Fjöldagjaldþrot íslenskra heimila í sjónmáli?

Þú verður að hlusta á þetta.

Þetta er viðtal sem Heimir Karlsson átti við íslensk hjón sem gátu ekki staðið í skilum á verðtryggðu húsnæðisláni, ekki vegna húsnæðislánsins, heldur vegna lögfræðikostnaðar og annnars innri kostnaðar í bankanum. Nú standa þau uppi án húsnæðis og skulda 17 milljónir þrátt fyrir að hafa staðið í skilum vegna lánanna. Húsnæðislaus, hann atvinnulaus og með börn. Hvar er skjaldborgin fyrir þetta fólk? Hvar er skjaldborgin fyrir þær þúsundir sem eru í sömu stöðu?

Eina sem maður heyrir frá ríkisstjórninni er að staðan sé ekki svo slæm, þetta eru bara einhverjar prósentur af þjóðinni. Ég hef aðeins eitt að segja við þá sem nota tölfræði og líkön í svona málum:

ÞAÐ ER RANGT AÐ TROÐA MANNESKJUM Í TÖLFRÆÐILÍKAN OG GERA ÞANNIG LÍTIÐ ÚR VANDA ÞEIRRA

Bankinn þeirra hefur komið fram við þau af mikilli grimmd, og hvorki forsætisráðherra né félagsmálaráðherra svarað þegar þau hafa reynt að ná sambandi við stjórnmálamenn í ákalli um hjálp. Maðurinn hefur íhugað sjálfsmorð. Konan er afar döpur.

Hagsmunasamtök heimilanna urðu til vegna þess að hópur einstaklinga sá fyrir að þessi yrði raunin, og er í raun einu íslensku samtökin sem reyna að slá skjaldborg yfir heimilin, en þessi samtök eru óháð stjórnmálaflokkum og unnin í sjálfboðavinnu. 

Því miður hafa samtökin mætt óvæntri mótstöðu frá þremur hópum: bönkum, ríkisstjórn og fjármagnseigendum, en af einhverjum ástæðum skilja þessir þrír aðilar ekki að Hagsmunasamtök heimilanna eru fyrst og fremst mannúðarsamtök sem berjast fyrir þeim eðlilegu mannréttindum að fólk fái að hafa þak yfir höfuðið.

Ég held að Hagsmunasamtök heimilanna ættu að íhuga alvarlega að safna saman upplýsingum um þau mannréttindabrot sem verið er að vinna gegn góðu fólki á Íslandi, og stofni til samvinnu við alþjóðleg mannréttindasamtök.

Því miður hafa Hagsmunasamtök heimilanna séð sig neydd til að fara út í þá leið að efna til friðsamlegra mótmæla með að hætta tímabundið greiðslum, en því miður virðast afleiðingarnar verða þær að bankarnir senda sínar kröfur í lögfræðinga sem eykur kostnaðinn fyrir þá sem skulda töluvert. Greiðsluverkfall vekur athygli á stöðu mála, en það þarf meira til.

Ef farið er út í greiðsluverkfall þarf samstaðan að vera öflug, og verkfallið má alls ekki vera tímabundið. Fólk þarf líka að standa saman.

Ég skil ekki það fólk sem lifir án vandræða og sér venjulega einstaklinga sem hafa staðið í skilum allt sitt líf, tapa öllu sínu, hvernig það getur staðið gegn þessu fólki og sagt að ekkert réttlæti sé í að fella niður skuldir þeirra, þegar þetta fólk biður aðeins um réttlæti.

Það er ekkert réttlæti í því að tapa öllu.

Ég heyri stöðugt frá æ fleirum að ég hafi tekið góða ákvörðun við að flytja úr landi þegar þetta var allt rétt að byrja. Það er ekki auðvelt að flytja frá heimalandi sínu án atvinnu. Hafa verður í huga að einstaklingur fær aðeins þrjá mánuði í atvinnuleysisbætur flytji hann frá Íslandi, og erfitt er að finna góð störf í Evrópu í dag. Það eru um 300 manns um hvert auglýst starf á Oslósvæðinu í Noregi, þannig að þetta er ekki auðvelt. Það tók mig sex mánuði að finna starf. 

Þeir sem ætla að flytja út verða að átta sig á að fórnirnar eru miklar. En þeir sem ætla að vera áfram heima og finna að byrjað er að þjarma að þeim, verða að standa saman og sýna þessa samstöðu í verki. Það er erfið leið, en valið stendur aðeins á milli tveggja kosta:

a) flytja úr landi

b) verja heimilin

Þjóðir hafa farið út í styrjaldir til að verja heimilin. Það var frekar auðvelt fyrir mig að flytja úr landi þar sem ég hef lengi búið erlendis, en í Mexíkó lenti fjölskylda mín í erfiðum náttúruhamförum, fyrst fellibyl og svo flóði, þannig að allar eignir okkar fóru forgörðum. Eftir það flutti ég til Íslands, kom með fjölskylduna heim, og þá skellur Hrunið á. Þetta eru verri hamfarir en fellibylur og flóð, aðallega vegna þess að þessar hamfarir eru af mannavöldum, og fylgt eftir af grimmd, skilningsleysi og síðan virðist meirihluti þjóðarinnar kæra sig kollóttan.

Hvar er þjóðin?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Nú er stórt spurt Hrannar.

Hef spurt mig þess sama.

Ég hélt að við hefðum fengið það í nesti úr foreldrahúsum, að sýna samúð og finna til samkenndar með náunganum sem á í erfiðleikum.

Í stað þess er eins og fólk haldi að það sé að læra til prófs að taka við af Lykla Pétri.  Hver gaf okkur þann rétt að dæma um hvort þessi eða hinn eigi rétt á hjálp????  Dugar ekki að vita að hann þarfnast hjálpar????

En takk fyrir mennskan og mannúðlegan pistil.

Það er gott að vita þú flatmagar ekki einhvers staðar í sólinni ytra.

Hér stytta ekki upp élin nema einhver orði hlutina eins og þú gerðir hér að framan.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 26.11.2009 kl. 08:35

2 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Þakka þér fyrir góðan pistil Hrannar, þú hefur lög að mæla í einu og öllu. 

Það væri óskandi að augu þeirra sem hér ráða opnist fyrir vandanum sem heimilin standa frammi fyrir. 

Sorgleg er sú staða að það virðist ekki snerta við þessu fólki hvernig komið er fyrir mörgum heimilum í landinu, því jú við erum ekki bara að tala um heimili sem eitthvað ótilgreint hugtak heldur er verið að tala um lifandi fólk, einstaklinga í raunverulegum vandræðum, vandræðum sem það var ekki að koma sér í viljandi, margir voru plataðir af þeim sem nú vilja ganga að þeim án nokkurrar miskunnar.

Það er virkilega dapurlegt að svona skuli Ísland vera í dag.

Tómas Ibsen Halldórsson, 26.11.2009 kl. 10:20

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Góðar athugasemdir Ómar og Tómas. Ég er farinn að fá þá tilfinningu hins vegar að ekki sé hlustað og reynt að ræða málin af skynsemi meðal þeirra sem hafa völd á Íslandi. Á Alþingi keppast menn um að tala sem lengst, í sjónvarpi tala viðkomandi mikið og segja lítið, og fólkið sem á undir högg að sækja virðist því miður þurfa að fylgja í kjölfar litlu stúlkunnar með eldspýturnar þetta árið.

Á sama tíma og fjölskyldur eiga varla fyrir mat, eru að birtast spáfréttir um að fólk muni eyða meira í jólagjafir þetta árið en það síðasta. Er veruleikafirringin virkilega orðin svona rótgróin?

Hrannar Baldursson, 26.11.2009 kl. 10:59

4 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Því miður virðist svo vera Hrannar.  Á Alþingi er verið að reyna að berja Icesave í gegn, þeir einu sem tjá sig um það mál er stjórnarandstaðan, hinum virðist alveg sama.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig jólaverslunin kemur út í ár, fólk virðist loka augunum og vona að hlutirnir lagist af sjálfu sér, ekki er að sjá að stjórnvöld muni hjálpa til.

Kannski hugsar fólk svona: "Lifum og leikum okkur í dag, því á morgun munum við öll deyja".

Tómas Ibsen Halldórsson, 26.11.2009 kl. 14:35

5 identicon

Er ekki kominn tími til að gera eitthvað róttækt? Það virðist ekkert virka af þeim aðgerðum sem hafa verið að undanförnu, friðsæl mótmæli á Austurvelli þar sem fáeinar hræður standa þegjandi með spjöld og mótmæla óréttlæti og svo greiðsluverkfall sem virðist ekki skila neinum árangri. Það er ekki hægt að bankarnir nái að sölsa undir sig bæði fyrirtækjum og húsnæði fólks. Það voru eigendur bankanna sem komu öllu í þrot vegna græðgi og siðleysi og síðan leggur ríkisstjórnin blessun sína yfir þessar stofnanir núna og gerir ekkert. Saklausir lántakendur eiga bara að borga og borga annars er allt hirt og sett í hendur bankanna! Þetta er bara svo kolrangt að það hálfa væri nóg. Gerum eitthvað, sitjum ekki aðgerðarlaus og horfum á!!

Edda Karlsdóttir (IP-tala skráð) 26.11.2009 kl. 18:26

6 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

Þetta var átakanlegt viðtal.
Ég gat ekki betur heyrt en brotið hefði verið gróflega á þessum hjónum og ekki gætt meðalhófs né sanngirni í viðskiptum við þau. Mér fannst líka merkilegt hvernig ríkisumsýslan vann gegn þeim við að standa í skilum.

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 26.11.2009 kl. 18:41

7 identicon

Þetta var dapurlegt viðtal og því miður örugglega margir sem standa frammi fyrir þessu á næstu mánuðum og misserum.

Verkalýðshreyfingin, "hreyfing fólksins", styður þessa eignaupptöku og víðtæka áframhaldandi verðtryggingu húsnæðisskulda.  ASÍ hefur sagt frá upphafi hrunsins að EKKERT megi gefa eftir í verðtryggingunni.

Það finnst mér líka virkilega sorglegt.  Þessir menn í sínum fílabeinsturnum með sín háu laun skilja ekki vandamálið og telja að heimilin geti bara staðið undir þessu öllu.  Verðtryggt íslenskt lán hefur hækkað um 50% síðan 2005. Það er veruleikinn.

Margrét Ólafsd. (IP-tala skráð) 26.11.2009 kl. 21:44

8 identicon

Það er rétt hjá þér Margrét að verkalýðshreyfingin styður áframhaldandi verðtryggingu því miður og er það einnig stutt dyggilega af ríkisstjórninni. Það virðist ekki mega hrófla við neinu sem gæti skaðað fjármagnseigendur. Skuldarar í þessu landi geta farið á hausinn í þúsundatali án þess að neitt sé gert til að leiðrétta þeirra kjör þar sem lán hafa farið úr öllum böndum eftir fall bankanna vegna óráðsíu nokkurra einstaklinga sem léku sér óábyrgt með fé almennings í landinu. Viðtalið við hjónin í færslu Hrannars er sennilega bara byrjunin á því sem við eigum eftir að upplifa ef ekkert verður að gert. Ég vil sjá aðgerðir og það strax! Við eigum ekki að bíða lengur eftir að ríkisstjórninni þóknist að taka mál bágstaddra heimila til meðferðar, það gæti dregist í fleiri mánuði í viðbót. Góðar hugmyndir um róttækar aðgerðir vel þegnar. Ég er yfirleitt mjög friðsöm og lítið fyrir læti en nú er nóg komið. Við eigum ekki að láta bankana hirða allar okkar eignir. Erum við ekki búin að vera stillt einum of lengi?

Edda Karlsdóttir (IP-tala skráð) 26.11.2009 kl. 22:09

9 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég mæli með að byrja á aðferðinni sem Marinó G. Njálsson stingur upp á í þessari færslu, til þess að viðskiptavinir fái eitthvað raunverulegt í hendurnar. Ofbeldi og læti leiða ekki til neins. Hins vegar verður fólk að leita réttar síns, halda hópinn og taka á vandanum sem heild. Þannig gefst okkur von.

Hrannar Baldursson, 26.11.2009 kl. 22:19

10 identicon

Ég er sammála að ofbeldi og læti leiða ekki til neins og er ég ekki fylgjandi því. Á hinn bóginn er ekki heldur hægt að láta traðka á sér í hið óendanlega eins og gert er við lántakendur núna. Ég var einmitt að lesa færsluna sem Marinó en hef litla trú á að bankarnir geri neitt á móti sem gagnast. Þarf ekki að fara dómstólaleiðina með þetta alltsaman? Er ekki verið að brjóta á lántakendum? Get ekki séð réttlæti í því að hirða eignir af fólki eins og hjá þessum hjónum sem viðtalið er við í þinni færslu Hrannar. Þau ættu að fá sínar eignir til baka.

Edda Karlsdóttir (IP-tala skráð) 26.11.2009 kl. 22:28

11 Smámynd: Lárus Baldursson

Það er átakanlegt að heyra um þetta fólk sem verður að yfirgefa landið vegna misvitra stjórnmálamanna sem hafa keyrt fjölskyldur í þrot á þessum fáu árum síðan bankarnir voru afhentir glæpamönnum, svo eru hrægammar núna á ferðinni að eignast mikið af fasteignum með því að yfirtaka skuldir og þurfa ekki að leggja út krónu, ofbeldi mun ekki ganga upp og lögreglan er með daglegar skotæfingar þessa dagana og víkinga sveitin er búið að efla meir en gefið er upp, ég held að eina ráði sé að stöðva vélina og þá ráðast á veitukerfin ljósleiðararnir fara í gegnum spennustöðvarnar og auðvelt er að taka gsm möstrin út þetta eru sendar ca 10 wött hver. 

Lárus Baldursson, 26.11.2009 kl. 22:44

12 identicon

Skemmdaverkastarfsemi og skrílslæti eiga aldrei rétt á sér, það er engum til góðs.

Edda Karlsdóttir (IP-tala skráð) 26.11.2009 kl. 23:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband