Er Greiðslujöfnun eitthvað annað en lán sem tekið er til að borga lán?
11.11.2009 | 19:53
Mér líður hálf illa yfir þessu. Úrræði ríkisstjórnarinnar er hræðilegt. Þetta er svona 2006 lausn. Þá var hægt að taka lán til að borga ekki bara lán, heldur heilu fyrirtækin, svo að þau gætu keypt enn önnur fyrirtæki og þannig koll af kolli. Það var svona svikamylla sem gat aldrei gengið upp.
Greiðslujöfnunin er líka mylla. Kannski ekki svikamylla. Meira í líkindum við að-mála-sig-út-í-horn-mylla.
Ég fæ þúsundkall að láni hjá Geira. Hann segist ætla að rukka mig um 10% vexti á hverjum mánuði af höfuðstóli þúsundkallsins. Ég ákveð að borga hundraðkall á mánuði, en fatta ekki að lánið hækkar um höfuðstóllinn hækkar um 100 krónur um leið og ég borga, þannig að það stendur i stað. Þannig líða árin.
Dag einn hrynja bankar. Þá fer Geiri í frekar vont skap og vegna ytri aðstæðna ákveður hann að rukka mig um 250 kall á mánuði í stað hundraðkalls. Ekki nóg með það, um 150 krónur leggjast við höfuðstólinn á hverjum mánuði. Ég verð væntanlega fúll, en þar sem allir kröfuhafar landsins hafa gert það sama, kemst Geiri upp með þetta og telst þetta þar með eðlileg hegðun.
Nú á ég ekki lengur fyrir þessu og óska eftir að fá greiðslur frystar í eitt ár, bara af því að ég er svo heiðarlegur og góður strákur. Allt í lagi. Geiri fellst á það, en hins vegar þýðir þetta að 25% af höfuðstól leggst ofan á höfuðstólinn í hverjum mánuði. Eftir árið skulda ég Geira kr. 4000,- og þá er ég farinn að reita hárið af höfðinu.
Kemur þá ríkisstjórnin og ætlar að skakka leikinn. Henni finnst þetta komið út í vitleysu, og leggur nú til að ég fái nógu hátt lán hjá Geira til þess að lækka mánaðarlega útborgun mína niður í 100 krónur. Hins vegar er mánaðarlega greiðslan komin upp í kr. 1000,- á mánuði og mun ég fá að borga þann pening eftir einhver ár, ef mér tekst að borga hitt lánið, kannski þremur árum eftir að greiðslum á hinu láninu lýkur.
Þetta dæmi er kannski svolítið ýkt.
En þetta er nákvæmlega það sem hefur gerst í bíla- og húsnæðislánum Íslendinga. Og Greiðslujöfnunaráætlunin er ekkert annað en lán til að greiða inn á annað lán.
Ég vorkenni starfsmönnum í bönkum sem geta ekki boðið viðskiptavinum sínum upp á betri leiðir, og ég vorkenni þeim sem hafa tekið lán og skulda upp í íbúð eða bíl - ég vorkenni ekki þeim sem hafa keypt sér hundrað bíla og þrjú einbýlishús, sundlaug og lúxustjald fyrir þrátíu. Enda er ég kaldhjartaður maður.
Staðan er þannig: bankaræningjar stálu öllum peningum landsins og miklu meira til. Ríkið lofaði að þeir sem áttu peninga í bönkum töpuðu ekki neinu. Þeir sem borga fyrir þetta eru þeir sem áttu ekki neitt, en skulduðu þeim sem áttu eitthvað í bönkum, eftir einhverjum flóknum leiðum, og þurfa fyrir vikið að borga miklu meira en upphaflega stóð til. Þetta fólk er með lægri laun, borgar fljótlega hærri skatta, og þarf að greiða hærra verð fyrir nauðsynjar - og að sjálfsögðu meira fyrir lánin, annars verður þeim hent út á götu og látin leika litlu stúlkuna með eldspýtuna næstu jól, fyrir framan Hótel Borg á meðan vitringar spjalla í beinni útsendingu með vínglas, innbakað gómsæti og kertaljós.
Fljótlega fara þeir sem eiga peningana sem áður voru varðir, að fatta plottið, að peningar þeirra verða sjálfkrafa minna virði þegar þörfin hinna sem minna eiga eykst, og það fólk getur ekki lengur sett markaðinn á hreyfingu með því að kaupa leikföng í Toys 'R Us.
Stundum langar mig til að taka ræður félagsmálaráðherra og rökgreina þær, en gefst fyrirfram upp einfaldlega vegna þess að ég finn þar hvergi heilan þráð. Nái einn þráður inn í næsta herbergi, er næsta víst að herbergið er lokað. Ég skora á rökfræðinemendur við heimspekideild Háskóla Íslands að greina þessar ræður og birta í fjölmiðlum. Takið hvaða ræðu sem er og berið saman við klassískar þversagnir og rökvillur. Ég er viss um að það verður lærdómsríkt verkefni.
Ég ætla að hætta þessu röfli en enda með því að leggja áherslu á að maður tekur ekki lán til að borga lán, nema maður sé að taka kennitölulán. Það er alltof hættulegt að gera svoleiðis á eigin nafni, en algjörlega siðlaust, en samt sjálfsagt löglegt að gera þetta með nýrri kennitölu. Hef ekki kannað það, en það kæmi mér ekki á óvart.
Athugasemdir
Já Kommarnir ætla fólkinu að halda áfram ruglinu sem þeir vilja ekki kannast við en segja öðrum en þeim að kenna.
Jöfnuður þeirra er að allir hafi það nú örugglega jafn skítt.
Allavega nett klikkuð leið hjá þessu nett klikkaða fólki sem á landinn kallar stjórn.
Ómar Ingi, 11.11.2009 kl. 21:35
" Það er í sjálfu sér rökvilla að halda að auknar skuldir leysi vanda sem varð til vegna þess að kerfið framleiddi allt of mikið af skuldum til að byrja með. Í besta falli er verið að kaupa sér frið í einhvern tíma."
SeeingRed, 11.11.2009 kl. 22:06
ugh ekki segja að Árni Páll sé kommi þú kemur óorði á orðið, hann er harðsvíraður frjálshyggju tittur í vitlausum flokki.
Bjarki M (IP-tala skráð) 11.11.2009 kl. 22:46
PS. Hvað varð annars um www.heimspeki.net ?
Bjarki M (IP-tala skráð) 11.11.2009 kl. 22:47
Bjarki, takk fyrir að spyrja um heimspeki.net - vonandi tekst mér að koma því aftur í gang fljótlega. Það er dýrt að flytja á milli landa í atvinnuleit. Þá þarf slíkur lúxus eins og að halda uppi vefsíðum með árlegum greiðslum því miður að víkja fyrir nauðsynjum.
Hrannar Baldursson, 12.11.2009 kl. 06:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.