Sjálfstæðisyfirlýsing Íslands
4.4.2009 | 12:38
"Allir Íslendingar eru jafnir að lögum og réttindum, sama hvort þeir séu fæddir á Íslandi eða erlendis, hafi öðlast ríkisborgararétt eða fæðst með hann, tali íslenskt mál, ekkert mál eða erlent mál, óháð trúarbrögðum, kyni, kynhneigð, arfi, auði, stjórnmálaskoðunum eða kynþætti. Allir Íslendingar hafa skilyrðislausan rétt á góðri heilbrigðisþjónustu, góðri menntun, húsaskjóli, klæðum og fæði. Íslendingum ber einnig skylda til að hlúa að eigin menningu og þjóðarinnar allrar eftir bestu getu."
Þannig mætti hefja Sjálfstæðisyfirlýsingu Íslendinga.
Við eigum ekki slíka sjálfstæðisyfirlýsingu þar sem koma fram grundvallargildi okkar um hvernig við metum hvert annað, um hin raunverulegu íslensku gildi. Við þurfum að setja saman slíkt plagg sem algjör sátt ríkir um áður en farið er í stjórnarskrárbreytingar, því við þurfum að hafa til staðar einhvers konar leiðarvísi um réttlætið, gildi og þjóðarsál Íslendinga.
Án sjálfstæðisyfirlýsingar komumst við upp með að hafa heilbrigðiskerfi sem er ekkert sérstaklega gott, og menntakerfi sem er ekkert sérstaklega gott heldur, vegna þess að það er ekki kappkostað við að bæta fólkið sem vinnur í kerfinu og verkfærin sem það hefur í höndum, heldur fyrst og fremst aðstæðurnar - en aðstæður skipta minna máli í umhverfi þar sem þekking og umönnun eru aðalatriðið. Þegar málin snúast um kerfi frekar en fólk, fer fólk að telja sig óþarft til annars en að hlíta kerfinu - en slíkt er afar letjandi fyrir fólk sem gæti hugsanlega haft mikið til málanna að leggja - að minnsta kosti miklu meira en nokkurt kerfi gæti gert.
Velmegun gerir fólk að letingjum, þar sem að sá sem ræður yfir auðnum getur látið aðra sinna vinnunni, og venur sig á það, og spurning hvort að Íslendingar eftir velmegun í nokkur ár hafi skaðað dugnaðarímynd Íslendingsins og að þessi venjulegi Íslendingur sé í dag sáttur við að vera ekki framúrskarandi í því sem hann tekur sér fyrir hendur? Er leti kannski landlægur kvilli?
Mér finnst það sanngjörn krafa af hendi sjálfstæðismanna að biðja um frestun á atkvæðagreiðslu um stjórnskipunarlög á þeim forsendum að ekki hafi gefist nógu mikill tími til að vinna frumvarpið vel og í sátt. Ég skil ekki af hverju þessi ákvörðun má ekki bíða næstu stjórnar, nema þá að lýðræðinu eða Alþingi sé ekki lengur treystandi, og má vel vera að svo sé, enda hafa sjálfstæðismenn ekki verið beinlínis duglegir við að mynda traust milli þings og þjóðar, hvorki í minnihluta né meirihluta.
Ég tel gagnrýni sjálfstæðismanna réttmæta að vissu leyti, og held að þetta frumvarp sé ekki tímabært, en tel líka mikilvægt að þjóðin fái tækifæri til að móta stjórnarskrána betur, enda er hún byggð á forsendum sem eiga ekki við um það sem við viljum að íslenska þjóðin standi vörð um.
Við viljum að Ísland sé sjálfstæð þjóð. Það getum við öll verið sammála um. Við viljum líka tryggja sjálfstæði Íslands þó að þjóðin gangi í Evrópusambandið. Með inngöngu í Evrópusambandið tapast einfaldlega spillt stjórn á auðlindum landsins, þar sem að auðlindir mega ekki vera á fárra einstaklinga hendi. Auðveldið mun hrynja. Ég mun ekki syrgja það, en skil vel af hverju fulltrúar þess eru tilbúnir að verja það með kjafti og klóm.
Af hverju tökum við okkur ekki saman í andlitinu og semjum sjálfstæðisyfirlýsingu Íslendinga, skjal sem allir Íslendingar geta verið sammála um, sama úr hvaða flokki eða stétt þeir koma, og byggja nýja stjórnarskrá á slíkri yfirlýsingu?
Án sjálfstæðisyfirlýsingar verða Íslendingar aldrei sjálfstæð þjóð. Við þurfum að standa saman um ákveðin gildi. Sá texti sem ég skrifaði í upphafi greinarinnar er mitt uppkast. Með lagfæringum er hægt að bæta við og skera úr það sem þjóðin getur sætt sig við, en umfram allt er Íslendingum ekkert mikilvægara en að geta staðið saman, vitað fyrir hvað þeir standa og verið stoltir af því.
Takast enn á um stjórnarskrárbreytingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Gott að huga að þessum málum. Má ég samt leggja til að þú hugir betur að grunngildunum með tilliti til þess hve auðvelt er að snúa óljósu máli yfir í andstæðu sína. Það sem þú listar hefði gengi mjög vel í rússlandi stalíns og þýskalandi hitlers, það er að segja, allir Íslendingar eru undir geðþótta laga og réttar.
Þó Bandaríkin séu á botnkeyrslu í sjálfseyðngu um þessar mundir, þá held ég að þeirra sjálfstæðisyfirlýsing sé besta fyrirmyndin að slíku plaggi, þar sem réttur einstaklingsins, ekki ríkisins og alls ekki skylt réttindum sem frjálshyggjumenn halda á lofti undir fölsku flaggi, heldur sú einfalda sýn að einstaklingurinn sé sovereign eða fullvalda og ríkið sé þjónn, ekki húsbóndi.
http://www.ushistory.org/Declaration/document/index.htm
Georg O. Well (IP-tala skráð) 2.6.2009 kl. 12:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.