefðum, sumir vilja lifa lífinu eins og þeim sýnist, og sumir vilja fylgja ákveðnum leiðum sem þeim finnst skynsamleg.

Sumar fjölskyldur halda alltaf hátíðleg jól, og sumum stendur nokkurn veginn á sama um jólin. Sumar fjölskyldur fara reglulega í kirkju og eru trúrækin, en aðrar fjölskyldur spá ekkert í trúnni. Sumar fjölskyldur leggja mikið upp úr námi, aðrar upp úr vinnu, og sumum stendur nokkurn veginn á sama um nám og vinnu. Sumar fjölskyldur eru brotnar og hver einstaklingur þarf að sjá um sig.

Fjölskyldan hefur gríðarleg áhrif á hvernig manneskjur við verðum, því fjölskyldan býr til rútínur í kringum okkur, og þessar rútínur hjálpa okkur að tengjast öðru fólki í samfélaginu. Ef fjölskyldan hefur gríðarlegan áhuga á knattspyrnu og fylgir ákveðnu knattspyrnuliði, er alls ekki ólíklegt að meðlimir fjölskyldunnar tengist öðrum fjölskyldum með sams konar áhuga.

Það er fleira en bara fjölskyldan sem hefur áhrif á hvernig manneskjur við verðum. En fjölskyldan gefur flestum okkur rútínur sem við notum til að átta okkur á lífinu og tilverunni. Þessar rútínur geta falist í venjum, við hermum eftir þeim sem við virðum mest, við lærum nýja hluti á þeim félagsskap sem við erum í, við erum líklegri til að eignast vini og kunningja sem eru í einhverju samræmi við þær rútínur sem við höfum lært í okkar eigin fjölskyldu, og sum okkar styrkjast á ákveðnum sviðum ef okkur er hrósað, og forðast hluti sem er refsað fyrir. Eftir því sem við vöxum úr grasi förum við að velta fyrir okkur orðspori okkar, lögum samfélagsins, lesum alls konar bækur, förum í alls konar nám, og þannig þróumst við út fyrir þann ramma sem fjölskyldan gaf okkur.

Í einu menningarsamfélagi erum við allskonar. Síðan þegar við breytumst í fjölmenningarsamfélag aukast víddirnar. Siðferði okkar mótast á svo marga vegu, og við þurfum að gæta að öllum þessum áhrifum, ekki gagnvart öðru fólki, heldur gagnvart okkur sjálfum, því þó að oft lærum við ýmislegt gáfulegt og viturlegt frá fjölskyldum okkar, þá geta fordómar og fáfræði verið hluti af þeim upplýsingum sem við meðtökum.

Eftir því sem við áttum okkur betur á margbreytileikanum og öllum þeim upplýsingagjöfum sem til eru í kringum okkur, og leyfum okkur að hlusta með opnum en gagnrýnum hug, leyfum okkur að skoða gaumgæfilega okkar eigin hugmyndir, hvaðan þær komu og hvort þær eigi endilega við þar sem við höldum að þær eigi við, getum við þroskast og dafnað í mannveru sem er ekki einsleit í skoðunum sínum, heldur víðsýn og djúp, og mögulega vitur.

 


Allt það litla sem við gerum telur: hvernig við breytum heiminum

DALL·E 2023-12-05 10.37.34 - A grand, detailed image of a cowboy in a vivid western setting, embodying themes of kindness, fairness, and positive community influence. The cowboy i

Við getum ekki ákveðið hvernig aðrir koma fram við okkur, en við getum ákveðið hvernig við sjálf komum fram við annað fólk. Að velja það að hegða okkur í samræmi við það hvernig við skiljum hið góða og réttlætið, tryggir að við vinnum ekki öðrum skaða, að við myndum góð sambönd frekar en stuðlum að því að slíta þeim. Við þurfum reyndar að læra þá lexíu að þegar aðrir koma illa fram við okkur, þá er það eina sem við getum gert er að forðast þessa sömu manneskju í framtíðinni, og vinna frekar að því að gera skemmtilega hluti með þeim sem deila sömu gildum.

Þannig verða sum sambönd stöðugt traustari, og önnur rofna. Þegar við sjálf högum okkur í samræmi við heilindi og sanngirni getur það haft áhrif ekki aðeins á okkar nánustu ættingja og vini, heldur getur slík hegðun haft góð áhrif á þetta fólk og þannig haft áhrif á fólkið sem þau umgangast.

Við þurfum stundum að spyrja okkur, hvernig heim viljum við búa til fyrir sjálf okkur og okkar nánustu? Eigum við að forðast illkvittni og sprell sem særir, eða gerir slík hegðun eitthvað gagn, eða ættum við að sýna fólkinu í kringum okkur nærgætni og hlýju? 

Hvernig getum við fundið jafnvægi þannig að nærgætni og hlýja kaffæri fólk ekki í einhvers konar væmnibómul? Má ekki hafa húmor og grínast? Hvernig getum við lifað lífinu skemmtilega ef við þurfum alltaf að velta fyrir okkur að særa ekki einhvern? Allt eru þetta spurningar sem ekkert eitt svar er til við, en snýst að samvisku og sköpunargáfu okkar allra.

Vandasamt getur verið að vera ungur foreldri því allt sem við gerum í því hlutverki er litið lotningaraugum af þeim börnum sem við berum ábyrgð á. Börnin læra eigin hegðun á okkar hegðun. Ef við stríðum okkar börnum, þá munu þau stríða öðrum. Ef við sýnum þeim sanngirni, munu þau sýna öðrum sanngirni. Ef við refsum þeim með einhverjum hætti, þá munu þau refsa öðrum með einhverjum hætti. Ef við erum rausnarleg gagnvart þeim, verða þau rausnarleg gagnvart öðrum. Ef við hunsum börn okkar munu þau hunsa aðra með einhverjum hætti. Öll okkar hegðun við börn okkar munu endurspeglast inn í samfélagið.


Trú og aðdáun - pælingar um hvernig við erum

DALL·E 2023-12-04 10.07.48 - A mystical and philosophical scene with a cowboy playing soccer in a realistic manner on a grassy field in a surreal landscape that merges the wild we

Segjum að þú hafir áhuga á einhverju eins og skák eða fótbolta. Þá er ekkert eðlilegra en að ganga í skákfélag eða íþróttafélag ef þig langar til að keppa, og ef þig langar ekki til að keppa, finna þér annaðhvort einhvern skákmann eða fótboltafélag til að halda með. Og þegar þú hefur fundið einhvern til að fylgjast með, áttarðu þig fljótt á að fleiri hafa áhuga og halda með þessum einstaklingi eða félagi. Þá gætirðu jafnvel gengið í aðdáendafélag eða keypt vörur til að merkja þig með mynd af þessum skákmanni eða íþróttafélagi. 

Reyndar er afar algengt að aðdáendur liða eins og Liverpool, Manchester United og Arsenal klæði sig upp um víða veröld til að sýna bæði hver öðrum stuðning og skilning, auka þess að styðja við sitt félag eða skákmann. Reyndar er afar sjaldgæft að skákmenn fái jafn sterka aðdáendur en fótboltamenn, en látum það liggja milli hluta.

Það væri nú alveg hægt að vera aðdáandi án þess að sýna þig eða ganga í klúbb, en það væri bara annars konar. Það gæti nefnilega verið mjög skemmtilegt að umgangast fólk sem hefur svipuð áhugamál, auðveldara að skapa skemmtilega stemningu, og svo af sönnum áhuga skoða hvað liðið eða einstaklingurinn hefur verið að gera, fara jafnvel á leiki og spá fyrir um gengið.

Rétt eins og maður getur verið einn að fylgjast með þessu einhvers staðar frá, má segja það sama um trúarbrögð. Ef maður trúir á einhvern einn ákveðinn Guð eða marga ólíka guði, þá er ekkert eðlilegra en að fólk safni sér saman og ræði þessi mál, spái í sögunni og hvað er í gangi, hvernig áhrif þessi trú hefur á fólkið og samfélagið, og jafnvel hvort það væri þess virði að dreifa þessum boðskap víðar.

Sumir verða svo ákafir í sinni trú, rétt eins og sumir íþróttamenn, að þeir fara að trúa því að þeir sem eru í ólíkum hópum séu andstæðingar þeirra. Það þarf samt alls ekki að vera. En stundum er það rétt.

Munurinn á trúarbrögðum og aðdáandaklúbbum fyrir íþróttafélög er sá að þeir sem trúa vilja gera samfélaginu og öðru fólki gagn, það sér áhrifin sem þessi trú hefur haft á það sjálft, og vill sjá þessi áhrif birtast í öðrum einstaklingum. Þannig verða jafnvel til trúarbragðaskólar sem reyna að innræta fólki trúna frá barnæsku. Stundum heppnast það og er það bara allt í lagi, en stundum heppnast það alls ekki, og þá upplifa einstaklingarnir að þeir þurfi að lifa eftir einhverju lífsmynstri sem hentar þeim ekki. Það getur reynst afar sorglegt.

Málið er að hugtök eins og hið góða og dyggðin er eitthvað sem við þurfum að vinna með sjálf. Við áttum okkur smám saman á hvað er gott í lífinu, sumir þurfa að fá einhverja aðstoð við það, en það að vinna góða vinnu hjálpar okkur að átta okkur á dyggðunum, á þeim styrkleikum sem gagnast að þroska til að gera sjálf okkur að betri, ekki bara starfsfólki, heldur líka manneskjum. 

Fyrir manneskju sem starfar á skóla getur stundvísi verið mikilvæg dyggð, á meðan að einhver sem vinnur við að prjóna getur nákvæmni verið meiri dyggð, og fyrir smið getur útsjónarsemin verið nokkuð sem þarf að þjálfa sem dyggð. Það góða fyrir kennarann er að skipuleggja og framkvæma góða kennslu, fyrir þá sem prjónar að prjóna til dæmis fallega peysu, og fyrir smiðinn að smíða traustan skáp.

Það að finna hið góða í manni sjálfum og dyggðirnar sem duga í mannlífinu sem slíku getur verið vandasamt, því hver veit hvenær manni hefur tekist að gera sjálfan sig að góðri manneskju, er það þegar manni tekst að haga sér stöðugt vel, er það þegar manni tekst að hugsa vel, eða er það þegar manni tekst að láta sér líða vel, er það þegar okkur hefur tekist að ná markmiðum okkar? Og hvað þarf að gera og styrkja til að takast allt þetta?

 


Trúarbrögð sem stofnanir: meira en bara trú

DALL·E 2023-12-03 09.06.14 - A thoughtful cowboy in a mystical setting, representing the exploration of religions as institutions. The cowboy, symbolizing the inquisitive human sp

"Trúarbrögð eru einstaklega félagsleg fyrirbæri. Trúarleg framsetning er sameiginleg framsetning sem tjáir sameiginlegan veruleika." (Durkheim. 1912. The Elementary Forms of Religious Life.”

Í gær setti ég fram í spurningu þá staðhæfingu að trúarbrögð hafi verið stofnuð af manneskjum. Ástæða mín er einföld. Ég tel allar stofnanir hafa verið stofnaðar og að öll trúarbrögð séu stofnanir.

Stofnanir hafa skipulag og stöður, gildi og starfsemi, samfélagsleg og menningarleg áhrif, menntun og miðlun, sögu og langtímastefnu, auk þess að þær eru færanlegar frá landi til lands og eiga við um ólík menningarsvæði. Þetta tel ég allt eiga við um trúarbrögð.

Þau eru kannski misjafnlega vel útfærð og traust. Sum eru með markaðvél á bakvið sig eins og Coca Cola eða Pepsi fyrirtæki, sem hafa dýpri samfélagslegri áhrif en margan grunar, en mörg þeirra eru meira eins og alls konar Cola framleiðendur sem ná ekki mikilli landfestu um víða veröld. Sterkustu trúarbrögðin eru eingyðis, en flest trúarbrögð um víða veröld eru fjölgyðis - það er hægt að velta fyrir sér af hverju það er, hvort það sé vegna þess að sterkara sé að einbeita sér að einhverju einu í einu heldur en mörgu, er eitthvað sem má velta fyrir sér. 

En já, trúarbrögð eru stofnanir sem hafa verið stofnaðar af manneskjum. Þau innihalda starfsfólk og stjórnendur, alls konar ferla, þjóna samfélaginu, mennta og deila og upplýsingum og reyna að breiða sér út um allt. Hlutverk trúarbragða er að vinna með siðferðisvitund fólks, þannig að það hagi sér almennilega. Það gengur misjafnlega vel, rétt eins og að sumir Cola drykkir eru hræðilegir en aðrir ánetjandi og sívinsælir.

Trúarbrögð þurfa fjármagn og byggingar til að eiga sér samanstað, byggð hafa verið fjöldinn allur af klaustrum, kirkjum, hofum, musterum og alls konar slíkum byggingum, sem reynst hafa afar góð áminning um tilvist þeirra. Kannski er það þess vegna sem reynt er að byggja þessar byggingar háar og áberandi, og maður veltir fyrir sér ef einhverjar aðrar byggingar verða hærri, til dæmis bankar eða fyrirtæki, verða slíkar stofnanir þá áhrifameiri í samfélaginu? 

Já, trúarbrögð eru stofnanir sem reyna að kenna ákveðið siðferði í samfélaginu.

 


Hlutverk trúarbragða: að varðveita þekkingu og visku fyrri kynslóða?

DALL·E 2023-12-02 21.08.36 - A mystical and philosophical setting featuring a cowboy as the main protagonist, interacting with a dragon. The scene symbolizes the ancient wisdom an

Nú vil ég aðeins velta fyrir mér hvernig við ekki aðeins komum uppgötvunum okkar til skila, ekki aðeins til einstaklinga heldur til mikils fjölda, og ekki aðeins til mikils fjölda heldur helst til allra, og ekki aðeins allra sem eru á lífi, heldur einnig komandi kynslóða.

Við varðveitum upplýsingar frá kynslóð til kynslóðar í bókum, en vandinn er að ekki allir hafa áhuga eða nennu til að lesa bækur frá fyrri kynslóðum. Því þarf eitthvað öflugra tæki en bara bókasöfn. Skólar hafa verið stofnaðir til að fræða fólk um upplýsingar sem varðveist hafa, en í ljós hefur komið að yfirfærsla upplýsinga og þekkingaröflun er ekki sami hluturinn, nemandinn þarf nefnilega að vera námsfús, og hafa áhuga á að læra, og það sem meira er, hann þarf sjálfsagt líka að lesa þessi rit frá fyrri kynslóðum. Þetta krefst heilmikillar vinnu.

Hugsanlega af þessari ástæðu hefur upplýsingum verið pakkað niður og þeim komið fyrir á auðskiljanlegan hátt með því að setja upp trúarbrögð, þar sem aðeins fáir útvaldir afla sér þekkingu frá fyrri kynslóðum og vinna síðan stöðugt við að dreifa boðskapnum til annarra. Þetta fólk fær stöður sem munkar, prestar, djáknar og alls konar. Þessi aðferð virkar að einhverju leyti, þannig að upplýsingum er haldið við og einhverjir viðhalda þekkingu sinni.

Síðan virðist það gerast einhvern tíma í einhverjum kynslóðaskiptum að upphaflegar upplýsingar festast sem einhvers konar kreddur og taka ekki nýjar upplýsingar með í reikninginn. Þannig staðna trúarbrögðin og upp kemur spenna á milli þeirra sem vilja halda í gömlu viskuna og þeirra sem sjá að eitthvað meira getur verið í pottinn búið. 

En megin ástæðan fyrir stofnun trúarbragða virðist vera að varðveita þá visku sem virkar til að viðhalda góðu samfélagi gangandi, en vandinn er sá að það er ekki jafn auðvelt og virðist að yfirfæra visku, hvorki frá manneskju til manneskju, né frá kynslóð til kynslóðar. 

Þetta getur þýtt að fólk myndar sér skoðanir á þessum upplýsingum sem er á skjön við hina upprunalegu visku sem átti að varðveita, og ekki nóg með það, sumir sem festa sér slíkar skoðanir eru tilbúnir að verja þær með öllu sínu afli, án þess þó að átta sig á að þeir hafa villst af leið.

 


Leitin að heiðarleika og hreinskilni

DALL·E 2023-12-01 08.13.24 - A cosmic landscape featuring a cowboy as the main protagonist, facing dragons and mythical creatures. The scene symbolizes the author's inner battles

Sem barn og unglingur stóð ég sjálfan mig að því að vera manneskja sem ég vildi ekki verða. Þá laug, blekkti ég og sveik fólk. Til allrar hamingju áttaði ég mig á að þessi hegðun hafði slæm áhrif á þá sem urðu fyrir þessari hegðun, og það sem meira var, minn eigin hugur varð skakkur þannig að ég gat ekki hugsað rökrétt. Ég hafði trú á að fylgja eigin tilfinningum, en það leiddi mig aðeins í hegðun sem ekki reyndist eftirsóknarverð. 

Þegar ég hafði áttað mig á þessu ákvað ég að breyta hegðun minni, og ég reyndi að finna fólk til að ræða við um þessar innri pælingar sem ég átti með sjálfum mér, en fann ekki mikið af manneskjum sem höfðu áhuga á slíkum málum. Þannig að ég átti helst samræður með sjálfum mér þegar ég fór í langa sturtu hvern einasta morgun. Ég las mikið, aðallega skáldsögur og teiknimyndasögur og fann fyrirmyndir í þeim sögum, og fann einnig góðar fyrirmyndir í fjölskyldu minni.

En það var samt ekki fyrr en ég rakst á bókina ‘Hver er sinnar gæfu smiður’ eftir Epíktet, að ég sá í fyrsta skipti heimspekibók sem tók á þessum hugmyndum sem ég hafði verið að pæla í, og las hana fljótt upp til agna. Það leið ekki á löngu áður en ég slysaðist í heimspekikúrs í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, þar sem Gunnar Hersveinn Sigursteinsson sýni okkur merkingu, sögu og tilgang heimspekinnar, og benti okkur á bókina ‘Síðustu dagar Sókratesar’, að ég áttaði mig betur á hvað ég þurfti að gera við mína eigin sál. 

Á kvöldin eftir skóla og um helgar vann ég á bensínstöð í Suðurfelli og hafði bókina með mér. Ég las hana ekki bara einu sinni, heldur margoft. Ég skildi Sókrates svo vel, mér fannst hugsanir hans svo tengdar inn í mínar, og sérstaklega þegar hann ræddi um að hið órannsakað líf væri ekki vert þess að lifa því og hvernig flestir þóttust vita eitthvað sem þeir vissu ekki, og hann væri aðeins vitrari sjálfur vegna þess að hann þóttist ekki vita neitt. 

Þetta gekk svo langt að þegar ég sótti um háskóla fékk ég bæði inn í verkfræði og heimspeki, en ég fann að heimspekin snerti mig djúpt og að hún var eitthvað sem ég þurfti inn á við, á meðan verkfræðin væri tæknilegri og vísaði út á við. Ég valdi heimspekina og hef ekki séð eftir því. 

Síðan þá hef ég fengið tækifæri til að kynnast einstaklingum sem hugsa með þessum hætti, leita inn á við og velta fyrir sér heiminum, rökunum, þekkingunni, siðferðinu, fegurðinni, og öllu því sem gefur lífinu djúp gildi, án þess að byrja með einhverri skáldaðri forsendu annarri en þeirri að við getum treyst rökhugsuninni og reynslu okkar að einhverju leyti.

En rökfræðin kenndi mér hversu flókið það getur verið að hugsa skýra hugsun til enda, og hvernig lygar, blekkingar og þá einnig svik, geta varpað skýrri hugsun fyrir borð á þessu skipi sem gott hugarfar getur verið. Þegar ég skyldi þetta af dýpt, ákvað ég að leita eftir innri hegðun sem væri í samræmi við þetta. 

Kannski er það sjálfsagður hlutur fyrir fullt af fólki að segja alltaf satt, vísa veginn og byggja traust, en það var ekki sjálfsagður hlutur fyrir mig; en þetta varð leiðin eftir að ég áttaði mig betur á hlutunum og því hvernig manneskja ég vildi vera. Ég ákvað að láta minn eigin góða vilja gagnvart öðrum og sjálfum mér ráða för, og þrátt fyrir þetta, og stöðugt nám, hef ég fundið fullt af hindrunum í veginum, bæði sem koma að innan og að utan. 

Það tók mig mörg ár að finna góðan leiðarvísi gegnum þennan ólgusjó lífsins, áttavita sem virkaði, en það var þegar ég fór að rannsaka stóuspekina betur og dyggðirnar; og áttaði mig á að dyggðirnar voru ekki einhver kenning sem hömruð var inn í hausinn á fólki, heldur verkfærakista sem hægt var að nota til að byggja upp eigið líf. 

Hægt var að velja þær dyggðir sem manni þóknaðist sjálfur og byggja líf sitt í kringum þær, dyggðir eins og hreinskilni, heiðarleika og leit að visku. Svo fór ég að átta mig á því hvernig ólík samfélög byggðu á dyggðum, og tengdu þær í þau gæði sem þau mátu mest, og þannig urðu trúarbrögð og trúarsamfélög til. Þau eru byggð á gildum og dyggðum, en í stað þess að hver einstaklingur uppgötvi og velji gildin og dyggðirnar út frá eigin rannsóknum, þá er búið að pakka þeim inn í gjöf sem börn fá aðgang að frá fæðingu og þiggja svo endanlega um fermingu.

Ég fékk slíkan pakka og er þakklátur fyrir hann, en ég get líka séð hvernig hann var byggður upp og hvernig hann hefur haft áhrif á hvernig við lifum lífinu. Mér verður stundum hugsað til hvernig lífið væri á Íslandi í dag ef við hefðum haldið uppi sem æðsta gildinu, heiðrinum, í stað fyrirgefningarinnar sem kom með kristninni; og hef velt fyrir mér hvort við séum nógu sjálfstæð og spök til að byggja kerfi sem meðtekur ólík gildi og forgangsröðun á dyggðum en við eigum að venjast, sem þýðir þá að við tökum sem gild bæði öll möguleg trúarbrögð og þá sjálfstæðu leit einstaklinga sem fram fer utan trúarbragðanna.

En ég hef mínar efasemdir, því ég sé leiðtoga í stjórnmálum ljúga, blekkja og svíkja, standa gegn eigin loforðum í stað þess að standa við þau. Í heimspekinni og rökfræðinni lærum við nefnilega að greina hvenær verið er að segja satt samkvæmt ströngum reglum rökfræðinnar og hvenær er verið að segja ósatt með mælskulist og rökvillum, og því miður er gríðarlega mikið af orðræðu sem fer á hrakhóla vegna þess að fólk er að berjast fyrir einhverjum einkahagsmunum, skammtímasjónarmiðum og fordómum. 

Og ég sé að það er erfitt að uppræta allar þessar samsæriskenningar og lygar, því þær falla hratt yfir allan heiminn eins og ryk, og það tekur sannleikann langan tíma að strjúka lygunum í burtu, því um leið og einn blettur er orðinn hreinn, þá fellur ryk samtímis á hann. Hvað veldur því að fólk ljúgi, blekki og svíki getur verið margskonar, það getur verið einhver hræðsla, löngun til að fela eitthvað vandræðalegt, einhvern langar að vinna leik með því að svindla, til að þykjast vera betri en einhver annar, til að verja eigin hagsmuni. Ástæðurnar geta verið margar og flóknar.

Sjálfum finnst mér betra að leita eftir því sem er satt, ég finn næringu í því, hef litla þörf til að deila pælingum mínum, en finnst allt í lagi að fólk viti að svona hugsa ég og lifi, og ákvað fyrir nokkrum vikum að deila dagbókarfærslum mínum og spurningum á blogginu og Facebook. Það hefur gefið lífi mínu nýja vídd.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband