Hagar eða heimilin: ól þjóðin fúskara og ræningja sem krefjast óttablandinnar virðingar frekar en vináttu?

Spillt samfélög eiga það sameiginlegt að ef hið eðlilega stangast á við heiðarleikann, þá skuli hið eðlilega ráða ferðinni. Hið eðlilega á nefnilega heima í veruleikanum, en heiðarleiki og réttlæti eru bara einhverjar hugmyndir í skýjunum sem hafa engin bein áhrif.

Það er óheiðarlegt að fella niður skuldir þeirra sem urðu ríkir vegna misnotkunar á kerfinu, á meðan heimilin fá engar niðurfellingu skulda, þrátt fyrir að myntkörfulán hafi verið ólögleg og beinlínis ráðist inn á heimilin með ósýnilegri og grimmri hönd ranglætis.

En það er eðlilegt að Hagar fái afskrift. Ástæðan er einföld: Annars fengi bankinn hugsanlega ekki neitt eða miklu minna en ef allar kröfur verði innheimtar miskunnarlaust. Skiptir þá litlu hvort að aðgerðin væri óheiðarleg, því eins og við vitum græðir enginn á heiðarleika. Af sömu ástæðu innheimta bankar látlaust þegar kemur að heimilum, ástæðan er einföld: það er engu að tapa. Heimilin munu aldrei nokkurn tíma geta staðið saman gegn óréttlætinu. Það er ekki glæta. Samstaða mun aldrei nást. 

Er þetta rétt mat, að það felist meiri áhætta fyrir bankana í því að styggja Haga heldur en heimilin? Að íslensk heimili muni aldrei ná raunverulegri samstöðu og geti barist saman fyrir réttlæti?

Getur þetta kalda mat falist í þeirri staðreynd að Borgarahreyfingin er ekki lengur til, en hún átti að vera helsta rödd heimilanna á þingi, sem virðist því miður hafa verið þögguð niður á undarlegan hát sem enginn skilur. Og getur verið að ekki nógu margir standi saman, einfaldlega vegna þess að þeir skilja ekki að allir Íslendingar eiga heimili, og að með því að ráðist sé á hluta heimila, sé ráðist á þau öll?

Er matið kalda kannski þannig að fyrst fjármagnseigendur fengu sína vernd, og skuldarar enga, þá eru heimili landsins sjálfkrafa í tveimur ólíkum hagsmunahópum og hægt að skipta í þá sem eiga og þá sem eiga ekki, eða eigendur og öreiga?

Segir matið kalda að það skipti engu máli þó að fólk flytji bláfátækt og skuldum hlaðið úr landi, að við þurfum hvort eð er ekki á slíku fólki að halda, að þjóðin hafi alveg efni á því að skreppa svolítið saman, fjölga fyrst fátækum með því að leggja á þá óbærilegar skuldir og losna síðan við þá, enda eru þetta að sjálfsögðu ekkert annað en óskipuleg úrhrök sem engu ógna?

Ég geri ráð fyrir skuldir Haga verði felldar niður að einhverju leyti, vegna þess að það hljómar skynsamlega fyrir þá sem hugsa í tölustöfum. Fyrir þá sem hugsa hins vegar í manneskjum hljómar þetta hins vegar eins og ný opnun útrýmingarbúða á Íslandi.


mbl.is Tugmilljarða afskriftir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband