Eigum við að samþykkja eða hafna ICESAVE?
9.12.2009 | 08:08
Ég vil byrja þennan pistil með því að þakka alþingismanninum Eygló Harðardóttur fyrir að vitna í orð mín til að gera grein fyrir atkvæði sínu gegn ICESAVE, eða með öðrum orðum: samþykkt ríkisábyrgðar á lántöku Tryggingarsjóðs innistæðueigenda og fjárfesta, þrátt fyrir að ljóst sé að ég sé ekki stuðningsmaður hennar flokks, frekar en annarra flokka. Tilvitnun hennar má lesa hér. Segjum svo að raddir þeirra sem tjá sig á bloggsíðum heyrist ekki innan veggja Alþingis.
ICESAVE var útibú banka í einkaeign. Þegar neyðarlög voru sett í október 2008 var lofað að innistæður allra Íslendinga væru tryggðar. Erlendir eigendur kröfðust að sjálfsögðu að þeirra eignir yrðu jafntryggðar og Íslendinga, sem varð til þess að óvart neyddist íslenska þjóðin að borga öllum kröfuhöfum, hvaðan sem þeir eru. Á meðan urðu hinir sönnu ábyrgðarmenn ICESAVE stikkfrí, og í stað þess að flýja undan vendi réttlætisins, hefur þeim tekist að finna skjól undir pilsfaldi ríkisstjórnarinnar.
Þetta er óréttlátt, en sárt.
Allir þeir sem áttu innistæður í bönkum fengu að halda sínu að mestu. Það þýddi að pening vantaði til að borga inn á reikningana þannig að af nógu væri að taka. Þessi peningur var fenginn frá auknum álögum á þá sem skulduðu húsnæðislán og myntkörfulán.
Það sem réttlætir slíka aðgerð er að ólíklegra er að fólk í erfiðri stöðu geti varið sig, en þeir sem vígbúnir eru öflugum lögfræðingum og hafa hagsmunatengsl andskotans í skjalatösku sinni. Lögfræðingum er vorkunn. Þeim er ætlað að starfa samkvæmt lögum, en ekki taka mið af því sem er réttlátt út frá siðferðilegum viðmiðum. Til þess eru heimspekingar. Heimspekingar sjá í hendi sér að skýrt rof er á milli íslenskra laga og siðferðis, sem hefur skapað gap sem má ekki vera til staðar, því slíkt gap skapar ósamstöðu og vantraust, brennir upp lífið sjálft, það lím sem heldur okkur saman sem samfélagi.
Ætlast er til að Íslendingar fari í gífurlega viðgerðarvinnu. Stíflan umhverfis landið hefur brostið. Það er gífurlegt gat á miðri stíflu, þrisvar sinnum stærra en eldfjallið Hekla, og það fer stækkandi. Verkefni okkar er að fylla upp í þetta gat með steypu, svo að Ísland sökkvi ekki. Vandinn er sá að við getum kannski útvegað nógu mikla steypu, en engan veginn nógu mikinn mannskap eða tækjabúnað til að fylla upp í gatið. Og þó okkur takist kannski að fylla upp í hluta gatsins, þá verður það ekki nóg, því það fer stækkandi og sjórinn streymir stöðugt inn, gerir þeim sem steypa stöðugt erfiðara fyrir við að halda sér í jafnvægi í flotgöllum sínum.
Eigum við stanslaust að fylla upp í þetta gat með steypu, eða ættum við kannski að viðurkenna þá staðreynd að við ráðum ekki ein við verkefnið, við þurfum hjálp erlendis frá. Þessi hjálp þarf ekki að vera í formi steypu, heldur vinnutækja og vinnuafls sem getur hjálpað okkur að stoppa í steypuna. Við verðum að sætta okkur við að fyrsta verkefni þeirra gæti verið að handsama þá sem skoppa um stífluna með sprengjuefni í túbum og kasta því hingað og þangað í þeirri von að fleiri sprungur myndist, þannig að athyglin öll verði á stíflunni, en ekki þeim sem sprengdu gatið upphaflega og hafa unnið gegn viðgerðinni.
- Að samþykkja ICESAVE er það sama og að stækka gatið í stíflunni, með þeirri von að erlendir aðilar muni í framhaldinu rétta okkur hjálparhönd við að fylla upp í hana.
- Að hafna ICESAVE núna er það sama og að kalla strax á hjálp.
Í raun eru báðir kostir afar slæmir, en þessi sífella stækkun gatsins er sínu verri fyrir heildina, en að takast á við vandann strax. Verði ICESAVE samþykkt reikna ég þó með að sumir geti baktryggt sig og komið peningum undan, en að meirihluti Íslendinga verði í miklum vanda, sem og ríkið og velferðarkerfið.
Hinn kosturinn er í raun að viðurkenna veruleikann, en það getur verið erfitt og sárt. Íslensk þjóð er gjaldþrota og þarf hjálp, þar sem hún virðist ekki geta tekið á eigin málum. Það fylgir mikil óvissa og óöryggi að lýsa yfir eigin vanmætti og að óska eftir raunverulegri hjálp, slíkt krefst mikils hugrekkis og jafnframt auðmýktar. Ég er ekki að tala um algjöra uppgjöf, heldur viðurkenna hvernig raunveruleg staða okkar er, og gera allt sem í okkar valdi stendur til að rétta þessa stöðu, af heilindum.
Einhverjir gætu haldið að við værum að gera það einmitt með að samþykkja ICESAVE, en það er ekki raunin. Með því að samþykkja ICESAVE erum við að auka vandann í stað þess að stoppa hann. Við erum að samþykkja kröfur sem við getum ekki staðið við og vonumst til að í framtíðinni munu þessar kröfur verða látnar falla niður vegna þess að þær eru pólitískar í eðlu sínu, sjálfsagt það atriði sem ekki má tala um á Alþingi og rætt hefur verið við samningamenn Hollendinga og Breta, en er að sjálfsögðu aðeins enn einn blekkingarleikurinn og kolrangt, bæði siðferðilega og löglega, að samþykkja skuldbindingar sem ætlunin er ekki að standa við.
Þjóðin þarf bæði að takast á við gífurlegan vanda og leita réttlætis, en gengur illa í báðum verkefnum. Hvað er til ráða?
Við erum í dag, af hinu alþjóðlega samfélagi, álitin þjóð án siðferðis sem virðir engin mannanna lög, heldur aðeins bókstafi eigin laga, þjóð sem lætur óreglulýð dæma börn okkar til frambúðar í ánuðarvinnu við að flytja steypu að stíflunni. Ríki sem ætlar að hylma yfir með óreiðumönnum og láta þjóðina borga. Hvern einasta aur. Að samþykkja ICESAVE tryggir slík örlög.
Að hafna ICESAVE er að hafna neyðarlögunum. Innistæðueigendur munu tapa miklu fé. Ríkissjóður verður sjálfsagt gjaldþrota og atvinnulíf lamast um stund. Við verðum að gera okkur grein fyrir að samþykkt á ICESAVE frestar slíkum örlögum um nokkur ár, en stækkar hins vegar vandann.
Stóra spurningin er hvort best sé að taka á vandanum strax í dag, eða hlaupa undan honum í nokkur ár. Hvort tveggja eru erfiðar ákvarðanir, sem fólk verður að ræða af heilindum, frekar en að stökkva í pólitískar skotgrafir og rífa niður skoðanir hins, einfaldlega vegna þess að þær eru ekki þær sömu og mínar.
Slík samræða gæti sýnt ríkinu hvernig best er að forgangsraða. Við þurfum hjálp erlendis frá. Það er ljóst. Ríkisstjórnin telur að þessi hjálp komi frá Evrópusambandinu. Og að forsenda inngöngu í Evrópusambandið sé að standa við neyðarlögin. Það er sjálfsagt rétt mat.
Hins vegar er spurningin hvort að réttara væri að einbeita sér að því að hreinsa til. Kalla strax eftir erlendri aðstoð og hleypa rannsóknarmönnum inn í landið og gefa þeim aðgang að leyndum upplýsingum til að gera upp Hrunið, og koma þeim frá sem komu þjóðinni í þennan vanda upphaflega.
Hér er verið að tala um forsendur og forgangsröðun.
Hvort er betra að byrja á að taka til heima hjá okkur og finna siðferðilegan stöðugleika, eða hella sér út í meiri vitleysu og viðhalda þeirri óreglu sem kom okkur upphaflega í þennan gífurlega vanda?
Það eru engin auðveld svör við þessu máli.
Að hefja samræður er fyrsta skrefið, skref sem er miklu betra en að þvinga fram örlög þjóðarinnar með þögulu valdi. Einnig þarf þessa blessaða ríkisstjórn að standa við loforð sitt um að aflétta leynd og fá allt upp á borðið.
Maður fer að halda að þessi ríkisstjórn feli haug beinagrinda í skápnum.
Athugasemdir
Er ekki málið að fara bara að lögum? Ef lög gera okkur að greiða þá verðum við að greiða en að öðrum kosti skuldum við ekki. Láta bara reyna á lögin, standa í lappirnar. Það ætlar að reynast íslendingum dýrt að púkka endalaust upp á atvinnustjórnmálamenna sem ganga á bak orða sinna og bera enga ábyrgð en þyggja vænar greiðslur.
Hafþór (IP-tala skráð) 9.12.2009 kl. 09:52
Neyðarlögin halda samkvæmt nýjustu upplýsingum og gera okkur ekki að ábyrgjast umfram það sem stendur í alþjóðlegum lögum.
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/12/08/nidurstada_efta_islandi_i_vil/
Þannig að Icesave umræðunni má þess vegna fresta fram á vorið
mbk HH
Halldóra Hjaltadóttir, 9.12.2009 kl. 17:37
Takk fyrir góða samantekt.
Ég tel að með því að hafna IceSave gætum við hugsanlega kallað yfir okkur frostavetur. En að samþykkja þessar drápsklyfjar er ávísun á ísöld.
Haraldur Hansson, 9.12.2009 kl. 20:43
ágætis grein en.......
Með neyðarlögunum voru innistæður á innlánsbókum í íslenskum bönkum tryggðar. Skiptir þar engu hvort útibúið var í Reykjavík, Ísafirði, London eða Haag. Því miður leyfðu íslensk stjórnvöld útibú Landsbankans erlendis. Þar liggur hnífur grafinn í kúnni ....... og við almenningur þurfum að blæða. Skítt, djöfulli skítt! En svona bara er þetta. Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn klikkuðu! Verum fegin meðan við þurfum ekki að borga Icesave að fullu eins og gert var fyrir innlánseigendur á Íslandi! Tryggingin er þó ekki nema um 10% af heildarskuldinni.
Eysteinn Þór Kristinsson, 9.12.2009 kl. 21:13
Spurningin er mjög einföld. Eigum við að samþykkja yfir okkur skuldir sem ég og flestir á klakanum skrifuðu ekki upp á? Svarið hlýtur að vera nei. Og ef svarið verður já þá má byrja að setja nýja skatta á landann eftir að búið er að gera upp þá sem stóðu að hruninu hérna og þá meina ég að af þeim sé tekinn aleigan hvar í heiminum hún er síðan má ganga á okkur hin.
Pétur Kristinsson, 9.12.2009 kl. 22:52
Nei, við eigum ekki að borga, það er vitlaust gefið.
Seðlabankasystem alþjóðlegu bankafjölskyldnanna, sem arðrænt hafa þjóðir heimsins á síðustu öldum, er útsmogin svikamylla í eðli sínu þegar grant er skoðað, hrun öðru hvoru er lykilatriði í að mergsjúga fólkið og sópa til sín eignum og fyrirtækjum miðstéttarinnar á slikk fyrir innherja í innsta hring. Við hvert hrun sjáum við að auðurinn sópast á færri hendur, innmúraðir kaupa gull hvar sem þeir geta áður en ýtt er við fyrsta dóminókubbnum og allt riðlast. Alþjóðlega banka og hergagnaelítan mun hafa flesta þræði í hendi sér þegar þeim ósköpum sem nú ganga yfir lýkur og " færa " okkur nýtt og betra system sem á " að enda allar kreppur ", já, rétt eins og síðasta heimsstyrjöld átti " að enda öll stríð ".
Ég veir að margir eiga erfitt með að hugsa sér það að verið sé að spila svo illilega með kynslóð eftir kynslóð af fámennum hópi efst í valdapýramíta heimsins, sjálfum finnst mér mannkynsagan gefa lítið tilefni til slíkrar trúar á gæsku valdsins, hvernig hægt er að kreista lýðinn og nýta sem best til að hlaða undir efstu lög samfélaganna er gegnumgangandi í gegnum söguna, að viðhalda fengnum völdum og áhrifum og komast yfir eins mikinn auð og hægt er með öllum þeim meðulum sem duga. Þetta fólk lifir ekki í sama heimi og almúginn, fyrirlítur hann raunar. Manni sýnist að lítið hafi breyst í raun og fátt sem bendir til að siðferði hákarlanna á toppnum hafi skánað á seinni tímum...þó að þeir gefi til góðgerðarmála öðru hvoru, þeiru munu færa okkur kreppur og stríð áfram og mala sitt blóðuga gull.
" The issue which has swept down the centuries
and which will have to be fought sooner or later
is the people versus the banks." ~ Lord Acton ~
SeeingRed, 10.12.2009 kl. 01:22
Pétur. Því miður skrifuðum við upp á þetta........ með því að kjósa þá vitl.......... sem stjórna. Það vill svo til að á Íslandi er lýðræði, fulltrúalýðræði. við kjósum fólk til að taka ákvarðanir fyrir okkur.....
Eysteinn Þór Kristinsson, 10.12.2009 kl. 10:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.