Hvað gerir ríkisstjórnin þegar hún stendur frammi fyrir skrímsli með fjögur höfuð?
11.8.2009 | 19:29
Frið þarf fyrst að skapa til að hægt verði að viðhalda honum. Friður verður til úr Von, Styrki, Krafti, Vilja, Samhug, Réttlæti, Ímyndunarafli, og sigri lögmála. Við öðlumst aldrei frið með athafnaleysi og þögn. (Dorothy Thompson)
Er spillingin orðin að skrímsli sem búið er að ná það föstum tökum í rótum okkar, að þörf er á að kippa okkur upp úr jörðinni og gróðursetja á ný?
Ríkisstjórnin er stöðugt í vörn gagnvart AGS, ESB, Bretlandi og Hollandi, og virðist finna hvergi tak í þessari sleipu brekku sem hún virðist vera að renna niður. Getur hún enn sótt gegn þeim sem komu okkur í þessa erfiðu stöðu? Eða getur hún ekkert annað en klórað í brekkuna og reynt að forða sér frá falli undan hyldýpinu sem hún nálgast hægt, en ekki rólega.
Það síðasta sem þú vilt gera þegar þú stendur frammi fyrir skrímsli er að sýna ótta, sama þó að þú sért skíthræddur. Hins vegar hef ég á tilfinningunni að ríkisstjórnin standi í augnablikinu skjálfandi fyrir dreka með fjögur höfuð, og sé búin að gera í buxurnar. Drekinn veit það. Reyndar er riddarinn á hvíta hestinum einhvers staðar innra með henni og reynir að brjótast út. Þessi hetja hefur fáar raddir innan þingsins, en hún virðist styrkjast með hverjum deginum í nafni einstaka þingmanna sem líta frekar á málefnin og réttlætið sem leiðarljós umfram völd og stefnur.
Vonandi ná þessar raddir að heyrast. Ekki til að ráðast gegn skrímslinu, heldur sigrast á eigin ótta og sækja fram á við. Hrópa á hjálp, en ekki eins og skelfingu lostið fórnarlamb, heldur eins og herforingi sem stefnir óttalaus fram á veginn, gegn ósýnilegum óvini, með áætlun um sigur að leiðarlokum, sem vinnur sigur á okkar eigin ótta um miskunnarleysi skepnunnar.
---
Þessi færsla spratt fram eftir lestur minn á þessari grein Egils Helgasonar frá því fyrr í dag, þar sem hann veltir fyrir sér og snertir kjarna málsins um erfiða stöðu ríkisstjórnarinnar og hvernig hún hefur brugðist íslenskum heimilum landsins. Enn vona ég að þetta sé ævintýri frekar en harmleikur, en okkur vantar sárlega að sýna baráttuanda og berjast fyrir réttlæti til að ástandið versni ekki mikið meira. Ég er hræddur um að þegnar landsins reikni með að einhver komi og bjargi okkur, á meðan björgunin felst í því að við sýnum virkni og berjumst fyrir og krefjumst réttlætis.
Hvernig?
Við verðum að opna augun og vinna saman en ekki sundruð. Það eina sem getur sameinað okkur er traust, og traust öðlumst við ekki fyrr en við upplifum réttlæti, og réttlæti fáum við ekki fyrr en við berjumst fyrir því, og við berjumst ekki fyrir réttlæti fyrr en við vöknum.
Athugasemdir
Hræðsluáróður stjórnarinnar virðst vera að skila árangri, ef IceSlave verður ekki samþykkt, verðum við ein i heiminum og enginn vill þekkja okkur lengur. Það er réttlætismál að berjast gegn IceSlave, og AGS. Svo þarf náttúrulega að fara að handtaka menn og kyrrsetja eigur!!!
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 12.8.2009 kl. 02:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.