Er verið að misnota íslenska fjölmiðla til að ráðast á einstaklinga eins og Björgólf Thor og Davíð?

 

3882

 

"Ég veit um fólk sem talar um að þjást fyrir almannaheill. Það eru aldrei helvítis þeir! Þegar þú heyrir mann öskra "Áfram, hugrökku félagar!" munt þú sjá að hann er sá sem situr bakvið helvíti stóran stein og er með eina hjálminn sem raunverulega virkar gegn örvum!" (Terry Pratchett, úr Áhugaverðir tímar)

Er þetta einhvers konar kappleikur eða stríð þar sem Sjálfstæðisflokkurinn og Mogginn eru KR og FH gegn Samfylkingunni og Baugsmiðlum sem eru þá Valur og Haukar? Og þeir Björgólfur Thor og Jón Ásgeir með sinn hjálminn hvor að öskra bakvið helvíti stóran stein?

Það er afar áhugavert að heyra hvað Björgólfur Thor hefur að segja, enda hefur lítið heyrst í honum síðan bankarnir fóru undir græna torfu, meðal annars nokkrir bankar í hans eigu. Það virðist vera sem að fjölmargir Íslendingar kunni honum helst þegjandi þörfina fyrir að vera einn af mest áberandi útrásarvíkingum Íslands, og ábyrgðarmaður ICESAVE, sem næstu kynslóðir Íslendinga verða líklegast að borga með sparifé sínu og verri lífsgæðum.

Hvort að það sé nóg til að ófrægja einstakling, vil ég ekki segja.

Nú hafa bæði Davíð Oddsson og Björgólfur Thor staðhæft að ófrægingarherferð hafi verið ýtt af stað og haldið uppi af íslenskum fjölmiðlum. Þessir fjölmiðlar eiga það sameiginlegt að vera í eign Baugs Jóns Ásgeirs.

Ímyndum okkur að Davíð og Björgólfur séu að segja satt og hafi rétt fyrir sér. Hvað þýðir það?

Jú, það þýðir að verið er að misnota 4. valdið á Íslandi af miskunnarleysi, og ef þeir hafa orðið fyrir þessu, þá hafa fleiri orðið fyrir þessu, og sjálfsagt verið logið að meirihluta þjóðarinnar í fjölmörgum málefnum, sem þýðir að fólk sem hefur treyst á fjölmiðla er stútfullt af upplýsingum sem einkennast af fordómum og lygum. Áhugavert, ekki satt?

Ef þessir herramenn hafa rétt fyrir sér, má vel vera að fjölmiðlar Baugs ógni þjóðaröryggi með því að villa fyrir þegnum landsins, og jafnvel með að birta þessar fréttir víða um heim.

En af hverju ættu Baugsmiðlar að skjóta sérstaklega á þá Davíð og Björgólf Thor? 

Davíð er augljóst skotmark. Hann gagnrýndi Baug af hörku og var sannfærður um að þar færu tómir glæpamenn, og stóð fyrir rannsókn á fyrirtækinu. Fyrirtækið gæti hafa varið sig með því að setja af stað ófrægingarherferð á hendur Davíð, sem hafði fengið sín völd vegna vinsælda og trausts, og ef skipulagður óhróður fjölmiðils beinist skipulega gegn vinsældum og trausti einstaklings, þá er viðkomandi fyrirfram dæmdur til að tapa þessu trausti og vinsældum. Það má sig enginn gegn fjölmenni. Ekki einu sinni Davíð. Ein afleiðing þessa óhróður hefur hugsanlega verið að Davíð lét hrekja sig úr stjórnmálum og síðar úr Seðlabankanum, þrátt fyrir að hafa unnið gott starf, en sjálfsagt verið orðinn þreyttur og dapur vegna óhróðurstríðsins gegn hans persónu.

Af hverju að skjóta á Björgólf Thor með lygum (ef lygar eru)? Baugur liggur undir miklu ámæli og sjálfsagt er verið að rannsaka fyrirtækið gaumgæfulega. Ég get ímyndað mér að árás á Björgólf, sem er með óvinsælli mönnum sjálfvirkt, hvort sem hann hefur gert eitthvað af sér eða ekki, vegna þess að hann var og er einn af höfuðpaurum útrásarvíkinganna, og er því auðvelt skotmark og líklegt er að fjöldinn gleypi 'fréttina' hrátt þó að hún sé kannski ekki nákvæm, þá gæti þetta orðið til þess að þeir sem eru að rannsaka Baug, beini athygli sinni um stund að Björgólfi, en það vita allir að helsti veikleiki rannsóknarinnar felst í fámennum liðsafla og fjársvelti vegna kreppunnar, og að ef tekst að veikja rannsóknina með þessum hætti, er líklegt að Baugur nái að vinna sér inn dýrmætan tíma og geti þar með varið sig betur þegar að saksókn kemur.

Vissulega eru þetta bara tilgátur, en eru þær nokkuð út í hött?

Ég er ekki maður til að fella stóradóm um einn eða neinn. Björgólfur Thor þarf að útskýra ýmislegt, eins og hvernig hann fjármagnaði kaupin á Landsbankanum, og Davíð hefur reynt að útskýra að einkavæðingu bankanna var klúðrað í einhverjum klaufaskap, sem landsmenn reikna náttúrulega með að hafi verið upprunnin í spillingu. Það er auðvelt að tengja þá Björgólf og Davíð saman, sem og Björgólf og Geir Haarde, eða Sjálfstæðisflokkinn, þannig að árásin verður bara áhrifaríkari fyrir vikið, enda Geir og Davíð með óvinsælustu stjórnmálamönnum í dag, hvort sem þeir eiga það skilið eða ekki, og Sjálfstæðisflokkurinn aðeins skugginn af því sem hann var fyrir örfáum árum.

Ég vil minna á að kappræður eru notaðar til að villa fólki sýn, til að hafa áhrif á skoðanir þess, og það er sérstaklega auðvelt þegar kemur að ásökunum sem fólk vill trúa, hvort sem þær eru sannar eða ekki. Ég sé ekki betur en að Björgólfur Thor biðji um að mál hans verði tekið fyrir af sanngirni, og sé ekkert að því. Það verður erfitt fyrir hann að sanna að það sé samsæri í gangi frá höndum Baugs, en auðveldara að sýna fram á sannleikann í þessu máli - en samt ekki, því fólk er orðið svo tortryggið að það mun einfaldlega halda að honum hafi tekist að fela gögnin eða rífa þau í pappírstætara.

Ég vil ljúka þessu máli með kínverskum álögum: "Megir þú lifa áhugaverða tíma."


mbl.is Björgólfur Thor: Skipulagður óhróður, véfréttir og lygar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hversu lengi ætla stuðningsmenn ákveðinna stjórnmálaafla að lifa í þeirri trú og von að hrunið og allt það sé bara samsæri Jóns Ásgeirs með sjálfum sér og "Baugsmiðlum". Reynslan sýnir að misheppnaðir auðmenn og stjórnmálamenn reyna að verja sig að kappi og nýta auðævi sín, völd og nytsama sakleysingja í þeirri baráttu. Staðreyndin er aftur á móti sú að Björgólfarnir keyrðu þjóðina í kaf og nutu þar þess að Davíð og vinur hans Kjartan lokuðu augum og beindu sjónum sínum og annarra að Jóni Ásgeiri og Baugi. Mogginn æpti hátt um Baugsmiðla en grét ekki þegar Björgólfarnir keyptu hann og nýttu málstað sínum til framdráttar. Það er rétt að auðmennirnir og þeirra fylgilið skiptist í lið, eins og aðrir pörupiltar, en staðreyndir er sú að pakkið allt lyktar. Og þegar upp verður staðið verða það ekki Jón Ásgeir og Tryggvi á garðsláttuvélinni sem valda þjóðarbúinu mestum skaða heldur óskadrengir íhaldsins -- og Davíð lék á hörpuna á meðan Reykjavík brann. Það er fúlt að þurfa að horfa á hörmungina syngja sér sjálfum dýrð, en það er enn verra að horfa upp á fólk, sem á engra hagsmuna að gæta og hafa ekkert hagnast á "góðeærinu", heldur eiga aðeins eftir að blæða með okkur hinum, lepja vitleysuna upp eftir þeim. Baugur og allt það sem honum tilheyrir hefur sannarlega ekki orðið þjóðinni til góða en guðfaðirinn var Davíð Oddsson og hans klíka, gleymum því aldrei -- og það verður reyndar engin hætta á að við fáum að gleyma því, því að gatið í vasanum okkar mun minna okkur á það næstu árin (og vonandi ekki áratugina!).

Gunnar (IP-tala skráð) 28.7.2009 kl. 21:43

2 identicon

Þú segir, að maðurinn sem skipaði sjálfan sig seðlabankastjóra, "stóð fyrir rannsókn á fyrirtækinu(Baugur)". Heimild plís?

sr (IP-tala skráð) 28.7.2009 kl. 22:00

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Nú má það vel ræða að fjölmiðlar standi ekki undir þeirri óbeinu skyldu sem þeim er ætlað að gegna. Ekki má þar gleyma ríkisfjölmiðlunum Rás 1 og Rúv. en margir hafa leyft sér að efast um hlutleysi þeirra. 

Hvað varðar þessa tvo umræddu menn, þá er það undarlegt hugmyndaflug að reyna að telja sér eða öðrum trú um að það þurfi einhverja fjölmiðla til að beina að þeim tortryggni. En auðvitað eru þeir til sem reyna að gleyma því að Davíð Oddsson hafi sagt neitt annað eða gert en það eitt sem hann vill láta þjóðina muna.

Hvað hét hann aftur íslenski seðlabankastjórinn sem sagð í viðtali við breskan fréttamann að á bak við Icesave væri traust bankatrygging?

En það er auðvitað aldeilis óskaplega ósanngjarnt umtal fjölmiðla sem veldur því að Geir og Davíð eru ekki vinsælar persónur á Íslandi, blásaklausir mennirnir! 

Árni Gunnarsson, 28.7.2009 kl. 22:09

4 Smámynd: Ómar Ingi

Þetta er áhugaverð umhugsun DON og langt frá því að vera fjarri sannleikanum allavega þegar að Davíð kemur og það vita allir sem eitthvað hafa komist nálægt Jón Á.

Ómar Ingi, 28.7.2009 kl. 22:23

5 Smámynd: Einar Karl

Það verður að segjast eins og er, ða fréttin eins og birtist á visir.is er mjög stutt og ákaflega lítið um konkret upplýsingar. Hana má lesa hér. Samtals eru þetta innan við 300 orð, eins og ágrip í fræðigrein, eða hálfur dálkur í dagblaði.

Það sem "konkret" er hermt uppá Björgólf er þetta:

Hátt í eitt hundrað reikningar voru stofnaðir á skattaskjóleyjunum á tveimur vikum eftir þjóðnýtingu Glitnis.

Björgólfsfeðgar, Karl Wernersson og Magnús Þorsteinsson voru umsvifamiklir í þessum fjármagnsflutningum.

Að auki voru fluttir peningar á reikninga í eigu eignarhaldsfélaganna Samson, sem var í eigu Björgólfsfeðga og Milestone, sem var í eigu Karls og Steingríms Wernerssona.

Sem sagt, hvað nákvæmlega gerði Björgólfur samkvæmt þessu?!

Með svona alvarlega ásakanir verða fréttamenn að vanda mun betur til verka. Ef þeir telja sig alvöru fréttamenn.

 

Einar Karl, 29.7.2009 kl. 00:02

6 Smámynd: Konráð Ragnarsson

Það er svolítil lenska hjá íslendingum að verja suma menn sem hafa vísvitandi eða ómeðvitað framið alvarleg brot, með því að segja að menn hafi ekki verið alvondir eða að þeir hafi nú gert margt gott um ævina, eða voru ekki vitlausir,eða það var ekki auðveld fyrir hann að standa í þessi,hann var vinnuþjarkur,fjölmiðlar létu hann ekki í friði o.sv.fr.Þetta á að vísu ekki við alla sem lenda í slæmum málum, því oftast er líka gerður stór munur á Jóni og séra Jóni.

Ég veit ekki hvað  syndromið heitir sem veldur þessari samúð með vissu fólki umfram annað fólk.

Það er eins og fólkið geti frekar fyrirgefið þeim sem hafa verið áberandi,valdmiklir og vinsælir í þjóðlífinu og það þótt brotin séu það alvarleg að við myndum vilja sjá aðra "minni menn" hengda fyrir sama brot!

Hvað veldur er ekki gott að segja,kannski einhver undirlægjuháttur gagnvart fólki sem við teljum yfir okkur hafna,einhver minnimáttarkennd, eða bara gamla lögmálið  "allur er varinn góður" eins og einhver sagði,aldrei að vita nema sumir, næðu sömum völdum og vinsældum aftur,þá er best að hafa sagt sem minnst!

Gamli þrælsóttinn!!

Líklega arfleifð frá því þegar Danir réðu ríkjum!

Flestir hafa líklega gert eitthvað gott um ævina en það réttlætir ekki þ

að ef menn gera eitthvað slæmt seinna á lífsleiðinni

Konráð Ragnarsson, 29.7.2009 kl. 00:08

7 identicon

Hér sjáum við rottur auðvaldsins rísa upp til handa sínum ástkæru eigendum og tignuðu konungum, þeim Davíð Oddssyni og Björgólfunum.

Réttast væri að fara að fjárfesta í rottueitri til að verja sig gegn viðbjóði eins og ykkur þremur sem hér tjáið ykkur, þ.e.a.s. Síðueiganda Hrannari, Einari Karli og Ómari Inga. Viðbjóður ykkar er ólíðandi í samfélagi þar sem skítahyskið sem þið tignið svona augljóslega er búið að rústa öllu í kringum sig.

En það er eins og vitur maður sagði eitt sinn alls staðar heimskingjar sem tingna auðvaldið fram yfir dauða og gröf.

Grímur H. Kolbeinsson (IP-tala skráð) 29.7.2009 kl. 00:12

8 Smámynd: Páll Jónsson

Það þarf enga samúð til að kvarta yfir lélegum fréttaflutningi... Þessir Icesave andskotar fá ekkert nema fyrirlitningu frá mér en mér er sama hvort verið er að tala um morðingja eða leikskólakrakka, mig langar að fjölmiðlar segi mér satt.

Páll Jónsson, 29.7.2009 kl. 00:26

9 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Fjölmiðlarnir eru málpípur eigenda sinna?  Er það ekki málið? 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 29.7.2009 kl. 00:42

10 Smámynd: Hrannar Baldursson

Það þarf að lesa þessa grein nokkuð ógagnrýnið og sjálfsagt af einhverjum tilfinningahita til að halda því fram að undirritaður tigni þá Björgólf og Davíð, eða detti í hug að verja þá. Hins vegar er ekkert að því að spyrja, hvað ef... þeir hafa rétt fyrir sér... hvað ef ráðist hefur verið gegn þeim með skipulegum hætti og reiknað með að tilfinningaþrungið og reitt fólk snúist gagnrýnislaust gegn þeim eins og hugsunarlausir uppvakningar? Hvað ef það er veruleikinn í þessu máli? Og fjölda annarra mála?

Hvað ef fréttir á Íslandi hafa að miklu leyti verið falsaðar síðustu 10 árin?

Vekur þetta ekki upp spurningar aðrar en hvort síðuhöfundur hafi samúð með einhverju fólki útí bæ?

Hrannar Baldursson, 29.7.2009 kl. 01:19

11 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Hvers vegna skyldu útrásarbófarnir fá að ganga lausir ?

Það tók ekki langan tíma að handjárna ungu mennina sem náðu heilum 50.000.000, króna af Íbúðalánasjóði og bankareikningum viðkomandi fyrirtækja sem þeir „yfirtóku“.

Hvað náðu Björgólfarnir miklu ? 5 milljörðum ? 7 milljörðum króna ?

Sama á við um geislaBAUGSfeðgana. Þeir munu hafa náð þúsundum milljarða einnig og ganga enn lausir vitaskuld. Ekki nóg með það. Almenningur kaupir enn hjá þeim nýlenduvörurnar. Í þeim verslunum hafa þeir verið að mjólka almenning með of mikilli álagningu, sem hefði sómt Ebeneser Scrooge vel, þó svo að sumar þessara verslana kallist lágvöruverðsverslanir og „Hagkaup“.

Þangað leitar klárinn þar sem hann er kvaldastur er það ekki ?

Baugsmiðlarnir hafa tamið hjörðina vel. Svo vel að athyglinni er „systematískt“ beint á alla aðra en geislaBAUGSfeðgana og meðreiðarsveina þeirra.

Muna menn það ekki að geislaBAUGSfeðgarnir sögðu breskum bankastjórum sínum að íslensku verslanirnar væru „reiðufjármjólkurkýrin“ þeirra ( cashcow samanber frétt þar um í breskum stórblöðum ) ?

Þá eru ótaldir milljarðatugirnir sem bankarnir náðu hver um sig inn í gjaldeyrishagnaði með stöðutöku sinni gegn krónunni ársfjórðungslega. Sú aðgerð skekkti gengið verulega þar sem verðlag rauk upp með fallandi gengi krónunnar og hleypti vísitölunni á flug vitanlega. Þannig töpuðu íslendingar á hækkuðum lánum og verðlagi í verslunum milljarðatugum í hvert eitt sinn. Hlutabréf bankanna seldust þar að auki á hærra verði samhliða þessum aðgerðum bankanna. Þannig keyptu og seldu þessir „höfðingjar“hlutabréf sín í bönkunum á víxl, enda með innherjaupplýsingar í farteski sínu.Það er með ólíkindum að þessir böðlar skuli enn ganga lausir.

Icesave.

Stefán Már Stefánsson lagaprófessor mun vera sá lögspekingur á Íslandi sem þekkir reglur og lög Evrópusambandssins/EES hvað best. Hann ásamt öðrum góðum lögmanni, Lárusi Blöndal hrl., hefur skrifað einar 5 greinar þar sem þeir rekja það hverjar skuldbindingar eru í lögum og reglum um bankastarfsemi á þessu svæði og bankarnir störfuðu eftir undir árvökulu auga ráðherra bankamála honum Björvini . Þeir hafa lagt fram skír rök fyrir því að engin skuldbinding er á íslenska skattgreiðendur umfram það sem er til í innistæðutryggingasjóðnum. Það gildir jafnvel þó að í ljós kæmi að bankarnir hefðu vanrækt að greiða sinn hlut í sjóðinn. Sömuleiðis komast þeir með lagarökum sínum að því að þó svo að hér hafi verið ákveðið að við greiddum úr sjóðum skattgreiðenda til að bæta íslenskum innistæðueigendum upp í topp innistæður sínar, gerir okkur ekki heldur skuldbundna við þá bresku eða hollensku.

Þessi rök þeirra hefur enginn hrakið með neinum lögskýringum. Það eina sem hefur heyrst gegn þeim eru upphrópanir slagorðasmiða.Þetta segir okkur að við getum róleg farið að ráðum Davíðs Oddssonar frá því í upphafi, að við, skattgreiðendur, eigum ekki að borga skuldir óreiðumanna í útlöndum sem þeir stofnuðu til í gegn um einkafyrirtæki sín.

Þeir sem telja sig eiga kröfu á íslenska skattgreiðendur sækja auðvitað þá kröfu sína í gegn um dómstóla. Það er lögvarinn réttur þeirra eins og kemur fram í grein sem Jón Steinar Gunnlaugsson dómari skrifaði á dögunum í Morgunblaðið.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 29.7.2009 kl. 01:54

12 Smámynd: Hrannar Baldursson

Góð grein hjá þér Predikari. Ríkið átti samt ekki einu sinni að borga innistæður Íslendinga, enda var það þeim ekki skylt. Það var ósanngjörn aðgerð í sjálfri sér, enda áttu íslenskir skattborgarar varla að standa skil á áhættu annarra Íslendinga, frekar en annarra útlendinga. Íslenskir skuldarar sem hafa horft á verðtrygginguna éta upp höfuðstól þeirra og gjaldeyrislán rjúka upp, eiga jafnmikinn rétt á leiðréttingu og innistæðueigendur erlendis, sem og heima.

Af hverju hefur ekkert verið gert til að hjálpa íslenskum heimilum að borga upp þetta gífurlega tap?

Hrannar Baldursson, 29.7.2009 kl. 08:49

13 identicon

Hollendingar og Bretar munu ekki sækja rétt sinn fyrir íslenskum dómstólum enda munu þeir hvorki treysta þeim né telja þá hafa lögsögu í málinu. Það sem mun gerast ef við neitum að greiða Icesave (sem kemur reyndar því ekki við hvort ríkið ábyrgðist innistæður íslenskra reikningshafa að fullu heldur lágmarksábyrgð ríkisins á innistæðum) þá segjum við okkur úr lögum við hið alþjóðlega fjármálakerfi. Út frá fjárhagslegu sjónarmiði skiptir sáralitlu máli fyrir Breta og Hollendinga -- og hinar EES þjóðirnar almennt -- hver greiðir þessa milljarða evra, því að hagkerfi þeirra eru miklu stærri en hið íslenska, en þá skiptir öllu máli að EES-prinsipin verði haldin. Ef Íslendingar segja eftirá að þeim líki þau ekki, þótt þeir hafi tekið þátt í leiknum af miklum áhuga á meðan vel gekk, þá munu nágrannaþjóðirnar einfaldlega líta á Íslendinga eins og litið er á Norður Kóreu, eða þjóð sem ekki er treystandi að eiga viðskipti við. Það er afar slæmt hlutskipti fyrir alla, en ekki síst smáþjóð sem á allt sitt undir viðskiptum við aðra. Því er mun gáfulegra að staldra við og reyna að skilja málflutning hinna en að berja sér á brjóst og segjast aldrei víkja eða láta undan kúgun.

Pétur (IP-tala skráð) 29.7.2009 kl. 11:16

14 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæll Hrannr.

Þökk fyrir.

Ég er sammála þér með þessa aðgerð ríkisstjórnarinnar með greiðslu innistæðu íslendinga upp í topp á kostnað skattgreiðenda. Það töpuðu margir innistæðum í sjóðum og fleiru. Sama á við um eins og ég bendi á þá tapaði þjóðin gífurlegum fjármunum á stöðutökunni hjá eigendum bankanna.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 29.7.2009 kl. 12:36

15 identicon

Mér finnst þetta bara ansi góður pistill Hrannar.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 29.7.2009 kl. 20:59

16 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Þetta er góður pistill og þessum andskotum er til alls trúandi!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 29.7.2009 kl. 21:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband