Hvort er spilling meðvituð eða ómeðvituð?

 "Þessa síðustu daga hefur land okkar úrkynjast; mútur og spilling orðin daglegt brauð; börn hlíða ekki lengur foreldrum sínum; og heimsendir nálgast greinilega hratt."

-Assýrísk leirtafla, um 2800 fyrir Krist
 
citizen_kane2

 

Maður ákveður ekki einn daginn að verða spilltur. Spilltur maður er ekki eins og gulur blettur eftir hvolp á hvítum jökli. Jökullinn er hins vegar gulur og þessi óflekkaði er sá sem allir taka eftir.

Manneskjur sem hafa barist gegn eigin spillingu, taka á spillingu samfélagsins. Ef tekst að bjarga einni manneskju, sem er maður sjálfur, frá því að verða spillingu að bráð, þá er hálfur sigurinn unninn.

Kvikmyndin "Citizen Kane" fjallar um mann sem hefur feril sinn í fjölmiðlum með sannleikann að leiðarljósi. Smám saman hliðrar hann til sannleikanum þegar það hentar, og áður en varir hefur sjálft líf hans snúist í höndum hans og hann er orðinn að því sem hann vildi berjast gegn, manneskju sem er gegnsýrð af spillingu og þráir ekkert annað en að snúa aftur til sakleysis æskunnar.

En vandinn mikli er sá að spilling er ekki sleði sem hægt er að bakka þegar hann er lagður af stað niður snævi þakta og hála brekku, heldur eftir að hann hefur lagt af stað er mannlegum mætti nánast ómögulegt að stöðva hann, þó að hann sé ekki nema fyrirbæri í hans eigin brjósti, en slík barátta er erfið og sjálfsagt líkust þeim átökum sem vímuefnafíklar og áfengissjúklingar þurfa að standa í. Þeir þurfa að átta sig á því að eigin vilji er ekki nóg til að komast upp úr spillingarforinni, heldur þarf einbeittan vilja, vinnu og átök til að hreinsa sig. Og þó að takist að hreinsast einu sinni, er lítið mál að spillast á nýjan leik, hafi maður ekki þennan möguleika í huga og telji sjálfan sig kannski yfir mannlega veikleika hafinn.

Vandinn er sá að þegar maður hefur tekið þátt í spillingu, þá er maður spilltur. Því fylgir enginn stimpill, og einungis eigin samviska getur komið auga á þessa spillingu. Vandinn er sá að spilling getur verið svo þægileg að hún þaggar niður í samviskunni, jafnvel ævilangt, þar til á dánarbeðinu eins og í "Citizen Kane" þar sem barnsæskunnar er minnst í nafni sleðans Rosebud.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband