Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010
Capitalism: A Love Story (2009) ***1/2
3.6.2010 | 19:54
Í "Capitalism: A Love Story" sannar Michael Moore í eitt skipti fyrir öll að kapítalismi er meinsemd á bandarísku samfélagi, þar sem hinir ríku verða vellauðugir og hinir fátæku heimilislausir, og aðeins örfáar hræður standa á milli þeirra, og þessum millistéttarhræðum fækkar ört. Samkvæmt útreikningum Moore á 1% bandarísku þjóðarinnar 95% af þeim eignum sem eru til í landinu.
Moore sýnir fram á að samfélagshyggja er ekki sú meinsemd sem kapítalistar segja að hún sé, nema þá aðeins fyrir þá sjálfa, en sýnir aftur á móti fram á að kapítalisminn er góður aðeins fyrir kapítalista sem eiga nóg af auði, en ekki fyrir alla hina sem sitja eftir.
Þessi gagnrýni á fullan rétt á sér. Hlutföllin, ekki bara í Bandaríkjunum, heldur einnig á Íslandi og víðar í heiminum, hafa verið að skekkjast alvarlega, þannig að nánast allur auður heimsins safnast á fárra manna hendur, sem hafa ekkert gert til að öðlast þennan auð annað en að eyðileggja fyrir heiðarlegu fólki með því að taka þátt í svikum og prettum sem af einhverjum furðulegum ástæðum standast lagabókstafi.
Vandamálið við kapítalismann er að komið er fram við fólk eins og hluti, verkfæri sem hægt er að skipta um til að hagræða. Sjálfsagt eru upplýsingar í tölvukerfi sérhvers fyrirtækis í dag metin sem meira virði en mannslíf, eins fáránlega og það kann að hljóma. Sumum þætti sjálfsagt eðlilegt að meta upplýsingar og peninga til jafns við hundruð eða þúsundir mannslífa án þess að velta fyrir sér hver munurinn er á manneskju annars vegar og vél eða kerfi hins vegar.
11. janúar 1944 flutti Franklin D. Roosevelt magnaða ræðu. Mig langar að þýða hluta úr henni sem á við um Ísland í dag.
Þetta ríki var í upphafi og óx til núverandi styrks verndað af ákveðnum ófrávíkjanlegum pólitískum réttindum - meðal þeirra réttinum til málfrelsis, fjölmiðlafrelsis, trúarbragðafrelsis, réttarhöldum með kviðdómi (ekki á Íslandi), frelsi frá ósanngjarnri leit og yfirtöku eigna. Þetta voru réttindi okkar fyrir lífi og frelsi.
En á meðan þjóð okkar hefur vaxið í stærð og mikilvægi - og efnahagskerfi okkar víkkað út - hafa þessi pólitísku réttindi reynst máttlaus til að tryggja okkur jöfnuð í leit okkar að hamingju.
Við höfum áttað okkur á þeim skýra veruleika að sannkalla einstaklingsfrelsi hefur enga tilvistargetu án fjárhagslegs öryggis og sjálfstæðis. "Menn í neyð eru ekki frjálsir menn." Fólk sem er hungrað og atvinnulaust eru það sem gerir harðstjórn að veruleika.
Á okkar dögum hefur þessi efnahagslegi sannleikur verið tekinn sem sjálfsagður. Við höfum samþykkt, má segja, aðra stjórnarskrá þar sem nýr grundvöllur fyrir öryggi og hagsæld getur verið stofnað fyrir alla óháð stöðu, kynþætti eða skoðunum.
Meðal þeirra eru:
Réttur til að vinna gagnlegt og hagkvæmt starf í atvinnuvegum eða verslunum eða bóndabæjum eða námum þjóðarinnar;
Réttur til að vinna sér inn nógu mikil laun til að verða sér úti um viðunandi fæði og klæðnað og tómstundir;
Réttur sérhvers bónda til að rækta og selja framleiðslu sína á verði sem gefur honum og fjölskyldu hans sæmandi lifibrauð;
Réttur sérhvers athafnamanns, meiri og minni, til að stunda viðskipti í andrúmslofti frjálsu undan ósanngjarnri samkeppni og yfirráðum auðhringa heima sem erlendis;
Réttur sérhverrar fjölskyldu til mannsæmandi heimilis;
Réttur á viðunandi heilbrigðiskerfi og tækifæri til að öðlast og njóta góðrar heilsu;
Réttur á viðunandi vernd frá fjárhagslegri ógn þeirri sem fylgir elli, veikindum, slysum og atvinnuleysi;
Réttur á góðri menntun;
Öll þessi réttindi eru undirstöður öryggis. Og eftir að þetta stríð er unnið verðum við að vera tilbúin að færa okkur fram á veginn, við innleiðingu þessara réttinda, til nýrra markmiða mannlegrar hamingju og farsældar.
Þessar fallegu hugmyndir hafa ekki enn verið innleiddar í Bandaríkjunum.
Ég ólst upp í Breiðholtinu og var það bláeygur að trúa því að þessi réttindi væru trygg meðal okkar, en árið 2008 rann upp fyrir mér að það var blekking ein. Loforðin um frelsi og öryggi á Íslandi var lygi falin í orðskrúði stjórnmálamanna, auðmanna og handbenda þeirra héðan og þaðan úr þjóðfélaginu.
Íslendingar töldu sig vera frjálsa þjóð, en voru það ekki, og verða það ekki fyrr en þeir losna undan þeirri heljarkrumlu sem kröfuhafar og bankar ætla sér að nota til að kreista hvern einasta krónudropa úr sérhverju íslensku heimili, sama hvað það kostar.
Ekki gleyma að þegar manneskju er sparkað út af eigin heimili, þarf hún samt einhvers staðar að búa.
Það er gaman en sárt að horfa á heimildarmynd sem segir sannleikann með jafn stingandi háði og Michael Moore gerir. Hugsanlega er eitthvað af Besta flokknum sprottið upp úr samskonar húmor fyrir hinu sorglega og rangláta.