Af hverju verður að setja Evrópuaðild í forgang?
27.4.2009 | 17:49
Þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort við ættum að ræða um aðild að Evrópusambandinu er álíka gáfuleg og að stofna rannsóknarnefnd til að finna grun um fjármálaglæpi.
Umsókn um aðild að Evrópusambandinu virðist snúast um ótta við að sjálfstæði Íslendinga sé í hættu. Skiptast fylkingar í tvo andhópa, annar þeirra flýgur í V en hinn í S.
Þeir sem vilja inn í Evrópusambandið telja það tryggja sjálfstæði Íslendinga. Þeir sem vilja ekki inn í Evrópusambandið telja það tryggja sjálfstæði Íslendinga. Hvor hefur rétt fyrir sér?
Raddir sem eru á móti halda að samningar við Evrópusambandið þýði að við glötum auðlindum okkar umsvifalaust. Raddir sem eru með telja þetta tóma vitleysu, og óska eftir aðildarviðræðum til að geta sýnt fram á það. Annars verður inngangan í ESB aðeins byggð á fordómum og hindurvitnum.
Þegar við höfum ekki forsendur til að velja, þá er hvorki gott að segja af eða á, heldur leita sér frekari upplýsinga. Sé ákveðið að leita ekki frekari upplýsinga, er ljóst að verið er að hafna. Ef ákveðið er að kjósa um hvort eigi að leita upplýsinga er verið að kjósa á forsendum sem hafa ekkert sannleiksgildi og væri slík niðurstaða því byggð á fordómum einum.
Þessi umræða um Evrópumálin minnir mig svolítið á rifrildið um hvort að heimurinn sé hnöttóttur eða disklaga. Annar hópurinn óskar eftir að farið sé eftir rannsóknum og rökum, en hinn eftir trú og hindurvitnum. Hvora aðferðina ætlum við að nota? Hvor leiðin er sæmandi þjóðfélagi á 21. öldinni?
Ísland hefur þegar tapað sjálfstæði sínu. Það er bara ekki búið að gefa út sagnfræðibókina sem fullyrðir það og umræðan um glötun sjálfstæðisins er ekki farin almennilega í gang. Alþjóðlegi gjaldeyrissjóðurinn stjórnar framtíð landsins og mun gera það út frá sjónarmiði sem er alls ekki íslenskt, og ekki einu sinni evrópskt, heldur út frá viðmiði markaðshyggju, þeirri hugmyndi sem kom þjóðfélaginu á hvolf.
Ef við segjum okkur úr Alþjóða gjaldeyrissjóðnum verður hugsanlega valtað yfir okkur með hervaldi, eignir okkar gerðar upptækar og þjóðin gerð að ríki í því landi sem sigrar í stríðinu um íslensku auðlindirnar. Þetta hefur gerst víða um heim. Af hverju ekki hér? Þetta er lítill heimur og vegalengdir stuttar.
Ef við göngum í Evrópusambandið sem sjálfstjóð þjóð, fáum við staðfestingu á sjálfstæði okkar, nokkuð sem hægt er að deila um í dag. Við getum ekki gengið í Evrópusambandið með því hugarfari að "þeir" muni taka allt af okkur. Þannig virka hlutirnir ekki. Þegar við göngum í félag með öðrum, þá getum við ekki eingöngu ætlast til með hroka og vandfýsni að "þeir" eigi að gefa okkur eitthvað, að "þeir" ætli að taka auðlindirnar frá okkur, heldur líka um hvernig við getum hjálpað "þeim".
Miðað við umræðu síðustu daga mætti halda að Íslendingar séu eigingjarnasta þjóð í heimi. Það talar enginn um að gefa af sér, allt snýst um að fá sem mest út úr samningum. Það er ekki jafnslæmt að gefa af sér og sumir virðast halda. Það gæti nefnilega komið til baka síðar meir á óvæntan hátt.
Ég er ekki að segja að við eigum að vera barnaleg og einföld í samningsgerð, heldur ganga til samninga með opnum hug. Ekki allir í heiminum ganga með einkunnarorð íslensku þjóðarinnar í skauti sér: "Ég fyrst!" Það er fólk þarna úti sem sýnir umhyggju og hefur áhuga á að bæta samfélag manna um allan heim, og þeim þætti bara flott ef Ísland tæki þátt. Þetta er ekki allt einhver valdaklíka, þó að vissulega séu pólitískar hættur víða. Við getum einfaldlega ekki gert þá kröfu að Evrópusambandið sé Kardimommubærinn. Það er enginn slíkur fullkominn heimur, ekki einu sinni á Íslandi nútímans, framtíðar, né fortíðar.
Stóra spurningin er: getum við bjargað íslensku þjóðinni frá skuldum óreiðumanna án þess að tapa sjálfstæði okkar, öðruvísi en með því að ganga í Evrópusambandið? Ef þú þekkir þá leið þætti mér vænt um að heyra hana.
Ef við getum ekki borgað 2000 milljarða á þremur árum, og lánið skuldfellur, þá þurfum við að gefa eitthvað annað en peninga, og við munum ekki hafa val um hvað það verður og hversu mikils virði það verður metið - en öruggt er að þar verður um náttúruauðlindir að ræða til að byrja með. Þær munu fara úr höndum okkar, ein á fætur annarri, þar til aðeins ein auðlind verður eftir: mannauðurinn.
Með slakara menntakerfi þar sem við getum ekki viðhaldið sterku menntakerfi án peninga, munu íslensk börn ekki ná að mennta sig til að verða það sem þau langar, heldur hverfa aftur í það far að mennta sig til að gera eitthvað ákveðið alla ævi, eða jafnvel ná ekki svo langt, fær ekki menntun og starfar þess í stað sem verksmiðjuþrælar erlendra valdhafa sem sífellt leita eftir ódýru vinnuafli. Af hverju ekki á Íslandi?
Kreppan er ekki enn byrjuð. Hún skellur á næsta vetur.
Hef ég einhver haldbær rök? Það eina sem ég hef fyrir mér er einhvers konar hundsvit, óseðjandi forvitni og spænsk skýrsla sem ég fékk í hendurnar um daginn.
Um daginn fékk ég skýrslu sem hét því dramatíska nafni "Crisis en Islandia" eða "Kreppa á Íslandi" í hendurnar sem unnin var úr spænskri rannsókn á íslenska bankakerfinu af OCEI (Observatorio de Coyuntura Económica Internacional). Þar var spáð fyrir um kreppu á Íslandi, að íslenskir bankar hefðu síðustu tvö árin stækkað margfalt umfram getu og að hrun þeirra væri óumflýjanlegt, að kreppa á Íslandi myndi vara í 10-15 ár.
Þessi spænska skýrsla var skrifuð árið 2006! Höfundur hennar er Alejandro García Carrasco, skrifuð í Valencia, 22. mars 2006. Þetta er áhugaverður lestur fyrir leikmann eins og mig.
Til þessa hefur allt sem í skýrslunni kemur fram orðið að veruleika, nema árafjöldi kreppunnar, af augljósum ástæðum.
Samkvæmt eigin áhættumati eru ógnirnar og veikleikarnir á það alvarlegu stigi að mikilvægt er að gera alvarlegar ráðstafanir. Besta ráðstöfunin fyrir þjóðina tel ég vera þá að ganga í Evrópusambandið. Besta ráðstöfunin fyrir mig og mína fjölskyldu er að flytja úr landi og reyna að byggja mér bækistöð erlendis frá og koma þjóð minni einhvern veginn að gagni þaðan, sjálfsagt með greinaskrifum, pælingum og vonandi sífellt betri gagnrýnni hugsun.
Mér var bent á fyrir nokkrum mínútum af einum af mínum allra bestu vinum að það er ein smá villa í þessum pælingum: Evrópubúar hafa verið okkur mjög fjandsamir undanfarið vegna ICESAVE og vilja hugsanlega ekkert með okkur gera. Hann spurði, af hverju ræðum við ekki líka við Bandaríkjamenn um upptöku dollarans, enda hefur Obama ekki sýnt annað en mikla vinsemd gagnvart Íslendingum?
Þetta finnst mér góð spurning, en leyfi henni að liggja hérna í kryddblöndu um sinn, áður en ég byrja að móta rökstudda skoðun um hana.
Myndir:
Photos that came via email, Page 5
Athugasemdir
Engin þjóð hefur farið inn í ESB án þess að það hafi komið skýrt í ljós í þingkosningum að aðildin væri í öllum megindráttum tæk í augum meirihluta kjósenda.
Það hvað felst í ESB aðild er ekki leyndarmál. Reglur klúbbsins eru öllum aðgengilegar.
Vafaatriðiðn (a.m.k í augum sumra) eru hvort að varanlegar tryggingar eða undanþágur í sjávarútvegsmálum náist fram. Einnig hverskonar sérstöðuviðurkenning hvað varðar landbúnað. Allt hitt liggur meira og minna nokkuð ljóst fyrir.
Mér þykir það ekki nein vitleysa að ganga úr skugga um að þjóðin sé sátt við þá þætti áður en farið er í aðildarviðærður.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 18:11
Ef stjórnarskrárbreytingarnar hefðu ekki verið stoppaðar af Sjálfstæðisflokknum hefðum við verið úti að safna undirskriftum um að fá þessa atkvæðagreiðslu um hvort eigi að sækja um aðild að ESB. Sá möguleiki er ekki til staðar en ríkisstjórnarflokkarnir væru móralsk bundnir af slíkri söfnun og því væri það líklega góð lending að segjast vera tilbúinn að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu ef slíkra undirskrifta væri safnað.
Aðildarumsókn að ESB er stór ákvörðun sem mun hafa mikil áhrif í sjálfu sér. Ef við viljum ekki ganga í ESB er engin ástæða til að fara út í slíkar viðræður.
Héðinn Björnsson, 27.4.2009 kl. 18:18
Af því að þessi grey vita ekki betur.
Ómar Ingi, 27.4.2009 kl. 21:05
Ómar, eiga allir aðrir að vita hvað þú ert að hugsa? Hvaða grey ertu að tala um?
Sæmundur Bjarnason, 27.4.2009 kl. 22:36
Sæll Hrannar, er búin að lesa þetta yfir og er hjartanlega sammála þér. Icesave málið getur vissulega skaðað okkur verulega en mér finnst samt sem áður að það eigi að láta reyna á aðildaviðræður. Annars erum við í raun að "gíska" út í bláinn ef að ég má orða það svo. Dollarinn, ja Obama virðist vera mikill "diplomat" í sér, þannig að það er aldrei að vita. Kryddblandan gildir hjá mér líka í því máli.
Þórkatla Snæbjörnsdóttir (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 22:42
Readers critic:
- Out of 10.
Photos: 9,5 - exellent work - artistic. The 0,5 missing is because of the Rat!
Text: 0,5 - author believe too much in EU - f. eks. denies facts concerning fishery adminstration etc. The 9,5 points missing is simply because of the author lack´s of reality in his article.
Guðmundur St Ragnarsson, 27.4.2009 kl. 23:02
Góð grein hjá þér. Ég verð samt að segja að við erum ekki búin að sýna það að við getum stjórnað hér fiskveiðum. Loðnan er svo til horfin,Kolmunnin er horfin,Síldin að hverfa,Hörpudiskur búinn,Grálúða að klárast og Sandsýli svona má lengi telja. Ef þeir hjá Brussel fengju að ráða þá væru veiðar á þessum stofnum hætt þar til þeir væru búnir að ná sér aftur. það er alltaf talað um að Noregur hafi hafnað aðild tvisvar sinnum. Norðmenn eru ekki í sömu stöðu og við því þeir hafa átt dygra sjóði og hafa ekki þurft að stunda ofveiði til þess að rétta af rýkishalla. Sú staðreind er að Ísland hefur lent í þriðja stærsta hruni frá 1930. Við verðum að stökkva inn núna á meðan færi gefst og skoða hvað þeir hafa uppá að bjóða í ESB körfunni.
Jón V Viðarsson, 27.4.2009 kl. 23:12
Ætli við verðum ekki seld á nauðungar uppboði í náinni framtíð? Varhugaverðir tímar eru framundan.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 27.4.2009 kl. 23:45
Góðan daginn.
Þetta er flott grein hjá þér. En ég hef nú þá skoðun að við eigum að setja á legg nefnd núna strax til að ræða við Evrópusambandið til að athuga hvernig samning þetta samband getur boðið okkur. Mér finnst mjög heimskulegt í alla staði að varpa því á þjóðina hvort við eigum að fara í slíkar viðræður, vegna þess að þá verður það í öllu falli eina kosningin um Evrópuaðild. Ég vil sjá hvað þetta samband býður okkur og það vil ég aða þjóðin kjósi um. Að tefja þetta þarfa mál með því að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort það eigi að fara í viðræður eða ekki er eins og að pæla í því hvort maður ætlar á klósettið með klósettpappír.
Mín skoðun er sú að við megum engan tíma missa til að ræða þessi mál og þetta þarf ekkert að tefja neinar aðgerðir heimafyrir. Það er hægt að kjósa nefnd alveg óháða til að ræða við Evrópusambandið, nefnd sem skipuð er af þar til hæfu fólki, fólki sem kann samningagerð, lögmenn hagfræðinga og já bara alla þá sem vit hafa á hlutunum. Síðan má skoða málið í rólegheitunum.
Því einsog þú segir einhversstaðar í grein þinni að "kreppan komi til með að vara 10-15 ár" er fyrsta, önnur og þriðja ástæða þess að við megum engan tíma missa til að fara í aðildarviðræður.
En við skulum síðan sjá til og ræða málin af yfirvegun þegar tillögur koma um hvert skal stefna.
Evrópuaðildarviðræður strax.!!!!!!!!
Baldvin Baldvinsson (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 08:55
Smá söguleg leiðrétting á fullyrðingu Hans:"Engin þjóð hefur farið inn í ESB án þess að það hafi komið skýrt í ljós í þingkosningum að aðildin væri í öllum megindráttum tæk í augum meirihluta kjósenda."
Það var ekki einhugur um ESB aðild í minnihluta ríkisstjórn Carls Bildt þegar Svíar sóttu um aðild 1991, en þá var Miðflokkurinn á móti aðild. Það var ekki einu sinni öruggur meirihluti innan sænska þingsins um málið því þar að auki voru Vinstri flokkurinn og Græningjar á móti og Social demokratar voru ekki með mótaða stefna og logaði flokkurinnn í innbyrðis deilum um málið. Á sama tíma var yfirgnæfandi andstaða þjóðarinnar gegn aðild skv. skoðanakönnunum.
Þrýstingurinn fyrir aðild Svíþjóðar kom frá aðilum vinnumarkaðarins og þjóðin gleypti að lokum þau rök í atkvæðagreiðslunni 1994 enda djúpt sokkinn í kreppu.
Það var kosið of snemma í þessari kreppu til að fólk átti á nauðsyn þess að sækja um aðild. Megin munurinn á stöðu okkar og flestra annara landa í þessari kreppu er sá að hér eru flest fyrirtæki á hausnum á meðan meirihluti fyrirtækja í USA og ESB eru þrátt fyrir samdrátt ennþá að skila hagnaði. Þessi fyrirtæki verða þá til staðar til að ráða fleira fólk þegar vöxtur fer í gang á ný en hér verður bara eyðimörk eymdar og atvinnuleysis
Vörður (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 11:49
Auðvitað á þjóðin að kjósa um hvort eigi að fara í aðildarviðræður.
Er ekki búið að vera að predika, að færa völdin (valið) til fólksins.
Er á það bara við þegar það hentar Samfylkinguni ?
Birgir Guðjónsson (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 11:50
Það að fara í aðildarviðræður er ekki það sama og að ganga í ESB!! Ég er persónulega ekki búinn að mynda mér skoðun um málið, þar sem of mikið er a huldum atriðum sem Brussel kóngarnir eiga eftir að setja fram. Að sjálfsögðu eigum við að byrja á því að fara í viðræður og TREYSTA svo þjóðinni til að taka rétta ákvörðun, byggða á upplýstri skoðun á málinu.
Maður heyrir alltaf að við vitum nú þegar 75% af því sem verður sett fram. Gott og vel, það er ágætt í sjálfu sér. En hvað með þessi 25% sem upp á vantar? Gæti verið að sá hluti sé eitthvað sem kæmi almenningi til góða en gróðabröskurum og stjórnmálaelítu síður?? Það skyldi þó ekki vera að sá hluti af kröfugerð þeirra í Brussel væri akkúrat það sem almenningi á Íslandi kemur best?
Ekki veit ég það, en ég vil fá að kjósa um það hvort við göngum í sambandið, eftir að viðræður hafa farið fram og ég hef verið upplýstur um kosti þess og galla að vera þarna inni. Ég er ekki í stuði til að hlusta á einhverja hundleiðinlega sleggjudóma þeirra sem eru alfarið með eða alfarið á móti. Það er eins og að hlusta á 6 ára börn rífast um hvor eigi betri eða sterkari pabba.
Tómas Þráinsson, 28.4.2009 kl. 12:25
Alveg rétt Tommi...fólk er ad búa til mál úr einhverju sem ekki finnst. KJÁNALEGT..KJÁNALEGT..OG ENN OG AFTUR KJÁNALEGT ad vera ad thrasa um thetta.
Thetta er alveg ljóst: Farid verdur í adildarvidraedur og thegar og EF samningur um inngöngu Íslands liggur fyrir kýs blessada fólkid um thad hvort thad samthykkir samninginn eda ekki. (PUNKTUR) ´
Mín skodun er sú ad EB eda hvad thad er kallad muni taka til greina sérstödu Íslands og muni ekki krefjast adgangs ad audlindum sjávar. Ég held ad íslendingar geti alveg verid rólegir í sambandi vid thad. Thetta eru engir bjánar og their gera sér grein fyrir ad thetta er lífsnaudsynlegur atvinnuútvegur fyrir okkur.
Ég hef ekki verid stoltur af Íslandi og íslendingum og hef ávalt sett landid í sambandi vid spillingu og bjánaskap. Thjódin hefur verid klofin og samstadan og einhugurinn hefur ekki fundist. Thad hefur ekkert verid í íslensku mannlífi til thess ad vera stoltur af.
Núna er thetta ad breytast hjá mér. LOKSINS virdist fólk átta sig á thví ad kvótakerfid hefur gjörsamlega grafid undan öllu sidferdi og gerdi allar leikreglur ad skrípaleik.´
Fólkid mótmaelti og ég held ad thjódin sé á réttri leid og ég held ad vid landarnir eda a.m.k. vona ég ad vid náum saman og sköpum heidarlegt samfélag sem vid öll getum verid stolt af og ánaegd med.
Látum thennan söng verda upphafid ad sameinadri og stoltri thjód:
http://www.youtube.com/watch?v=8pVSXCohyrQ&feature=related
Áhugamadur um ad sleppa loftinu lausu og eyrnamergssöfnun (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 13:21
Sæll Hrannar. Ágætasta grein.
Það er ekki eftir neinu að bíða og ég legg til 4 þrepa leið.
Svona förum við að þessu.
1 Drífum okkur í að fara í aðildarviðræður, enda eru Svíar að fara að taka við leiðtogahlutverkinu í ESB og undir þeim aðstæðum er líklegra að ná góðum samningi.
2 Á sama tíma verður sett á stofn fræðsluskrifstofa evrópumála sem má auðveldlega manna nýútskrifuðu háskóla fólki sem er í vanda með að fá vinnu við hæfi. Hún yrði staðsett í miðborg Reykjavíkur og á vefnum og veitti öllum sem þess óska ýtarlegar upplýsingar um sambandið, stofnanir þess, reglur, stefnu, sögu og stöðu samskipta Íslands við það, svo eitthvað sé nefnt. Það yrðu málstofur og vinnuhópar, bæði ESB sinna og andstæðinga og samræður þeirra á milli.
3 Samningurinn verður kynntur vel og vandlega fyrir þjóðinni. Ríkisútvarpið mun standa fyrir umfangsmikilli kynningu á samningnum og öðru sem að því lítur. Fræðsluskrifstofa evrópumála mun einnig sjá um að kynna samninginn í skólum og vinnustöðum um allt land.
4 ÞJÓÐARATKVÆÐAGREIÐSLA. Þjóðin samþykkir eða hafnar aðild.
SVO EINFALLT ER ÞETTA!
Linkur: http://savar.blog.is/blog/savar/entry/865154/
Sævar Finnbogason, 1.5.2009 kl. 00:15
Akkúrat það sem ég er að pæla um þetta. Tómas , Sævar og áhugamaður koma akkúrat með kjarna málsins. Takk fyrir það.
Ína (IP-tala skráð) 3.5.2009 kl. 12:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.