Watchmen (2009) ****
6.4.2009 | 21:42
Watchmen er afar vel heppnuð kvikmynd gerð úr margbrotinni og flókinni teiknimyndasögu eftir Alan Moore. Áður hafa verið gerðar kvikmyndir eftir sögum Moore, hin ágæta From Hell (2001) með Johnny Depp í hlutverki uppdópaðs leynilögreglumanns í leit að Jack the Ripper í London. Hin er hin háværa og frekar misheppnaða The League of Extraordinary Gentlemen (2003), sem er þekktust fyrir að vera svanasöngur Sean Connery.
Watchmen gerist í mögulegum heimi þar sem ekki komst upp um Watergate málið og Nixon heldur völdum í Bandaríkjunum fram til ársins 1985 að hann er enn forseti landsins. Allir eru spilltir, hvort sem það eru stjórnmálamenn, auðmenn, almúgi eða ofurhetjur. Það hugsa allir fyrst og fremst um sjálfa sig, með tveimur undantekningum. Þessar tvær undantekningar er það sem gefur kvikmyndinni líf.
Önnur undantekningin er ofurmennið Dr. Manhattan (Billy Crudup), vísindamaður sem fékk ofurkrafta vegna slyss á tilraunastofu, sem gerir það að verkum að hann getur séð inn í fortíðina og framtíðina af jafn mikilli nákvæmni og hann sér nútíðina, en með þeim hliðarverkum að hann fer að sjá nútíðina með sömu fjarlægð og við sjáum fortíð okkar. Hann getur sent sjálfan sig og aðra eins og sjónvarpssendingar eitthvert annað í heiminum, og séð bæði með eigin huga myrkustu leyndarmál mannssálarinnar, og gefið öðrum vald til að skilja sjálf sig betur. Eini vandinn við Dr. Manhattan er að hann hefur einangrast mikið vegna þess að hann eldist ekki og er allt öðruvísi en annað fólk. Aftur á móti hefur hann yfir slíkum kröftum að ráða að hann getur leyst manneskjur upp í frumeindir sínar með því einu að lyfta fingri. Það er frekar hættulegt að styggja slíkan mann.
Hin undantekningin er Rorschach (Jackie Earle Haley), frekar þunglynd ofurhetja sem gengur um í síðum frakka með barðastóran hatt, og hvíta andlitsgrímu sem hylur allt andlit hans en með síbreytilegum svörtum flekkjum, sem hver og einn á að geta túlkað fyrir sjálfan sig. Hans ofurkraftar eru ekkert miðað við Dr. Manhattan, en hann er lipur, sterkur og snöggur. Hann er alltaf samkvæmur sjálfum sér og hatar alla spillingu af einlægni. Hann er eins og blanda af Batman, The Punisher og Dirty Harry - nokkuð sem glæpamenn vilja alls ekki fá gegn sér.
Aðrar persónur eru vel framsettar, en sérstaklega The Comedian (Jeffrey Dean Morgan), ofurhetja sem í flestum öðrum sögum væri flokkaður meðal illmenna, en svo skökk er hin siðspillta dómgreind í söguheimi Watchmen, að hann er talinn með hinum góðu, þrátt fyrir að hafa drepið af óþörfu saklaust fólk og reynt að nauðga annari ofurhetju.
Persónurnar eru margar og nokkuð miklum tíma varið í Nite Owl II (Patrick Wilson) og Silk Spectre II (Malin Akerman), en þau eru bæði ofurhetjur sem eru þreyttar á að fá ekki að vera í gervum sína vegna laga sem sett voru gegn slíku fólki. Þau verða ástfangin og ákveða að klæðast búningunum til að auka erótík í sambandi þeirra - og uppgötva að þeim finnst æsandi að stjórna atburðarrás sem fáir geta ráðið við - og fyrir vikið eykst hitinn í ástarsambandi þeirra.
Síðasta persónan sem vert er að minnast á er gáfaðasti maður í heimi, Ozymandias (Matthew Goode), en hann hefur þá ofurkrafta að vera sneggri og sterkari en flestar aðrar ofurhetjur, og margfalt gáfaðri. Reyndar minnist Dr. Manhattan á að gáfur Ozymandias væru fyrir honum ekkert merkilegri en gáfur gáfaðasta kakkalakka í heimi, sem segir meira um Dr. Manhattan en Ozymandias.
Það sem keyrir atburðarrásina í gang, í þessum spillta heimi þar sem áhrifa Nixon gætir í öllu - er að ein ofurhetjan sér að þessi heimur er óásættanlegur, og ákveður að gera sitt besta til að breyta honum til hins betra, sama hvað það kostar. Til þess að geta það, þarf hann að spinna blekkingarvef og plata alla í kringum sig, þar á meðal Dr. Manhattan, sem gegnir lykilhlutverki í áætlun hans. The Comedian kemst hins vegar að ráðagerðinni og er myrtur.
Rorschach rannsakar morðið og upplýsir hinar hetjurnar um grun sinn um að einhver sé að drepa ofurhetjur, eina af annarri, og varar þær við þessum grun sínum. Ég ætla ekki að segja hvernig sagan fer, en í enda kvikmyndarinnar situr eftir spurning sem erfitt er að svara: Eru hryðjuverk þar sem þúsundir saklausra einstaklinga eru drepnir, réttlætanleg, ef þau leiða til heimsfriðar? Spurningar tengdar 11. september vakna að sjálfsögðu þegar hryðjuverkaárás kvikmyndarinnar er gerð á New York borg, og maður hlýtur að spyrja sig hvort að þeir sem flétta samsæri, sem og hryðjuverkamenn, hugsi ekki á svipaðan hátt og þeir sem fremja voðaverkin í þessari kvikmynd, telja verk sitt göfugt, að þeir séu að sigrast á skrímsli - að þeir séu að ná fram heimsfriði, og að slíkur friður sé þess virði þó að fórna þurfi nokkrum milljónum ókunnugra einstaklinga.
Þetta þema tengist pælingu um þróun, hvort að eitthvað gott og fagurt geti sprottið úr einhverju illu og ljótu, eða hvort að æðri máttarvöld skapi hlutina í þeirri mynd sem þeir eiga að vera. Svarið sem myndin gefur er ekki afgerandi, heldur einhvers staðar á milli þessara tveggja. Það sem gefur einmitt myndinni mestan lit er hversu gjörólíkar grundvallarskoðanir hver persóna hefur og hvernig sannleikurinn, komi hann fram, getur ógnað heimi sem byggður er á lygum.
Það kemur mér á óvart hversu óvægin Watchmen er þegar kemur að jafn viðkvæmum málefnum.Ég mæli með Watchmen, en vara við að ofbeldið er mjög grafískt. Þetta er óvenjuleg ofurhetjumynd að því leyti að hún hefur kynlífssenur og eitthvað af nekt, sem þýðir einfaldlega að kvikmyndin er ætluð fullorðnum en ekki börnum. Allt öðruvísi kvikmynd og sú bragðmesta sem ég hef séð á árinu til þessa.
Flokkur: Kvikmyndir | Breytt 7.4.2009 kl. 00:06 | Facebook
Athugasemdir
Takk
100% sammála þér Don
Frábær grein um frábæra mynd án efa ein sú besta í ár.
Ómar Ingi, 7.4.2009 kl. 01:20
Örlítil viðbót við fína grein en myndin V for Vendetta (2005) eftir Wachowski bræðurna (Matrix) eru einnig byggð á myndasögu Alan Moore, en hann vildi ekki að nafn hans væri skráð á þá mynd né Watchmen.
Stefán Einarsson, 8.4.2009 kl. 09:21
Rétt hjá þér. Ég gleymdi V for Vendetta, en hún var ágætis skemmtun.
Hrannar Baldursson, 8.4.2009 kl. 09:56
V for Vendetta var og er frábær skemmtun.
Ómar Ingi, 8.4.2009 kl. 20:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.