Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2017
Af hverju þurfum við að hugsa betur?
13.7.2017 | 02:09
Við lifum á tímum 'annars konar staðreynda' og 'teygjanlegra hugtaka' þar sem skoðanir og sannfæringarkraftur virðist skipta meira máli í daglegri umræðu en staðreyndir og rök.
Stjórnmálamenn eru kosnir til valda á þeirri forsendu að þeir standi við kosningaloforð sín, og þegar þeir gera eða geta það ekki, þurfa þeir að standa eða falla með kjósendum sem virðast standa á sama hvort menn standi við orð sín, og virðast telja mikilvægara að viðkomandi líti vel út, komi vel fyrir sig orði og sé svolítið snyrtileg(ur).
Þetta er ekkert nýtt.
Sá sem segir alltaf satt, rökstyður mál sitt vel, hugsar skýrt, sýnir auðmýkt, vísar í staðreyndir og áreiðanlegar heimildir, sá virðist hafa lítið roð í þá sem kunna að ljúga og pretta, flækja mál sitt með útúrsnúningum, þykjast vita allt en vita í raun lítið, og vísa í sögusagnir, eigin ímyndun og slúður máli sínu til stuðnings.
Lygarinn kallar hinn sannsögla lygara og hinn sannsögli kallar lygarann lygara, en fyrir þá sem ekki hafa nennu til að hugsa gagnrýnið um málflutninginn, meta áreiðanleika og gæði rökhugsunar á bakvið orðin, mun mögulega trúa lygaranum og efast um áreiðanleika þess sem gerir sitt besta til að segja alltaf satt.
Lygarinn vísar í tilfinningar, sá sannsögli í staðreyndir. Allir skilja tilfinningar, þær eru einfaldar, og eiga samhljóm með okkur öllum, en staðreyndir þurfa að vinna sér sess og hægt er að efast um þær, eins og alla vísindalega þekkingu. Efi kemst ekki fyrir þegar um tilfinningar eru að ræða, annað hvort er eitthvað sorglegt, skammarlegt, gleðilegt, eða eitthvað slíkt, á meðan staðreyndir eru oft umdeildar, eins og hvort hnatthlýnun sé í raun mögnuð upp af mannkyninu, hvort að heimurinn sé einfaldlega til af náttúrunnar hendi, hvort að alheimurinn sé endalaus eða endi, jafnvel hvort að kókosolía sé holl eða ekki.
Hlustum vandlega á þá sem fara með völdin eða vilja fá þau, og þá sem taka mikilvægar ákvarðanir. Nota þeir tilfinningar sem rök, eða staðreyndir? Vísa þeir í rök eða tilfinningar?
Taktu eftir hvað það er miklu auðveldara að mynda sér skoðun um útlit og framkomu einhvers heldur um það sem viðkomandi hefur að segja. Veltu fyrir þér hvort þér finnist viðkomandi traustsins verð(ur) vegna framkomu eða vegna meiningar og merkingar þess sem viðkomandi hefur að segja.
Okkur líkar auðveldlega við þá sem eru fyndnir og orðheppnir, en ekkert endilega við þá sem eru alvarlegir og nákvæmir.
Við erum líklegri til að slást í hóp með lygurum þar sem þeir höfða til tilfinninga okkar, svo framarlega sem við veltum ekki stóra samhenginu fyrir okkur.
Hugsum betur, því þá getur reynst erfitt að blekkja okkur.
Hvað er æra og hvernig er hægt að reisa hana upp?
11.7.2017 | 02:52
Undanfarið hefur mikið verið rætt um "uppreist æru", og lagalegan skilning þess hugtaks, en mig langar að velta fyrir mér raunverulegri merkingu hugtaksins í víðum skilningi heilbrigðar skynsemi frekar en hinum þrönga lagalega skilningi.
Í stuttu máli er lagalegi skilningurinn sá að uppreist æru getur afbrotamaður fengið sinni hann störfum þar sem skilyrði fyrir starfinu er 'hreinn skjöldur' eða 'óflekkað mannorð', eða algjörlega fyrirgefningu allra synda innan íslensks lagaramma, sem þýðir að þrátt fyrir fyrri afbrot getur viðkomandi starfað við lögvarin störf að nýju. Sjá nánar á Vísindavefnum.
Siðrof gæti hafa átt sér stað milli laga og siðferðis, þar sem að almennur skilningur á uppreist æru er sá að fyrst og fremst saklaus manneskja geti fengið mannorð sitt hreinsað, efir að hafa verið saklaus dæmd, á meðan lagaumhverfið og stjórnmál virðast líta á það sem mögulegt mannanna verk að hreinsa mannorðs manns sem hefur sannarlega brotið alvarlega af sér, án þess að viðkomandi sýni iðrun eða viðurkenni nokkurn tíma að hafa haft rangt við, þó að sannarlega sé það raunin.
Þegar manneskja sek um alvarlega glæpi fær uppreist æru þykir það ekki eðlilegt nema brotið hafi verið tæknilegt eða smávægileg mistök eins og ógreiddar stöðumælasektir, umferðabrot eins og að virða ekki stöðvunarskyldu eða vera ekki með bílbelti spennt, eða stolið brauðhleif til að seðja hungur, en þegar brotið hefur verið alvarlegt og manneskjan dæmd og reynst sek fyrir glæpi eins og stórþjófnað, kynferðisglæpi, morð, líkamsárás, og þar fram eftir götunum, þá ætti uppreist æru ekki að vera möguleg. Sumir glæpir eru það alvarlegir að mannorðið verður ekki hreinsað í náttúrulegum skilningi, sama þó það sé mögulegt í lagalegum skilningi.
Veltum aðeins fyrir okkur hugtakinu 'æru', það er samheiti yfir heiður eða mannorð, nokkuð sem við lærum af Hávamálum að sé nokkuð sem lifir lengur en nokkur manneskja. Ef við lifum lífinu þannig að við bætum heiminn og líf þeirra sem umgangast okkur án þess að brjóta gegn nokkrum manni, þá getur mannorð okkar lifað lengur en við, og í þessu samhengi sjálfsagt komið okkur í gott álit hjá hinum fornu guðum, en ef við lifum ærulausu lífi lendum við annars staðar en í náð hjá Þóri, Óðni og félögum, sjálfsagt gleymumst bara í einhverju eilífðar drullumalli.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.
Það sama er hægt að segja um kristið siðferði, að sá sem hefur gott mannorð á séns á nokkuð flottu eftirlífi, en sá sem hefur glatað mannorði sínu, æru eða heiðri fer rakleiðis til heljar þar sem þægindin eru engin.
Út frá sjónarhorni heilbrigðar skynsemi hlýtur hver sem er að sjá að ekkert mannlegt vald getur hreinsað æru manns sem brotið hefur alvarlega af sér, og eina leiðin fyrir slíka manneskju hljóti að vera að sýna djúpa iðrun, óska fyrirgefningar frá fórnarlömbum sínum og lifa lífinu ekki aðeins án þess að brjóta af sér, heldur verður viðkomandi að vinna sér inn fyrir endurreistri æru, fá samþykki þeirra sem brotið var gegn, og þá fyrst, hugsanlega, fengið hina lagalegu u æru.
Rætt hefur verið um fyrirgefningu þegar kemur að uppreist æru. Fyrirgefning er fyrst og fremst kristið hugtak, þar sem að manneskja sem hefur verið brotið gegn, hefur val um að hatast við afbrotamanninn og stefna á hefnd, eða fyrirgefa afbrotamanninum og öðlast þannig innri frið. Slíkri fyrirgefningu er ekki hægt að þvinga upp á fólk, slíkt kallast að þvinga eigin trúarskoðunum yfir á aðra, og er nokkuð sem heiðvirt fólk gerir ekki. Fyrirgefning er gott fyrirbæri, en aðeins ef hún er valin af þeim sem þurfti að þola brot.
En lykilatriðið hér sem enginn ætti að gleyma, er að lögin byggja á siðferði, en ekki öfugt. Lög sem byggja á öðru en því sem er siðferðilega réttlætanlegt, og þá með skýrum rökum og beitingu heilbrigðar skynsemi, flokkast sem ólög - og sé ég ekki betur en að lögin um uppreist æru eins og þau eru á Íslandi í dag, séu ólög sem þarf að breyta, enda varla nokkurn tíma hugsað eða ætlað þegar þessi lög voru skrifuð, að harðsvíraðir glæpamenn gætu fengið uppreist æru án þess að hafa áunnið sér hana á ný.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 02:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)