Um hvað bloggar maður sem hefur ekkert að segja?

Í dag er einn af þessum morgnum. Ég reyni að gefa mér um 50 mínútur á dag til að blogga um eitthvað. Ég á 23 mínútur eftir. Ég hef ekkert merkilegt að segja í dag.

Kannski ég lýsi kannski mínum venjulega virkum degi hérna í Osló.

Ég vakna um klukkan 6 og tek þátt í að undirbúa börnin fyrir skóladaginn. Bý um rúmið, skelli mér í sturtu, bursta tennurnar og hárið. Næ að setjast niður fyrir framan tölvuna um klukkan 7:30 og hef þá 50 mínútur. Í dag er ég þegar búinn að gefa út eina grein af rogerebert.blog.is um New Moon, þessa vinsælu ástarsögu um vampírur og varúlfa. Roger er ekki hrifinn.

Nú blogga ég svo um ekki neitt.

Klukkan 8:20 fer ég út úr húsi og geng í fimmtán mínútur niður að bryggju. Þar tek ég hraðbát sem kemur mér yfir Oslófjörð á tíu mínútum. Hinumegin geng ég svo aftur fimmtán mínútur að fyrirtækinu þar sem ég starfa, Ambitiongroup, sest þar niður fyrir framan Mac, forgangsraða og leysi öll þau hugsanlegu verkefni sem skjalastjóri í upplýsingatæknifyrirtæki getur fengið inn á borð til sín.

Eftir vinnudaginn fer ég svo aftur heim. 15 mínútu ganga, 10 mínútu sjóferð, 15 mínútu ganga. Það verður jólaskemmtun í skólanum hjá dóttur minni í dag, þar sem hún mun flytja ræðu á ensku. Það verður gaman að fylgjast með því.

Þegar heim kemur sest ég niður og þarf að leysa þýðingarverkefni sem tekur sjálfsagt um þrjár klukkustundir, og eftir það get ég kannski náð að horfa á eina bíómynd eða kannski sjónvarpsþátt á DVD, svona til að slappa aðeins af.

Úff. Klukkan orðin 8:04.

Yfirleitt ef ég hef ekkert að segja, þá kíki ég gegnum fréttir á mbl.is eða eyjunni, eða á Silfur Egils, þar er alltaf eitthvað bitastætt að finna. Ef ekki, held ég kannski áfram að lesa eina af þeim bókum sem liggja opnar hjá mér. Þessa dagana liggur safn ritgerða eftir Henry David Thoreau á skrifborði mínu og les ég vandlega ritgerðina hans um borgaralega óhlýðni, þar sem hann fjallar um skyldu sérhverrar manneskju að bregðast við vondum lögum með því að brjóta lög.

Ég hef fullar bókahillur af spennandi lesefni, en les hverja þeirra svo hægt, því að þegar hugmyndirnar fara að spretta fram þarf ég að greiða úr þeim, og geri það með því að skrifa um þær. Stundum birti ég þessar hræringar á blogginu, en yfirleitt ekki.

Klukkan orðin 8:09.

Það má kannski minnast á að þegar ég geng þessar 15 mínútur á milli staða, hlusta ég yfirleitt á hljóðbók og hef fengið mikla ánægju úr efni frá The Teaching Company. Frábært efni. Í bátnum les ég svo eins og einn kafla úr einhverri skáldsögu. Í augnablikinu er ég að lesa "The Lost Symbol" eftir Dan Brown, um prófessorinn Robert Langdon sem lenti í "Da Vinci Code" og "Angels og Demons" ævintýrunum. Ég hafði ekki verið neitt sérstaklega hrifinn af fyrri bókum eða bíómyndum, en "The Lost Symbol" hefur náð skemmtilegum tökum á mér, þó að hún sé svipuð að uppbyggingu og þær fyrri. Skemmtilega blandað saman vísindaskáldskap og dulspeki.

Á göngu minni hlusta ég hins vegar þessa dagana á "Innocents Abroad" eftir Mark Twain. Hann varð frægur fyrir þessa ferðasögu hans og hóps fólks frá New York á 19. öldinni, og skrifar hann með miklum húmor um ævintýri sín og samferðalanga sinna um ókunnar slóðir. Ég kann vel að meta íróníuna og húmorinn sem geislar úr sögum þessa sagnameistara, en hann er þekktur fyrir að spila saman fordómum fólks og síðan nýrri upplifun sem stangast á við fordóma þeirra, en samt sjá þeir þessa upplifun út frá sjónarhorni fordómsins. Mikil snilld.

Klukkan orðin 8:15. 

Þarf að koma mér af stað. Best að láta Púkann lesa yfir greinina og birta svo.

Svona blogga ég þegar ég hef ekkert að segja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þetta var heilmikið skemmtilegt.  Takk.

Jenný Anna Baldursdóttir, 8.12.2009 kl. 10:16

2 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Ég hef svo sem ekkert sérstakt að segja við þessu bloggi þínu félagi.

Guðmundur St Ragnarsson, 8.12.2009 kl. 14:21

3 identicon

Ég er alveg kjaftstopp

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 8.12.2009 kl. 16:25

4 Smámynd: Stjörnupenni

Það er betra að þegja þegar maður hefur ekkert að segja.

Stjörnupenni, 8.12.2009 kl. 18:39

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

:)

Hrannar Baldursson, 8.12.2009 kl. 19:53

6 Smámynd: Ómar Ingi

Flott innsýn í daglegt amstur þitt

Ómar Ingi, 8.12.2009 kl. 21:37

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nei, ekki þegja þó manni finnist maður hafa lítið að segja. Blogga og blogga. Kannski verður eitthvað úr þessu. Ef ekki þá verður bara að hafa það. Þeir partar sem ekki er hægt að nota verða kannski nothæfir seinna með smábreytingum. Ef manni finnst að maður þurfi að blogga þá bloggar maður.

Sæmundur Bjarnason, 9.12.2009 kl. 08:08

8 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir athugasemdirnar.

Stjörnupenni: ágætis ráð, en missti algjörlega af inntaki færslunnar. Þó að maður hafi kannski ekkert að segja í upphafi færslu, þá kemur á endanum í ljós að maður hefur heilmikið að segja. Þegar maður fer að dæma sjálfan sig um hvort maður hafi eitthvað að segja eða ekki, og telji ekki svo vera, þá dæmir maður sjálfan sig í eitthvað eins og lífstíðarþögn.

Þannig að betra er að segja en þegja.

Hrannar Baldursson, 9.12.2009 kl. 08:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband