VAKNIÐ! Þaggað niður í rannsóknarblaðamönnum bankaráns aldarinnar til að hemja réttláta reiði Íslendinga?
6.9.2009 | 07:55
Það lítur út fyrir að EINHVERJIR séu að misnota Fjármálaeftirlitið til þess að misnota skrifstofu sérstaks saksóknara, en FME hefur verið virkt í að þagga niður í rannsóknarblaðamönnum. Af hverju? Meðal ásakaðra: Rannsóknarblaðamennirnir: Egill Helgason, Agnes Bragadóttir, Kristinn Hrafnsson.
Það að fyrsta sakamál sérstaks saksóknara vegna Hrunsins skuli vera uppljóstrunarmál Kristins Hrafnssonar blaðamanns, hlýtur að kveikja ljós eða hringja bjöllum í hugum saklausra Íslendinga sem sigla annars sofandi að feigðarósi. Þeir sem enn hafa ekki séð, skilið og kvartað yfir að eitthvað mjög alvarlegt hljóti að vera að, verða að átta sig á því bráðlega. Það að hundelta saklaust fólk í þjónustu við þá sem framkvæmdu glæpina sem þetta fólk vill uppljóstra, er slík endaleysa að ég hefði ekki getað látið mig dreyma um þetta útspil.
Dæmisaga: Merkilegur, frægur og vinsæll stjórnmálamaður stelur sér peysu í Hagkaup. Þar sem allur þjófnaður er tilkynntur lögreglu er lögreglan kölluð til. Þetta vekur athygli. Blaðamaður heyrir af þessu og nær sambandi við vitni sem sá þjófnaðinn. Nú hafa vinir þjófsins hins vegar ákveðið að þagga málið niður, því það væri hið vandræðalegasta fyrir flokkinn. Þjófurinn er látinn skila peysunni, en vitnið hefur hins vegar talað við blaðamanninn og daginn eftir birtist forsíðufrétt um þjófnað stjórnmálamannsins. Að sjálfsögðu neitar blaðamaðurinn sök, allir aðrir þegja, og blaðamaðurinn situr eftir í súpunni, ásakaður um að fara með lygar og ósannindi, og ekki nóg með það, mál hans er sent til saksóknara þar sem tryggja skal að hann muni ekki halda áfram að leita vitna í viðkvæmum sakamálum.
Lára Hanna skrifar bréf sem allir Íslendingar eiga að lesa. Það ætti að vera heilög skylda fólks að sjá hvernig spilling er í gangi á Íslandi og að fólk með réttlætiskennd verður að koma til hjálpar og vernda þá einstaklinga sem hafa barist fyrir því að sannleikurinn komi í ljós, að orsakir Kreppunnar og Hrunsins verði ekki falin. Nú er tækifæri fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon að vinna sér inn atkvæði og vernda Kristinn Hrafnsson með því að skamma FME og sérstakan saksóknara rækilega fyrir að vinna gegn eigin markmiðum, sem er að rannsaka og sækja til sektar þá sem raunverulega stóðu að baki Hruninu. Það lítur út fyrir að sérstakur saksóknari hafi ekki hugmynd um hvað hann sé að gera, og hugsanlega þess vegna sé hann álitinn svolítið sérstakur.
Fimm af bestu rannsóknarblaðamönnum landsins hafa verið ákærðir til sérstaks saksóknara, ekki fyrir að svíkja og stela, heldur fyrir að uppljóstra um stöðu mála innan bankakerfisins, stöðu sem að áhorfendur að málum utanfrá gat aðeins grunað að væri í gangi. Þessir einstaklingar hafa grafið upp sannanir og vitnamál sem styðja grun þeirra sem töldu eitthvað grunsamlegt hafa verið í gangi í íslensku fjármálalífi fyrir Hrun. Þau hafa sýnt á ótvíráðan hátt hvernig staða krónunnar hefur verið misnotuð til að fáir græði en þjóðin blæði, hvernig stjórnendur hafa tekið sér kúlulán sem þeir þurftu aldrei að borga af en fengu síðan niðurfelld þrátt fyrir að hafa notað peninginn í annað, hvernig milljarðalán hafa verið afgreidd án lágmarksveða, og fleira.
Nú á að eyða tíma þessara sannleiksleitandi einstaklinga í að verja sig gegn saksókn, í stað þess að vernda þá með öllum mætta og gefa þeim tækifæri á að finna fleiri glufur og sannleikskorn sem gætu gagnast almenningi til að komast að sannleikanum.
Þetta er næstversta gerð ritskoðunar. Sú versta er þegar fréttamaðurinn er pyntaður og drepinn.
Hér fyrir neðan vil ég birta grein Kristins Hrafnssonar sem hann birti á Facebook síðu sinni í gær, en þar sem ég er ekki Facebookvinur Kristins, tók ég færsluna af Silfri Egils:
Kristinn Hrafnsson fréttamaður setti þessa færslu inn á Facebook síðu sína í kvöld. Ég hef verið í hópi blaðamanna sem Fjármálaeftirlitið telur sig eiga sökótt við, svo mér þykir þetta allt mjög athyglisvert. Ég vona að Kristinn fyrirgefi mér að hafa sett þetta hérna inn, en þetta á erindi við almenning.
Kristinn skrifar:
--- --- ---
Nú hef ég fengið staðfest að fyrsta sakamálið sem kom til lögreglurannsóknar hjá Ólafi Haukssyni, sérstökum saksóknara, var meint brot mitt á lögum um bankaleynd. Einnig hef ég fengið staðfest að sama mál er það fyrsta sem kemur til afgreiðslu hjá Birni L. Bergssyni, settum sérstökum ríkissaksóknara. Ég vona að það gefi ekki tóninn um starf þessara embætta sem stofnuð voru til þess að rannsaka og ákæra í málum sem tengjast bankahruninu. Ekki held ég að þeim hinum ,,sérstöku, Ólafi og Birni, hafi þótt neitt sérstaklega skemmtilegt að byrja hreinsunarstarfið á því að eltast við mig auman.
Til upprifjunar skal þess getið að meint brot fólst í því að upplýsa í viðtali í Kastljósi undir lok janúar um stórfelldar lánveitingar Kaupþings til Róberts Tchenguiz sem var hluthafi og stjórnarmaður í Existu - sem aftur var stærsti einstaki eigandi Kaupþings. Til skemmtunar skal þess getið að Róbert þessi er sonur Íraka sem tók sér nafnið Tchenguiz en það ku vera persneska útgáfan af fornafni Gengis Kan. Upplýsingarnar um Róbert Tchenguiz áttu að birtast í Kompásþætti í lok janúar en ég og félagar mínir vorum reknir og þátturinn sleginn af fjórum dögum fyrir sýningardag.
Í vor nánar tiltekið 2. apríl fæ ég boðsent bréf frá FME þar sem því er lýst yfir að ég hafi brotið bankaleyndarákvæði laga um fjármálafyrirtæki. Ég fékk svigrúm til andmæla og lögmaður minn sendi svarbréf þar sem m.a. var bent á þá augljósu staðreynd að ég ynni ekki fyrir fjármálafyrirtæki. Mér kæmi bankaleynd því ekki við.
Í gær fékk ég svo staðfest að Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari var þá, löngu áður, búinn að afgreiða mitt mál. Hann tilkynnti FME þá ákvörðun sína að aðhafast ekkert frekar í mínu máli með bréfi sem sent var stofnuninni 18. febrúar. Jafnframt benti Ólafur FME á að stofnunin gæti kært þessa ákvörðun hans til ríkissaksóknara innan mánaðar ef hún vildi ekki una henni. FME lét þann frest líða án þess að kæra.
Þrátt fyrir þetta heldur FME áfram að narta í hælana á mér og fjórum öðrum blaðamönnum sem fjallað hafa um upplýsingar úr bankakerfinu. Samkvæmt lögum á FME að ljúka málum annað hvort með stjórnvaldssekt eða með því að vísa alvarlegum brotum til lögreglu. Í mínu tilfelli var FME búin að velja seinni kostinn og lögreglan neitaði að aðhafast í málinu. Ef til vill þótti lögregluvaldinu, Ólafi sérstaka - eins og mér - að brýnni verkefni biðu.
FME vildi ekki gefast upp í þessari baráttu við blaðamennina. Í júní fékk stofnunin Eirík Tómasson, lögmann til þess að semja álitsgerð um það hvað ætti að gera við þessa ,,brotamenn - blaðamennina fimm. Á grundvelli þessarar álitsgerðar (sem ekki fæst opinberuð) tók FME það til bragðs, í byrjun ágústs, að senda mál okkar til Valtýs Sigurðssonar, ríkissaksóknara.
Valtýr var ekki lengi að henda þessari heitu kartöflu frá sér og skilaði því snemmendis til Björns L. Bergssonar, sérstaks setts ríkissaksóknara. Þetta er sum sé fyrsta úrlausnarmál Björns. Hann hefur annars það hlutverk að ákæra í málum sem eru rannsökuð hjá Ólafi Þór Haukssyni, sérstökum saksóknara.
Hvað á Björn svo að gera við málið mitt? Ólafur Þór, lögregluarmur Björns, ákvað fyrir sex mánuðum að aðhafast ekkert frekar í mínu máli. Fresturinn til að kæra þá ákvörðun rann út fyrir fimm mánuðum. En FME gefst ekki upp.
Maður ætti auðvitað ekki að gera annað en hlægja að þessum skrípaleik. Ég hef ekki í annan tíma séð jafn einbeittan brotavilja hjá stjórnvaldi gagnvart málsmeðferðarreglum og heilbrigðri skynsemi. Það sem vekur reiði hjá mér er að þessi mál eru sett í forgang þegar samfélagið allt er enn lamað eftir verstu hörmungar sem hafa dunið yfir í hagsögu lýðveldisins. Maður hallast að því að þessum mönnum sé ekki viðbjargandi.
Ég hef þurft að eyða tíma í þessa helvítis vitleysu á meðan ég ætti að vera að sinna öðrum og brýnni verkefnum. Hver ætlar að borga mér fyrir þá vinnu? Hver ætlar að axla ábyrgð á þeim lögmannskostnaði sem fylgt hefur þessu stússi? Þess utan: Hver ber ábygð á því að þessi skrípaleikur hefur skaðað tiltrú á Fjármálaeftirlitinu og mögulega einnig embættum sérstaks saksóknara og sérstaks ríkissaksóknara?
Ég set þessa nótu hérna inn til að halda þessu til haga en þessi brandari er fyrir löngu hættur að vera fyndinn.
Ágætt dæmi um fáránleika ritskoðunar í öðru samhengi, þar sem YouTube og bönnun blóts og nektar er umfjöllunarefnið:
Athugasemdir
Ef maður slær inn jounalist silenced á google, þá koma upp tilfelli frá Kína, Pakistan, Mexíko, Kúbu, Íran, Rússlandi etc.
Við erum semsagt á level með þessum þjóðum í málfrelsi.
Blaðamenn eru kanarífuglarnir í kolanámunni hvað lýðræði varðar. Það hefur verið sótt markvisst að málfrelsi hér frá hruninu og enn færa menn sig upp á skaptið. Nú eru til dæmis í smíðum lög eða regluverk um uppljóstrun, sem ekki einatt gera mönnum ómögulegt að uppfylla þau, heldur eru þau vopn í hendur lögmönnum til að fá málum vísað frá á grunni þess hvernig upplýsinga var aflað eða jafnvel stefna uppljóstrurum sem ekki hafa uppfyllt gefin skilyrði.
Í þessum MBL leiðara í dag geta menn fengið innsýn í hvað er í uppsiglingu.
Jón Steinar Ragnarsson, 6.9.2009 kl. 09:33
Kristinn Hrafnsson og aðrir rannsóknarblaðamenn verða að átta sig á því að Davíð Oddsson lagði þá grundvallarlínu sem enn er farið dyggilega eftir, að sendiboði válegra tíðinda skuli gerður grunsamlegur og honum síðan markvisst eytt úr hópi marktækra. Stefna stjórnvalda er nú sem áður að vernda hina raunverulegu glæpamenn gegn öllum hugsanlegum ásökunum og refsingum en láta helvítis launaþrælana, almenning í landinu, borga risavaxinn brúsann sem þetta glæpahyski skildi eftir sig. Og gildir þá einu hverjir sitja í ríkisstjórn og embættum hins opinbera, stefnan er vernd fyrir glæpahyskið og yfirfærsla refsingarinnar á almenning. Besta dæmið um þetta er umræðan um að létta á byrðum skuldara en stjórnvöld benda á að um tveir þriðju hluta skuldara geti staðið við skuldbindingar sínar sem eru orðnar himinháar af völdum annarra, þ.e. fjárglæfrahyskisins og stórþjófanna í einkabankakerfinu. Þessir tveir þriðju hlutar eiga ekkert frekar en aðrir að borga brúsann þótt sá hluti teljist gjaldfær því skuldir þeirra hækkuðu auðvitað jafn mikið og þriðja hlutans sem skal hjálpa. Hvernig væri að stórnvöld og handónýtt og gjörspillt lögregla og dómskerfi sneri sér að því í forgangi að ná hinum raunverulegu glæpamönnum og auðnum sem þeir hafa stolið og komið undan á leynireikninga á alls konar tortúlueyjum út um allan heim?
corvus corax, 6.9.2009 kl. 10:05
Það er eitt sem ég skil ekki alveg í þessu hjá þér.
Auðvitað er framkoma FME alveg ótrúleg. Sú stofnun er ýmist gegumsýrð af spillingu; hrikalega vanhæf; að spila með röngu liði; misskilur hlutverk sitt hrapallega eða þá allt ofangrein, sem er líklegast.
Hinsvegar skil ég ekki af hverju þú ert að skjóta á sérstakan saksóknara í greininni, t.d. með orðunum "skamma FME og sérstakan saksóknara rækilega fyrir að vinna gegn eigin markmiðum".
Án þess að ég sé neitt sérstaklega að taka upp hanskann fyrir sérstakan saksóknara, sem hefur farið sér gríðarlega hægt í öllum málum (sem geta auðvitað verið ótal ástæður fyrir) þá skil ég þetta tiltekna mál sem svo að FME hafi vísað málinu til hans, en ekki að sérstaki saksóknarinn hafi tekið upp á því að rannsaka þetta að eigin frumkvæði.
Ber embættinu ekki skylda til að skoða mál sem til þess er vísað? Og rétti ekki sérstaki saksóknarinn FME puttann með því að tilkynna að hann ætlaði ekkert að aðhafast í þessu máli og að ef að FME væri ósátt þá gæti stofnunin bara farið aðrar leiðir?
Ég held að það sé ekki sanngjarnt að sparka í s.s. út af þessu tiltekna máli.
En skömm FME er alveg ótrúleg. Ég hélt um stund fyrr á árinu að nýr yfirmaður þar á bæ myndi taka til hendinni eftir mannkertið Jónas Fr. Svo virðist ekki ætla að vera.
Hilmar Ólafsson (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 12:59
Hilmar: Rétt hjá þér. Takk fyrir leiðréttinguna. S.s. er að standa sig í stykkinu með því að vísa málinu frá. Aðal málið er að sjálfsögðu að þetta skuli hafa verið fyrsta mál á dagskrá sérstaks saksóknara. Ég hef túlkað eitthvað vitlaust út frá þeirri staðreynd.
Hrannar Baldursson, 6.9.2009 kl. 16:15
Hvað skal segja - ég missti andann í eitt augnablik við að lesa þessa færslu - svo ótrúleg er hún - en að sama skapi - kemur nákvæmlega ekkert á óvart
Því þannig er Ísland í dag - en það samt afleiðing Íslands síðustu ára, ekkert sem gerðist "over night"
ASE (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 00:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.