Sjö ráð til að ná og viðhalda völdum í nútímasamfélagi

 

 

Í gærkvöldi tók ég þátt í prófkjörsveislu hjá ónefndum stjórnmálaflokki, en vinur minn náði fyrsta sæti, þannig að við duttum alveg herfilega í það og fórum svo niður í bæ á pöbbarölt. Við vorum átta saman til að byrja með, en eftir því sem leið á kvöldið týndust fleiri einstaklingar úr hópnum. Ég held ég hafi fengið staup á hverjum einasta bar í bænum og man reyndar ekkert eftir hvað gerðist á milli kl. 1 og 4, en þá var ég allt í einu sestur við hringlaga borð og fyrir framan mig var þessi ótrúlega sæta ungmey með fjarlæg og blá augu, húð hvíta sem pappír og blóðrauðar varir. Hún hallaði sér yfir borðið og kyssti mig.

"Um hvað vorum við að tala?" spurði ég þegar varir hennar og andlit fjarlægðust mig eins og gufa sem stígur hægt upp frá jörðu.

"Spillinguna. Eina leiðin til að ná völdum á Íslandi er með spillingu. Þú veist það. Ég veit það. Fólkið veit það. En enginn trúir því."

Rödd hennar var djúp og frekar gáfuleg, áherslurnar voru allar á réttu orðin, og mál hennar það skýrt að hún hefði getað verið sjónvarpsþula með undirbúna ræðu. Hún hélt áfram og ég horfði heillaður á hana.

"Með því að kíkja yfir prófkjörin og hvernig útlitið er fyrir framhald stjórnmála á Íslandi get ég ekki séð af hverju Vítisenglum er bannað að koma til landsins, nema þá að ógn hafi staðið að þeim sem ráðgjöfum fyrir nýjan stjórnmálaflokk. Ég erfitt með að sjá muninn Vítisenglum og íslenskum stjórnmálaflokkum."

 

 

"Vítisenglar eru mótorhjólagengi," sagði ég yfirvegaður. "Þeir eru, eins og Jack Nickolson sagði í Easy Rider, holdgerving frelsisins - því að allir eru til í að tala um frelsið eins og ekkert sé mikilvægara, en þegar manneskja er frjáls í raun og veru verða allir skíthræddir, því að frelsið þegar það er lifað táknar eitthvað allt annað og miklu meira en löghlíðin þjóð getur sætt sig við."

"Sérstaklega þegar þjóðin er gjörspillt," sagði hún. "Má ég sýna þér svolítið?" sagði hún og hallaði sér stríðnislega yfir borðið. Ég sötraði af bjórnum og kinkaði kolli.

Hún dró bækling fram úr Lacome veskinu sínu. Framan á því var mynd af krossi á hvolfi, þar sem frelsarinn sjálfur hékk öfugur á krossinum, en hælar hans höfðu verið negldir efst og höfuð hans snerti nánast jörðina. Hendur hans höfðu verið negldar fast við mjaðmir hans. Ég þurfti að míga.

Þegar ég kom aftur lá bæklingurinn opinn fyrir framan hana á borðinu. Fyrirsögnin var "Sjö ráð til að ná og viðhalda völdum í nútímasamfélagi".

"Ég nenni ekki að lesa innganginn, hann er alltof langur og fullur af innantómum skoðunum einhvers heimskingja. Hins vegar er nokkuð mikið vit í þessu."

"Lát heyra," sagði ég og ímyndaði mér hvernig hún liti út klæðalaus og í svefnherberginu mínu.

"Ráð eitt: Vertu gráðugur og sýndu græðgi." Hún leit upp eitt augnablik til að leggja áherslu á að þetta var fyrirsögn, og hélt svo áfram.

"Þetta geturðu gert með því að stela einhverju smáræði, skjóta undan peningum sem enginn tekur hvort eð er eftir að eigi að fara í eitthvað smáræði, eða þiggja smá aukalaun frá aðilum sem vilja koma sjónarmiðum sínum á framfæri og auka eigið frelsi."

"Þú meinar svona tæknileg mistök?" sagði ég og kveikti í Kúbuvindli. Hún hélt áfram að lesa.

"Ráð tvö: Hámaðu í þig á meðan tækifæri gefst og sýndu öðrum að þú getir það."

"Þetta geturðu gert með því að fara til dæmis á hádegishlaðborð. Þar geturðu safnað matarforða í magann til heillar viku með því að borða eins mikið og þú mögulega getur á stuttum tíma. Einnig er mikilvægt að þú eignir þér eins stórt hús og mögulegt er til að geyma eins marga hluti og þú getur keypt, og svo þarftu auðvitað stóran jeppa til að geyma allan matinn sem þú hefur étið á hádegishlaðborðinu."

"Þú meinar til dæmis með því að lána ofurlán á ofurvöxtum og borga lánveitanda síðan ofurlaun fyrir mögulega endurgreiðslu láns."

"Ég heyri að þú ert með þetta allt á hreinu," sagði hún.

"Ráð þrjú: Ræktaðu með þér leti og þunglyndi og sýndu öðrum hversu vonlausir hlutirnir eru."

"Þegar þú ert kominn í ófyrirsjáanlegan vanda eftir að hafa hámað í þig og stolið, þá þarftu að kunna þá list sem felst í að varpa þunga vandans yfir á einhverja aðra, enda nennirðu varla að leysa öll heimsins vanda sjálfur. Mundu að lita vandamálið sem dekkstu litum og dragðu upp þá þunglyndislegustu mynd sem þú getur hugsað þér, því fólk verður svo ánægt þegar það sér að hlutirnir eru ekki jafn ömurlegir og þú hélst í upphafi, og þú kemst upp með að gera ekki neinn skapaðan hlut í málinu."

lazy

"Ég skil," svaraði ég. "Þetta er svona eins og með fjölmiðlana. Þeir sýna stanslaust frá einhverjum drápum og hörmungum úti í heimi til að telja okkur hinum trú um hvað við höfum það gott hérna heima."

"Já, og okkur er jafnvel talið trú um að hlutirnir séu verri en þeir eru, til að við séum sátt við að hlutirnir hjá okkur séu ekki eins slæmir og þeir gætu verið."

"Djöfull eru þetta steiktar pælingar," sagði ég og tók djúpann smók. Helvíti mikið bragð af þessum Kúbuvindlum.

"Ráð fjögur: Ræktaðu með þér reiði og hatur og sýndu öðrum að það eru þeir sem gera heiminum ógagn með því að vera til."

"Þegar einhver reynir að skikka þig til hlýðni vegna þess að þú hagar þér ekki eftir settum reglum, þá skaltu opinberlega ásaka viðkomandi um árás gegn þér og öllu því sem þú stendur fyrir, og krefjast þess að viðkomandi sé refsað fyrir vikið - og ef þér verður ekki hlýtt - safna liði gegn honum. Enginn á að komast upp með að gagnrýna þig refsilaust. Einnig skaltu leggja rækt við hatur þitt á minnimáttarhópum í samfélaginu, því að líklegt er að þú komist upp með það, enda finna margir til með þér."

"Meinarðu að fordómar séu góðir vegna þess að þeir eru algengir, vinsælir og auðskiljanlegir?" sagði ég.

"Ég er ekki greinin," sagði hún. "En pældu í því. Það er auðveldara að tengjast fólki sem hefur sams konar fordóma, og betra að losa þig einfaldlega við þá sem gagnrýna. Þeir eyðileggja bara fyrir."

"Nákvæmlega. Þannig sameinuðust nasistar með fordómum gegn gyðingum, og síðan sameinuðust bandamenn á sams konar hátt með fordómum gegn nasistum. Þannig hefur hið vestræna samfélag sameinast gegn hryðjuverkum og einstaka löndum með fordómum gegn múslimum. Þannig hafa mótmælendur sameinast á Íslandi með fordómum gegn banka- og stjórnmálamönnum."

"Ég get ekki sagt að greining þín sé nákvæm, og kannski svolítið í hlutfalli við alkóhólsmagnið í blóðinu, en ég held þú sért samt á réttri leið. Á ég að lesa áfram?"

Ég kinkaði kolli og skálaði í botn við einhvern gaur sem ég kannaðist við á næsta borði.

"Ráð fimm:  Ræktaðu með þér öfund og afbrýðisemi og sýndu öðrum að þeir beri að sýna þér tilhlýðilega virðingu."

"Þegar þú uppgötvar, til dæmis á vinnustað þínum, að einhver hefur óumdeilda hæfileika og getu sem vekja athygli og hugsanlega ógna þinni stöðu, finndu úrræði til að losna við viðkomandi úr umhverfinu. Leitaðu eftir veikleika í fari viðkomandi, gerðu hann augljósan fyrir aðra og blástu hann upp sem alvarlegan þröskuld í þínu starfi, til að viðkomandi verði rekinn. Þannig geturðu náð miklum árangri í öllu því sem þú tekur þér fyrir hendur. Til dæmis ef þú ætlar þér mikinn árangur í knattspyrnu, og kemst að því að einhver er betri en þú í eigin liði, skaltu nota æfingar til að dúndra hann niður svo að hann geti ekki spilað í framtíðinni."

"Heyrðu, ég hef lent í þessu, en gat bara ekkert sannað," sagði ég.

"Til þess er leikurinn gerður," sagði hún. "Meirihluti fólks er alltof heiðarlegur til að trúa slíkri illsku upp á nokkurn mann, og þess vegna velur fólk einfaldlega ekki að trúa slíkri illsku."

"Þú meinar."

"Ég meina."

"Ráð sex: Vertu stoltur af því sem þú hefur gert, og líka því sem þú hefur ekki gert, en tekist að eigna þér."

"Þegar þú sérð að einhver hefur náð góðum árangri með ákveðið verkefni og ljóst að það muni hafa góð áhrif á nánasta umhverfi í langan tíma, og allir muni taka eftir því - reyndu að koma þeim sem unnu verkið og fengu hugmyndina að því í burtu, og gerðu allt sem í þínu valdi stendur til að eigna þér hana. Þú veist að það skiptir meira máli að eiga hugmynd en að gera hana að veruleika, sama þó að þú hafir stolið henni. Láttu alla vita hvað þú ert stórkostlega hæfileikarík manneskja og gerðu allt sem í þínu valdi stendur til að kveða niður efasemdaraddir um ágæti þitt."

"En er þetta ekki nákvæmlega það sem er viðtekið í fyrirtækjum á Íslandi í dag? Komi starfsmaður með hugmynd og framkvæmir hana, þá er hún ekki hugmynd starfsmannsins heldur fyrirtækisins."

"Jú, á ég að lesa síðasta ráðið?"

"Ráð sjö: Ræktaðu með þér girnd og losta á öðrum manneskjum, hvort sem þær eru af öðru kyni eða því sama."

"Þú veist að mikilvægara er að elska marga heldur en að elska mikið, og þannig geturðu aflað þér traustra sambanda til að komast upp með 1-6 og hvatt fleiri til að fara þessar fínu leiðir að árangri. Því þú veist að ef þú ert sá eini sem telst spilltur, þá verður þú útskúfaður, en takist þér að koma þessum hugsunarhætti fyrir í sem flestum og jafnvel öllum þínum félögum, ef þér tekst að komast yfir bæði líkama þeirra og sál, þá færðu öflugan hóp í lið með þér sem ekkert afl getur stoppað."

 

Lust_by_Violator3

 

"Eigum við að taka taxa saman?" sagði ég, stóð upp og rétti henni hönd mína. Hún stakk bæklingnum í veskið og strauk lófa minn með ísköldum fingrum sínum.

"Mundu að engum er treystandi," sagði hún. Við fórum saman út í rok og skafrenning. Hún var í frekar þunnum fötum, þannig að ég faðmaði hana þétt að mér. Samt fannst mér hún kaldari en veðrið sjálft. Við biðum í hálftíma eftir leigubíl og fórum heim til mín.

Við kysstumst og rifum af okkur fötin inni í stofu. Ég kveikti á I-Poddinum og setti á Random. Ég fer ekki nánar út í hvað gerðist næst, fyrir utan að nú er ég ógeðslega þunnur og aumur í vinstri handleggnum.

Það eru tvö för á úlnliðnum, eins og ég hafi skorið mig - tvisvar. Ég man ekki eftir því. Stúlkan er löngu farin. Hún skildi eftir miða á koddanum með símanúmeri og nafni: "Viktoría."

Ég las nafnið upphátt nokkrum sinnum og lokaði augunum. Ég get ekkert borðað eða drukkið, en mig svimar og langar í eitthvað. Veit bara ekki hvað. Á forsíðu mbl.is var mynd af Árna Johnsen undir fyrirsögninni: Ragnheiður Elín sigraði. Ég staulaðist inn á bað og ældi í klósettið.

Ég er búinn að draga fyrir alla glugga, og sit nú við tölvuna og blogga. Birti þetta kannski á eftir og fjarlægi svo þegar mér snýst hugur.

 

Myndir:

Blá augu: Deviant Art

Jack Nickolson í Easy Rider: jacknicolson.org

Græðgi: SHOWstudio.com

Ofát: Wikimedia Commons

Leti: Bloggsíða Sigþóru Guðmundsdóttur

Heift: Mikeyip.com

Öfund: FlatRock

Stolt: Magister Vir's Website


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Svona krassandi blogg skrifar enginn ölóður maður eða þunnur.

Júlíus Valsson, 16.3.2009 kl. 09:26

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Vá! Ef þetta er ekki realitycheck, þá veit ég ekki hvað. Kannski þurftirðu að fá þér í glas, til að sjá í gegnum spunavímu daganna.  Spillingin og svínaríið blífur. Enginn úr grasrótinni kemst að nema eiga eins og 10-15 milljónir til að kaupa sér prófkjör og þingsæti, aðgang að hlutdrægum fjölmiðlum og þingsæti. Enginn kemst á blað, nema að hafa hlotið náð fyrir flokksherrunum.

Eftir Silfur Egils í gær, fékk ég sömu velgjuna og þú. Sigmundur í framsókn fannst mér vera eini hugsandi maðuriinn, sem leitaði lausna, en ég treysti ekki flokki, sem hefur svartann páfa á borð við Alfreð, sem stýrir og stjornar. Það er enginn flokkur heill.  Þjóðin hefur misst traustið og áhugann og í skjóli þess plotta gömlu herrarnir í myrkumm kompum.

Jón Steinar Ragnarsson, 16.3.2009 kl. 12:44

3 Smámynd: Ómar Ingi

Góður Don

Ómar Ingi, 16.3.2009 kl. 21:35

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Flott blogg!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 16.3.2009 kl. 22:42

5 identicon

Frábær færsla Hrannar og vel skrifað Fékk mann til að pæla hvort sagan um Atlantis sé ekki goðsögn heldur spádómur...

Kristbjörn H. (IP-tala skráð) 16.3.2009 kl. 23:12

6 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir athugasemdirnar. Ég kann þær vel að meta.

Hrannar Baldursson, 16.3.2009 kl. 23:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband