Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

Viltu ræða nokkrar af grundvallarspurningum Icesave?

Ég er á móti því að Icesave reikningar verði borgaðir af íslensku þjóðinni og vona sannarlega að sú skoðun ein geri mig ekki að öfgakenndum vitleysing, en þannig hef ég heyrt þeim hópi lýst sem er alfarið gegn slíkum samningnum.

Ég kannast ekki við skuldbindingu íslensku þjóðarinnar til að borga skuldir einkabanka sem fóru á hausinn, þó svo að þessir bankar hafi verið með íslenska kennitölu, ekki frekar en að ég tel Saudi-Arabíu bera fulla ábyrgð á afleiðingum gjörða Osama bin Laden bara vegna þess að hann fæddist í Saudi Arabíu.

Hins vegar kannast ég við að íslensk ríkisstjórn setti neyðarlög og í kjölfarið var henni bylt úr stjórn og við tók ný ríkisstjórn sem þóttist hafa allt aðrar áherslur, en ákvað að fylgja stefnu fyrri ríkisstjórnar í veigamestu málum 100%. Ég efast enn í dag um réttmæti þessara neyðarlaga, og kannast við að erlendir kröfuhafar muni láta reyna á lögmæti hennar.

Núverandi ríkisstjórn reyndi að þvinga fram Icesave númer tvö sem þjóðin hafnaði. Ári síðar kemur sama ríkisstjórn með lítið breyttan samning og ætlar að þvinga honum í gegn. Deja Vu?

Þegar ég kaus gegn Icesave í fyrra kom ég í verk þeirri skoðun minni að þjóðin og afkomendur okkar skuli ekki borga skuldir einkafyrirtækis sem fór á hausinn. Þingið ákvað að hunsa þessa skoðun, og hefur sýnt þeim sem hafa þessa skoðun virðingarleysi með því að hugleiða ekki að við höfum hugsanlega eitthvað til okkar máls.

Nú met ég stöðuna óbreytta fyrir utan það að ríkisstjórn og þing hlustuðu ekki á þjóðina og hafa sýnt að þau hafa engan vilja til að hlusta á rök þeirra sem hafa ólíka skoðun en þá sem þeim hentar.

Eins og þing og ríkisstjórn sé að segja enn og aftur: "Þið eruð ekki þjóðin!"

Það er enginn sveigjanleiki til staðar hjá þessari ríkisstjórn, hún telur sig vita hvað er best og berst með þekktum herbrögðum fyrir málstaði sínum, sem hún er ekki tilbúin að velta fyrir sér hvort sé réttur eða rangur. 

Nú þarf ég að spyrja nokkurra spurninga sem mér finnst þurfa að svara. Þetta eru ekki auðveldar spurningar, en ég tel mikilvægt að sérhver manneskja velti þeim vandlega fyrir sér, ræði þær við félaga sína og reyni þannig að átta sig á grundvallaratriðum málsins. Ég tek það fram að þetta er ekki endanlegur spurningarlisti yfir öll hugsanleg málefni tengd Icesave, en tel þetta grundvallarspurningar málsins. 

Ef þér tekst ekki að svara einhverri af þessum spurningum, komdu þér þá í aðstæður þar sem fólk með ólíkar hugmyndir er til í að ræða málin, þar sem einhver einn kemst ekki upp með að reyna að sannfæra alla hina með brennandi mælskulist, þar sem allir fá tækifæri til að segja sína skoðun og ræða rökin á bakvið hana með skynsamlegum hætti.

  1. Af hverju á ríkisstjórn og þing að semja við Breta og Hollendinga um skuld banka og tryggingarsjóðs sem bankarnir báru ábyrgð á? Bara vegna þess að bankarnir voru með íslenska kennitölu?
  2. Af hverju er ekki hlustað á að þjóðin gerði byltingu þegar fyrst átti að þvinga þessu í gegn?
  3. Af hverju er ekki hlustað þegar þjóðin greiðir um 97% atkvæði gegn því að þetta nái í gegn?
  4. Af hverju á að þvinga þetta í gegn núna með auknum hræðsluáróðri og meiri mælskutækni?
  5. Af hverju halda þeir sem eru fylgjandi þessum samningi að það sé siðferðilega rangt að samþykkja hann ekki?
  6. Af hverju halda meðmælendur samningsins því fram að það sé skylda þjóðarinnar að borga skuldir einkabanka?
  7. Af hverju sjá meðmælendur samningsins það ekki sem skyldu þjóðarinnar að vernda næstu kynslóðir með kjafti og klóm, að gæta sjálfstæðis þeirra og virðingu til lengri tíma?
  8. Af hverju finnst meðmælendum samningsins í lagi að kynslóðin í dag sleppi með skrekkinn þar sem álögurnar verða ekki gífurlegar næsta áratuginn, með þeirri vitneskju að álögurnar verða aftur á móti gífurlegar fyrir næstu kynslóðir?
  9. Af hverju er þegar búið að taka lán út á þessa samninga þó að þjóðin sé algjörlega á móti þeim?
  10. Ef þjóðin segir aftur nei, hvernig verður hægt að tryggja að þing og ríkisstjórn reyni ekki að troða Icesave fjögur ofan í kok þjóðarinnar að ári liðnu?

Hvort eiga lögin um Icesave að vernda hagsmuni eða réttlætið?

Um Icesave:

Tvenn sjónarmið takast á. Annað þeirra er sjónarmið hagsmuna, hitt er sjónarmið réttlætis.

Út frá sjónarmiði réttlætisins er augljóst að íslenskum almenningi ber engin skylda til að borga skuldir óreiðumanna og fella þannig niður gífurlegar skuldir fámenns hóps. Afleiðingar slíks verknaðar verða þær að almenningur borgar skuldir einkafyrirtækis, sem getur þýtt að sambærilegar skuldir falli á íslenskan almenning. 

Réttlætissjónarmiðið er augljóst. Hið sanna blasir við.

Hagsmunasjónarmiðið er óskýrara. Það er ómögulegt að spá fyrir um hvað gerist ef samningaleiðin er farin. Ég efast um að hagsmunir þjóðarinnar sem slíkrar verði í hættu, þó svo að farið verði í mál. Evrópsk lög sem Hollendingar og Bretar hlíta beinlínis banna að ríki láti almenning borga upp tryggingarsjóð fjármálafyrirtækja.  Hagsmunir þeirra sem skulda þessar gífurlegu fjárhæðir, þeirra sem stjórna í raun Íslandi, þeirra hagsmunum er stefnt í voða. Hvað er að því?

Þjóðin má ekki taka á sig að borga skuldir þessa fólks.

Köfum aðeins dýpra. 

Í Kastljósviðtali kvöldsins sagði fjármálaráðherra að málið snérist um hagsmuni fyrst og fremst. Gott að fá hans sjónarmið á hreint. 

Spyrjum: hvort eiga lög að fjalla um hagsmuni eða réttlæti? 

Sett eru lög: þú skalt ekki stela. Ef þú stelur verður þér refsað með sekt eða fangelsisvist. Ef ekki bara þú, heldur hver sem er stelur, skal refsað með sekt eða fangelsisvist. Hvort er með  þessum lögum verið að passa upp á hagsmuni eða verið að gæta réttlætis? Er verið að passa upp á hagsmuni þeirra sem eiga mikið eða eiga lítið? Tja, það er verið að gæta hagsmuna beggja. Ef aðeins væri verið að gæta hagsmuna annars aðilans, þá væri það ranglátt. Icesave samningurinn gætir hagsmuna takmarkaðs hóps Íslendinga og hunsar algjörlega stóran hóp. Það er ranglátt í sjálfu sér.

Hagsmunir eru afstæðir út frá aðstæðum. Aðstæður breytast hratt. 

Réttlæti er hins vegar ekki afstætt. Þar er skýrt tekið fram hvað er rétt og hvað rangt. Hugsanlega hafa íslensk lög fjarlægst þessa hugmynd. Stundum er gerður greinarmunur á hvort að eitthvað sé siðferðilega rangt en lögfræðilega rétt og öfugt. Þar sem að lög byggja á siðferðilegum dómum, eins og að rangt sé að stela, þá er það afskræming á siðferði þegar lög og dómar eru lagalega rökréttir, en siðferðilega vafasamir.

Hver þekkir ekki dæmið um fátæka manninn í sögu Victor Hugo sem stelur til að forða börnum sínum frá hungurdauða. Lögreglan klófestir manninn, fangelsar hann og ofsækir árum saman. Hvar er réttlætið í slíku máli? Það er ekki alltaf réttlátt að fylgja lagabókstafnum blint.

Við megum ekki gleyma grundvelli laga og réttar. Við megum ekki gleyma að það er raunverulegur munur á réttu og röngu. Að setja ranglát lög getur ekki haft hagstæðar afleiðingar til lengri tíma, lög eins og "Það er bannað að stela, nema viðkomandi komist upp með þjófnaðinn". Aðeins réttlát lög geta haft hagstæðar afleiðingar.

Ólög geta hentað takmörkuðum hópi hagstætt yfir skamman tíma. Við þurfum að gæta okkur á slíkum tilhneigingum. Ólög poppa upp öðru hverju, og við áttum okkur ekki á óréttlætinu sem fylgir þeim fyrr en einhverjum kynslóðum síðar, eins og þegar kosningaréttur er takmarkaður við kyn, frelsi er takmarkað við kynþátt, eða skuldbindingar yfirfærðar á ófædda kynslóð sem getur ekki varið sig, enda ekki til í augnablikinu.

Lög eru nefnilega komin til að vera, ekki bara sett eftir hentisemi, aðstæðum eða hagsmunum. Lög geta verið virk í hundruði ára. Bæði góð lög og ólög. Góð lög leiða til réttlætis. Vond lög til ranglætis. 

Berum nógu mikla virðingu fyrir Lögum landsins til að sverta þau ekki með ólögum.

Ég ætla að kjósa gegn Icesave lögunum því að ég tel þau vera ólög. Verði þau samþykkt mun þrýstingi létt af þeim sem bera raunverulega ábyrgð á Icesave skuldinni, og þunginn færður yfir á þjóðina. Ég hef sterka tilfinningu um að það sé rangt. Ég er tilbúinn að hlusta á rök þeirra sem telja mína sannfæringu ranga, en ekki tilbúinn að hlusta á þá sem fordæma mig fyirr að hafa þessa sannfæringu, sem ég hef vonandi rökstutt sæmilega, og er tilbúinn að verja í rólegheitunum.


Er ekkert pláss fyrir heiðarlegt fólk á Íslandi?

Hvort er betra fyrir kærðan en saklausan mann að gera samning til að losna við kostnað  hugsanlegra réttarhalda og taka þannig á sig skuldbindingar einhvers annars, eða berjast fyrir sakleysi sínu og sjálfsvirðingu þar til hlutlaus dómari getur tekið skynsamlega ákvörðun?

Þeir sem vilja borga reikninga svikahrappa og bankaræningja vegna Icesave endurtaka stöðugt að "Íslendingar eigi að standa við skuldbindingar sínar".

Að sjálfsögðu eiga Íslendingar og annað fólk að standa við skuldbindingar sínar. Að Íslendingar borgi reikning þjófanna þýðir ekki að Íslendingar séu að standa við skuldbindingar sínar, heldur þýðir það að öllum Íslendingum verði refsað í stað þess að finna þá sem sviku og prettuðu til að öðlast völd og peninga, og refsa þeim, og aðeins þeim. Þó að svikahrapparnir séu Íslendingar, þýðir það ekki að allir Íslendingar eigi að borga fyrir þá. Við erum ekki öll samsek.

Gefum okkur að færeyskir svikahrappar stofni banka og svíki gífurlega fjármuni út úr íslenskum borgurum. Þýðir það að íslenskur almenningur krefjist þess að færeyskur almenningur eigi að borga skuldbindingar svikahrappana? 

Þú hlýtur að sjá hversu farsakennt þetta mál er orðið. Bara það að íhuga þurfi að borga þessar skuldir bankaræningja er í sjálfu sér sviksamlegt gagnvart náttúrulegum rétti heiðarlegrar manneskju. Því ef íslenska þjóðin er látin borga, þá verður komið fordæmi fyrir því að íslenska þjóðin taki á sig afleiðingar gjörða þessara manna sem enn hafa ekki verið klófestir af réttvísinni. Við vitum að bankarán hefur átt sér stað og vitum að ekki hefur tekist að klófesta einn einasta ræningja. Þýðir það að þjóðin öll sé bankaræningi?

Ef þjóðin tekur á sig skuldbindingar þjófanna um að borga ránsfenginn til baka, er verið að sleppa þjófunum aðeins vegna þess að það er þægilegra en að leita réttlætis. Nóg hefur þjóðin þegar þurft að taka á sig vegna þessara svika, eiga þessir glæpamenn virkilega að sleppa svona auðveldlega? Ef þjóðin borgar er hún að leysa fjárglæframenn úr snörunni vefja sömu snöru um háls saklausra barna.

Þegar þjófur rænir veski er þjóðinni ekki skylt að skila ránsfengnum, heldur skal þjófurinn gera það. Vilji hann það ekki verður að þvinga hann til þess. Þjóðfélagið er skuldbundið til að ná þjófnum, finna tilhneigingum hans betri farveg og koma veskinu í réttar hendur. Vissulega viljum við hjálpa fórnarlambinu og finnst þjófnaðurinn ranglátur í eðli sínu - en þessa áköllun á réttlæti skal aldrei taka út á röngum aðila.

Verði lausnin á Icesave sú að íslenskur almenningur borgi skuldina, verður sama lausn yfirfærð á öll önnur stórsvikamál, bæði íslensk og erlend sem enn eru óleyst, og er sú leið svo röng að átakanlegt er að horfa upp á það, og átakanlegt að sjá gott fólk ringlað í rýminu vegna stöðugra áróðursbragða að það hefur glatað sýn á hvað er rétt og hvað rangt í þessu máli, og hræðist því að taka afstöðu.

Áróðursmaskínunni hefur tekist að útmála marga þá sem eru á minni skoðun sem öfgafólk, en tekist að sýna þá sem borga vilja sem ábyrgðarfulla einstaklinga. Slíkur áróður hjálpar ekki við að taka skynsamlegar ákvarðanir. Ég get séð að frá sjónarhóli hinna samseku er skynsamlegt að semja um Icesave. Frá sjónarhóli saklausrar manneskju er það hins vegar ekki skynsamlegt, heldur beinlínis ranglátt.

Skuldbinding sérhverrar manneskju gagnvart þjóð sinni og umheiminum er að breyta rétt, og þegar óljóst er hvað hið rétta er, rannsaka málið, reyna að átta sig á samhenginu, og mynda sér skynsamlegar skoðanir um málið. Það er erfitt þegar hinir samseku hafa virk áhrif á alla fjölmiðla landsins. Það er erfitt að efast um það sem birtist í viðurkenndum fjölmiðlum. Þannig er það bara.

Næst þegar þú heyrir einhvern segja "Íslendingar eiga að standa við skuldbindingar sínar", skaltu spyrja: "Þegar þú segir Íslendingar, áttu við allir Íslendingar eða bara þá Íslendinga sem skulda?"

Með Icesave samningnum er verið að taka út þessa knýjandi réttlætiskröfu á röngum aðila, ekki bara íslenskum almenningi sem kom ekkert nálægt glæpnum, heldur einnig ófæddum Íslendingum um komandi framtíð. Vegna þessarar sviksamlegu afstöðu þings gagnvart þjóð, og því miskunnarlausa ranglæti sem þing vill að lendi á almenningi, án nokkurs skynbragðs á almennu siðferði, hef ég komið mínum eigin börnum úr landi og mun ekki mæla með að þau flytji til baka, nema eitthvað mikið breytist.


Icesave lífgað og athugasemdakerfi Eyjunnar drepið á sama degi: tilviljun?

"Hugmyndir eru öflugri en byssur. Við myndum ekki gefa óvinum okkar byssur, af hverju ættum við að gefa þeim hugmyndir?" (Jósef Stalín)

Fyrir tæpri viku keypti nýr hópur vefsvæðið eyjan.is og í dag liggur athugasemdakerfi Eyjunnar niðri, á sama tíma hefur Icesave 3 verið samþykkt á þingi, án þess að nokkuð hafi breyst í grundvallaratriðum.

Skuldbindingar eigenda og stjórnenda gríðarlega stórs einkafyrirtækis eiga ekki að lenda á Íslendingum framtíðarinnar, sama þó að Íslendingar nútímans geti fengið einhver trilljón milljarða lán á móti. Það er ekkert sem réttlætir þetta ofbeldi gegn framtíð okkar. Þeir sem huga ekki að framtíðinni í svona málum, sjálfum grundvelli siðferðisins, hafa ekkert erindi á þing.

Þetta lítur út eins og tilraun ríkisstjórnar eða útrásarvíkinga, hugsanlega beggja, til að ná aftur stjórn á umræðu, sem áður var í höndum þessara aðila, en þeir höfðu glatað henni í hendur venjulegs fólks; bloggara, í kjölfar hrunsins.

Eyjan var einhvers konar paradís þar sem rödd samfélagsins ómaði, en Adam ákvað að selja Paradís og leggjast á helgan stein með Evu. Í dag er slökkt á kerfinu. Á morgun verður nafnlausum notendum ekki lengur leyft að skrifa þar. Eyjan var öflugasta kerfi sinnar tegundar á landinu. Ekki lengur.

Vígi hvers vefmiðils og fjölmiðils á eftir öðrum lendir í höndum hagsmunasamtaka, þeirra sem vilja passa upp á sitt - hvort sem hagsmunirnir felast í völdum eða peningum, enda vitum við vel að sá sem stjórnar fjölmiðlum, stjórnar þjóðfélagsumræðunni, og sá sem stjórnar umræðunni getur haft gífurleg áhrif á hvernig fólk hugsar. Þér finnst kannski erfitt að trúa því. Veltu því fyrir þér.

Í samfélagi þar sem ekki finnst pláss fyrir gagnrýna hugsun, þar finnst ekki heldur pláss fyrir lýðræði.

Spurningin á þessu augnabliki er hvort að þjóðin fatti svikamylluna og láti bjóða sér þetta möglunarlaust, eða hvort hún láti þetta yfir börn sín ganga?

"Ég elska lætin í lýðræðinu." (James Buchanan) 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband