Er sjónvarpsgláp skaðlegt?
16.10.2009 | 09:42
Þegar þú horfir á sjónvarp er hugur þinn óvirkur að öðru leyti en að hann meðtekur stöðugt upplýsingar. Hugurinn gerir það hvort eð er. Ef þú vinnur ekki úr þessum upplýsingum, sitja þessar upplýsingar óunnar inni á harða disknum þínum. Ef þú notar þessar upplýsingar ekki og gerir ekkert úr þeim verða þær aldrei neitt annað en grafnar minningar.
Áður en lengra er haldið, langar mig fyrst að svara af hverju ég tel sjónvarpsgláp annars vegar vera heilaþvott og hins vegar af hverju ég tel slíkan heilaþvott skaðlegan, og þá fyrir hvern.
Við lifum í heimi sem er háður skilningi okkar á honum. Sé þessi skilningur yfirborðskenndur og óunninn, verður heimur okkar einfaldlega grynnri og ómerkilegri fyrir vikið. Við sköpum heim okkar upp á ákveðnu marki, en síðan má deila um hvort að einhver hafi skapað okkur eða hvort við höfum þróast. Það er önnur umræða.
Við sköpum heiminn með því að fylgjast með, skilja, greina, nota, taka saman meginhugmyndir og meta. Þannig myndum við skoðanir. Þannig sköpum við þekkingu. Sumir halda að við mótum skoðanir okkar með því einu að fylgjast með og skilja. Það er misskilningur. Við öðlumst fordóma með því að fylgjast með og vinna ekki úr upplýsingunum á gagnrýninn hátt, sem er óhjákvæmilegt fyrsta skref að mótaðri skoðun. Skoðanir geta síðan virkað sem hvati til að grafa upp raunverulega þekkingu. Fæst öðlumst við þessa raunverulegu þekkingu, enda er ferlið sem það krefst óþolandi erfitt og langdregið. Vísinda- og fræðimenn stunda oft þá vinnu, en aðrir láta sér duga að hafa skoðanir. Sumir reyna jafnvel að hafa engar skoðanir.
Þegar þú fylgist með ertu að safna upplýsingum, og þó að þú skiljir þær, skipta þær engu máli nema þú beitir þeim, lifir eftir þeim og skapar heiminn í kringum þig útfrá þeim.
Hinn týpíski sjónvarpsglápari situr uppi í sófa eða í hægindastól með fjarstýringu á nálægu borði. Það eina sem hann gerir er að kveikja eða slökkva á sjónvarpstækinu, og síðan skipta um stöðvar í leit að betra efni. Reyndu að tala við svona manneskju á gagnrýninn hátt um það sem verið er að horfa á. Það er eina leiðin til að brjótast í gegnum hinn heilaþvegna múr. Sjónvarpsgláparinn mun líka halda því fram að þú sért vitleysingur að halda því fram að sjónvarpsgláp sé heilaþvottur, og værir kannski með vott af einhvers konar brjálæði og ættir kannski helst heima á hæli fyrir fólk með samsæringarkenningaáráttu (langt orð, en ég varð að nota það).
Sama hversu gott efnið er, eða lélegt, er áhorfandinn fyrst og fremst að fylgjast með. Hann fær ekki tíma til annars. Sérstaklega ef viðkomandi horfir stöðugt á sjónvarpið án þess að ræða upplýsingar við aðra manneskju eða tjá þær á einhvern hátt til að melta þær og meta á eigin forsendum. Það er spurning hvort þú lærir meira um heiminn með því að horfa á fréttir í sjónvarpinu eða með því að horfa á þvottavél vinda þvottinn þinn.
Ekki misskilja mig. Sjónvarpsgláp getur verið afar öflugt tól fyrir lýðræðislega umræðu, en þá þarf hin lýðræðislega umræða að fara fram og tengjast því sem þú ert að glápa á. Skiluru? Ég held að það sé algjör undantekning að fólk ræði um það sem það horfir á eða tjáir það á einhvern hátt. Helst að bloggarar, rithöfundar, listamenn og fjölmiðlamenn geri það. Kannski líka prestar á sunnudögum. Ef fólk horfir á efnið af gagnrýni, þá, og einungis þá, getur það sloppið undan hinum ógurlega heilaþvætti.
Nú gætir þú verið löngu komin á sömu eða allt aðra skoðun skoðun og spurt í framhaldi hvort það sama eigi við um tölvuleiki. Svarið er jákvætt, með einni undantekningu. Sá sem spilar tölvuleiki er ekki aðeins að fylgjast með (reyndar í sýndarveruleika og fær ósannar upplýsingar frekar en sannar til að vinna úr), en viðkomandi lærir að skilja og nota þær upplýsingar sem fást úr leiknum til að ná ákveðnum markmiðum.
Ef hægt væri að gera fréttaefni og fræðslu að spennandi leik sem endurtekur ekki aðeins í sífellu nákvæmlega sama hlutinn, þá værum við hugsanlega að tala saman.
Platón náði þessu vel með Hellislíkingu sinni, þar sem hann lýsti heilli þjóð fanga sem hlekkjuð var upp við vegg og neydd með afli til að horfa á skuggamyndir daginn út og inn, og héldu meira að segja keppni í því að greina skuggamyndir. Svona svipað og að fylgjast með knattspyrnu af áhuga, þar sem að upplýsingarnar skipta nákvæmlega engu máli fyrir þroska heimsins. Það er einungis sá sem kemst út úr þessum heimi skuggamynda og aflar sér raunverulegrar þekkingar, og ákveður að koma til baka og sýna fólki að heimurinn er eitthvað meira og merkilegra en það trúir að hann sé, þrátt fyrir að það muni kosta viðkomandi óþolandi þjáningar og hugsanlega lífi, það er einungis slík manneskja sem er í raun og veru einhvers virði í þessum heimi okkar. Órannsakað líf er ekki þess virði að það sé lifað, sögðu þeir Sókrates og Plató, og ég er sammála þeim.
Internetið er nýjasta bólan, þar sem á áhugaverðan hátt hefur verið reynt að komast í gegnum heilaþvottastigið, sem almennt er kallað Vefur 1.0 og færa það yfir í samfélagslega gagnvirkni, sem kölluð hefur verið Vefur 2.0. Meðal verkfæra Vefs 2.0 er blogg og Facebook, þar sem fólk getur tjáð sig og skipst á skoðunum. Til að mynda ert þú, lesandi góður, fórnarlamb heilaþvottar ef þú lest þessa grein án þess að tjá þig nokkuð um hana. Mæli ég því með að þú skrifir eitthvað í athugasemdaboxið, eða ræðir þessi mál við aðra manneskju til að sjá muninn á því að vera óvirkur móttakari og virkur hugur.
Vefurinn 2.0 er ekki fullkominn frekar en annað. Samskiptin á vefnum takmarkast því miður að því að öll sambönd verða allt í einu platónsk. Þú nærð ekki líkamlegu sambandi við aðra manneskju, getur ekki tjáð þið með samskiptum, né getur ekki kysst þá manneskju sem þú elskar gegnum Vef 2.0. Eitt af því mikilvægasta við nálæg mannleg samskipti er að sumir einstaklingar virðast þurfa á nærveru annarar manneskju að halda til að fara ekki hamförum og festast í misskilningi sem er hugsanlega búinn til í einhverri óendanlegri lúppu í hugum þeirra sem komast ekki út fyrir eigin hugsanir og geta ekki skynjað skoðanir annarra öðruvísi en út frá eigin takmarkaðri reynslu og sjálfum sér sem fullkomnustu veru sem viðkomandi þekkir. (Viðurkenndu það bara. Þekkir þú einhverja manneskju sem er fullkomnari en þú?)
Það eina sem enn er öflugra en Vefur 2.0 eru venjuleg mannleg samskipti og samræða. En hún virðist vanmetin í dag, ekki inni, ekkert hægt að græða á henni. Að minnsta kosti ekki pening. Jafnvel menntun virðist snúast um að taka við upplýsingum í stað þess að uppgötva þær og vinna úr þeim.
Við græðum á mannlegri samræðu þar sem hún hjálpar okkur að móta og þroska heiminn, gera heiminn að heilbrigðari og betri stað. Við lærum að skilja að "ég" er ekki miðja heimsins, né heldur "við", heldur eitthvað sem er þarna á milli og allt í kring, sem er jafnvel enn stærra en þeir sem eru í herberginu með þér. Sumir kalla þetta "Guð" eða "heimsandann". Ég veit ekki hvað hægt er að kalla þetta, en ég held að þetta sé heilagt fyrirbæri. Þetta fyrirbæri er allt fólkið sem nokkurn tíma hefur haft áhrif á viðkomandi, og slík áhrif ná aftur í aldir, allar aðstæður sem hafa haft áhrif og mótað skoðanir alls þessa fólks, sem geymdar eru í okkur sjálfum og brjótast ekki út nema við aðstæður sem eru hvetjandi til þess.
Það virðist koma þessari grein lítið við að ég hef upplifað fellibyl með eiginkonu og börnum, tapað öllum eigum mínum í flóði af saur og þvagi sem náðu tveggja metra dýpi (upp á vegg), en þetta eru lykilatriði sem gera mér mögulegt að skynja heiminn af aðeins meiri dýpt, og hugsanlega meira þakklæti ef ekkert hefði nokkurn tíma komið fyrir í mínu lífi. Ég hef séð hvernig fólk horfir á fréttir um fellibyli og flóð, og hvernig það skilur engan veginn hvað þessi fyrirbæri eru þrátt fyrir að hafa horft á myndir og heyrt fólk segja hvað þetta eru hrikaleg fyrirbæri. Einhvern veginn þarftu að virkja eigin huga til að átta þig.
Vonandi hef ég nú skýrt af hverju ég tel sjónvarpsgláp vera eina tegund af heilaþvotti, en slíkt gláp stuðlar að óvirkni hugans, og óvirkur hugur er ekki hugur sem er að skapa, heldur að taka við og láta að stjórn. Í margar aldir hafa kenningar um ræktun hugans tekist á. Sumir halda að hugurinn sé virkt verkfæri, og aðrir að þetta sé óvirkt geymslupláss. Ég er af fyrri skólanum. Og hef á tilfinningunni að flestir lifi því miður eftir seinni hugmyndinni, jafnvel þó að viðkomandi geti vel samþykkt að hugurinn sé ekki bara geymslupláss. Hann er það bara fyrir sumt fólk.
Hvað hugur þinn er fer að miklu leyti eftir hvernig þú hefur mótað hann og þroskað frá barnæsku. Hafi hann verið stöðugt fylltur af staðreyndum og þú meðtekið þær og verið verðlaunað fyrir, þá ertu einfaldlega meðlimur í meirihluta mannkyns. Sértu hins vegar þannig að þér finnist þú verða að vinna úr öllum sköpuðum upplýsingum, leggja þitt eigið mat á þær, skilja þær, sannreyna, tengja þær við aðrar hugmyndir, og leita frekari upplýsinga, þá ertu án vafa í mínum hópi. Góðu fréttirnar eru að þetta er flottur hópur. Slæmu fréttirnar eru að við erum fámenn og erum nokkuð fjarri því að hafa skilvirk áhrif á samfélag okkar, þannig að gagnrýnum einstaklingum fjölgi og staðreyndargámum fækki.
Við þurfum ekki að líta annað en á hugmyndir um lýðræði og hvernig það virkar til að sjá í hendi okkar hversu hættuleg slík óvirkni getur verið ef hún verður að vana, nokkuð sem ég tel að gerist í raun og veru. Við tölum um sjónvarpssjúkt fólk og tölvuleikjafíkla í gríni, en erum í raun að tjá áhyggjur sem við einhvern veginn áttum okkur á, en skiljum ekki alveg að fullu, enda er hugur okkar óvirkur, og þar af leiðandi erfitt og hugsanlega útilokað fyrir óvirkan huga að sjá eða viðurkenna hvernig óvirkni í kjölfar sjónvarpsgláps getur verið skaðleg.
Óvirkni er hættuleg öllum samfélögum, af þeirri einföldu ástæðu að það eru til staðar virkir einstaklingar og stofnanir sem munu misnota sér óvirkni fjöldans til að ná eigin markmiðum fram, hvort sem að það sé heildinni til góða eða ekki, hvort sem að það sé rétt eða ekki, einungis ef viðkomandi trúir því að það komi sjálfum sér og sínum til góða, en getur verið það takmarkaður að hann skilji ekki hvað það er sem kemur manni til góða.
"Careful what you wish for, it may turn into reality," segja þeir stundum á enskunni.
Þetta höfum við upplifað á Íslandi í nafni Baugs, Björgúlfa, hjarðmenningar stjórnmála. Óvirkni hugans er það sem gefur spillingu líf og kraft. Spillingin veit að óvirkir hugar gera ekki neitt, því að þeir trúa ekki á sjálfa sig og geta þar af leiðandi ekkert framkvæmt. Spilling verður að ásættanlegum veruleika, en ekki óásættanlegu óréttlæti sem krefjandi siðferðisvitund berst gegn með allri sinni sannfæringu.
Þetta er ekki nýtt vandamál.
Fólk leitar sér svölunar í heilaþvotti. Svona hefur þetta alltaf verið og verður sjálfsagt alltaf. Þetta virðist vera rótgróin þörf hjá manninum, að trúa hlutum sem skipta ekki máli, að ramma inn hlutina þannig að þeir líti vel út, óháð því að sannleikurinn er sjálfsagt frekar skítugur og erfiður.
Við viljum að hlutirnir séu auðveldir. Að lífið sé létt. Það er ekki þannig. Ef þú trúir því, þá lifirðu í blekkingu. Blekkingu sem verður að sjálfhverfum veruleika.
Þess vegna er heilaþvottur sjónvarpsgláps skaðlegur.
Og svaraðu nú. Annars verður þú fórnarlamb heilaþvottastöðvar Don Hrannars.
(Skrifað á siglingu frá Nasoddentangen til Akerbrygge í Osló)
Athugasemdir
Er bloggið ekki einmitt ágætis leið til að nýta annars ónýttar upplýsingar sem hlaðast endalaust inn á harða diskinn í heilanum ?
Hildur Helga Sigurðardóttir, 16.10.2009 kl. 13:21
Þakkir fyrir þarfan og góðan pistil Don Hrannar!
Inside Bilderberg (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 16:58
Ég er ein af þessum aðilum sem vil frekar slökkva á sjónvarpinu og tölvunni og fara í heimsókn til fólks eða með einhverjum á kaffihús og ræða raunveruleikann í stað þess að horfa á tilbúna "raunveruleikaþætti". Mér einfaldlega finnst minn eiginn raunveruleiki mun meira spennandi
Heiða (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 18:46
Er ekki allt hvað sem það er best í hófi ?.
Ómar Ingi, 16.10.2009 kl. 19:43
.. ég las einhverntímann að heilinn notar minnir orku við imbagláp en við svefn..
Óskar Þorkelsson, 16.10.2009 kl. 21:33
Ég nota heilmikla orku þegar ég horfi á mína menn Man. United spila... Óskar notar aðeins minna en ég enda Liverpúllari...
Brattur, 17.10.2009 kl. 00:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.