Af hverju siðfræðifyrirlestrar eru dæmdir til að mistakast
15.5.2009 | 12:54
Jóhann Björnsson gaf alþingismönnum kost á að mæta á siðfræðifyrirlestur í stað messu fyrir setningu Alþingis í dag. Mér finnst þetta áhugaverð viðleitni hjá honum. Ég er hins vegar að snúast á þá skoðun að siðfræðifyrirlestrar sem og heimspekifyrirlestrar séu fyrirfram dæmdir til að missa marks.
Af hverju?
Siðfræði og heimspeki eru samræðugreinar. Heimspekin leitar vel rökstuddra svara við öllum þeim spurningum sem kunna að skipta okkur máli, jafnvel við spurningum sem kunna ekki að skipta máli. Siðfræðin er sú grein heimspekinnar sem fjallar um spurningar tengdum samlífi mannfólksins, um réttlæti og ranglæti, hið góða og hið illa, greinarmun á manneskjum og hlutum, og svo fram eftir götunum.
Þegar haldinn er fyrirlestur um siðfræðileg mál, þá er í raun verið að rjúfa það lögmál heimspekinnar að um samræðu sé að ræða. Þessari niðurstöðu komst ég að eftir að hafa setið á bókasafni í gær og lesið um Platón á norsku. Ég er ekkert sérlega sleipur í norskunni, en fór allt í einu að velta fyrir mér hvort að hugmyndir Platóns um form og hugmyndir séu mun jarðbundnari en mér hafði áður dottið í hug.
Ég spurði sjálfan mig hvort að hugsanlegt sé að þegar Platón talar um form, þá sé hann að tala um samræðuformið, enda var honum tíðrætt um hvernig kappræður og samræður væru af ólíkum meiði, þar sem kappræður leitast við að sannfæra fólk um eitthvað sem kann að vera satt eða ósatt, en sannleikurinn er ekki aðalatriðið þar, heldur hagsmunir - og hins vegar samræður sem leita sannleikans með því að fylgja ákveðnu formi, þar sem spurt er og svarað af einlægni.
Ég fór að hugsa um kennarastörf. Þegar ég starfaði sem heimspekikennari í FB og Iðnskólanum á síðasta áratug lagði ég gífurlega áherslu á að heimspekin vaknaði aðeins til lífsins með virkri þátttöku nemanda í öguðum samræðum, og ég forðaðist vísvitandi að halda langar ræður - þó að stundum hafi ég vissulega freistast til þess. Þessir áfangar lukkuðust afar vel.
Þegar ég flutti til Mexíkó fékk ég stöðu við framhaldsskóla, en gallinn var sá að þar mátti ekki ræða hlutina á sama hátt. Ég þurfti að setja mig í stöðu einvalds í skólastofunni sem verkstýrði nemendum frekar en að hvetja þá áfram til að skapa með eigin hugmyndum.
Ég hef semsagt upplifað báðar hliðarnar, að kenna heimspeki og siðfræði sem grein þar sem nemendur þurfa að læra staðreyndir, og hins vegar að kenna heimspeki og siðfræði í samræðuformi. Það er engin spurning hvor hefur vinninginn. Væri hægt að kenna þingmönnum agaðar samræður til að þeir kæmust að vönduðum niðurstöðum sem þeir gætu rökstutt út frá mikilvægi þeirra frekar en annarlegum hagsmunum?
Fyrirlestra má túlka sem hluta af samræðu í stóru samhengi, en þeir eru ekki samræður nema að ímynduðu leiti þess sem fyrirlesturinn flytur, því að viðkomandi þarf að ímynda sér möguleg mótsvör, í stað þess að bregðast við hverri og einni hugmynd sem flutt eru í fyrirlestrinum sjálfum. Fyrirlestrar ættu helst ekki að vera lengri en 10-15 mínútur, til að kynna hugmyndirnar sem eru til umræðu, og svo má fylgja þeim eftir með öguðum samræðum.
Ég er ansi ánægður með þessa túlkun mína á hugmyndum Platóns um form og samræður, og ætla að leyfa mér að leika við þær í eigin huga eitthvað lengur, en einnig væri gaman að heyra hvað aðrir hafa um málið að segja hér í athugasemdakerfinu.
Annars er blogg með opnu athugasemdakerfi fínt form fyrir góðar samræður.
Mynd: Emotional Competency
Athugasemdir
Mér finnst hugmyndir þínar um samræðu vera frekar lokaðar. Í mínum huga geta fyrirlestrar, bækur og greinar allt verið hluti af samræðu.
Óli Gneisti (IP-tala skráð) 15.5.2009 kl. 13:17
Óli Gneisti: Vissulega eru fyrirlestrar, bækur og greinar líka hluti af stærri samræðu, en þær eru hins vegar því marki brenndar að vera fyrir afmarkaðri hópa en þegar ákveðinn hópur mætir saman og getur sjálfur varpað fram hugmyndum og fengið viðstöðulaust svör og aðrar spurningar frá öðrum í hópnum.
Ég er alls ekki að gera lítið úr öllum þeim heimspekiritum og bókum sem ég haft unun af að lesa. Það er einfaldlega um annað form samræðu að ræða heldur en sú sem ég vísa til.
Hrannar Baldursson, 15.5.2009 kl. 13:24
http://ommi.blog.is/blog/ommi/entry/877972/
Ómar Ingi, 15.5.2009 kl. 15:01
Spurt er:
"Væri hægt að kenna þingmönnum agaðar samræður til að þeir kæmust að vönduðum niðurstöðum sem þeir gætu rökstutt út frá mikilvægi þeirra frekar en annarlegum hagsmunum?"
Svar: Nei...thví vöndud nidurstada í hugum sumra thingmanna er nidurstada sem sinnir annarlegum hagsmunum.
Eina leidin til thess ad fá góda nidurstödu er ad kjósa ekki slíka menn á thing.
Háfjallaloft falid í handarkrika áttraeds manns (IP-tala skráð) 15.5.2009 kl. 17:45
Væri ekki frekað að halda siðfræði málþing, þar sem menn gætu kastað á milli sín þessum siðfræðilegu spurningum.
Skafti Elíasson, 15.5.2009 kl. 20:27
Ég greip þessa spurningu líka á lofti:
,,Væri hægt að kenna þingmönnum agaðar samræður til að þeir kæmust að vönduðum niðurstöðum sem þeir gætu rökstutt út frá mikilvægi þeirra frekar en annarlegum hagsmunum?"
Fínn pistill.
Þórður Björn Sigurðsson, 15.5.2009 kl. 23:39
Sæll, Hrannar, og takk fyrir pistilinn. Hefurðu birt eitthvert heimspekilegt efni sem hægt er að nálgast. T.d. greinar í Hug eða ritgerðir sem eru aðgengilegar á Landsbókasafninu? Jafnvel eitthvað á netinu, ekki blogg eða venjulegur greinar heldur heimspekigreinar eða ritgerðir, fræðilegt efni.
kv.
ábs
ábs (IP-tala skráð) 15.5.2009 kl. 23:42
ÁBS: Ég hef ekki birt eina einustu af þeim fræðilegu greinum sem ég skrifaði í háskóla, enda hafa þær flestar glatast í flutningum mínum milli landa. Styrkleiki minn í heimspeki felst meira í samræðum heldur en fræðilegum greinaskrifum, sem væri þó freistandi að leggja fyrir sig. Það hafa einhverjar greinar birst á Vísindavefnum, og við upphaf kennslu skrifaði ég frekar einfaldar bækur sem ég notaði við kennslu. Einnig hef ég þýtt eitthvað af heimspekilegu kennsluefni yfir á íslensku og spænsku án þess að birta það opinberlega. Eina fræðilega ritgerðin sem til er eftir mig á Íslandi er sjálfsagt BA ritgerðin um Gagnsemi heimspekinnar.
Þórður: Takk fyrir það.
Skafti: Það er óvitlaus hugmynd.
Háfjallaloft: Góð rök fyrir persónukjöri.
Ómar: gerðir þú þetta vídeó? Það er ansi flott.
Hrannar Baldursson, 16.5.2009 kl. 00:51
Takk. Ég gúggla þig bara, leita og finn eitthvað.
ábs (IP-tala skráð) 16.5.2009 kl. 01:37
Sæll Hrannar
Er ekki rétt að spyrja um tilgang siðfræðifyrirlestursins fyrst áður en dæmt er um hvort að hann "sé dæmdur til að mistakast"? Ég skil vel að þú efist um gildi slíkra fyrirlestra sem tæki til að bæta siðferði, en það má einnig njóta þessara fyrirlestra í sjálfu sér. Fyrir fólk sem mætir á siðfræðifyrirlestur með jákvæðni í huga gæti mögulega haft gagn af honum á einhvern máta. T.d. vakið áhuga á frekari lestri á ákveðnu efni og við þann lestur gæti ýmislegt breyst hjá viðkomandi. Í framhaldinu gæti það leitt til rökræðna sem svo aftur leiddi til frekari hugsunar og þroska. Kannski telurðu þetta ævintýr en mér finnst þú taka full sterkt til orða.
Kveðja- Svanur
Svanur Sigurbjörnsson, 16.5.2009 kl. 02:02
ÁBS: :)
Svanur: Ég efast ekki um að þú hafir rétt fyrir þér. Hins vegar vil ég geri þarna greinarmun á samræðu, sem ég tel vera kjarna virkrar heimspeki og siðfræði, en hins vegar umræðu, sem hefur að sjálfsögðu líka afar mikið gildi, en er líkari dauðri veru en þeirri spriklandi skemmtilegu skepnu sem heimspekin er.
Greinarmunurinn er kannski yfirfæranlegur á skák, þar sem hægt er að halda fyrirlestra um skák og skýra skákir, en það er samt allt önnur upplifun en sú að tefla.
Ég viðurkenni, Svanur, að ég tek fullsterkt til orða, en málið er að umfjöllun um siðfræði mun aðeins fræða þá sem hafa fyrirfram áhuga á siðfræði, en samræða um siðfræði mun hins vegar fræða alla þá sem taka þátt og sama hvaða afstöðu þeir hafa.
Hrannar Baldursson, 16.5.2009 kl. 08:47
Í fyrsta lagi held ég að þú verðir að gera hér grein á siðfræði og siðferði. Siðfræði fjallar um siðferði. Það er ekki gefið að sá hópur sem vill ræða um bætt siðferði sé sami hópur og vill taka þátt í umræðu um siðfræði. Þú lýstir því ágætlega sjálfur með skákdæminu áður.
Í öðru lagi finns mér þetta orka tvímælis:
Ég held að góð hugvekja um siðferði geti gagnast hverjum sá á hlýðir, þó að fyrirlestur um siðfræði myndi ekki skila sama gagni. Stikkilsberja-Finnur er fín hugvekja um siðferði. Í henni stendur næsta lítiið um siðfræði.
Sveinn Birkir Björnsson (IP-tala skráð) 16.5.2009 kl. 10:31
Sveinn Birkir: Rétt er að gera skal skýran greinarmun á siðfræði og siðferði. Margar guðþjónustur má flokka sem fyrirlestra um siðferði. Fleiri fyrirlestrar um siðferði gera svipað gagn. Geta verið gagnlegir, geta verið gagnslausir. Það er hins vegar siðfræðin sjálf sem þarf að nálgast með samræðu, til að hún skili sem mestu meðal fólks sem ekki eru siðfræðingar. Þar má fólk vera ósammála, en þarf að rökstyðja hvers vegna og hverjar þeirra eigin hugmyndir eru, og leyfa jafna gagnrýni á eigin hugmyndir sem og annarra.
Einnig er rétt að vilji einhver sem kemur að samræðu ekki ræða málin, eru miklar líkur á að samræðin taki aldrei á flug og hafi því ekkert gildi.
Umræður og kappræður eru samræðum að því leyti yfirsterkari að hægt er að láta raddir heyra hvort sem hlustað er eða ekki. Það er ekki hægt í samræðu.
Takk fyrir, sérstaklega Sveinn og Svanur, að dýpka umræðuna með ykkar þátttöku.
Hrannar Baldursson, 16.5.2009 kl. 11:00
Athugið að vegna þess að við erum ekki að ræða beinlínis saman, er bloggið dæmi um umræðu frekar en samræðu.
Hrannar Baldursson, 16.5.2009 kl. 11:01
Eru guðþjónustur þá dæmdar til að mistakast?
Matthías Ásgeirsson, 16.5.2009 kl. 11:41
Spurt er:
"Eru gudthjónustur thá daemdar ad mistakast?"
Svar:
Thad er ómögulegt ad svara thessari spurningu án thess ad thú segir nákvaemlega hvad thú meinir med mistökum í gudthjónustuhaldi?
Einnig er haegt ad skoda spurninguna frá ödru sjónarhorni vegna thess ad ágreiningur er um hvort Gud sé til.
Ef thú spyrd mig med thad í huga thá segi ég já...allar gudthjónustur eru hjóm og mistök.
AE thessi Bronco er svo thungur í stýri. (IP-tala skráð) 16.5.2009 kl. 12:27
Eða öllu heldur, er niðurstaðan ekki sú að hugvekja flutt af heimspekingi geti skilað alveg sömu niðurstöðu og guðsþjónusta flutt af presti?
Og er það ekki það sem Borgarahreyfingin vill? Bjóða upp á sekúlar hugvekju sem mótvægi við guðsþjónustuna? Ég lít á þetta sem einhvers konar viðleitni til aðskilnaðs ríkis og kirkju.
Ég vil vekja athygli á því að í fyrstu efnisgrein talarðu sérstaklega um siðferðisfyrirlestur, en það sem eftir lifir af röksemdinni snýr að siðfræðifyrirlestrum.
Sveinn Birkir Björnsson (IP-tala skráð) 16.5.2009 kl. 12:33
Sveinn Birkir: takk fyrir að benda á þetta. Hef þegar leiðrétt þetta Freudíska slipp. :)
Matthías: Að sjálfsögðu ekki, enda hafa guðþjónustur ekkert með samræðu að gera. Siðfræði og heimspeki eru hins vegar samofin í samræðuhefðina.
Bronco: Það virðast vera til heimildir sem ná mörgþúsund ár aftur í tímann um einhverja veru sem kölluð er Guð. Sama hvort fólk afneitar honum, henni eða því; eða veitir honum, henni eða því viðtöku; virðist sem að allir geri sér einhverjar hugmyndir um hvað Guð er. Það sama get ég ekki sagt um sjálfan mig. Pældu í því.
Spurning hvort að það sé afsönnun á tilvist Guðs að allir virðast hafa ólíka skoðun á hvað Guð er. Rétt eins og rökfræðihugtak. Það er á sama hátt hægt að deila um hvort að allt, sumt og ekkert sé til, hvort vinátta, ást og friður sé til, og svo frameftir götunum. Við færum varla að segja vináttu vera til sem sjálfstæða veru þó að samband manneskja einkennist af eiginleikum þess sem við skiljum sem vináttu.
Pældu í því. Eftir 1000 ár mun fólk enn deila um tilvist Guðs, en við verðum sjálfsagt gleymdar sálir sem horfið hafa í tímans öldur, og enginn mun deila um tilvist okkar enda mun hún engu máli skipta. Eða hvað?
Hrannar Baldursson, 16.5.2009 kl. 16:28
"Bronco: Það virðast vera til heimildir sem ná mörgþúsund ár aftur í tímann um einhverja veru sem kölluð er Guð."
"virdast vera"
When it gets down to it, diet, diet diet is the key! (IP-tala skráð) 16.5.2009 kl. 21:27
Takk Hrannar. Við skiljum þá hvorn annan.
Kveðja Svanur
Svanur Sigurbjörnsson, 17.5.2009 kl. 01:50
Þetta er dálítið villandi Hrannar. Það eru ekki til nokkrar heimildir um einhverja veru sem kölluð er Guð. Það eru til heimildur um hugmyndir manna um fullt af verum sem kallaðar hafa verið guðir.
Það er ekkert gefið. Kannski mun fólk ekki einu sinni deila um tilvist Guðs eftir hundrað ár. Deilir fólk mikið um tilvist norna á vesturlöndum í dag?
Matthías Ásgeirsson, 19.5.2009 kl. 10:00
Matthías: Hehe. Ekkert gefið vissulega, enda veit enginn hvernig framtíðan verður, né hvort hún einu sinni verði. Samt finnst mér afar líklegt miðað við aldur, fyrri reynslu og hvernig heimurinn hefur hagað sér í árþúsundir að deilt verði áfram um tilvist Guðs eftir hundrað ár og hugsanlega alls ekki um tilvist okkar, Matthías.
Hrannar Baldursson, 19.5.2009 kl. 10:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.