Eru Íslendingar ekki lengur þjóð?
18.3.2009 | 10:49
"Það er ekki sanngjarnt að setja þetta upp sem baráttu milli þeirra sem vilja sama húsnæðisverð (og virðast í þínum augum vera góða fólkið) og svo þeirra sem vilja braska með íbúðir (vonda liðið). Þetta snýst miklu frekar um að ganga ekki á þá sem eiga sparnað eða hafa ekki skuldsett sig um of til að borga undir þá sem skulda mikið. Það er lítið réttlæti í því. (Landið)
Ég er ánægður með samræðuna sem birtist í athugasemdum greinarinnar "Hvernig Samfylkingunni tókst að tapa mínu trausti", sérstaklega vakti þessi athugasemd áhuga minn, sem er svar við spurningu minni um hvort að hugsanlega séu ólíkir hagsmunir í húfi þegar kemur að lausn þess vanda sem snýr að skuldum íslenskra heimila.
Mér finnst áhugavert að setja þetta upp sem baráttu góðs og ills, en sjálfur sé ég þetta ekki þannig að tvö lið séu að berjast, annað gott og hitt illt, heldur að leikurinn sem slíkur geti endað með ósköpum ef við hugsum einungis út frá liðunum, en ekki útfrá framtíð leiksins sem slíks, þegar leikurinn er almannaheill. (Sem er reyndar langt frá því að vera léttvægur leikur í raun).
Mér þætti skynsamlegt að framkvæma 20% niðurskurð á skuldum heimila - og skil ekki alveg af hverju ýmsir fara að töfra fram tölur sem innihalda upphæðir tengdum fyrirtækjum. Það er allt annað mál.
Ég sé engan sem vonda eða góða aðilann í þessum málum, en hef hins vegar áttað mig á að fólk getur haft ólíkan hvata til að vera með eða á móti hugmyndum sem þessari. Þegar fólk skiptir sér í lið er hætta á að það tapi umhyggju fyrir öðrum sjónarmiðum en eigin. Annað hvort ertu með okkur eða á móti, eins og Bush sagði eða "Join us or die", eins og Svarthöfði sagði við Luke Skywalker.
Með eða á móti er ekkert val. Að sjá bæði sjónarhornin skýrt og sætta þau er hins vegar afar skynsamleg leið. Ráðamenn eiga ekki að skjóta hugmyndir í kaf vegna þess að þær koma frá "vitlausu" liði, heldur komast til botns í málinu, meta kalt og finna sanngjarnan flöt.
Ef hugarfarið sem leiddi þjóðina í gjaldþrot (staðreynd sem reyndar hefur ekki enn verið viðurkennd af öllum, hugsanlega vegna afneitunar, hugsanlega vegna þess að ég hef rangt fyrir mér) verður notað á þessi vandamál, þar sem fólk eða sérhagsmunahópar hugsa fyrst og fremst um hvernig það sjálft geti grætt á ástandinu og komið í veg fyrir að aðrir græði of mikið á því, þá erum við á villugötum og sjálfsagt glötuð.
Flestir hafa rétt fyrir sér út frá eigin sjónarmiðum, enda er leiðin til helvítis lögð með góðu malbiki, en séu þessi sjónarmið of þröng, og taka ekki til hagsmuna heildarinnar, tel ég að viðkomandi þurfa að kafa dýpra og sjá hlutina í víðara samhengi.
Þegar verið er að skipta verðmætum, þá virðist fólk hafa tilhneigingu til að verða gráðugt og gleyma náunganum. Svona eins og þegar þú kemur með of fáar pizzur í strákaafmæli og leyfir handalögmálum að ráða. Ef þú nálgast málið þannig, þá fáum við margar hendur upp á móti hverri annarri.
Ef við sjáum málið hins vegar sem björgunaraðgerð - eins og hrísgrjónum sem dreift er til nauðstaddra, sem reyndar er óhjákvæmilegt að einhverjir muni misnota og takast það sama hvaða ráðstafanir eru gerðar, þá verðum við að skilja að fórnarkostnaðurinn við björgunina lendir að einhverju marki á þeim sem telja sig stikkfrí og skuldlausa.
Það er enginn stikkfrí þegar þjóðin er í kreppu. Þeir sem halda það eru í afneitun. Kannski munu viðkomandi geta lifað lífinu eðlilega í nokkra mánuði til viðbótar, en það mun koma að skuldadögum þegar aðgerðirnar fara í gang innan fárra mánaða - og þá munu allir finna til og þegar fólk fer að finna til, þá fer það að skilja af hverju upp hafa risið samtök eins og Hagsmunasamtök heimilanna, samtök einstaklinga sem sjá aðeins lengra fram í tímann og hafa áttað sig á ástandinu. Reyndar er aðalfundur samtakanna á fimmtudag þar sem kosið verður til stjórnar. Ég verð fjarri góðu gamni og ekki í stjórn, en styð samtökin heilshugar og tel að fleiri ættu að gera það, og í raun allir sem vilja styðja við heimilin í landinu.
Það verða allir að leggja hönd á plóg og hjálpa. Ef það er ekki gert, þá erum við einfaldlega ekki lengur þjóð, heldur tilviljanakenndir einstaklingar og hópar sem búa á sama landsvæði. Erum við hætt að vera þjóð eða höfum við kannski aldrei verið þjóð?
Hefur Íslendingurinn sem berst um í brjósti mínu aðeins verið rómantískt ljóð?
Í öll þau ár sem ég hef búið erlendis hef ég verið afar stoltur af uppruna mínum sem Íslendingur og gengið uppréttur með menningararfinn í hug sem og hjarta. Ég hef séð þetta sem raunveruleg gæði, andleg gæði, sem hafa komið mér heilum gegnum erfið tímabil - þar sem ég hef upplifað töluvert af fordómum, fellibyl og flóð, en fundið mótvægi og styrk gegn þessu í eigin hugrekki sem byggir á ást og stolti gagnvart eigin þjóð og þeirri trú að ákveðin gildi Íslendingsins sé hægt að yfirfæra á allan heiminn, þó að þau séu kannski ekki öll yfirfæranleg.
Mér hefur verið tekið vel víða um heim og ætíð gætt þess að verja orðspor þjóðar okkar hvert sem ég kem. Af þessum ástæðum hef ég verið sáttur við að tala erlendis með sterkum íslenskum hreim - og ekki gert markvissar tilraunir til að blanda mér algjörlega inn í hópa með því að þykjast vera eins og þeir.
Fátt er verðmætara en sterk þjóðerniskennd, og á sama tíma er fátt hættulegra en sterk þjóðernishyggja. Takið eftir muninum á þessu tvennu. Þjóðerniskennd er jákvæð tilfinning og jafnvel stolt yfir eigin uppruna, á meðan þjóðernishyggja er það sjónarmið að eigin þjóð sé réttmætari og betri en aðrar þjóðir. Í rammanum gott og illt, þá er þjóðerniskennd góð, enda byggir hún á þekkingu, en þjóðernishyggja ill, þar sem hún byggir á fáfræði.
Þegar sterkar tilfinningar þjóðerniskenndar vakna einungis við sigur í knattleikjum eða söngvakeppnum, þá er eitthvað að. Við ættum að finna til þjóðerniskenndar þegar við sjáum Íslendinga kalla á hjálp og gera eitthvað í málunum frekar en að snúa við þeim bakinu.
Á sama tíma og fram koma tölur um að fleiri en 40.000 heimili séu í alvarlegum vanda heyrum við fréttir um að þúsundir Íslendinga séu á leið í sólarlandaferð yfir páskana.
- Er ekki eitthvað bogið við þetta?
- Getur verið að efnishyggjunni hafi fylgt ormar sem nagað hafa þjóðerniskenndina í sundur, innanfrá?
- Verðum við ekki að grípa til vopna, og er ekki besta vopnið okkar gagnrýnin hugsun?
"Siðferði er ekki kenningin um hvernig við gerum sjálf okkur hamingjusöm, heldur hvernig við gerum okkur að fólki sem verðskuldar hamingju." Immanuel Kant, úr Gagnrýni heilbrigðrar skynsemi
Myndir:
Skjaldamerki Íslands: Wikipedia.org
Gott og illt: Philosophica.org
Svarthöfði: Ocean State Republican
Pizza: Fat Loss School
Þjóðernishyggja: Emory Libraries
Handbolti: sport.is
Youtube myndband: Snorri Valsson
Athugasemdir
Góður að venju Don
Ómar Ingi, 18.3.2009 kl. 19:09
Játa að mér finnst dapurt að þessi hugmynd Framsóknarflokksins, sem síðan hefur fengið stuðning frá Tryggva Herbertssyni. Finnst gjarnan að alþingismenn mættu skoða svona tillögur og fleiri án tillits til stöðu í flokkakerfinu.
Sigurður Þorsteinsson, 18.3.2009 kl. 22:26
Vil taka undir með Sigurði. Þeir ættu að geta skoðað það. Og skiptir flokkur engu máli þar um. Og bara burt með flokkavald.
EE elle (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 22:52
Já þú segir nokkuð og í raun bara heilmikið. Ég vil aðeins velta því fyrir mér af hverju heimili og fyrirtæki eru í sitt hvoru liðinu. Ég er búin að vinna við verkalýðsmál í ca 17 ár og mér finnst svo sannarlega að heimili og fyrirtæki séu í sama liðinu.
Skuld hefur hækkað alveg jafn mikið hjá báðum hópunum. Lán innanlands með einum hætti og erlend lán með öðrum. Fyrirtæki eru yfirleitt vinnustaður einhvers og þurfa því að vera til. Hver er munur inn á að lækka skuldir hjá fyrirtækjum eða að lækka skuldir hjá heimilunum
Hólmfríður Bjarnadóttir, 18.3.2009 kl. 23:22
Hólmfríður: Stóri munurinn er sá að upphæðin sem þarf til að bjarga heimilum er viðráðanleg, en upphæðin til að bjarga fyrirtækjum á sama hátt er stjarnfræðilega há. Reikna ég með.
Hrannar Baldursson, 18.3.2009 kl. 23:31
Sæll Hrannar, gott að sjá að þú sért farinn að blogga af krafti afturJÉg hef einmitt verið að velta þessu útspili Framsóknarflokksins fyrir mér og er á þeim stað hvort hægt sé að réttlæta þennan gjörning. 300.000.000.000 er mikill peningur og að mínu mati þarf maður að hugsa sig vel um áður en svo há upphæð er afskrifuð. Og þessi upphæð verður ekki greidd einn tveir og þrír til baka. Börnin okkar munu þurfa að greiða hana. Án vaxta er þetta ca. 1.000.000 á hvert mannsbarn á Íslandi. Líka fyrir þá sem eiga eftir að kaupa sér húsnæði og þá sem hafa ekkert lán á bakinu. Getum við réttlætt með einhverju móti að þeir sem ekki hafa keypt sér húsnæði greiði aukalega 1.000.000 krónur fyrir þá sem þegar hafa keypt sér þak yfir höfuðið? Ég á afar erfitt með að sjá réttlæti í því og hvernig hægt sé í raun að fara fram á það... En hvað er það sem gerist? Skoðum vandann sjálfan sem veldur erfiðleikum heimilanna. 1. Verðtrygging.2. Krónan.3. Verðbólga.4. Atvinnuleysi.5. Kaupmáttarskerðing.6. Svartsýni og dökkar framtíðarhorfur.7. Verðmætahrun á eignum.8. Takmarkaður aðgangur að lánsfé.9. Vaxtagreiðslur.10. Glatað sparifé. Og eflaust margt fleira, þetta er bara það sem mér datt í hug á örskotsstundu. Á þessu má sjá að það dugar engan veginn að afskrifa 20% að skuldum heimilanna. Verðtryggingin ein kemur í veg fyrir að hægt sé að réttlæta afskriftirnir. Miðað við að verðbólgan sé eins og hún er búin að vera þarf ekki að líða langur tími þar til afborganirnar verða orðnar jafnháar og þær eru í dag. Væri því ekki nær að Framsóknarflokkurinn berðist fyrir því að afnema verðtrygginguna? Og til að létta greiðslubyrðina væri líka möguleiki á að lengja lánsímann um 10 ár. 15 ár. Þannig mundi fólk líka geta staðið í skilum á sama hátt og ófæddir íbúar þessa lands gætu um frjálst höfuð strokið. Eru menn búnir að kynna sér hvað Seðlabankanum tókst oft að halda verðbólgumarkmiði sínu frá 2002?Annað vandamál er krónan. Hvað gerist þegar vextir verða lækkaðir? Þá fellur krónan. Og einhvern tímann verðum við að koma vöxtum undir 10%! Gera menn sér í hugarlund hvað gengi krónunnar á eftir að veikjast mikið þegar það gerist? Japanska jenið er núna skráð í 117 aurum en þegar flestir voru að taka lán í jenum var það í milli 49-70. Hæst fór það í 150. Ekki má heldur gleyma því að stjórnvöld eru nú logandi hrædd um hvað gerist þegar reynir á 500.000.000.000 krónubréfin. Flöktið á krónunni þarf því miður ekki að vera mikið til að hafa afgerandi áhrif á 20%-niðurfellingu-skulda-heimilanna aðgerðina. Og þá sitjum við uppi með 300.000.000.000 króna skuld á komandi kynslóðirYfir 15% atvinnuleysi þýðir það að greiðslugeta þeirra heimila sem verða fyrir atvinnuleysinu verður afar takmörkuð. Ef greiðslubyrðin var 100.000 en verður 80.000 þegar þú hefur 150.000 krónur í atvinnuleysisbætur þá munar ekkert svakalega mikið um það því þú ert í skítnum hvort sem er. Væri ekki miklu nær að þau heimili þar sem atvinnuleysi skellur á fái algjöra frystingu lána meðan ástandið gengur yfir? Það er nefnilega annað sem skiptir máli og það er að fólk sem getur staðið í skilum geri það án aðstoðar því aðstoðin sem veitt er er ekki ókeypis. Með því að hjálpa fólki sem ekki þarf hjálp erum við að valda okkur þyngri og erfiðari byrgðum. Við þurfum að leggja alla áherslu á að aðstoða þá sem þurfa en verðum að komast í gegnum kreppuna með því að hefta okkur og komandi kynslóðir sem minnst.Það er hægt að halda áfram svona endalaust en 20% er afar skammgóður vermir, því miður. Einhver myndi kalla þetta að pissa í vettlinginn sinn eins og sjómenn gerðu forðum til að hlýja sér en síðan beit frostið bara harðar á þá nokkrum mínútum síðar. Við þurfum að byrja á að taka á orsökum vandans en ekki afleiðingunum. Það er eitt að lokum sem mig langar minnast á. Framsóknarflokkurinn sem boðar nú 20% niðurfellingu skulda er sami flokkur og kom okkur í þau vandræði sem heimilin eiga við að etja í dag. 90% húsnæðislánin sem sett voru á 2004 var afar illa ígrunduð aðgerð sem allir sérfræðingar voru búnir að vara við að skaðað hagkerfið mjög illa. Særstan hluta þess vanda sem heimilin eiga við að etja í dag er bein afleiðing af þessari kosningabrellu Framsóknarflokksins, um það þarf ekki að deila. Ef menn skoða aðvaranir prófessora og hagfræðinga frá þessum tíma sést að ekki var hlustað á þá sem höfðu vit á málunum heldur var kosningaherferð flokksins tekin framyfir hjá kjósendum. Við erum að súpa seyðið af því að vera ekki gagnrýnin og þenkjandi heldur auðtrúa og hvatvís. Á ég að borga 1.000.000 fyrir það? Á barnið mitt að borga 1.000.000 fyrir það? Barnabarnið?
Lausnir kreppunnar felast ekki í glæsilegum kosningaloforðum eða gera bara eitthvað til þess að gera bara eitthvað. Það er hægt að sjá fyrir afleiðingarnar en fólkið sem er í stjórnmálum núna er því miður ekki hæft til þess, það er ekki nógu snjallt til að fatta lausnirnar. Það vill komast til valda en kann ekki að stjórna. Reyndar er mjög merkilegt að þú minnist á hvernig menn skiptast í lið, vonda og slæma, því það er einmitt það sem stjórnmálaflokkar gera. Þeir skipta fólki í lið, með og á móti!
Þú afsakar aftur enn eina langlokuna!
Kristbjörn H. (IP-tala skráð) 19.3.2009 kl. 00:40
Hrannar og Hólmfríður, fyrirtækin og heimilin eru eitt í baráttunni fyrir því að halda þjóðfélaginu gangandi. Málið er samt að meðan bankakerfið sogar allan pening til sín, þá dregst neyslan saman sem hefur ógnvænleg áhrif fyrir þjóðfélagið.
En Hrannar, góða ferð annars. Þú átt eftir að taka þetta sem stæl eins og alltaf.
Marinó G. Njálsson, 19.3.2009 kl. 00:41
Kristbjörn, ríkisstjórnin ákvað án hiks að setja 200 milljarða í peningasjóði og að tryggja upp í topp um 1.100 milljarða innistæður í bönkum. Það eru peningar sem við skattgreiðendur þurfum að borga. Af hverju er enginn vandi að gera það? Ekki var fólk spurt hvort það vildi þessa björgun. Ekki var spurt hvort það þurfti á björguninni að halda. Af hverju er ein aðgerð sjálfsögð, en önnur út í hött?
Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt til að sett verði afturvirkt 4% þak á verðtryggingu frá 1. janúar 2008 og að gengistryggðum lánum verði breytt í verðtryggð lán eins og þau hafi verið verðtryggð lán frá upphafi. Okkur telst til að þessi aðgerð kosti um 250 milljarða, sem er litlu meira en fór í peningasjóðina og um 40% af því sem fór í að tryggja allar innistæður umfram EUR 20.887. (Ég sá að vísu í dag að miða á við gengi frá því 1999 og þá hafi EUR 20.887 verið um 1,7 milljón en við miðum í okkar útreikningum við gengi í haust og upphæðin sé því 3 milljónír. Miðað við 1,7 m, þá er kostnaðurinn af því að tryggja allar innstæður líklegast um 800 milljarðar, en ekki 600 milljarðar miðað við að 3 m sé notað.) Svo má ekki gleyma icesave deilunni sem er bein afleiðing af gjafmildi ríkisstjórnarinnar við innistæðueigendur hér á landi. Síðast um daginn var af að því virtist tilefnislausu ákveðið að taka yfir Straum og tryggja 60 milljarða innistæðu 80 aðila. Ef 3 milljóna viðmiðið hefði verið notað, þá hefði tryggingasjóður innistæðueigenda þurft að ábyrgjast 240 milljónir, en vegna neyðarlaganna á hann að ábyrgjast 59.760 milljónir til viðbótar.
Marinó G. Njálsson, 19.3.2009 kl. 00:56
Marinó, gott að fá færslu frá þér um málið hér inn. Ég er þér fyllilega sammála, en vantar meiri þekkingu á peningakerfi þjóðarinnar til að útskýra að einhverju viti. Við erum öll í sama liðinu og þá tilfinningu hef ég haft lengi.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 19.3.2009 kl. 01:09
Það á að gera það sem eftir er af lífeyrissjóðunum upptækt, sem og allt sparifé, en það er allt þjófstolið hvort eð er og nýta eftir því sem það dugir til að aflétta húsnæðisskuldum fólks á aldrinum 20 til 50 ára.
Sósíalisti (IP-tala skráð) 19.3.2009 kl. 10:54
Í orðum mínum kemur hvergi fram að sá þjófnaður sem átti sér stað með peningasjóðina sé réttlættur. Og finnst hálf einkennilegt að réttlæta óréttlæti með öðru óréttlæti. Væri ekki nær að endurskipuleggja hagkerfið og þurrka út ruglið sem þar er í stað þess að flækja málin og stela meiri peningum af komandi kynslóðum. Bara svo að menn átti sig á því hvers konar upphæðir er um að ræða þá má minnast á að Kárahnjúkavirkjun kostaði 130.000.000.000 krónur. Geturðu, Marínó, réttlætt á sanngjarnan hátt og með rökum að við ættum að afskrifa skuldir þeirra sem skulda?
Kristbjörn H. (IP-tala skráð) 19.3.2009 kl. 11:38
Hrannar. Góðar hugleiðingar.
Vissulega erum við áfram þjóð. Svolítið brotin og áttavillt en ennþá þjóð. Stoltið er sært út á við og inn á við er reiði.
Ég sé þessa tillögu svona: Flatur niðurskurður 20 fyrir heimilin er skynsamlegur til að forða tugþúsunda fólksflótta úr landi. Þá er 20% flatur niðurskurður á fyrirtæki skynsamlegur ef sú ráðstöfun kemur fyrirtækjum landins aftur í gang. Þótt einhverjir hagnist hugsanlega meira á því en aðrir og þótt sárt sé að þeir sem dönsuðu Hrunadansinn hagnist hugsanlega verðum við að meta meiri hagsmuni fyrir minni. Ef þessi tillaga nær þjóðinni á lappirnar þrátt fyrir vankanta er ekkert val. Í dag er atvinnulífið svo frosið að annað eins hefur ekki sést. Fasteignamarkaðurinn er ónýtur (og hliðargreinar eins og verkfræðistörf og arkitektar). Iðnaðarmenn lepja dauðann úr skel. Fólk með neikvæða eiginfjárstöðu fasteigna bíður þess að missa eignir sínar á uppboðum. Þetta er að gerast NÚNA. Og hvað eru ráðamenn að gera NÚNA. Jú, stunda prófkjör, ferðalög um kjördæmi og undirbúa næstu kosningaloforð.
Við erum þjóð en býsna skrýtin.
Guðmundur St Ragnarsson, 21.3.2009 kl. 00:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.