Eru skoðanir með og á móti ICESAVE byggðar á trúarsannfæringu eða skynsemi?

Að samþykkja ICESAVE eins og frumvarpið er í dag, er að stökkva fram af himinháum kletti án öryggisnets, vængja, fallhlífar eða gúmmíteygju. Þó að maður stökkvi fram af fjalli geti mótvindur kannski verið nógu mikill til að maður lifi fallið af... RIGHT!

Hvernig er hægt að sannfæra manneskju sem ætlar að taka slíkt stökk um að það sé hættulegt, að hún geti dáið, og ef hún vill ekki að hlusta og ásakar viðmælandann einfaldlega um að dramatísera hlutina, hvernig er hægt að sannfæra slíka manneskju og hvað getur maður gert ef hún hefur þúsundir manna í eftirdragi og ætlar að stökkva fyrst og láta alla hina fylgja á eftir, með góðu eða illu?

Eygló Harðardóttir skrifar ágætis pistil um ICESAVE málin, þrátt fyrir að hún starfi á Alþingi og sé Framsóknarkona. Þar skrifar hún meðal annars:

"Kjarninn virðist vera sá að við sem eru á móti málinu trúum að við verðum látin greiða þetta og þeir sem eru með málinu trúa því EKKI að við verðum látin borga þetta."

Ef þetta er satt, að ICESAVE málið snúist um trú eða vantrú, þá er um afar alvarlegt vandamál að ræða. Ef kjarni málsins er trú sem byggir á sannfæringu, sem byggir á þeirri von að það þurfi kannski aldrei að borga reikninginn sem verið er að samþykkja, þá eru viðkomandi á afar slæmri braut. Ef málefnin eru orðin að trúarbrögðum verður ekkert pláss fyrir rökræðu, og án rökræðu verða ákvarðanir teknar sem byggja á loftköstulum einum saman.

Þetta útskýrir hvers vegna ræður á Alþingi virðast alltaf vera í kappræðustíl, í stað samræðustíls. Kappræður snúast um að sannfæring eins verði ofan á, en samræður snúast um að dýpka þekkingu og skilning á málefnum og taka síðan góða ákvörðun sem hefur skynsamlegan grundvöll. Ef Alþingismenn trúa ekki á kraft skynseminnar, þá er Alþingi glatað dæmi og þyrfti helst að kippa því úr sambandi strax í kvöld. 

Áhugavert að Eygló skuli nota orðið trú og vissulega er afar varhugavert að byggja slíka ákvörðun á trú frekar en skynsemi. Stærra vandamál er að þingmenn virðast sumir hverjir ekki fara eftir eigin samvisku, heldur fylgja fyrirskipunum leiðtoga eigin flokks. Það er einnig andstætt heilbrigðri skynsemi.

Reyndar eru til fordæmi fyrir slíkum ákvörðunum. Álíka gáfulegar ákvarðanir voru teknar á miðöldum þegar börn voru send í krossferðir til Jerúsalem byggt á þeirri trú og von að sakleysi barnanna myndi yfirstíga öll vandamál. Börnunum var slátrað á leið sinni að landinu helga. 

Vísinda- og fræðimenn hafa stöðugt verið í baráttu við trúarstofnanir sem vilja ekki sætta sig við að hugsanlega geti heimsmynd þeirra verið röng. Þetta er svo augljóst að það þarf varla að nefna dæmi. Það virðist einhver sjúkdómur hafa heltekið Samfylkingu og VG. Ég veit að þetta fólk vill vel. Það vill hjálpa þér að komast yfir götuna, hvort sem þú vilt fara yfir götuna eða ekki. Ef ekki og þú streitist á móti, verður kölluð til sérsveit lögreglu og þú skalt fara yfir götuna. 

Reyndu að ræða við manneskju sem er sannfærð um að einhver ósannindi eru sönn, eitthvað sem þú veist að eru ósannindi, og þú munt ekki hafa árangur af því erfiði að sannfæra viðkomandi. Skortur á skynsemi finnur alltaf einhverja réttlætingu fyrir eigin trú, sama hversu fjarstæðukennd hún kann að vera.

Í tilfelli Samfylkingar grunar mig að sannfæringin sé sú að ef ICESAVE lögin verða að veruleika, þá muni íslenska þjóðin neyðast til að ganga í Evrópusambandið, sem síðasta úrræðið í þröngri stöðu, að VG vilji þvinga þessu í gegn til þess eins að halda áfram völdum. Ég hef ekki heyrt nein skynsamleg rök fyrir samþykkt á ICESAVE frumvarpinu, en heyrt mörg góð rök gegn því. Ég mun ekki ræða þau rök í þessum pistli, sem þegar er orðinn alltof langur, heldur hugsanlega í næsta pistli, þar sem rökin gegn ICESAVE eru svo hrópandi augljós að óskiljandi er hvernig hægt er að setja sig á móti þeim, nema þá með beitingu trúar og óljósra vona.

Í skák eru leikir eins og ríkisstjórnin er að leika núna kallaðir örvænting, en það er fyrirbæri sem á sér stað í erfiðri stöðu og skákmaður reynir að bjarga sér með því að hræra í stöðunni, fórna köllum og vonast til að hinn aðilinn geri einhver mistök. Slíkar aðferðir bera sjaldan góðan árangur, en stöku sinnum gengur slíkt þó upp, en það er bara undantekning og við erum að tala um minnstu mögulegu áhættu, sem er að tapa einnig skák, ekki að leggja undir framtíð komandi kynslóða.

Það er sorglegt hvernig þingmenn skipta sér eftir flokkslínum í stað þess að fylgja lögmálum gagnrýnnar hugsunar, ákvarðanatöku sem byggir á skynsemi og raunverulegu áhættumati.

 


Viðeigandi myndband frá Monty Python, öll þrjú atriðin.

 

Athugasemd: Ríkisstjórnin þarf að endurskoða hug sinn, því hún er að gera grundvallarmistök í verkefnastjórnun, sem felst í of mikilli bjartsýni. Allt þarf að ganga upp til að áætlunin verði að veruleika. Trúðu mér. Ég hef sjálfur brennt mig á þessu.

Það má lesa um bjartsýnisvilluna á Wikipedia, þar segir meðal annars:

"Bjartsýnisvilla birtist í kerfisbundinni tilhneigingu fyrir fólk til að vera of bjartsýnt um útkomu áætlaðra aðgerða. Þetta inniheldur ofmat á líkindum jákvæðra atburða og vanmats á líkindum neikvæðra atburða. Þetta er ein af mörgum tegundum jákvæðra tálsýna sem fólk er almennt veikt fyrir."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Björgvinsson

Takk fyrir góða færslu. Það hefur einmitt undrað mig mikið hversu erfitt er að fá aðgang að staðreyndum og rökum í málinu. Megnið af boðskapnum eru staðhæfingar gegn staðhæfingum. Þar sem ég bý erlendis er alveg mögulegt að ég fylgist ekki nógu vel með íslenskum fjölmiðlum en ég sakna mikið að þeir geri fréttaskýringu þar sem farið er yfir staðreyndir málsins og mögulegar málalyktir án þess að blanda trú á eða gegn ESB í málið.

Kjartan Björgvinsson, 6.12.2009 kl. 23:29

2 Smámynd: Viðar Freyr Guðmundsson

Eins og ég sé þetta snýst þetta miklu frekar um hvort menn trúi að við EIGUM að borga eða ekki, útfrá lagalegu og siðferðislegu sjónarmiði. Svo eru menn mis vísindalegir í því hvort sé rétt. (Sumir benda á EES löggjöf þar sem það stendur nokkuð berum orðum að ríkisábyrgð sé bönnuð.)

Mér sýnist að vinstri menn, sem eru alltaf að reyna að hugsa 'heildrænt', í allsherjarlausnum og út frá 'samfélagslegri ábyrgð'.. trúi því bara einfaldlega að ef einhver okkar geri rangt, þá sé það á ábyrgð okkar allra. Svipað eins og foreldri sem ber ábyrgð á því þegar barnið brýtur rúðu í næsta húsi.

Þannig að það hentar mjög vel þeirra lífsskoðun að láta almenning borga, vegna þess að ríkisstjórnin brást í 'foreldrahlutverkinu'.

Viðar Freyr Guðmundsson, 7.12.2009 kl. 05:09

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Kjartan: sammála.

Viðar Freyr: flott greining hjá þér að þarna komi inn það lífsviðhorf að líta á samfélagið allt sem eina fjölskyldu, um hvort að samfélagið sé bindandi heild eða samansafn misjafnlega vel tengdra einstaklinga. Þarna yrði þá baráttan orðin heimspekileg, ef rætt yrði um rök og hvernig slíkar heimsmyndir hafa áhrif á rökhugsun og ákvarðanir, en þegar ekki er rætt saman virðist þetta orðið að trúarlegu stríði milli þeirra sem hafa trú á heildarmynd (VG og Samfylking) og hinna sem hafa enga trú (Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Hreyfingin). Getur verið að málið sé svona einfalt, og í leiðinni óendanlega flókið?

Samt held ég að flestir telji að við ættum ekki að borga þetta, en að það sé rétt hjá Eygló að sumir telja okkur komast hjá því þar sem þetta sé pólitískt mál, en aðrir telja að ekki sé hægt að komast hjá því, þar sem slíkur samningur er eins og skattur sem aldrei verður hægt að komast undan að greiða. Erfitt að segja hvað er rétt án þess að heyra öll rök beggja aðila, en siðferðilega séð, þá eru samningar gerðir til að fara eftir þeim af fullum hug, en ekki til að svíkja þá með tíð og tíma.

Hrannar Baldursson, 7.12.2009 kl. 06:31

4 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

"Ég veit að þetta fólk vill vel. Það vill hjálpa þér að komast yfir götuna, hvort sem þú vilt fara yfir götuna eða ekki. Ef ekki og þú streitist á móti, verður kölluð til sérsveit lögreglu og þú skalt fara yfir götuna."

Hrannar þetta er besta lýsing á sósialisma sem ég hef séð. Sömuleiðis er greining Viðars örugglega ekki fjarri lagi. Það er grundvallarmunur á hugsunarhætti vinstri og hægri. þetta ætti að nota þegar verið er að reyna að útskýra fyrir börnum og unglingum hvað hann sé. Hrá forsjárhyggja  er það sem blífur hjá þessari stjórn og stóri bróðir í anda Indriða sér til þess að allir krakkarnir á róló fari nú rétt að.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 7.12.2009 kl. 07:40

5 Smámynd: Björn Heiðdal

Ummæli Steingríms Joð upp á síðkastið benda til þess að hann sé leikstjórinn sem ekki fékk að ráða hvaða leikrit var sett upp en geri sitt besta engu að síður.  Ef Bjarni Ben og Framsókn væru að leikstýra væri það einnig nákvæmlega sama leikritið.  Kannski væri einhver munur á leikaravalinu en leikritið héti ennþá "Borgaðu eða ég lem þig í boði alþjóðasamfélagsins."

Björn Heiðdal, 7.12.2009 kl. 08:40

6 Smámynd: Jón Ragnarsson

Einn kunningi minn benti á að Alþingi líktist Standford Prison Experiment svolítið. Stjórn og stjórnarandstæðingar festa sig í einhverjum hlutverkaleik í staðinn fyrir að vinna vinnuna sína.

Jón Ragnarsson, 7.12.2009 kl. 10:43

7 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Athyglisverður pistill.  Bjartsýnisvillan getur virkað í báðar áttir.  Það er mikil upplýsinga ósymmetría í þessu Icesave máli. 

Að fella Icesave er eins og að gefa húseigenda með erlent lán í greiðsluvanda 20% niðurfellingu og hækka vexti.  Allt fer í fyrra horf.  Það er nefnilega ekki nóg að fella Icesave það er þá þörf á mun rótækari skuldaniðurfellingu til að við höfum nægan gjaldeyri til að halda uppi velferðarkerfi.  Þetta er helsi gallinn á þessari leið.

Hin leiðin að gangast að Icesave virðist við fyrstu sýn vera enn verri þar sem skuldir munu aukast enn meira.  Þetta er svipað og segja við fyrrum húseiganda ef þú lofar að standa við gamla samninginn þá munum nágrannar þínir hjálpa þér og kannski hleypa þeir þér inn í fína golfklúbbinn þeirra sem opnar alls konar möguleika.

Þessi ákvörðun um að fella eða samþykkja Icesave er enginn endapunktur.   Þetta eru bara 2 mismunandi upphafspunktar inn í þykkan og dimman skóg. 

Í myrkri magnast alls konar draugasögur.   

Andri Geir Arinbjarnarson, 7.12.2009 kl. 14:43

8 Smámynd: Kjartan Björgvinsson

Viðar Freyr.

Athugasemd þín fellur vel að mínum skoðunum, ég fer bara aðeins lengra í samfélagshugsuninni, við erum aðilar að EES og höfum þar með gengist inn á þá kosti og galla sem því fylgir. Kerfi EES reyndist meinlega gallað þegar kemur að ábyrgðum og eftirliti með bankastarfsemi, ergo þarf EES samfélagið að taka þátt í að greiða úr vandanum og taka þátt í kostnaðinum. Íslensk stjórnvöld bera veruega ábyrgð og við eigum þess vegna einnig að taka þátt en ekki umfram getu, þar sem að það verður engum til hagsbóta. Oft er sagt að vilji er allt sem þarf, mér finnst að getan verði líka að vera með.

Hrannar. Ég er nú svo einfaldur að ég skil ekki alveg hverju það breytir að um er að ræða pólítiskt mál. Ég er 100% sammála þér að samningar eru gerðir til þess að standa við þá. Það getur náttúrulega verið að pólítík hafi á seinni árum öðlast nýja merkingu á Íslandi og þýði núna óheiðarleiki, lygi eða ásetningur um að standa ekki við skuldbindingar.

Andri.

Mikið vildi ég að það væru fleiri, einkum meðal stjórnmálamanna og fjölmiðlafólks sem gerði sér grein fyrir og upplýsti um að vandi Íslands er stærri og fjölbreyttari en Icesave og kominn tími til að gera ferðaáætlun fyrir "skógarferðina" sem framundan er.

Ég vona að Alþingi beri gæfu til að skilja að það að standa sameinuð gegn vandanum er miklu mikilvægara en sá stjórnmálaágreiningur sem er á milli íslenskra stjórnmálaflokka. Þingmenn gætu til dæmis tileinkað sér það sm Hrannar skrifar á síðunni sinni: "Við verðum að opna augun og vinna saman en ekki sundruð. Það eina sem getur sameinað okkur er traust, og traust öðlumst við ekki fyrr en við upplifum réttlæti, og réttlæti fáum við ekki fyrr en við berjumst fyrir því, og við berjumst ekki fyrir réttlæti fyrr en við vöknum."

Kjartan Björgvinsson, 7.12.2009 kl. 15:24

9 identicon

Góður pistill Hrannar!

Eygló leyfði sér, þó hún sitji á Alþingi og sé Framsóknarkona, að vitna í hann, bæði við umræðuna í nótt og við atkvæðagreiðsluna í dag.

kv,
Siggi

Sigurður E. Vilhelmsson (IP-tala skráð) 8.12.2009 kl. 17:03

10 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir að láta mig vita, gamli vinur.

Hrannar Baldursson, 8.12.2009 kl. 19:54

11 identicon

Hún er konan mín og við lesum bloggið þitt reglulega

kv,
Siggi

Sigurður E. Vilhelmsson (IP-tala skráð) 8.12.2009 kl. 23:11

12 Smámynd: Hrannar Baldursson

Gaman að heyra. 

Það hefur margt runnið til sjávar síðan við skrifuðum saman einhverja gagnrýna ritgerð um samfélagsmál í Fellaskóla. Ætli nokkur annar jafnaldri minn hafi hvatt mig jafn mikið til gagnrýnnar hugsunar og þú, þegar við vorum hva, 14 eða 15 ára?

Sendi ykkur heillakveðjur og vona að fólk fari að átta sig á að ICESAVE samningurinn er ekki eitthvað pólitískt blaður sem þarf ekki að borga, heldur raunveruleg skuldsetning sem mun hafa djúp áhrif á framtíð okkar og afkomenda okkar.

Hrannar Baldursson, 9.12.2009 kl. 07:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband