Bloggfærslur mánaðarins, maí 2021

Sú sorglega staðreynd að við erum varla til

omega-nebula-11053_1920

Hefurðu einhvern tíma velt fyrir þér hvað við erum smá, bæði þegar kemur að rúmi og tíma? Þegar við sjáum fyrir okkur Fjöldi manneskja á jörðinni er að nálgast átta milljarða. Það er varla að maður kunni að skrifa töluna: 8000000000. Og pældu í því að hver einasta af þessum manneskjum hefur þessa dýpt sem við sjáum flest í sjálfum okkur. Til eru um 9 milljónir dýrategunda á landi og í sjó, Næstum fimm milljarða farsíma eru til í heiminum, þar af um fjórar milljarðar snjallsímar. Það eru ekki nema átta plánetur í sólkerfinu okkar, en vísindin hafa uppgötvað um 3200 sólkerfi þarna úti einhvers staðar, og hvert sólkerfi hefur nokkrar plánetur. Þannig að við erum hvert og eitt frekar lítil í stóra samhenginu.

Þegar kemur að tíma erum við ennþá smærri. Það má reyndar deila um hvort að við höfum verið englar eða sálir áður en við fæddumst og eftir að við deyjum, en gerum ráð fyrir að við vitum ekkert um það, þá erum við að tala um milljónir ára áður en við verðum til í þessum heimi, svo lifum við lífi okkar, vonandi til hins fyllsta, hvað sem það þýðir fyrir hvert og eitt okkar, og eftir að við deyjum, verðum við áfram ekki til í milljónir ára. Eftir líf okkar verðum við kannski bergmál í hjörtum einhverra þeirra sem lifa okkur af, en brátt verður þetta fólk líka að bergmáli, og þannig hverfum við.

Þrátt fyrir þessa smæð okkar, er lif okkar margbreytilegt og flókið. Við leitum að merkingu í lífinu, sumir meira en aðrir. En við lifum lífinu áfram og gerum okkar besta, bæði sem einstaklingar og samfélag, til að vera besta mögulega útgáfan af sjálfum okkur. Við erum eins og lítil ljós sem gleðja í myrkrinu. Stundum þegar við horfum á logann, tökum við eftir birtunni frá honum og hitanum, en stundum tökum við aðeins eftir myrkrinu sem umlykur hann.

Við eltum ýmislegt í þessu lífi. Sumir keppast við að tryggja sér öryggi, fjármagn, ánægju, sumir vilja einfaldlega tengjast öðrum, en aðrir vilja bara vera einir og útaf fyrir sig. Og öll hugsum við einhvern veginn um þennan heim. Við eigum okkar eftirlætis lit, bragð, lykt og snertingu, við eigum okkar uppáhalds minningar og hugsanir, sum gleymum við okkur í ímyndunum og draumum, og aðrir í sögum, sumum skálduðum, öðrum sem eru sannar.

Við eigum okkar fjölskyldu, vini, kunningja, bekkjarsystkin, vinnufélag og allskonar og hvert samband við allar þessar manneskjur er ólíkt. Eitt það furðulegasta sem gerist að við erum ekki saman persónan í augum neins annars, og í eigin augum erum við svo eitthvað allt annað en nokkur annar getur upplifað. 

Þegar fólk pælir í svona hlutum eru sumir sem yppta bara öxlum og glotta, aðrir leggjast í þunga þanka, enn aðrir reyna að ræða þessa hluti við félaga sína til að átta sig betur á hvernig þessi veröld er og hvernig við finnum merkingu í henni, og ef við finnum ekki merkingu, hvernig við búum hana til. 

Þessi tilvist okkar er undarlegt ferðalag. Ég elska hvert einasta augnablik í þessu ferðalagi og reyni að verja tímanum vel með því að lesa, læra, upplifa og finna fyrir þessari tilvist, og með því víkkar sjónarhornið og betra verður að velja hvernig maður vill lifa þessu blessaða lífi. Sumir hafa fyrir löngu fundið svarið við þessari spurningu og öðrum dettur ekki einu sinni í hug að spyrja, sumir velta sér upp úr svona pælingum, en aðrir velta þeim fyrir sér. 

Mér finnst æðislegt að geta skrifað svona hugsanir og velt þeim fyrir mér í rituðu máli, reynt að tengja þær við þig sem lest þetta og svo leyfa þessu bara að sjatna í eigin huga, og hugsanlega breyta því að einhverju leyti hvernig við sjáum heiminn, og mögulega hafa nákvæmlega engin áhrif. 

 

Mynd: WikiImages frá Pixabay


Aðeins um eyðingarhyggju

TheNoAssholeRule

Eyðingarhyggja (nihilismi) er ein af mörgum mögulegum leiðum til að hugsa um heiminn, og að mínu mati afar vond leið, en manneskja sem lifir eftir þessu hugarfari efast um öll mannleg gildi og þekkingu. Slík manneskja virðir ekki sannleikann viðlits og er líkleg til að vera fjandsamleg óhagstæðum staðreyndum og rökum. Það er ekkert gott eða illt í heimi hennar, engar lygar heldur, enda hvað getur verið lygi í heimi þar sem sannleikurinn er ekki til?

Nihilismi hefur oft verið þýddur sem tómhyggja á íslensku, en mér finnst nærtækara að kalla þetta eyðingarhyggju, þar sem hugtakið er tengt eyðileggingu, rétt eins og ‘annihilation’ þýðir ‘gjöreyðing’. 

Í heimi slíkrar manneskju er engin ást, því að ástin er gildi og gildin ekki til í hennar heimi. Þess í stað finnur hún fyrir girnd og reynir að svala þörfum sínum og kallar það kannski ást enda skipti hana engu máli hvaða orð eru notuð um hlutina enda sannleikurinn ekki til í hennar heimi. 

Slík manneskja efast um áreiðanleika frétta sem byggja á staðreyndum og gildismati fréttamanna, þeirra sem ákveða hvað er fréttnæmt og hvað ekki eftir settum reglum fréttamanna. Ef henni líkar ekki fréttin gæti hún jafnan orðið fjandsamleg fréttafólkinu og úthrópað það sem boðbera ósanninda. Annað eins hefur gerst. Fréttafólk bæði á Íslandi og erlendis hefur verið gagnrýnt fyrir falsfréttir, á meðan gagnrýnin sjálf ætti frekar að vera gagnrýnd sem ósanngjarnt dæmi um eyðingarhyggju.

Slík manneskja gerir ekki greinarmun á samsæriskenningum, skáldskap og sagnfræði, því það að eitthvað hafi gerst skiptir minna máli en að hún geti séð fyrir sér að hlutirnir hefðu getað verið öðruvísi.

Slík manneskja segir og gerir hvað sem er til að sannfæra annað fólk um eigin málstað, sama þó að hún eigi sér engan málstað, með hvaða meðulum sem er, með því fyrst að vekja athygli, helst mikla athygli og þá með því að gagnrýna aðra og tala illa um hvað allir aðrir eru að gera, en dásama í leiðinni sjálfa sig. Þetta getur virkað og þetta hefur virkað. Bæði hérlendis og erlendis. Við þekkjum öll slík dæmi.

Þegar slík manneskja kemst til áhrifa er líklegt að stefna hennar leiði til hörmunga, einfaldlega vegna þess að hún hefur ekki hugmynd um í hvaða átt væri gott að stefna, þar sem að ekkert skiptir hana máli nema kannski að svala eigin hungri, hvers eðlis sem það kann að vera. Þegar slíkar manneskjur komast til áhrifa, óháð flokki eða skoðunum, skilja þær ætíð eftir sig sviðna jörð.

Talað er um slíkar manneskjur sem skíthæla (asshole), en fyrir manneskjur þar sem gildin skipta engu máli er lítið mál fyrir þær að þykjast vera eitthvað annað en þær eru í raun, því að fyrir manneskju sem er innst inni ósönn, getur hún auðveldlega þóst vera hvað sem er og komist upp með það, um stund að minnsta kosti. Þannig getur slík manneskja auðveldlega platað sig inn í áhrifastörf, það eina sem hún þarf að gera er að leika hlutverk sitt nógu vel fyrir rétta áhorfendur.

En veltu aðeins fyrir þér manneskju sem efast á svo öfgafullan hátt að hún efast um allt, trúir alls engu, virðir alls ekkert. Ef slík manneskja yrði að hópi færi hún sjálfsagt um heiminn eins og eldibrandur sem reyndi að eyða öllu því sem stangast á við þessa trú hennar, að ekkert hafi gildi. 

Ég velti þessu til dæmis fyrir mér þegar kemur að mútumálum þar sem fólki er mútað með gjöfum og peningum til að gera eitthvað sem stríðir gegn skyldum þeirra. Báðir aðilar í mútumáli hljóta að aðhyllast einhvers konar eyðingarhyggju, að gildin sem samfélög þeirra byggja á skipti ekki svo miklu máli, hugsanlega engu máli, og séu kannski bara til trafala.

Einnig velti ég fyrir mér fólki sem lýgur blákalt og reynir að sannfæra annað fólk um eitthvað sem augljóslega ekki er satt. Slík manneskja hlýtur að aðhyllast eyðingarhyggju. Það sama á við um þá sem ákveða að fremja skipulagða glæpi. Þetta er fólk sem vantar tengsl við veruleikann, og er fullt efasemda um öll gildi sem við flest virðum og notum til að byggja traust samfélag.

Slíkar manneskjur eiga það til að ráðast á saklaust fólk til þess að ná sínu fram.

Það er til frábær bók um hvernig slíkar manneskjur sem ráðnar eru inn í fyrirtæki geta skaðað fjárhagsstöðu þess til lengri tíma, því að þegar svona manneskjur safnast saman rústa þær smám saman því sem byggt hefur verið upp. Þessi bók heitir “The No Asshole Rule” og er eftir Stanford prófessorinn Robert I. Sutton. Mæli með henni. 

Stóra spurningin er hvernig hægt er að koma í veg fyrir að eyðingahyggja nái farvegi í okkar eigin lífi, hvað gerum við til að komast undan slíkum áhrifum eða koma í veg fyrir að þau vaxi? Eða erum við kannski það langt leidd sjálf að slíkir hlutir skipta okkur ekki máli, og þar af leiðandi orðin að einhverju leyti eyðingarhyggjufólk?

 

Mynd af síðu Amazon


Kapphlaupið um lífsgæðin

car-race-438467_1920

Manneskjur eru sífellt á fleygiferð hvar sem er í heiminum. Reyndar hvílast þær flestar á nóttinni, en yfir daginn skjótast þær fram og til baka á fleygiferð, alltaf að flýta sér að komast eitthvert annað, kannski vegna þess að þeim sýnist grasið alltaf vera grænna hinumegin.

Við keppumst um að eignast hús og bíla, tæki og alls konar. Keppum við hvert annað í íþróttum og spilum. Setjum bestu listamennina nánast í guðatölu, hvort sem það eru söngvarar, skáld, kvikmyndagerðarmenn, málarar eða tölvuleikjahönnuðir.

Við sjáum þá sem gera góða hluti og njótum þess að fylgjast með því, en jafnframt viljum við sjálf geta gert jafnvel og hugsanlega betur. Við erum í stöðugri samkeppni, hvort sem það er við annað fólk, eða við okkur sjálf.

Ef við hættum að keppast við að bæta okkur, stöndum við í stað í heimi sem er sífellt á fleygiferð. Það að stoppa í þessum heimi er svipað og að stoppa bílinn á hraðbraut og stíga út. Það er stórhættulegt. Við þurfum alltaf að leita einhvers.

Spurningin er hvers skulum við leita?

Ef við leitum efnislegra hluta, það er hluta eins og peninga og allt sem þeir geta keypt, þá fáum við aldrei nóg. Það er einfaldlega eðli efnisins, ef við viljum bara meira, þá er alltaf hægt að vilja meira, sama þó að það sem við höfum geti verið nóg. 

Ef við leitum andlegra hluta er líka alltaf hægt að finna meira, en það furðulega við hið andlega er að eftir því sem maður hefur meira af því, hefur maður minni þörf fyrir hið efnislega. Ætli það virki ekki eins á báða bóga? Efnisleg gæði snúast um að stækka eigin tilveru á þessari jörðu út á við, en andleg gæði snúast um að átta sig á eigin tilvist, þau leita inn á við.

Auðvitað getur sérhver manneskja lifað í báðum þessum heimum, fundið jafnvægi á milli andlegra og efnislegra gilda. Það er ekki eins og við séum bara annað hvort efnislegar eða andlegar verur, eða réttara sagt, við ættum ekki að vera það.

Sú sem er algjörlega efnisleg reynir að dreifa úr sér eins og mykjudreifari, án þess að velta fyrir sér hvort hún sé að bæta heiminn eða ekki. Þá er það bara sjálfið sem skiptir máli, óháð því hversu ánægt eða vansælt það kann að vera. Líkast til er það afar vansælt þegar einu gæðin sem skipta máli í lífi viðkomandi eru efnisleg. 

Sumt fólk hellir sér algjörlega út í andlegu gæðin. Það er einhvern veginn erfiðara að gagnrýna slíkt fólk, en þau sem standa sig vel þar verða að fyrirmyndum fyrir þá sem á eftir fylgja. Hægt er að nefna nokkur góð dæmi: Platón, Sókrates, Aristóteles, Jesús, Múhammed, Búdda, Gandhi, Móðir Teresa og fjöldinn allur af eðalfólki sprettur þarna fram. 

Siðferðið virðist vera það sem tengir saman efnisleg og andleg gæði, það sem við gerum ekki aðeins fyrir sjálf okkur heldur einnig fyrir aðra í heiminum. Þar vegur mikið hamingjan, ástin, vináttan, réttlætið, hugrekki, hreinskilni, heiðarleiki og þar fram eftir götunum. Þeir sem lifa aðeins í hinum efnislega heimi gætu verið tortryggnir á slík hugtök og talið nóg að fylgja eftir lögum eða gera það sem maður getur komist upp með, og það sé nóg, en þeir sem eru meira andlega þenkjandi vilja skilja dýptina á bak við af hverju við setjum lög og reglur, og af hverju við þurfum að breyta rétt. 

 

Mynd eftir Oleksandr Pyrohov frá Pixabay

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband