Ræða Davíðs Oddssonar á landsfundi 2009 og sú "stórfurðulega heimsmynd sem sá einkennilegi fýr hefur"
28.3.2009 | 23:49
Smelltu hérna til að sjá ræðu Davíðs.
Þar sem Don Hrannari barst fyrirspurn frá skjaldsveini sínum Sancho, ákvað hann að skella saman stuttum texta til að svara áskoruninni.
"Væri gaman ef eðalpenni eins og þú myndir kryfja ræða Davíðs Oddsonar frá landsfundi og mála upp stórfurðulega heimsmynd sem sá einkennilegi fýr hefur." (Sancho)
Ég var að velta fyrir mér hvort ég ætti að eltast við ræðuna hans Davíðs, og telja hversu oft hann notar mælskulist í stað rökræðu. En ég nenni ekki að eltast við slíkt, frekar berst ég við vindmyllur.
Sjálfsagt væri betra að fá bókmenntarýni til að skoða snilldartextann sem Davíð flutti í dag, heldur en gagnrýni til að greina merkinguna á bakvið orðin og bera saman við heiminn eins og við teljum hann vera.
Davíð Oddson er gott skáld, og notar mikið myndmál. Ég held samt ekki að hann sé að varpa fram hans eigin ímyndaða heimi, heldur sýnist mér einfaldlega hans eigin skoðanir nánast drukkna og vera ansi óskýrar og margræðar innan um flokksfordóma. Þegar hann segir að sannleikurinn muni koma í ljós, þá er hann ekki að vísa í eigin ræðu, því að hún hefur með allt aðra hluti en sannleikann að gera. Þetta er flokksræða á áróðurstíl, greinilega skrifuð til að líma þá flokksmenn sem enn tolla í sjálfstæðisflokknum við þá hugsjón að flokkurinn sé heiðarlegur og hreinn, og hafi barist gegn hinum illu öflum sem komu þjóðinni á höfuðið með lævísum klækjum og valdníðslu, hann er að stappa stálinu í flokk sem hann veit að tapar í þessum kosningum, en er meira en líklegur til að komast aftur til valda í þeim næstu.
Í fáum orðum túlka ég ræðuna hans þannig: "sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað þessari orustu, en ekki stríðinu." Megi nú kalt vatn renna milli skinns og hörunds þeirra sem vilja.
Þar sem að Davíð talaði um sjálfan sig alltaf í þriðju persónu, setti hann sig fram sem persónu í sögu, sögu sem nær aftur til krossfestingar Krists, þar sem Davíð hinn óprúttni var hengdur við hlið tveimur heiðarlegum. Þetta er náttúrulega stórkostlega 'twisted' myndmál, sem minnir mig einna helst á togstreitu Svarthöfða sjálfs sem þurfti að gera upp við sig hvort hann ætti að drepa keisarann eða son sinn.
Málið er að myndmál er vandmeðfarið ef ætlunin er að tjá ákveðna meiningu, en í þessari ræðu talaði Davíð ekki aðeins undir rós, heldur þyrnirósarunna, hjó af nokkrar greinar og sló um sig með þyrnirósum svo að jafnvel flokksfélögum blæddi.
Ef þú ætlar að gefa hluti í skyn eða höfða til tilfinninga fólks, þá notarðu myndmál. Ef þú ætlar að segja skoðun þína, láta í ljós þekkingu þína eða jafnvel fræða fólk, þá er hætt við að ræðan verði sjálfsagt merkilegri, en mun áhugaverðari fyrir aðra en bókmenntafræðinga.
Þessi ræða höfðaði til tilfinninga viðstaddra, en Davíð lét einnig áhugaverða heimspekilega skoðun í ljós undir lokin, sem margir hafa kannski misst af vegna fyrri voðaskota: en það var að sannleikurinn væri seigari en afar vel skipulagðar blekkingar. Þessu get ég ekki annað en verið sammála, þar sem lygar og tilbúningur, sama hversu vel hannaðar þær eru, falla á endanum um sjálfar sig, sérstaklega ef fólk hættir að viðhalda lygunum og snýr sér að einhverju öðru. Þá liggur sannleikurinn í leyni bakvið lygastífluna og brýst fram við fyrsta tækifæri, þegar brestir koma í steypuna.
Ég er sammála Davíð um að upp komist svik um síðir, og ég hef trú á því að hann sé að einhverju leyti fórnarlamb í þessari atburðarás, en á erfitt með að trúa því hversu máttlaus hann virðist hafa verið gagnvart ofureflinu. Það er einfaldlega ekki sá Davíð sem maður kannast við.
Ég hef á tilfinningunni að Davíð reynist sannspár, og að hann muni komast ágætlega út úr sögulegri skoðun, en það breytir ekki því að litur ræðunnar var svo blár að hafið roðnar í samanburði.
Eina sterka hugmynd kveikti þó þessi skemmtilega ræða Davíðs - hún fékk mig til að spyrja hvort að Davíð hafi komist til valda fyrst og fremst vegna þess að hann er gott skáld, getur skrifað flottar ræður, er gífurlega hnyttinn í framsögu og skemmtilegur á að hlusta. Ég get vel skilið að þunglynd þjóð hafi fyrir áratugum kosið mann til valda á þessum forsendum, svona rétt til að gera heiminn aðeins skemmtilegri.
Vissulega hefði Ísland verið fölt ef ekki hefði verið fyrir Davíð Oddsson. Þakka ég honum fyrir skemmtunina, en það er ekki séns að ég muni gera tilraun til að dæma manninn út frá því sem hann hafði að segja við þessar aðstæður, ekki frekar en Henrik V þegar hann hvatti menn sína til dáða í frægu verki Shakespeare.
Málið er að Davíð er eiginlega Shakespeare og Henrik V í eina og sama manninum.
Athugið að höfundur rembist við að skrifa bloggið með myndmáli, enda er hér (vonandi) meira um gamansama pælingu að ræða en djúpan könnunarleiðangur inn í hugarheim Davíðs Oddssonar.
Myndir:
Don Quixote: Things to do in China when you are dying...
Krossfestingin: Crucifixion of Jesus by Spencer Williams
Svarthöfði og Láki geimgengill: STAR WARS: Injuries of Darth Vader
Skáldstrumpur: smurfs.com
Flokkur: Kvikmyndir | Facebook
Athugasemdir
Besta umfjöllunin sem séð so far....
ASE (IP-tala skráð) 29.3.2009 kl. 00:32
Það er verst að þér var ekki boðið að upplifa þessa stemmningu beint í æð. Hún var frábær og sannaði einu sinni enn að við höfum ekki átt annan eins stjórnmálaforingja í áratugi. Takk fyrir að setja linkinn inn, hann verður fjölsóttur vegna síns verðuleika. Aftur kærar þakkir, vona að sem flestir taki þessar ca 30 mínútur, þeir verða sko ekki samir aftur. Takk.
Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 29.3.2009 kl. 00:58
Ræða DO var snilld frá upphafi til enda, með áherslu á "til enda".
Endirinn var eitthvað slappur. Þarf að umskrifa fyrir næsta þátt.
Elinóra Inga Sigurðardóttir, 29.3.2009 kl. 01:23
Þetta er stórkostleg greining alla vega framan af. Sérstaklega hafði ég gaman af þessu: en í þessari ræðu talaði Davíð ekki aðeins undir rós, heldur þyrnirósarunna, hjó af nokkrar greinar og sló um sig með þyrnirósum svo að jafnvel flokksfélögum blæddi.
Hins vegar hef ég ekki húmor fyrir eða aðdáun á „ræðusnilld“ Davíðs. Finnst hann í raun alltof mikill skaðvaldur til að geta hlegið að honum
Rakel Sigurgeirsdóttir, 29.3.2009 kl. 01:27
... úpps... ræða þar sem drullukúlum er skotið á andstæðinga jafn sem samherja mun aldrei geta talist til snilldar... DO reyndi að vera fyndinn en var í raun sorglegur... hann gaf líka í skyn að það væri enginn á landsfundinum nógu öflugur til að taka við flokknum... athyglisvert svo ekki sé meira sagt...
Brattur, 29.3.2009 kl. 01:35
Brattur: Mikið af verkum Halldórs Laxness var einmitt af svipuðum meiði - með tíð og tíma fyrirgefst mönnum innihaldið, en strúktúrinn er eitthvað sem hægt er að stúdera af dýpt.
Rakel: Takk fyrir hrósið. Ekki misskilja þessa grein sem aðdáun og lof á ræðu Davíðs sem slíka - satt best að segja fannst mér hún fyndin or írónísk við þessar tragísku aðstæður sem við upplifum - en hún hitti vissulega í mark, þó að mörkin væru í þúsund áttir.
Elinóra: Nákvæmlega - hvort sem menn eru sammála DO eða ekki, þá var ræðan í formi algjör snilld.
Örn: Njóttu vel.
ASE:
Eini gallinn við þessa ræðu er að það fór meira púður í að sýna afburða ræðumennsku og snilli, heldur en leggja eitthvað af viti til málanna. Ég hefði líklega ekki getað forðast hlátur á staðnum, enda var þetta 'comedic relief' eins og getur verið nauðsynlegt í virkilega erfiðu andrúmslofti. Davíð var að brjóta ísinn og braut hann vel. Ég dæmi ekki þá sem hlógu eða klöppuðu fyrir að gera það og tel slíka hegðun ekkert hafa að gera með siðferði þeirra, heldur því að Davíð tekst sífellt að vera eins og ferskur andblær, svona skúta sem aflar í hvaða veðri sem er, sérstaklega þegar sjórinn er úfinn og staðan vonlaus. Ég veit að dómstóll götunnar hefur dæmt Davíð, og ég veit að Davíð er ósáttur við þann dóm, og vil að hann fái að njóta vafans. Við erum jú saklaus uns sekt er sönnuð. Dómstóll götunnar segir að Davíð hafi verið rúinn trausti, en var hann það í raun. Getur verið að við einfaldlega trúum því sem er sagt nægilega oft, og hægt sé að eyðileggja orðstýr sérhvers manns sé eyðileggingarstarfið vel skipulagt og framkvæmt? Ég get trúað því. Annað eins hefur nú gerst.
Reyndar þóttist ég greina í ræðunni stílfar þeirra Hannesar Hólmsteins og Þorsteins Davíðssonar, en báðir eru þeir snjallir pennar og ræðumenn, og kæmi mér ekki á óvart þó að þeir hafi lagt hönd á plóginn við að hjálpa við gerð þessa bókmenntaverk sem ræða Davíðs er. Það er samt hugsanlega bara ímyndun ein.
Hrannar Baldursson, 29.3.2009 kl. 09:42
Mér finnst svolítið vanta í umræðuna hvað þessir heiðursmenn í Seðlabankanum voru eiginlega að gera í allan þennan tíma. Ef þeir voru svona frábærir - hefði maður þá ekki átt að heyra í þeim a.m.k. af og til?
Ósköp fátt bendir til að þeir hafi verið að gera meira en sækja kaffi fyrir Davíð og votta undirskriftir hjá honum.
Einhvern tímann var sagt "All that is necessary for the triumph of evil is that good men do nothing". Þau orð minna mig óneitanlega á þessa tvo sem enginn tók eftir fyrr en þeir voru látnir hætta.
Einar Jón, 29.3.2009 kl. 10:04
Góð tilvitnun í Edmund Burke, Einar Jón.
Reyndar er svolítið kaldhæðnislegt ef þú hlustar aðeins á þegar Davíð minnist á að völd Seðlabankans hafi verið færð yfir til fjármálaeftirlitsins. Þannig að kannski mætti færa tilvitnunina yfir í íslenskar aðstæður:
"Allt það sem er nauðsynlegt fyrir fjárhagslegt gjaldþrot þjóðar er fyrir góða menn að starfa á röngum vettvangi."
Hrannar Baldursson, 29.3.2009 kl. 10:14
DO sagði að völd Seðlabankans hefðu verið færð yfir til FE fyrir 10 árum síðan... var það ekki hann sjálfur sem gerði það?
Brattur, 29.3.2009 kl. 10:20
Sagan mun dæma Davíð sem mesta snilling sem uppi hefur verið á Íslandi og af öllum umfjöllunum á blogginu er eins og oft áður þín sú lang lang besta enda eitthvað af viti skrifað um ræðunna hans og manninn sjálfan.
Hafðu það sem best í Oslo kallinn minn
Ómar Ingi, 29.3.2009 kl. 11:20
Nú þurfa allar kirkjur og heimili að skipta út myndum af jesú kristi,nýr kristur er komin í líki Davíðs Oddssonar.
Númi (IP-tala skráð) 29.3.2009 kl. 12:35
Átti að vera í breyttri mannveru sem heitir Davíð Oddsson.
Númi (IP-tala skráð) 29.3.2009 kl. 12:38
Eruð þið að grínast hér að ofan???
Það var nákvæmlega ekkert sem kalla mætti snilld við þessa ræðu hans Davíðs. Ég hreinlega trúi ekki að að fólk sé svona illa að sér að það telji þessa illa skrifuðu ræðu hans bera vott um málfarsfærni. Orð hans voru lítið annað en grautfúlt skítahret og mældist vitið í henni upp á null og nix. Hann talaði mikið um mótvindinn og vísaði til karlmennskunnar með þeim hætti að ekki megi gefast upp þó móti blási. Hvaða helvítis kívanísklúbbabjáni víðsvegar um landið gæti skrifað þetta pappírsdrasl niður á blað og fengið klapp á bakið fyrir. Með öðrum orðum var þetta myndmál hans hámark klisjunnar og herfilega illa vel orðað. Ef þessi maður á teljast mikið skáld ... þá tel ég orð Steins Steinars hverju orði sannara er hann sagði "EKKI VORU ÞAÐ SKÁLD MIKILLRAR ÞJÓÐAR" þegar hann var spurður álits um skáldin sem íslendingar höfðu upp til skýjanna á sínum tíma.
Mér blöskrar að fólk skuli hefja þennan vitfirta munnsora hans Davíðs upp til skýjanna því að það var nákvæmlega ekkert sem kalla mætti göfugt við þessa ræðu. Þetta væl hans var engu skárra en mjálm breimandi hreisiskattar ofan í húsasundi og voru orð hans lítið annað en auðhrekjanlegt gáfnarembingshljóm með nákvæmlega engu innihaldi.
Ekki nema von að þetta samfélag sé á leiðinni til andskotans ef megin þorri íslendinga hefur þá naisistakendu þörf að hefja einhvern geðsjúkling með messiasar komplexa upp til skýjanna.
Brynjar Jóhannsson, 29.3.2009 kl. 15:45
Vildi bara halda því til haga að ég og Brattur erum ekki meðal þeirra sem féllum fyrir meintri „snilld“ í ræðu Davíðs. Þvert á móti Ræðan sjálf og viðbrögðin við henni misbjóða mér m.a.s. svo mikið að ég get ekki setið þegjandi undir því að vera sökuð um slíkt á annarra manna síðum.
Ég skil líka viðbrögð síðueigandans við innleggi mínu að hann vilji ekki að ég haldi að hann dáist að ræðu Davíðs. Ef ég hef skilið hann rétt þá er afstöðumunurinn milli mín og Hrannar í þessu máli sá að við höfum einfaldlega ekki sama húmorinn. Ég get nenfilega ekki einu sinni hlegið að ræðu Davíðs eða eins og ég segi hér að ofan: Hins vegar hef ég ekki húmor fyrir eða aðdáun á „ræðusnilld“ Davíðs. Finnst hann í raun alltof mikill skaðvaldur til að geta hlegið að honum
Rakel Sigurgeirsdóttir, 29.3.2009 kl. 18:05
Brynjar minn þarftu ekki að fara að bryðja lyfin þín núna slakaðu nú á
Ómar Ingi, 29.3.2009 kl. 19:18
Fyrir utan árásina á Vilhjálm Egilsson og endurreisnarnefndina og ummæli Davíð um Jóhönnu sem voru dónaskapur er þessi ræða snilldarverk!
Það er voðalegt þegar fólk getur ekki viðurkennt þessa staðreynd vegna haturs síns á manninum!
Sagan mun sýna að Davíð Oddsson verður minnst sem eins mesta stjórnmálaskörungs sem landið hefur átt!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 29.3.2009 kl. 21:18
Ég held að Davíð Oddson ætti nú að hverfa alfarið úr stjórnmálalífinu og snúa sér að einhverju öðru. Fólk er búið að fá alveg nóg af honum sem pólítíkusi. Mér finnst að hann hafi pissað algerlega í skóinn sinn með þessari ræðu á landsfundinum. Sjálfsstæðisflokkurinn verður sterkari án Davíðs og hans afskiftasemi.
Gísli Már Marinósson, 29.3.2009 kl. 22:13
Ég horfði nú á ræðuna hans Davíðs út frá ræðutækni og hún er feiknarvel skrifuð sem slík að mestu leiti. Hann er góður penni og með góðan húmor. Ef tilgangurinn var að koma örlítið til baka og skapa sér virðingu var ræðan helst til of löng. Með því að valta yfir Vilhjálm Egilsson og endurreisnarnefndina, skaut hann sjálfan sig í löppina. Davíð fékk síðustu árin gagnrýni fyrir að vera of einráður, og þessi gagnrýni hans styrkti þá mynd af honum. Einkennilegt dómgreindarleysi.
Þá fannst mér í lagi að segja hjá Davíð, að Jóhanna kæmi eins og álfur út úr hól, en þegar hann sagði að hún líti dálítið út eins og álfur, skaut hann sig aftur í löppina. Annars fannst mér húmorinn verða verulega góður. Stílbrotin tvö, fella sýninguna talsvert.
Hins vegar er það athyglisvert hversu margir hata Davíð ennþá, eftir að hann er farinn. Vissulega mátti gagnrýna hann m.a. fyrir háa stýrivexti. Staðreyndin er hins vegar að eftir að hann er farinn upplifðum við hæstu raunstýrivexti allra tíma. 17 % stýrivextir, með verðhjöðnun upp á rúm 5%. Þ.e. yfir 22% raunstýrivextir. Nú hlýtur að verða fundur á Austurvelli og þá verður eflaust kallað vanhæf ríkisstjórn og burt með Svein Harald Øygard. Við verðum jú að vera sjálfum okkur samkvæm.
Ekki það að það var kominn tími á Davíð.
Sigurður Þorsteinsson, 29.3.2009 kl. 22:54
Svona útfrá litbrigðum jarðarinnar þá er nú Davíð örggulega bara fínn karl! :)
Kristbjörn H. (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 00:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.