Erum við þrælar?
25.11.2009 | 08:35
Eini sinni þótti mér heimur okkar frekar einfaldur. Það var áður en ég fór að hugsa um hann af alvöru. Síðar meir þótti mér spennandi að velta fyrir mér hvað það væri í heiminum sem ógnaði mest frelsi manneskjunnar til að vera það sem hún er.
Frá því ég hef verið barn, hefur mér líkað vel við mína eigin manngerð, og þegar kom að því að velja mér framtíðarmenntun, var meginviðmiðið að ég fengi að vera áfram ég sjálfur og þroskast í samræmi við það. Að gera það er flóknara en að segja það. Þetta var afar sjálfhverft val og hefur það margoft verið gagnrýnt í mín eyru, og hef ég hlustað á þessa gagnrýni, en ekki talið rétt að ég leitaði menntunar á sviðum sem einungis tryggðu mér tekjur í framtíðinni, heldur þótti mér mikilvægara að verja tíma mínum í menntun sem hefði merkingu fyrir mig.
Þetta er meginástæðan fyrir því að ég valdi frekar nám í heimspeki og bókmenntafræði, en tölvunarverkfræði, sem mér þótti reyndar afar spennandi kostur. Og reyndar hef ég stundað tölvutengd störf alla tíð, frá því að kenna tölvufræði til að vinna í upplýsingatækni. Ástæðan fyrir að ég valdi heimspeki og bókmenntafræði var einföld. Ég hafði margar spurningar um heiminn og tilveruna, og hef reyndar ennþá fullt af þeim, hafði fundið hjá sjálfum mér mikla þörf fyrir að skrifa og lesa, frá barnæsku - sem hafði ekkert að gera með lestur og skrift í skóla, heldur einhverja þörf til að velta fyrir sér hugmyndum eigin og annarra og móta þær í samspili við fyrsta flokks pælingar. Með þessum huga las ég Biblíuna á 12. aldursári, las ljóð og skáldsögur. Síðan varð ég hugfanginn af skák og hvernig hún tengist mannlegri hugsun, bæði skapandi, gagnrýnni og síðan þessari tegund af hugsun sem reynir að sjá til enda sérhvers máls.
Það magnaða við heimspekina er að þú kemst í snertingu við hugsuði sem deila sínum dýpstu hugsunum með þér og þú færð enn betri tækifæri til að móta eigin þekkingu á heiminum. Þannig séð var þetta val svolítið sjálfhverft, eins og val um framtíð mætti vel vera. Hins vegar hefði ég vel getað ímyndað mér líf í heimi þar sem enginn kostur væri á mannlegum fræðum, og manni ýtt út í starfsþjálfun frekar en menntun, sem er fyrst og fremst hugsuð til að mæta samfélagslegum þörfum og væntingum. Það þarf ekki annað en að lesa George Orwell eða Platón til að dýpka slíkar pælingar. Ætli teiknimyndin 'Animal Farm' hafi ekki einmitt vakið mig til umhugsunar um þessi mál, þegar hún var, að mig minnir, einhvern tíma í bernsku sýnd á jólunum í íslensku sjónvarpi.
Á meðan maður eyðir árum í að velta fyrir sér heimspeki, tekst maður á við spurningar eins og 'ætti maður alltaf að segja satt?', 'hvar liggja takmarkanir mannlegrar þekkingar?', 'hvað er það við fegurð sem hefur áhrif á fólk?' og margt fleir, en heimspekingar hafa ekki bara skoðun á þessu, heldur leyfa sér að hafna því sem þeir hafa áður trúað og reyna að líta á spurninguna fordómalaust, reyna að hugsa um hana sem hugtak, skoða síðan önnur viðhorf, bera þau síðan saman við eigið líf, skoðanir og hugsanir. Eftir slíka rannsókn held ég að heimspekingur þurfi ekki að taka meðvitaða ákvörðun eða komast að einni ákveðinni niðurstöðu, heldur síast þessi vinnsla þekkingar inn í vitund hans, jafnvel á meðan hann sefur. Eða hún.
Þetta leiðir til þess að maður öðlast dýpri skilning á því hvers vegna lygar og spilling festa rætur. Hafir þú ekki hugsað um hvernig þú hugsar, verður þú hugsanlega þræll eigin skoðana, sérstaklega ef þær eru ekki mótaðar af vandlegri umhugsun.
Þér finnst kannski í lagi að hagræða upplýsingum til að fá meira út úr kerfinu, þér finnst kannski í lagi að græða á óförum annarra? Þannig eru hlutirnir bara, gætirðu hugsað. Takirðu tíma til að velta þessu fyrir þér, og snúist grundvallarhugmyndir um siðferði gegn því hvernig þú vilt lifa lífinu, spurningarnar um hvernig hlutirnir ættu að vera frekar en hvernig þeir eru, myndir þú þá hafna siðferðinu eða því lífi sem þig langar að lifa, sé líf þitt á einhvern hátt ranglátt?
Lifum við til annars en að bæta heim okkar?
Segjum að manneskja hafi haft lifibrauð sitt af því að stofna mörg fyrirtæki, velja síðan eitt þeirra, hella skuldum allra hinna yfir á þetta eina og láta þetta eina fara svo á hausinn. Gera þetta margsinnis og sífellt í hærri upphæðum. Er slík manneskja frjáls til að vera hún sjálf, eða þrælbundin í einhverja ímynd sem er ekki sönn?
Frjáls vilji kemur í ljós þegar við vitum að við höfum val. Hjarðhegðun þar sem allir fylgja þeirri sömu stefnu að eignast sífellt eitthvað flottara en aðrir, virðist ekki vera val, heldur líkara fíkn. Sorglegri fíkn. Það er auðvelt að vera meðvirkur í slíkri fíkn.
Er kannski einhver sjálfstæð skoðun falin þarna djúpt innra með okkur. Eitthvað sem aðeins barnið í okkur veit? Eitthvað sem við grófum í djúpa jörð og földum til að geta fullorðnast og hætt að vera áhrifalaus börn? Getur verið að eitt af grundvallarvandamálum heimsins felist í því að við berum ekki virðingu fyrir barninu í okkur sjálfum, né þá í þeim börnum sem enn eru börn, og því finna þessi börn sig knúin til að fullorðnast og hætta því að vera þau sjálf?
Athugasemdir
"Frjáls vilji kemur í ljós þegar við vitum að við höfum val. Hjarðhegðun þar sem allir fylgja þeirri sömu stefnu að eignast sífellt eitthvað flottara en aðrir, virðist ekki vera val, heldur líkara fíkn. Sorglegri fíkn. Það er auðvelt að vera meðvirkur í slíkri fíkn."
Afhverju að hafa val þegar það er svo þægilegt að láta stjórnast af straumnum. Og hvað er þá orðið um frjálsan vilja?
En góð pæling hjá þér og skemmtileg lesning!
Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 25.11.2009 kl. 14:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.