Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2012

Þekkir þú einhvern sem hefur aldrei rangt fyrir sér?

Funny_Pictures_Star-Wars_New_Bulb_Vader 
 
Eitt það erfiðasta sem nokkur manneskja lendir í er sú krísa sem fylgir því að uppgötva það að maður hafi haft rangt fyrir sér í mikilvægu máli, hvort sem málið snýst um Icesave, guðstrú, traust á vinum, stjórnmálahreyfingum eða skilning á heimspekilegum hugtökum. Þó að erfitt geti reynst að takast á við slíkt, þá er alls ekki slæmt að uppgötva það að maður hefur haft rangt fyrir sér, af þeirri einföldu ástæðu að þá gefst tækifæri til að leiðrétta eigin hugmyndaheim, svo framarlega sem að viðkomandi er tilbúinn til að virða fyrir sér staðreyndir, hlusta á rök, og gera greinarmun á vægi staðreynda, og vægi þeirra gilda sem í húfi eru.
 
Það góða við að vera einstök manneskja er einmitt þessi sveigjanleiki sem hún getur haft. Þú getur trúað einu í dag og trúað einhverju allt öðru á morgun, sem gengur þvert á fyrri skoðunina, án þess að það sé í sjálfu sér rangt. Fari maður að verja hina gömlu trú sem maður hafði áður, einfaldlega til að verja hana, og einfaldlega vegna þess að maður hefur eignað sér hana, þá er lítið um það að segja. Þrjóska getur verið erfið viðfangs.
 
Þegar hópur fólks er saman kominn, þá getur fólkið hjálpað hverju öðru til að rannsaka betur eigin hugmyndaheim, og hvernig eigin hugmyndir tengjast  hugmyndum annarra, stundum á afar ólíka vegu. Þannig er hægt að læra ýmislegt á sjálfum sér sem maður hafði ekki áttað sig á fyrr. Möguleg umræðuefni eru óteljandi.
 
Hins vegar gerist annað þegar hópurinn hefur einhverra hagsmuna að gæta. Hvort sem þessir hagsmunir eru tengdir stjórnmálum, íþróttum eða peningum, þá er eins og fólk umturnist og fái óseðjandi þörf til að sýna öllum hinum að viðkomandi hafi rétt fyrir sér, sama hvað það kostar, og eini mælikvarðinn á hvort maður hafi rétt fyrir sér eða ekki, eru ekki rök, staðreyndir eða djúp gildi; heldur það hvort meirihlutinn sé sammála eða ekki. Þetta vil ég kalla miðaldahugsunarhátt.
 
Það er eins og meirihlutinn hlusti ekki á rök. Mig hefur lengi grunað þegar kosningar eru annars vegar að einhvers konar 20/80 regla sé í gangi, það er að einungis um 20% þeirra sem kjósa, hugsi sig vandlega um, rannsaki það sem er í boði, og geri upp hug sinn með gagnrýnum hætti, og hafi næga rökhæfni til að komast að skynsamlegri niðurstöðu.
 
Hvað annað getur útskýrt stöðu stjórnmála í heiminum í dag? Reglan er sú að sá sem hefur aflið eða máttinn, það er að segja fjárhagslegan stuðning á bakvið sig, hefur möguleika til að sigra. Aðrir eiga ekki séns. "Might is right" á Íslandi sem og annars staðar í heiminum. Skynsemi og sannleikur virðast skipta minna máli þegar kemur að átakastjórnmálum, því um leið og skýr mynd af hreinum sannleika hefur verið teiknuð upp af einum, kemur einhver annar og þyrlar ryki í augum þeirra sem fylgjast með. Og þeim tekst það, þó að um 20% sjái í gegnum rykið.
 
Og það þykja eðlileg vinnubrögð.
 
Það að aflið ráði er hugsunarháttur aftan úr fornöldum, og margoft hefur mannkynið séð afleiðingar slíks hugsunarháttar, og einhvern veginn reynist okkur erfiðara en tárum tekur að komast upp úr þessum hjólförum, hugsunarlaus hjökkum við í sama farinu öldum saman, hugsanlega vegna þess hroka sem felst í að telja okkur sjálf vita betur en þá sem á undan okkur komu, til dæmis vegna aukinnar vísinda- og tækniþekkingar, og gleymum að þannig munu næstu kynslóðir hugsa um okkur. Þar til okkur tekst að brjóta þennan vítahring.

Hvers virði væri lífið án gagnrýnnar hugsunar?

Í síðustu grein minni, Hefur þú áhuga á gagnrýnni hugsun?, setti ég fram nokkrar spurningar um viðhorf til gagnrýnnar hugsunar. Af einhverjum ástæðum fóru athugasemdir að snúast um trúarbrögð og guðleysi eða trúarbragðaleysi, þar sem einn nafnlaus aðili gaf sér meðal annars mína afstöðu til trúarbragða, án þess að þekkja til hennar. Annar aðili, Haukur Kristinsson, lagði fram nokkrar frumspekilegar spurningar sem dæmi um hvað áhugavert væri að "vita og skilja". Ég er sammála því að þetta séu góðar og spennandi spurningar, þó að frumspeki sé aðeins ein af mörgum hliðum heimspekilegrar þekkingar um heiminn. 
 
Til gamans íslenskaði ég spurningar Hauks, sem hann lagði í athugasemdareitinn á ensku:
  1. Af hverju er eitthvað frekar en ekkert?
  2. Af hverju erum við til?
  3. Af hverju þessi ákveðnu lögmál og ekki einhver önnur? (Sjálfsagt átt við náttúrulögmál)
  4. Hvert er upphaf náttúrulögmálanna?
  5. Eru einhverjar undantekningar á náttúrulögmálunum, til dæmis kraftaverk?
  6. Er aðeins ein gerð lögmála möguleg?
  7. Albert Einstein: Það óskiljanlegasta við alheiminn er að hann er skiljanlegur. 
Hægt er að byrja að svara þeim á ólíka vegu, útfrá ólíkum forsendum sem þarf að gefa sér í upphafi, með því að (1) gera ráð fyrir að guðleg öfl séu til (guðfræði), (2) gera ráð fyrir að við vitum ekkert um guðleg öfl án þess að útiloka þau eða hampa þeim (heimspeki), eða (3) gera ráð fyrir að guðleg öfl geti ekki verið til (guðfræði).
 
Þessar þrjár forsendur eru afar ólíkar og mun sá sem svarar þessum spurningum fá afar ólík svör, eftir því hvaða forsendur viðkomandi gefur sér. Guðfræðin rannsakar af dýpt (1) og (3), en viðfangsefni heimspekinnar er að rannsaka (2), og leyfir sér að sjálfsögðu að gefa sér (1) og (3) líka þegar það á við, eftir því um hvað er fjallað og hver það er sem rannsakar efnið.
 
Ef þú ætlar að takast á við þær spurningar sem þú leggur til, þarftu að rannsaka möguleg svör út frá ólíkum forsendum. Ef þú gefur þér að einungis ein af þessum forsendum sé möguleg, að guðleg öfl geti ekki verið til, geturðu misst af mikilvægum vísbendingum og hugmyndum sem gætu skipt máli, hvort sem guðleg öfl eru til eða ekki. Algjör afneitun á mögulegri tilvist guðlegra afla (hvað svo sem getur verið túlkað sem guðlegt afl), og flokka þá sem taka þá afstöðu sem andstæðinga, gengur þvert á grundvöll gagnrýnnar hugsunar, sem krefst þess að maður endurmeti eigin afstöðu, og rannsaki málin frá sem flestum hliðum með opnum hug. 
 
Guðleysi án gagnrýnnar hugsunar, jafnt sem trú án gagnrýnnar hugsunar, jafnt sem hugsunarleysi, er svolítið eins og að keyra á fyrirfram gefinn áfangastað, og gefa sér að ekkert annað en áfangastaðurinn skipti máli. Þannig er hætta á að viðkomandi missi af þeim möguleikum, þeirri fegurð og mögulegu uppgötvunum, sem felast í sjálfu ferðalaginu.

Hefur þú áhuga á gagnrýnni hugsun?

Hér fyrir neðan fylgja nokkrar spurningar sem þú getur spurt þig, og getir þú svarað þeim öllum játandi, með hreinni samvisku, þá ertu gagnrýninn hugsuður, eða réttara sagt, manneskja sem getur verið gagnrýninn hugsaður hafirðu sankað að þér þeirri hæfni sem nauðsynleg er til að verða slíkur. Að hafa viðhorf í rétta átt er fyrsta skrefið, og sjálfsagt það síðasta líka.

Auðvelt er að rugla saman "gagnrýnni hugsun" og "gagnrýni". Gagnrýnin hugsun er viðhorf sem leitar sannleikans á uppbyggilegan hátt, en gagnrýni má stundum túlka sem hreinan efa, verkfæri til að rífa í sundur án þess að líma saman á ný. Ég hef meiri áhuga á gagnrýnni hugsun en hreinni gagnrýni sem slíkri.

Ef þú sérð fyrir þér tvær manneskjur, einni sem beitir gagnrýnni hugsun, og annarri sem beitir hreinni gagnrýni, geturðu auðveldlega fengið í hugann afar ólíkar manngerðir.

Hinn gagnrýni hugsuður hlustar vandlega á þann sem talar, veltir fyrir sér eigin viðhorfum um málið, og reynir að skilja málstað hinnar manneskjunnar af dýpt. Hinn gagnrýni hugsuður hefur minni áhuga á að komast að einni niðurstöðu, heldur en að rannsaka  málið frá sem flestum hliðum, og komast þannig nær altækri þekkingu á viðkomandi málefni, án þess kannski að höndla slíka þekkingu endanlega. Hinn gagnrýni hugsuður stingur upp á hugmyndum sem geta dýpkað skilningsleitina.

Hinn hreini gagnrýnandi er ekki jafn gefandi manneskja. Hún dæmir út frá þeim hugmyndum sem hún hefur, og er ekkert endilega til í að rannsaka hvort að eigin dómgreind sé í góðu lagi eða ekki; þar sem það kemur gagnrýni á viðfangsefninu ekkert við að hennar mati. Slíkur gagnrýnandi er sannfærður um að eigin málstaður er hinn eini rétti, og að öndverðar skoðanir hljóti að vera rangar. 

Og hér eru spurningarnar:

  1. Leyfirðu ímyndunaraflinu að njóta sín?
  2. Er hugur þinn opinn?
  3. Finnst þér nýjar og gamlar hugmyndir spennandi?
  4. Ertu til í að endurskoða eigin viðhorf?
  5. Kannastu við að hafa einhverja fordóma?
  6. Ertu til í að hlusta á nýjar hugmyndir frá öðru fólki?
  7. Ertu til í að hlusta á nýjar hugmyndir úr eigin huga?
  8. Ertu til í að leggja á þig rannsóknarvinnu til að finna áreiðanlegar upplýsingar?
  9. Ertu til í að meta þau sönnunargögn sem þú hefur og dæma í samræmi við þau, þó þau séu í andstöðu við fyrri skoðanir þínar og trú? 
  10. Ertu til í að fresta ákvörðunum ef nægilegar upplýsingar eru ekki til staðar?

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband