Eru bloggarar að blása upp efnahagsvanda þjóðarinnar og þannig ábyrgir fyrir Hruninu?

 

Verslunarmannahelgin, Herjólfsdalur, 2009. 

Ég lá inni í tjaldi og leyfði berum tánum að standa út úr tjaldrifunni. Hin þrjú í tjaldinu voru steinrotuð, ekki öll í svefnpokum. Hins vegar heyrði ég merkilegt samtal í næsta tjaldi. Þetta var snemma morguns og sjálfsagt voru gaurarnir ennþá svolítið fullir, en mig langaði til að stökkva út úr tjaldinu og taka þátt í samræðunni en gerði það ekki, enda var ég með svo mikla timburmenn og óglatt að ég gat ekkert annað gert en bara legið og hlustað.

 

"Íslenskt samfélag er í rúst. Kreppan mun brenna upp eignir fólks í haus, og landinn mun flýja land eins og rottur sökkvandi skip."

"Rólegur vinur. Íslenskt samfélag er í fullkomnu jafnvægi. Enginn hefur gerst sekur um eitt eða neitt í tengslum við Hrunið. Allir eru saklausir. Enginn hefur verið ákærður. Allt var eðlilegt. Stjórnmálamenn gerðu ekkert rangt. Bankamenn gerðu ekkert rangt. Útrásarvíkingar gerðu ekkert rangt. Aðstæður voru bara erfiðar og Ísland óheppið að vera lítið land?"

"Hvað um kúlulánin, spillinguna, gjafirnar til stjórnmálaflokka, atlögu á krónuna, verðtrygginguna, gengisfallið, hækkandi skatta, sökkvandi krónu?" 

"Sumir voru kannski svolítið kærulausir, en þannig erum við Íslendingar í eðli okkar. Það er allt í lagi að fólk sem skuldar fyrir að hafa keypt heimili og bíl á lánum fari á hausinn. Það er náttúrulega ekkert annað en óábyrgt fyrir fólk að taka 100% lán fyrir íbúð. Það er eins og sumir hafi engan skilning á hagfræði. Auðvitað er 100% lán ekkert annað en leiga. Að láta sér detta annað í hug er út í hött. Fátækt fólk verður fátækara og þeir sem eiga eitthvað eignast meira. Þannig eru hlutirnir og þannig eiga þeir að vera. Svo framarlega sem allt lítur út fyrir að vera í lagi, þá er allt í lagi."

"Hvað um allt ranglætið?"

"Ranglætið gleymist, enda hefur almenningur minni sem nær jafn langt og síðasta fyllerí og hann veit að á endanum reddast allt."

"Það var sparkað í andlitið á nágranna mínum og hús frænda míns brennt." 

"Þau jafna sig." 

"Frændi minn er fluttur úr landi." 

"Hann öðlast bara meiri reynslu." 

"Ég er kominn á hausinn, búinn að tapa íbúðinni og bílnum. Konan farin frá mér."

"Það er fullt af fiskum í sjónum." 

"Laun mín hafa lækkað um helming og kostnaður tvöfaldast." 

"Tja, stundum koma mögur ár og þá má hvíla sig á lúxus."

"Útrásarvíkingar og bankar fengu peninga erlendis og ætlast var til að þeir pössuðu upp á þá. Þeir töpuðu öllum peningnum." 

"Enda bara ábyrgðarlaus krakkagrey. Við getum ekki kennt þeim um allan andskotann. Svona gerist bara. Við reddum þessu. Við getum borgað alla reikninga sem útrásarvíkingar og bankar hafa stofnað til, bara svo framarlega sem við getum fengið lán til þess. Ennþá betra er ef við getum ýtt láninu yfir til næstu kynslóðar. Fullt af krafti í næstu kynslóðum. Þau redda þessu bara."

"Hvað um ICESAVE?"

"Steingrímur J. Sigfússon er sannfærandi. Það skín út úr honum sannfæringarkrafturinn þegar hann talar. Hefurðu séð hann tala. Hvernig geturðu annað en treyst slíkum manni?" 

"Hvað um Evu Joly?"

"Hún er bara útlendingur. Hvað er hún að skipta sér af okkar málum? Hún birtist í sjónvarpsþætti og er þá allt í einu orðinn verndarengill Íslendinga. Hvílíkt bull."

"Er þá allt í allrabesta lagi?"

"Auðvitað er allt í allrabesta lagi. Hvernig getur þér dottið annað í hug? Erum við ekki á fjölmennri þjóðhátíð þar sem Árni Johnsen er þjóðhetjan?"

"Jú."

"Hafa bloggarar ekki verið háværir um hvað Árni Johnsen er mikill skúrkur?"

"Jú."

"Heldurðu að þjóðhátíðin væri svona fjölmenn ef Árni væri alvöru skúrkur?"

"Ætli það nokkuð."

"Þar af leiðandi, Hrunið, kreppan og allur sá fjandi er jafn mikil og ómerkileg sápukúla og ásakanir um að tæknileg mistök Árna Johnsen hafi verið glæpsamlega, og að eitthvað sé að því að ráða ættingja í lykilembætti." 

"En..."

"Og veistu hvað. Ef fólk gæti bara þagað, ef hægt væri að þagga niður í þessum helvítis bloggurum, þá væri allt í fínu lagi. Það eru bloggararnir sem blása upp vandann og eru að birta leynileg skjöl."

"Má sannleikurinn ekki koma fram?" 

"Hættu þessu væli og fáðu þér bjór. Ég býð." 

 

Ég heyrði ekki meira, lygndi aftur augunum, fékk mér sopa af romm í kók og sneri mér yfir á vangann sem enn var ósleginn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú hefur greinilega "stálminni" 

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 10.8.2009 kl. 11:33

2 Smámynd: Billi bilaði

Var þetta Altúnga úr Birtíngi?

Billi bilaði, 10.8.2009 kl. 11:38

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Billi: ekki veit ég hvort þetta hafi verið Altúnga, en vissulega hafði Voltaire djúp áhrif á þessa færslu. :)

Páll: Segulstálminni!

Hrannar Baldursson, 10.8.2009 kl. 14:55

4 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Skál!

Ólafur Eiríksson, 10.8.2009 kl. 16:15

5 Smámynd: Finnur Bárðarson

Ég tek á mig ábyrgðina fyrir hruninu sem bloggari

Finnur Bárðarson, 10.8.2009 kl. 16:19

6 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Hagkerfið var ofurmettað af vitleysu út fyrir sólkerfið og skuldapappíraframleiðslan fjármagnaði jafnt hundaskyggnislýsingar sem árulækningar. Þessi ruglandi hrundi skiljanlega ásamt eigin keðjubréfaskími þegar ekki var lengur hægt að ljúga hann fram. Núna eru einhverjar klappstýrur grenjandi yfir því hversu seint gangi að svíkja restina af þessu þrotabúi í skítinn.

Baldur Fjölnisson, 11.8.2009 kl. 01:16

7 Smámynd: Hulda Haraldsdóttir

JA BARA EF SATT VÆRI

Hulda Haraldsdóttir, 11.8.2009 kl. 04:35

8 identicon

Ég tel að hrunið og jarðskjálftarnir + svínaflensan sé vegna þess að ég er alltaf að dissa Gudda á blogginu mínu, hann hefnir sín því á öllum.
Mbl greip inní og lokaði bloggi mínu í örvæntingafullri tilraun til að friða Gudda, en það var orðið of seint :)

DoctorE (IP-tala skráð) 11.8.2009 kl. 07:34

9 Smámynd: Mama G

ókey, nú hló ég upphátt DoctorE

Mama G, 11.8.2009 kl. 15:40

10 Smámynd: Johann Trast Palmason

Að sjálfsögðu var hrunið Guðmundi Inga Pálsyni garðyrkju manni að kenna þegar hann alpaðist til að setja inn færslu á bloggið sitt um aflúsun á Birki sem setti ófyrirsjánalega atburðarrás i gang sem síðan endaði með hriðjuverkalögum gegn landsbankanum og ríkistjórn íslands og hruni íslenska hagkerfisins.

Johann Trast Palmason, 11.8.2009 kl. 20:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband