Doubt (2008) ***1/2

doubtposter

Doubt er vel skrifað drama byggt á samnefndu leikriti eftir John Patrick Shanley, sem einnig skrifar handrit og leikstýrir verkinu.

Árið er 1964, staðurinn kaþólskur skóli í Bronx hverfi New York borgar. Systir Aloysius Beauvier (Meryl Streep) er af gamla skólanum. Hún krefst skilyrðislegrar hlýðni nemenda og er ströng sem járnhamar. Sé eitthvað úr lagi hjá einhverjum nemanda hellir hún sér yfir viðkomandi með ógnarkrafti. Hún gerir skýran greinarmun á prestum og nunnum, og vill sem minnst samskipti hafa við prestana.

Faðir Brendan Flynn (Philip Seymour Hoffman) hefur áhuga á að bjóða nýja tíma velkomna í hina fornu stofnun, og vill að andrúmsloftið sé fullt af kærleik og hlýju. Systur Aloysius líst ekkert alltof vel á þetta, þar sem að hennar reynsla hefur sýnt að strangur agi í upphafi leiði til betri árangurs en að byrja með hlýju og sveiganleika, þar sem að slíkt gefur aðeins færi á misnotkun aðstæðna, sem sumir grípa. Þannig að systir Aloysius er fyrirfram afar tortryggin út í föður Flynn og þær hugmyndir sem hann stendur fyrir.

doubt01

Systir James (Amy Adams) er nýr kennari við skólann, afar græn á bakvið eyrun. Hún vill gera allt sem hún hugsanlega getur til að vera systur Aloysius þóknanleg, og þegar hún verður var við óvenjulega hegðun eins drengs í skólastofunni, og tengir þessa hegðun við föður Flynn, og gerir þau mistök að segja systur Aloysius frá grunsemdum sínum, sem eru annars ekkert meira en sakleysislegar grunsemdir, - stekkur systir Aloysius á þær eins og heilagan sannleik og leggur sig eftir því að koma föður Flynn frá störfum fyrir að hafa misnotað drenginn.

Hvort að faðir Flynn sé sekur eða saklaus skiptir engu máli, því að trúin á sekt hans er svo sterk að hún verður að veruleika, svona rétt eins og trúarbrögðin sjálf. Móðir drengsins , Mrs. Miller (Viola Davis) á áhrifaríkt viðtal við systur Aloysius, sem gefur sterklega í skyn að faðir Flynn hafi aðeins sýnt kærleik í anda Krists, og ekkert meira - en það virðist samt vera of mikið af því góða fyrir suma.

Leikur þeirra Streep og Hoffman er framúrskarandi eins og við má búast af þeim tveimur, og aðrir leikarar halda vel í við þau. Handritið er afar vel skrifað, en ef einhver galli er á myndinni, þá er hann kannski helst sá að mér fannst leikararnir vera búnir að æfa sig alltof vel fyrir hlutverkin, þannig að ég hafði á tilfinningunni að ég væri að horfa á leikverk á sviði, frekar en kvikmynd. Sumum gæti þó þótt það kostur.

doubt02

Sem fyrrverandi kennari við kaþólska skóla, get ég vottað fyrir að þemun sem tengjast agamálum og því hvernig er að vera kennari í framandi umhverfi hljóma ansi kunnuglega.

Óhætt að mæla með kvikmynd sem vekur upp pælingar um staðsetningu efa og trúar í skoðanamyndum þegar eina rétta leiðin að sannleikanum er með sönnunargögnum og gagnrýnni hugsun. Afar áhugaverðar pælingar sem vakna við þessa kvikmynd. Nokkrar spurningar:

  1. Er slæmt að efast um eigin trú?
  2. Á efinn sér eitthvað rúm í trúarbrögðum?
  3. Hvaða upplýsingar þarf til að gera skoðun að trú?
  4. Hvaða upplýsingar þarf til að gera trú að þekkingu?
  5. Felst kærleikur í ströngum aga?
  6. Felst kærleikur í hlýju og umburðarlyndi?
  7. Hvort er betra fyrir nemendur: strangur agi eða hlýja?
  8. Er fullvissa alltaf sjálfsblekking?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Góður pistill , ég mæli eindregið með þessari fannst hún snilld og gaf henni 4 stjörnur af fjórum.

Mynd sem gefur og skilur eftir, frábær kvikmyndagerð í alla staði.

Ómar Ingi, 19.2.2009 kl. 18:06

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

Maður þarf að kíkja á hana.

En af hverju mælirðu með Lunarpages?

Villi Asgeirsson, 19.2.2009 kl. 21:22

3 Smámynd: arnar valgeirsson

þú ert duglegur með bíórýni en ég sleppi þessari í bíó en sé síðar. hef heyrt vel af látið en þykir róleg og dramatísk. langar að sjá wrestler, mest af öllum...

arnar valgeirsson, 19.2.2009 kl. 23:00

4 Smámynd: Róbert Björnsson

Frábær mynd - var upphaflega skrifað fyrir leikhús og vann Pulitzer og Tony Awards fyrir það.  Leikstjórinn sem skrifaði handritið og stýrði leikhús-uppfærslunni leikstýrði svo líka kvikmyndinni - John Patrick Shanley heitir hann.  Það er því ekki skrítið að þú hafir tekið eftir þessu með leikstílinn.

Viola Davis var svakaleg í þessu eina atriði sínu og ég er ekki hissa á að hún hlaut Oscar tilnefningu.  Held með henni í hennar flokki.

Annars tippa ég á að Milk eigi eftir að vera sigursæl á sunnudaginn.  

Róbert Björnsson, 20.2.2009 kl. 00:42

5 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Er þér hjartanlega sammála, Doubt er meiriháttar góð mynd og vel þess virði að sjá hana.

Vona að þú segir eitthvað um Milk, þá mynd á ég eftir að sjá....en ég hef mikið dálæti á Sean Penn og mér hefur skilist að hann standi sig vel. Eins og hans var von og vísa.

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 20.2.2009 kl. 10:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband