Hvort er ICESAVE smámál eða stórmál?
30.12.2009 | 00:28
Einkafyrirtækið Landsbankinn, sem keyptur var af einstaklingum fyrir lán sem tekið var hjá öðrum banka og aldrei greitt til baka, stofnaði lánaútibú í útlöndum og bauð hærri vexti á innistæður en nokkur annar banki í heiminum. Fólk lagði grunlaust inn sparifé sitt, sem virtist hverfa umsvifalaust í arðgreiðslur, bónusa, starfslokasamninga, kúlulán, kaup á öðrum fyrirtækjum og önnur dularfull umsvif skúffufyrirtækja sem langaði til að vera stór og helst miklu stærri en allir hinir. Þegar fólk vildi peninginn til baka, var búið að eyða honum. Úps!
Þá varð fólk afar reitt. Stappaði fótum. Setti upp skeifu. Barði í potta og pönnur.
Íslenska ríkið lofaði að greiða öllum íslenskum innistæðueigendum peninga sína til baka. Þá kröfðust erlendir innistæðueigendur að það sama skuli gilda fyrir þá. Það var samþykkt með hinum svokallaða ICESAVE samningi, sem gamall vinur fjármálaráðherra stóð að, en sumir fremstu ráðgjafar heims höfðu boðist til að styðja Íslendinga í þessari erfiðu samningagerð, en að sjálfsögðu var gamall pólitíkus og sendiherra sendur í þennan þrældóm og átti síðan að ganga frá honum þegjandi og hljóðalaust á Alþingi.
Ekki má gleyma hvaðan þessi peningur á að koma. Hann á að koma úr hinum miklu sjóðum sem felast í afborgunum á húsnæðis- og bílalánum, auk allra þeirra stórlána sem smærri fyrirtæki tóku, til að eiga eitthvað roð í stóru fyrirtækin sem tóku miklu stærri lán af því að þau þóttust vera miklu stærri og komust upp með það, en voru í raun ekki neitt neitt, og hafa því fengið skuldir sínar felldar niður, til að ekki tapaðist allur þessi mínus sem þegar er til staðar, eða ekki. Ruglandi? Segðu.
Það er ekki nóg með að skuldarar, sem er ljótt nafn yfir venjuleg fyrirtæki og heimili, en er hins vegar rétta orðið, því flestir sem hafa átt eitthvað, skulda í eignum sínum vegna þess hversu miklu dýrari þessar eignir voru en innkoman. Fólk sem hefur keypt sér fasteign og bíl er öruggur sjóður til framtíðar. Verra með fyrirtækin. Hægt er að rúlla þeim á hausinn og stofna nýtt undir nýrri kennitölu, en heimilin eru bundin við kennitölur einstaklinga, og þessar kennitölur eru hlekkir sem geta dregið viðkomandi alla leið til helvítis gegnum gíg Heklu, verði það nauðsynlegt.
En svo kemur í ljós að heimilin eru að sligast. Hvað er þá til ráðs. Jú, skerða þjónustu, byggja nýtt hátæknisjúkrahús, stofna fleiri nefndir og hækka skatta. Öll mál leyst!
Aftur að ICESAVE:
Stjórnarandstaðan mótmælti, og heilbrigðisráðherra ásamt þingflokksformanni VG krefjast þess að unnið verði lýðræðislega að málum. Sumarið fór í það að semja fyrirvara, þannig að mögulegt væri að samþykkja samninginn, en mikilvægasti fyrirvarinn var sá að Íslendingar gætu farið í mál vegna vafaatriða um samninginn. Þessu var hafnað og nú skal þvinga samningnum í gegn. Annars sko, yrði næstum heimsendir, eða með öðrum orðum, vinstri stjórnin myndi falla. Og hver sem ræður vill fella sjálfan sig?
Fengin var virt lögfræðistofa til að fara yfir öll þessi mál tengd ICESAVE og skilaði hún gögnum til þings og þjóðar sem áttu öll að birtast. Og öll gögnin voru birt, nema þau sem kæmu sér hugsanlega illa fyrir flokkana sem eru við stjórn. Þessi gögn fjalla um þá ráðgjöf sem íslenska ríkið fékk um mikilvægi þess að halda þeim fyrirvara inni að fara í mál við breska ríkið, vegna hinnar óréttlátu beitingu hryðjuverkalaganna.
Ég velti fyrir mér hvort að sektin sem breska ríkið gæti þurft að greiða Íslendingum vegna þessa alvarlega verknaðs, gæti verið margföld ICESAVE upphæð, komið Íslendingum út úr þessari kreppuklípu og gefið ný og óvænt sóknarfæri.
En nei, þó að við höfum þrjá ása á hendi í þessu pókerspili, köstum við þeim frá okkur fyrir laufatvist, hjartafimmu og spaðagosa. Svo hækkum við glottandi veðmálið og vitum að það er mikilvægara að sannfæra andstæðinginn um að trúa því sem við viljum að hann trúi, heldur en að byggja mál á staðreyndum, traustum rökum og skynsemi og heilbrigðum vinnubrögðum.
Ég ætla ekki að kalla þá sem falið hafa þessi gögn fyrir íslenskri þjóð og þingi landráðsmenn, en það er afar freistandi. Það er ekki hægt að réttlæta svona hulduleiki með því að segja málið vera smámál, og upplýsingarnar engu skipta, því miður. Ef rétt er, að þessar upplýsingar séu nýjar, og þær séu veigamiklar fyrir málið í heild sinni, þá þarf að endurskoða það frá grunni. Séu þetta hins vegar smávægilegar upplýsingar, og stjórnarandstaðan að hrópa þegar ekki er tilefni til, þá gerist stjórnarandstaðan sek um fals og pretti sem líka mega teljast til landráðs.
Þar sem mér finnst ekki lengur hægt að treysta þingmönnum þar sem þeir gera fátt annað en að ásaka hvern annan um lygar og ósannindi, fals og spillingu, fyllerí og hjarðmenningu, þá viðurkenni ég fúslega að ég veit ekki hvað er í gangi. Þetta er ruglingslegt mál, því almenningur veit ekki lengur hvað er satt og hvað er logið, og getur ekki treyst þingmönnum sínum til að segja satt.
Það er nógu alvarlegt til að leggja niður flokkapólitík um stund og koma á neyðarstjórn sem tekur á málunum af festu, sópar ekki rykinu undir teppi, þvingar fram ábyrgð á þær herðar sem tóku að sér ábyrgðina, sama hvort að þessi ábyrgð sé ráðherra eða bankamanna, og gefa skal virðingarverðast frat í alla fyrningu sem tengjast svikum og prettum sem valdið hafa því að bankar hafa hrunið og heimili skuldsett langt umfram það sem samið var um í upphafi.
Ég hef áhuga á að heyra hvað þú hefur að segja um þetta mál, lesandi góður, og býð þér vinsamlegast að kvitta fyrir lesturinn með stuttri athugasemd hér fyrir neðan, eða langri ef hugur þinn stendur þannig.
Uppnám á þingi vegna skjala | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég er á þeirri skoðun að ekki má samþykkja IceSlave fyrr en öll kurl eru komin til grafar, hverjum steini velt við í leit að sannleikanum. Öll gögn séu uppi á borði með aðgangi fyrir þá sem málið varðar, þ.e.a.s. okkur þjóðina. Þetta mál er það stórt að ekki má samþykkja þetta bara til þess að liðka fyrir inngöngu í ESB.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 30.12.2009 kl. 00:37
Lýðræði er hættulegt þjóðum, kommúnismi er hættulegur heiminum!
Óskar Guðmundsson (IP-tala skráð) 30.12.2009 kl. 02:58
Ótrúlega skýr og góður pistill um vont mál. Ef þessu Icesave máli verður troðið í gegnum þing til að sprengja ekki vinstristjórninna, verður líklegast komin reynsla á þennan öfgahóp Ríkisstjórnar fyrir lífstíð.
Óskar Arnórsson, 30.12.2009 kl. 08:19
Góður pistill gamli vinur. Vonandi að þeir þingmenn sem enn eru með hagsmuni landslýðs að leiðarljósi muni ganga gegn því að ábyrgðin verði samþykkt. Hinir eru eins vísir til að gera eins og stóri pabbi Skalla-Grímur segir þeim og samþykkja hann án athugasemda.
Tómas Þráinsson, 30.12.2009 kl. 10:11
Sæll Hrannar, frábær pistill vinur. :) Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir þau gömlu GÓÐU.
Haraldur Bjarnason (IP-tala skráð) 30.12.2009 kl. 10:42
Við erum reyndar bara að borga lágmarksinnistæður útlendinganna (um €20.000), en til viðbótar fá ríkisstjórnir þeirra helminginn af öllum heimtum úr Icesave þrotabúinu. Það er helvíti slæmt - en ekki jafn slæmt og að borga öllum alla peningana sína eins og þú talar um.
Einar Jón, 30.12.2009 kl. 11:27
Takk fyrir góðar athugasemdir.
Jóna: Samfylkingin virðist vilja ganga frá þessu til að liðka fyrir ESB, VG virðist vilja ganga frá þessu til að halda völdum.
Óskar G: Er það þitt mat að á Íslandi ríki kommúnismi í dag?
Óskar A: Takk. Vinnubrögðin eru náttúrulega forkastanleg.
Tómas: Gaman að heyra í þér. Það hljómar vissulega eins og einhver hjarðmenning sé í gangi.
Halli: Takk og sömuleiðis!
Einar Jón: Ef ég hef minnst á að við borgum allt, er það einhver misskilningur, við lofuðum hins vegar að tryggja allar innistæður, og vissulega hafa önnur ríki greitt hluta. Engu að síður er upphæðin enn gífurlega há og óréttlætanlegt að leggja þetta á þjóðina án þess að hafa nokkurn lagalegan fyrirvara á þessum samningi. 20% af geðveikislegri upphæð er ennþá geðveikisleg upphæð.
Það væri reyndar áhugavert að heyra hvort að til standi að ákæra Breta vegna hryðjuverkalaganna.
Hrannar Baldursson, 30.12.2009 kl. 11:36
Það verður að halda málskotsrétti okkar til streitu án þess á að fella samninginn
Jón Aðalsteinn Jónsson, 30.12.2009 kl. 11:40
"Ef einhverntíma eru aðstæður til að skipa þjóðstjórn í landinu, þá eru þær núna."
Eitthvað á þessa leið, sagði Davíð Oddsson í upphafi hrunsins.
Gunnar Th. Gunnarsson, 30.12.2009 kl. 11:46
Takk fyrir góðan pistil Hrannar, þetta hef ég að segja um málið http://asthildurcesil.blog.is/blog/asthildurcesil/entry/998071/
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.12.2009 kl. 13:16
Hrannar: Íslenska ríkið lofaði að greiða öllum íslenskum innistæðueigendum peninga sína til baka. Þá kröfðust erlendir innistæðueigendur að það sama skuli gilda fyrir þá. Það var samþykkt með hinum svokallaða ICESAVE samningi, [...]
Þennan kafla má lesa þannig að ríkið muni borga öllum allt, þó það sé ekki fullyrt neitt um það. Ég vildi bara koma þessu á framfæri.
--
En hvert fóru allir peningarnir sem voru lagðir inn á Icesave? Örugglega fór stór hluti í bónusa og siðlausa (en líklega löglega) "vafninga" - þ.e. að láta hlutafélag taka skellinn af misheppnuðum fjárfestingum stjórnarmanna.Follow the money, eins og menn segja. Það þarf að rannsaka þetta sem sakamál, hvort sem um er að ræða Ponzi eða gamaldags fjárdrátt. Allir topparnir ættu að hafa réttastöðu grunaðs manns þar til annað kemur í ljós.
Það þarf líklega ekki að minna á að Maddoff fékk 150 ára fangelsi fyrir að reka svipaða Ponzi-myllu. Allar eigur hans voru gerðar upptækar og seldar upp í skuldir.
Einar Jón, 30.12.2009 kl. 15:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.