Fara áróðursherferðir í gang þegar hitnar óþægilega undir grunuðu hvítflibbaglæpafólki?
15.4.2009 | 22:14
"Allur áróður þarf að vera vinsæll og lagast vel að skilningi þeirra heimskustu sem reynt er að ná til." Adolf Hitler
Í Morgunblaði dagsins birtist grein hæstaréttarlögmannsins Brynjars Níelssonar þar sem hann gagnrýnir Evu Joly fyrir að hafa fullyrt um að mögulega hafi verið framdir glæpir í tengslum við Hrunið, og að fyrir vikið sé hún fullkomlega vanhæf til að koma að rannsókn málsins.
Mikil umræða hefur skapast um þetta á Eyjunni, og sitt sýnist hverjum.
Ef Eva Joly er vanhæf til að koma að rannsókn þessa máls, þá er líklegast engin mannvera í veröldinni hæf, og ljóst að fella ætti málið niður þar sem að flestir hafa látið einhver orð frá sér fara um að eitthvað eitthvað gruggugt sé í gangi.
Eva Joly minntist reyndar á það í þætti Egils Helgasonar, Silfri Egils, að þegar farið væri að þjarma að hugsanlegum sökudólgum, yrðu þeir að mögulegum fórnarlömbum og að margir rannsóknaraðilar hafi verið myrtir vegna slíkra mála víða um heim. Íslendingar ganga yfirleitt ekki svo langt. Við vitum að það er nóg að drepa mannorð manneskjunnar eða gera hana tortryggilega. Það er áhrifaríkara en morð, því að morð gera fólk að píslarvottum og fólkið öskureitt.
Á sama tíma birtist önnur fersk frétt á Eyjunni sem segir frá að hafist hafi yfirheyrslur á einstaklingum vegna málsins og einhverjir fengið réttarstöðu grunaðra. Viti sá grunaði upp á sig sökina gæti hann eða hún að sjálfsögðu beitt sér til að gera málið tortryggilegt áður en það fer lengra, sérstaklega ef viðkomandi er í góðri aðstöðu til þess og getur borgað vel fyrir slíkan áróður. Annað eins hefur virkað.
"Áróður er sú grein lygalistarinnar sem felst í því að næstum blekkja vini þína án þess að blekkja óvini þína." Frances Cornford
Ég er ekki að gefa í skyn að Brynjar Níelsson reyni að gera Evu Joly tortryggilega til að verja einhvern af skjólstæðingum sínum, heldur trúi ég því að hann sé að velta upp máli sem vert er að huga að. Betra að gera það fyrr en seinna og skera úr því strax hvort að hennar skoðun um að glæpur hafi verið framinn, sem fáir efast um, hafi áhrif á réttarfarslega stöðu málsins. Mér finnst það ólíklegt, þar sem að hún er aðeins ráðgjafi, og sérstakur saksóknari og aðstoðarfólk hans hefur ekkert tjáð sig um málið.
Það væri áhugavert að heyra hvað lögfræðir menn, bæði íslenskir og erlendir hafa um þessar efasemdir að heyra. Því ef við ræðum málið og komumst að því að þetta er raunverulegt vandamál, þá er gott að komast að því svona snemma og gera ráðstafanir. Ef þetta er ekkert vandamál, þá stöndum við bara enn traustari fyrir.
Ekki satt?
Það allra merkilegasta í þessu máli öllu saman eru þær raddir sem hrópa að Brynjari hafi verið borgað fyrir að verja auðmenn, eða sé að reyna að komast í starf sem verjandi auðmanna, starf sem ætti að gefa gommu af pening í báða vasa. Þetta fær mig ekki til að gruna Brynjar um slíkt, en vekur mig hins vegar til umhugsunar um þann raunverulega möguleika sem felst í þeim samsæriskenningum sem birst hafa.
Hvað ef áróðursherferðir fara í gang til að gera rannsóknina tortryggilega, eða reynt að flækja málið svo mikið að enginn meðalgreindur Íslendingur fær botnað neitt í neinu nema viðkomandi sé á kafi í málunum - og jafnvel þá sé þetta of flókið til að sannfæra aðrar manneskjur um málið.
Er einhver sem mun vernda þjóðina gegn áróðri? Passa að málin verði skiljanleg og ekki látin líta út fyrir að vera flóknari en þau eru? Eru þau kannski það flókin að hæstaréttardómarar munu einfaldlega ekki nenna að setja sig inn í þau af alvöru?
Erum við viðbúin slíku áróðurstríði?
"Af hverju er áróður svona miklu áhrifaríkari þegar hann hrærir upp hatur en þegar hann hrærir upp vingjarnlegar tilfinningar?" Bertrand Russell
Eva Joly í Silfri Egils 8. mars 2009:
1:4
2:4
3:4
4:4
Joly fyrst og fremst ráðgjafi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hjartanlega sammála. Fékk straks á tilfinninguna að nú væru þjófarnir orðnir skelkaðir og keyptir væru "réttu" mennirnir til að kasta rýrð á Evu.
Davíð Löve., 16.4.2009 kl. 00:04
Eins og aðrar illskæðar veirur þá sprikla arðræningjarnir mest rétt áður en meðölin byrja að eyða þeim fyrir fullt og allt. Þessi ofurlaunalögfræðingur er í takt við það.
Þór Jóhannesson, 16.4.2009 kl. 11:05
Hlægilegt að segja að hún sé vanhæf, þarna er bara verið að reyna að verja skúrka... ekkert annað
DoctorE (IP-tala skráð) 16.4.2009 kl. 14:48
Það mun ekki skorta lögfræðinga til að tefja fyrir málinu. Hvítflibbarnir eru komnir langt í undirbúningi mótaðgerða og þeir eiga marga marga vini sem fá ríkulega umbun fyrir skítverkin.
Finnur Bárðarson, 16.4.2009 kl. 15:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.