Á að banna fóstureyðingar?

 

abortion_2

 

Það kæmi mér ekki á óvart ef fóstureyðingar yrðu bannaðar með öllu í næstu ríkisstjórn, bæði með þeim rökum að fóstureyðingar séu líkamlegt ofbeldi gegn börnum, í samræmi við lög sem sett voru um líkamlega og andlega refsingu í vikunni, sem fjallað hefur verið töluvert um í þessu bloggi hérna: Ný lög í boði VG: Foreldrum eða forsjáraðilum er óheimilt að beita barn líkamlegum eða andlegum refsingum, þ.m.t. refsingum í uppeldisskyni, en það fór út í heitar umræður um fóstureyðingar - samband sem ég áttaði mig ekki á í fyrstu, en get séð fyrir mér að þessi lög geti einmitt haft slíkar afleiðingar í för með sér - að fóstureyðingar verði bannaðar með öllu á Íslandi.

Annað er að bann við fóstureyðingum getur sparað Ríkinu allan þann kostnað sem fer í aðgerðirnar á hverjum degi, en sparnaðurinn gæti skipt milljónum króna fyrir hvern dag ársins.

 

 

Grundvallarspurningin sem þarf að spyrja er hvort að fóstrið hafi rétt til að lifa undir eðlilegum kringumstæðum.

Ef svarið er já, þá þurfum við að skoða hvaða kringumstæður það eru sem geti réttlætt það að hægt sé að svipta fóstur lífi.

Ef svarið er nei, sem mig grunar að sé viðmiðið þegar litið er á fóstureyðingar sem getnaðarvörn, þá er ekki hægt að rökræða málið frekar við viðkomandi, enda er fóstrið ekkert annað en aðskotahlutur eða óþægindi sem skiptir engu máli hvort er fjarlægður eða ekki.

Þegar við erum búin að skipta þessum skoðunum í tvo mögulega flokka, getum við einbeitt okkur að þeim sem er meira aðkallandi, og komið með nýja spurningu fyrir báða flokkana.

 

 

Ef fóstur hefur réttindi, þá spyr maður hvenær fóstureyðing sé réttlætanleg. Sumir munu taka þá afstöðu byggða á trúarlegri afstöðu að fóstureyðing sé aldrei réttlætanleg. Viðkomandi hefur fullan rétt á slíkri trú. Aðrir munu segja að slíkt fólk alhæfi of mikið um hluti og aðstæður sem þeir geta ekki upplifað sjálfir. Það fer sjálfsagt eftir siðferðisviðmiðum hvers og eins, hvaða samfélagslegar aðstæður geta réttlætt slíka framkvæmd.

Það er hægt að telja ýmislegt til (ástæðurnar eru ekki allar jafn góðar):

  • móðirin er geðveik og er líkleg til að beita barnið ofbeldi - jafnvel á meðan það er enn í móðurkviði,
  • móðurinni hefur verið nauðgað
  • annað foreldrið er með eyðni
  • foreldrar eru fátæk og geta ekki einu sinni sinnt sjálfum sér, hvað þá barni
  • móðirin verður í lífshætti gangi hún með barnið
  • foreldra hafa þá skoðun að barn eigi ekkert erindi í þennan grimma heim og það sé hrein grimmd að auka þjáningu í heiminum
  • foreldrana langar ekkert í barn, langar bara í meira áhyggjulaust og ábyrgðarlaust kynlíf 

Ef fóstur hefur ekki réttindi, hvenær hættir það að vera fóstur og verður barn? Viðmiðunin er yfirleitt sú að eftir 16 vikur frá getnaði þroskast fóstrið yfir í að vera barn. Þegar við hugsum til sams konar þroska í lífinu sjálfu, þegar barn hættir að vera barn og verður unglingur, þá breytist réttarstaða þess og þarf til dæmis að borga hærri gjöld í strætó, og þegar unglingur verður að fullorðinni manneskju. 

Málið er að þessi skil eru ekki mælanleg á neinn raunhæfan hátt. Einstaklingar eru svo gjörólíkir hverjum öðrum. Þetta sést best þegar börn eru að breytast í unglinga - þau þroskast á afar misjöfnum tíma. Það er ekki einhver líkamsklukka sem segir nákvæmlega hvenær þroski á sér stað. 

Þá vaknar spurningin hvort að þroski sé eðlisbreyting eða stigsbreyting. Sé þroski eðlisbreyting, þýðir það að viðkomandi hættir að vera eitt og byrjar að vera annað. Sé um stigsbreytingu að ræða, breytast eiginleikar viðkomandi smám saman. Ég er viss um að það síðarnefnda á við mig þegar ég breyttist úr barni í ungling og síðan úr unglingi í fullorðinn mann. Þessi breyting er ekki dramatísk.

Af hverju er þá haldið fram að breyting úr fóstri í barn sé eðlisbreyting, en ekki stigsbreyting, eins og allar aðrar þroskabreytingar?

Ég held að þetta séu þau rök sem fólk þarf að velta fyrir sér reyni þau að réttlæta fóstureyðingar á þeim grundvelli að fóstur hafi ekki réttindi vegna þess að þau eru ekki orðin nógu þroskuð. Staðreyndin er hins vegar sú að við getum ekkert gáfulagt sagt um muninn á fóstri og barni. Mér dettur að minnsta kosti ekkert í hug.

Málið er að það er mun hættulegra að fjarlægja fóstur úr móðurkviði eftir að sextán vikur hafa liðið, fyrst og fremst vegna stærðar þess, grunar mig og því er megin viðmiðið heilsa móðurinnar, en þessi rök hafa hins vegar ekkert að gera með eðli fóstursins.

 

Niðurstaða

Ég þykist ekki vera neinn stóridómur í þessu máli, en tel þó að ekki sé hægt að gera greinarmun á fóstri og barni sem stenst gagnrýni heilbrigðrar skynsemi. Einnig held ég að algjört bann við fóstureyðingum sé slæmur kostur, enda geta komið upp aðstæður sem réttlæta slíkt siðferðislega, kannski ekki í huga allra, en að minnsta kosti þeirra sem standa frammi fyrir slíkri ákvörðun um líf og dauða einstaklings.

Það er afar alvarleg ákvörðun að svipta einstakling lífi, og krefst að minnsta kosti þess að viðkomandi hafi hugsað um hvað þetta þýðir. Mér finns fráleitt að taka þennan rétt frá fólki, en þætti sjálfsagt að fólk sem hugleiðir fóstureyðingar ætti að sitja námskeið í gagnrýnni hugsun um fóstureyðingar fyrst, þannig geti það komist að niðurstöðu sem byggir á vel mótuðum skoðunum, frekar en tilfinningu og yfirborðskenndri réttlætingu.

 

Myndir:

Barn eða fóstur milli handa: SCHotline

Barnshönd: The Parent Spot

Fóstur: Deliberate Engagement

Fóstur í lófa: Camino Nuevo Public Radio

Fóstur á tveimur fingrum: Youth 4 Life Australia


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Niðurstöða þín er að mjög lík minni.

Það á ekki að banna fóstureyðingar það er bara Kathólikskir hryðjuverkamenn sem það vilja.

Aftur á móti á ekki að leyfa stúlkum að misnota eyðingar og nota hana eins og getnaðarvörn sem auðvitað er fáheyrt enda getur það ekki verið notanlegt að fara í slíkar eyðingar.

Eins og alltaf frábær pistill.

Ómar Ingi, 18.4.2009 kl. 12:03

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir þetta, Ómar.

Hrannar Baldursson, 18.4.2009 kl. 14:33

3 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Eins og venjulega er pistill þinn vandaður og vel rökstuddur. Ég get því heilshugar tekið undir niðurstöður þínar með þér.

Það er ekki laust við að ég vorkenni því fólki sem heldur að hægt sé að bæta fyrir og laga hnyggnandi siðferðis- og kærleiksvitund og vaxandi spennu vegna neyslukapphlaups, með lagasetningu. Slík fólk finnst mér að eigi margt eftir ólært í lífinu.

Guðbjörn Jónsson, 18.4.2009 kl. 17:35

4 Smámynd: TARA

Grein þín er einstaklega vel skrifuð og mjög þörf lesning, Hrannar. Ég hef sagt það áður að ég er á móti fóstureyðingum sem getaðarvörn...og þau dæmi sem þú telur upp eru góð og gild...það verða að vera góð rök fyrir því að fóstri sé eytt, en ég er á móti því að bann við fóstureyðingum verði sett í lög.

Það yrði einungis til þess að konur færu erlendis til að láta eyða fóstri eða framkölluðu það sjálfar...enn aðrar myndu setja slys á svið og svo framvegis. Þetta er alltaf tvíeggjað sverð og þarf að útfæra vel og vandlega.

TARA, 18.4.2009 kl. 18:06

5 Smámynd: Birna Guðmundsdóttir

Góður að vanda! Fóstureyðingar eiga rétt á sér - en  aldrei sem síðbúin getnaðarvörn!    

Birna Guðmundsdóttir, 18.4.2009 kl. 20:44

6 identicon

Kannski liggur meira á því að eyða ástæðum fóstureyðinga en að finna einhvern stórasannleika.

Ég held t.d. að það myndi fækka fóstureyðingum ef fólk hætti að líta á það sem vandamál að stúlkur eignist börn ungar. Stundum lætur fólk eins og lífið sé bara búið ef ung stúlka verður ólétt og það þykir ekki sjálfsagt að fjölskyldan hjálpi til.

Það gæti líka haft áhrif ef samfélagið hætti að líta niður á konur sem gefa börn frá sér eða slá því föstu að slíkt gerist ekki nema sé eitthvað mikið að konunni.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 20:58

7 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Ef VG ætla að vera samkvæmir sjálfum sér í þessu efni þá hlýtur þetta fólk, á sama hátt og nýsett lög að þeirra frumkvæði, að vilja verja ófædd börn fyrir því ofbeldi sem fóstureyðing er.  En fóstureyðingar eru blettur á nútíma samfélagi og minnir helst á fórnir sem færðar voru fyrr á öldum er börn vegna hreinleika þeirra voru notuð til fórna.  Nú er þeim fórnað á altari efnishyggjunnar og sjálfselskunnar.  Börn eru jafnvel látin deyja í fæðingunni, svo tölum við um hinn vestræna heim sem siðaðan, það eru öfugmæli.

Baráttu kveðjur fyrir lífinu og heilbrigðu uppeldi sem ekki er alltaf sársakalaust.

Tómas Ibsen Halldórsson, 18.4.2009 kl. 21:00

8 Smámynd: TARA

Tómas Ibsen....finnst þér réttlætanlegt að neyða konu, á hvaða aldri sem hún er, til að ganga með og fæða barn sem kom undir vegna nauðgunar ?

Eva...það er ekki verið að tala um allt of unga foreldra núna....og þær konur sem ekki vilja eða geta ekki af einhverjum ástæðum, alið upp sín börn og gefa þau, eiga rétt á að velja þá leið og ég sé ekkert athugavert við það. Það er fullt af góðu fólki til, sem getur ekki eignast sín eigin börn og er tilbúið að elska og annast annarra manna börn.

Ég held samt að ég gæti aldrei gefið barnið mitt frá mér.

TARA, 18.4.2009 kl. 21:09

9 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Tara, hversu mörg börn hafa látið lífið í móðurkviði vegna þess að þau komu undir eftir nauðgun?? ég þori að veðja uppá að það sé aðeins lítill hluti. 

Segðu mér, hvað með ungling sem er á algjöru hormónaflippi og veldur foreldrum sínum mikilli hjarta sorg, á hann/hún rétt á að lifa? er ekki hægt að spóla aftur og segja að viðkomandi hafi verið mistök??? 

Barn er einstaklingur fæddur eða ófæddur, alveg eins og þú og allir aðrir.  Ef þú átt rétt á að lifa þá á ófætt barn jafnmikinn rétt á að lifa.  Að þú skulir treysta þér til að ákveða hvar mörkin liggja þykir mér þú taka mikið upp í þig og taka á þig mikla ábyrgð.  Ég treysti mér allavega ekki til þess.  Í mínum huga er barn, barn, fætt eða ófætt. 

Ég þekki einstaklinga sem fengu að lifa, en ekki allir voru sáttir við það þá, í dag eru þetta hinar dýrmætustu persónur og eiga miklu frekar skilið að lifa en margir þeirra sem tala fyrir fóstureyðingum.

Tómas Ibsen Halldórsson, 18.4.2009 kl. 21:29

10 Smámynd: TARA

Tómas...við erum ekki að ræða um hormónaflipp...heldur ófædd börn/fóstur sem ekki er komin mannsmynd á...skil ekki alveg hvað þú ert að fara en reikna með að þetta sé eitthvað sem þú þekkir...hver þekkir ekki hjartasorg ?

Við erum að tala um fóstureyðingar og hvenær er réttlætanlegt að beita þeim. Ég treysti mér til að ákveða hvar mörkin liggja fyrir mig og ef það er að taka stórt upp í sig þá geri ég það með stolti. Ég reikna líka með að ég þekki þessi mál talsvert betur en þú, og hef umgengist margar konur sem hafa þurft að taka þessa erfiðu ákörðun.

Ég tek undir það að sumir eiga fremur skilið að lifa en aðrir, en ert þú þess megnugur að ákveða að þeir sem tala með fóstureyðingu eigi ekki rétt á að lifa? Hvað veist þú um bakgrunn þessa fólks ? Veistu hvað liggur að baki þeirri ákvörðun að eyða fóstri ?

Og að lokum, ég hef ekki tölur, en ég veit með vissu að það eru ansi margar stúlkur sem hafa orðið ófrískar vegna nauðgunar. En fjöldinn skiptir ekki máli, heldur þau sjálfsögu mannréttindi að eyða fóstrinu undir þessum kringumstæðum. Ég þekki tvær konur sem gátu ekki hugsað sér fóstureyðingu en hefðu betur gert það barnsins vegna...báðar hötuðu börnin og létu viðbjóð sinn á ""föður" þess bitna á börnunum. Það endaði með því að annað barnið var tekið og sett í fóstur.

Hitt barnið sem er fullorðið í dag hefur aldrei beðið þess bætur að hafa alist upp í hatri frá móður sinni og fékk aldrei neina ástúð. En ég skal með ánægju segja þér að þetta sama barn er einhver mesti sómadrengur sem ég þekki og vill öllum vel. En ég þekki líka dreng, sem kom undir vegna nauðgunar og ólst upp hjá móður sem elskaði hann og lét þetta ekki eyðileggja ástúðlegt samband við barnið sitt.

Fólk er mismunandi og tekst á við hlutina á mismunandi hátt og mér finnst að það eigi að vera til valmöguleiki fyrir konur sem verða fyrir nauðgun...það á líka að vera valmögueiki til fyrir konur ef meðganga ógnar lífi og heilsu og staðfest af lækni. Vissulega eru fleiri ástæður sem mæla með fóstureyðingu, en ég ætla ekki að tíunda þær núna. 

TARA, 18.4.2009 kl. 22:43

11 identicon

Tara, þar sem flestar fóstureyðingar eru framdar á þeirri forsendu að móðirin sé ung, þá hlýtur afstaða til ungra mæðra að tengjast þessari umræðu. Þótt konur sem af einhverjum ástæðum vilja ekki ala upp börn eigi rétt á að gefa þau frá sér, er mikil félagsleg pressa á þær að fara frekar í fóstureyðingu. Ekki kannski á þann veg að fólk sé beinlínis að skipta sér af því, heldur veit ólétt kona að ef hún gengur með barnið og gefur það, mun fólk miklu fremur líta hana hornauga en ef hún lætur eyða fóstrinu.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 22:48

12 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Eva það er mikið rétt, möguleikinn til að gefa barn frá sér er alltaf fyrir hendi og er miklu heilbrigðari leið en að deyða ófæddan einstakling. 

Tara, á örfáum vikum eftir getnað er mynd hins ófædda barns fullmótað, þá eru allir fingur og allar tær komnar á sinn stað og hjartað farið að slá. 

Ég vil einnig benda á að fóstureyðing er ekki eins og að rífa upp arfa.

Við þykjumst vera siðmentuð þjóð og stærum okkur af því hversu langt við höfum náð á félagslega sviðinu, en þegar að þessu sviði kemur erum við aftur í fornöld.

Ég veit um ung hjón sem áttu sitt fyrsta barn meðan þau voru enn táningar.  Það var ekki alltaf auðvelt hjá þeim, en þau hafa staðið saman og eru frábærir foreldrar og eiga frábær börn.  Maður velur ekki ógeðslegustu leiðina til að flýja erfiðleikana, maður tekst á við þá og sigrast á þeim.  Hitt úrræðið er eins og Eva bendir réttilega á, en það er að leyfa öðrum, sem þrá börn en einhverra hluta vegna geta ekki átt börn, að njóta þess að fá barn í hendurnar sem það getur elskað og séð vaxa upp til að verða fullgildan þjóðfélagsþegn.

Með þessum skrifum mínum vil ég ekki vera að leggja á þig eða aðra neinn dóm, margar konur hafa farið í fóstureyðingu vegna þrystings frá öðrum, en ég dæmi kerfið sem við búum við, það er óréttlátt og úrræðalaust þegar að þessum málum kemur.

Góðar stundir.

Tómas Ibsen Halldórsson, 18.4.2009 kl. 23:51

13 Smámynd: TARA

Þetta eru góð og gild rök...en þetta snýst líka um sálfræði....með því að gefa konu val,sem varð ófrísk eftir nauðgun, þá hugsar hún um alla möguleikana sem í boði eru og er miklu líklegri til að velja mannúðlegri leið og sleppa fóstureyðingu, heldur en ef hún er neydd til að hafa ekki um neitt að velja.

Að mörgu leyti erum við enn á fornaldarstigi...til dæmis bara með þessari hugsun að fæða barn sama hvað tautar og raular...ekki hugsa um hvort það er skelfilega vanskapað og fjölfatlað og myndi eingöngu kveljast þann tíma sem það lifði...ekki hugsa um að það ógni lífi móðurinnar að ganga með fóstrið og svo mætti lengi telja. Mér finnst að það verði að taka tillit til aðstæðna...og er ég ekki að mæla með fóstureyðingu sem getnaðarvörn, svo langt í frá.

Ég lít ekki svo á að konur sem gefa börnin sín, séu verri en hinar...ástæðurnar eru mismunandi og ef þetta var besta leiðin, þá er það virðingarvert. Ég sjálf gæti það ekki.

TARA, 19.4.2009 kl. 00:15

14 identicon

Góð hugvekja hjá þér. Það er ógerningur að rökstyðja slátrun u.þ.b. 1000 fóstra á ári á Íslandi. Það er smánarblettur á samfélaginu. Verst er að það er ekki hægt að rökræða málið við einn eða neinn.  

Kristján (IP-tala skráð) 19.4.2009 kl. 03:23

15 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Góður og vandaður pistill hjá þér Hrannar og vekur upp ýmsar spruningar. Á að leyfa fóstureyðingar??????  Alls ekki sem getnaðarvörn.....en mér finnst samt að aðstæður geti verið þannig að þær leyfi fótureyðingar.

Kaþólskir leyfa ekki fórstueyðingar undir neinum kringumstæðum, enda tróna þar á toppnum gamlir karla skarfar sem aldrei munu ganga með börn og útkoman eftir því.

Ég er með fóstureyðingum að vissu marki. 

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 19.4.2009 kl. 09:50

16 identicon

Hvenær er fóstur orðið að einstaklingi? Við getnað? Hvað finnst fólki þá um neyðarpilluna?

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 19.4.2009 kl. 10:26

17 Smámynd: TARA

Hvenær er egg orðið að unga ? Þú borðar egg, af því að þú veist að það er bara egg, en veist samt að með tímanum verði það að litlum loðnum og sætum kjúklingi eða unga. (Mæli samt ekki með áti á fóstrum, svo þið sem ætluðuð að snúa út úr, getið sleppt því.)

Þannig lít ég á fóstur...fyrstu tólf vikurnar er það bara lítill ólögulegur köggull, engin mannsmynd komin og ekkert sem sýnir að þetta verði barn. Á þessum vikum má leyfa eyðingu, svo framarlega sem góðar og gildar ástæður séu fyrir hendi.

Ég styð val konu til að taka ákvörðun um fóstureyðingu í vissum tilfellum og ég get rökstutt það vegna þess að ég hef staðið í þeim sporum. Ég lenti í aðstæðum sem gerðu mér kleift að fá fóstureyðingu fyrirhafnarlaust ef ég vildi það og ég ætlaði að gera það. 

Þetta var fyrir þrjátíu árum síðan og ég aðeins nítján ára gömul og átti fyrir tæplega árs gamla telpu, en læknirinn minn var heilmikill sálfræðingur og mannþekkjari og hann ræddi alla möguleikana við mig..eyða fóstrinu..eiga barnið sjálf..gefa barnið að fæðingu lokinni..setja barnið tímabundið í fóstur á meðan ég kæmist að því hvort ég gæti elskað það og annast...hann útlistaði þetta allt svo vel að ég fór heim með þá tilfinningu að ég hefði val og ég íhugaði þetta allt saman vandlega, því undir niðri vildi ég alls ekki fara í fóstureyðingu, en taldi mig ekki hafa um neitt að velja í byrjun, aðstæðnanna vegna.

Í dag á ég þrítugan heilbrigðan son og einhverja yndislegustu mannveru sem til er. Það elska hann allir og hann á svo auðvelt með að umgangast fólk og fær alla á sitt mál fyrirhafnarlaust. Það er eitthvað svo gott og róandi í honum að fólk heillast. Ég held að hann hafi þessa gæsku frá æðri máttarvöldum.

En það eru ekki allir jafn heppnir og ég.

TARA, 19.4.2009 kl. 13:05

18 identicon

Það eru að mínu mati til aðstæður sem réttlæta fóstureyðingu en ég held að allt of oft  séu fóstur deydd algerlega að nauðsynjalausu. Ég hef aldrei heyrt um konu sem sér eftir því að hafa ekki farið í fóstureyðingu, það segir kannski eitthvað.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 19.4.2009 kl. 17:42

19 Smámynd: Hrannar Baldursson

Eva: "Ég hef aldrei heyrt um konu sem sér eftir því að hafa ekki farið í fóstureyðingu, það segir kannski eitthvað."Þetta hljómar eins og gott viðmið: "Það er rangt ef þú sérð eftir því."

Hrannar Baldursson, 19.4.2009 kl. 17:49

20 Smámynd: TARA

Ég heyrði einu sinni konu arga á son sinn: Þú hefðir aldrei átt að fæðast, ég sé eftir því að hafa ekki látið eyða þér, helvítið þitt.

Það þarf vart að taka það fram að þessi ungi maður gekk út úr lífi "móður" sinnar þarna og nú er hún alein og barnlaus, fátæk gömul kona.

TARA, 19.4.2009 kl. 18:56

21 identicon

Kæri Hrannar,

skil ég rétt að þú segist álykta að ekki sé ólíklegt að fóstureyðingar verði bannaðar með öllu á Íslandi "í samræmi við lög sem sett voru um líkamlega og andlega refsingu í vikunni".  Hefur þú borið saman þá hluta barnaverndarlaga, sem breytt var, fyrir og eftir breytingu?

Í eldri lögum (nr. 80/2002) var 1. málsgrein 99 greinar orðuð svo:
Hver sem beitir barn refsingum, hótunum eða ógnunum og ætla má að slíkt skaði barnið andlega eða líkamlega skal sæta sektum eða fangelsi allt að þremur árum.

Í nýju lögunum er sama málsgrein orðuð svo:
Hver sem beitir barn andlegum eða líkamlegum refsingum, hótunum eða ógnunum eða sýnir af sér aðra vanvirðandi háttsemi gagnvart barni skal sæta sektum eða fangelsi allt að þremur árum.

Það er ofar mínum skilningi hvernig hægt er að draga þá ályktun af þessum breytingum að til standi að banna fóstureyðingar :)

Vala Guðbjartsdóttir (IP-tala skráð) 19.4.2009 kl. 22:02

22 Smámynd: Guðrún Erla Sumarliðadóttir

Hvenær er líf- LÍF.

Þetta er að verða eins og pólitíkin.

Hvenær misstum við sýnina á réttu og röngu.

Egg og fruma=Líf

Viljum við fara eftir Benedikti páfa í Róm.

Hann er nú aldeilis búinn að eyðileggja tugaára starf í Afríku blessaður karlinn.

Enga smokka,takk, söng maðurinn.

Eigum við að leyfa eyðni að geysast upp,sem hún hefur og gert eftir að karlfj,,.

heimsótti álfuna og börnum fjölgar.

Hver á að brauðfæða börnin?

Konur eru misnotaðar og kúgaðar á allan máta.

Þurfum ekki annað en að fylgjast með.

Síðan ætlum við að banna hvalveiðar. Hahaha

Fáránleikin í sinni bestu mynd.

Guðrún Erla Sumarliðadóttir, 23.4.2009 kl. 03:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband