Mætti gjöreyða öllum íslenskum fóstrum í móðurkviði ef vilji mæðra væri fyrir hendi?
16.9.2009 | 15:15
Segjum að allar íslenskar og tilvonandi mæður með fóstur yngri en 12 vikna vildu fara í fóstureyðingu á þeirri forsendu að þær vildu ekki gera börn sín að þrælum sem borga þyrftu skuldir óreiðumanna meiri part ævi sinnar?
Væri hægt að mæla gegn slíkri kröfu?
Nú eru fóstureyðingar löglegar á Íslandi, og fóstur ekki talið til manneskju fyrr en eftir 12 vikna aldur - nokkuð sem vissulega má deila um, en ég mun ekki fást við hér - en hvað ef allar íslenskar tilvonandi mæður gerðu þetta?
Væri það siðferðilega rangt af einhverjum ástæðum?
Er fjöldafóstureyðing verri en ein?
Ég fór að velta þessu fyrir mér vegna orða sem Steingrímur J. Sigfússon lét falla fyrir nokkrum vikum, um að Íslendingar ættu ekki að bölmóðast yfir þeim hræðum sem flytja úr landi, heldur gleðjast yfir væntanlegri fjölgun Íslendinga, en sjaldan hafa fleiri konur verið óléttar á Íslandi. En hvað ef allar þessar konur ákveddu að fara í fóstureyðingu?
Það þykir nefnilega ekkert tiltökumál á Íslandi, skilst mér, að fara í fóstureyðingu vilji þungaða konan það af hvaða ástæðu sem er, og í umræðunni gegn fóstureyðingum eru mest áberandi háværar öfgaraddir sem enginn tekur mark á hvort eð er, einfaldlega vegna þess að viðkomandi raddir hafa verið kenndar við öfga.
Getur verið að sú skoðun Íslendinga að fóstureyðingar séu sjálfsagðar, séu af sama meiði og nýfrjálshyggjan sem keyrði allt í kaldakol? Við séum bara ekki búin að fatta samhengið? Og að menntun, heilbrigðiskerfið, fjölmiðlar og allar íslenskar stofnanir séu sýktar af þessari sömu hugmyndafræði sem gengur einfaldlega ekki upp, en enginn kann að hætta við af því að sambandið þarna á milli er óskýrt og erfitt að sanna tilvist þess?
Ég hef heyrt af því, en ekki skoðað það sérstaklega, að sums staðar í heiminum þyki réttlætanlegt að þvinga konu í fóstureyðingu þyki sannað að barnið muni fæðast með Down-heilkenni eða einhverfu. Hvað ef samfélagslegar aðstæður eins og fátækt þættu næg ástæða til að þvinga konu í fóstureyðingu?
Ef fóstur er ekki manneskja og megi af þeim sökum taka af lífi með því að aftengja frá móður þess auk þess að byrla því eitthvað eitur, þá hlýtur það sama að eiga við um mikinn fjölda fóstra.
Aftaka fósturs þykir réttlætanleg á Íslandi. Ég vil ekki ganga svo langt að kalla slíkt morð, en gæti fallist á að slíkt væri vel ígrundað manndráp, enda botna ég engan veginn í því hvernig hægt er að segja 12 vikna fóstur vera ekki manneskju en 12 vikna og eins dags fóstur vera manneskju. Hvað ef sum fóstur eru bráðþroskaðri en önnur?
Ef allar mæður myndu ákveða á einu bretti að fara í fæðingarverkfall vegna Hrunsins og storma í fóstureyðingu, væri eitthvað siðferðilega athugavert við það?
Væri ákvörðun eins og að þvinga allar mæður í fóstureyðingu sambærileg við að hneppa komandi kynslóðir Íslendinga í skuldafangelsi? Hvort væri mannúðlegra?
Athugasemdir
Þú gefur þér þá forsendu að Íslendingum þyki fóstureyðingar sjálfsagðar. Ég held þetta sé alrangt. Ég held að flestir Íslendingar geri sér grein fyrir að fóstureyðingar eru mikil alvara.
Aftur á móti hafa flestir Íslendingar gert sér grein fyrir að bann við fóstureyðingum eru miklu miklu verra mál.
Þannig að nei, þetta á nákvæmlega ekkert skylt við "nýfrjálshyggjuna".
Matthías Ásgeirsson, 16.9.2009 kl. 15:55
Ég samþykki gagnrýni þína Matthías. Reyndar tel ég sjálfur af og frá að Íslendingum þyki fóstureyðingar sjálfsagðar. Ég er Íslendingur og tek þær alvarlega.
Af hverju er verra mál að banna fóstureyðingar?
Ég sé ákveðið samhengi við nýfrjálshyggjuna, og held að við þessi nýjungargjarna þjóð eigi það til að blanda hugmyndum svolítið saman með nokkuð frjálsu skáldaleyfi.
Mér finnst ég nefnilega sjá einkenni nýfrjálshyggjunnar svokölluðu í ýmsum myndum þjóðfélagsins. Kannski hef ég rangt fyrir mér, eins og stundum.
Hrannar Baldursson, 16.9.2009 kl. 17:47
Væru allar mæður þvingaar í fósturdeyðingu, myndi þjóðin deyja út.
Þakka þér, Hrannar, fyrir tímabærar hugleiðingar þínar sem oftar. Kannski þetta veki einhverja upp af dásvefninum.
Jón Valur Jensson, 16.9.2009 kl. 20:10
Sem kona get ég ekki skrifað undir að taka af konum rétt til fóstureyðinga. Hins vegar finnst mér að það eigi að herða verulega eftirlitið með fóstureyðingum og setja strangari reglur. Það er líka engin umræða um þetta efni í fjölmiðlum og hefur ekki verið. Fóstureyðingar eru ekki getnaðarvörn.
Kolbrún Heiða Valbergsdóttir, 16.9.2009 kl. 20:55
Að mínu viti væri "fjöldafóstureyðing" ekki siðferðislega röng, þ.e engan veginn verri en einstakar slíkar athafnir.
Tökum dæmi: í okkar samfélagi þykir ekkert tiltökumál að karlamenn frói sér sér, jafnvel þó þúsundir og milljónir sáðfrumna fari forgörðum og drepist á leið niður í niðurfall í sturtu. Fornir gyðingar litu þetta alvarlega, sáðfrumurnar voru jú sáðkorn framtíðar manneskja. En við tökum þá afstöðu að sáðfrumur séu bara ógegnsær vökvi, nokk sama hvort þær enda í sængurfötunum eða útí Faxaflóa.
Ef allir íslenskir karlmenn myndu hætta að sofa hjá konum og fróa sér þess í stað og láta allar sínar dýrmætu sáðfrumur fara til spillis væri það siðferðislega ekkert verra en þótt einn geri slíkt. Sáðfrumur eru einfaldlega ekki manneskjur.
Ef fólk myndi hætta að geta börn væri það "socio-pólítískt" vandamál (sem þegar má segja sé til staðar víða í Evrópu og í Japan að ég hygg), en ekki sé ég að það sé beint siðferðislegt vandamál.Skeggi Skaftason, 16.9.2009 kl. 22:58
Takk fyrir góð svör.
Við svar Skegga, þætti mér áhugavert að velta fyrir mér hvort að "socio-pólitísk" vandamál hafi áhrif á siðferði. Til dæmis ef fólksfjölgun yrði mikil, myndum við þá fara að túlka fóstureyðingar sem siðferðilega rangar?
Einnig finnst mér áhugavert að enginn hefur sett sérstakt spurningarmerki við að fjöldafóstureyðingar sé annað, alvarlegra og verra en ein fóstureyðing, en ég hef þá tilfinningu að slíkt væri í raun hroðaverk í anda þess sem gert var í útrýmingarbúðum nasista. Þar var hægt að réttlæta öll voðaverk með því að skilgreina siðferðið upp á nýtt, sem skyldu gagnvart foringjanum og ríki nasismans.
Reyndar hef ég velt fyrir mér hvort að gagnrýnislaus foringjahlíðni eða einfaldlega gagnrýnisleysi á hugmyndafræði eða áætlun þeirra sem ráða, nokkuð sem virðist ríkjandi hugarfar víða innan íslenskra stjórnmálaflokka, séu grunnforsendur sem nasismi og fasismi gengu útfrá, og séu í raun stórhættuleg samfélaginu.
Hrannar Baldursson, 17.9.2009 kl. 05:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.