Taken (2008) ***

taken

Taken er hörkugóð hasar- og spennumynd um fyrrverandi njósnara sem eltir uppi mannræningja dóttur sinnar. Hún er nákvæmlega það sem nýjustu Bond myndinni mistókst að vera, spennandi og skemmtileg. Reyndar þarf maður að trúa því að Bryan Mills sé nánast ofurmannlegur njósnari til að hafa gaman af þessu öllu, en hver er ekki til í það?

Bryan Mills (Liam Neeson) hefur hætt störfum sem sérfræðingur í fyrirbyggjandi aðgerðum fyrir bandarísku ríkisstjórnina, til þess að geta búið sem næst dóttur sinni Kim (Maggie Grace), sem býr hjá móður sinni Lenore (Famke Janssen) og forríkum eiginmanni hennar Stuart (Xander Berkeley).

Bryan hefur svolítið sérstaka áráttu. Þegar hann ákveður að gera eitthvað, þá stendur hann við það hvað sem það kostar. Þegar Kim var fimm ára lofaði hann henni að vera alltaf hjá henni á afmæli hennar, og hefur alltaf staðið við það - þó að það hafi kostað ferðalög milli landa.

taken01

Kim fer til Parísar ásamt vinkonu sinni, og þær hafa varla fyrr stigið fyrstu skrefin út af flugvellinum en búið er að reikna út hvernig þeim skal rænt og selt í hvítan þrældóm. Kim tekst þó að hringja í föður sinn þegar hún verður þess var að einhverjir menn hafa brotist inn í íbúð hennar og yfirbugað vinkonu hennar.

Samtalið er það eina sem Bryan hefur til að hafa upp á ræningjum dóttur sinnar og bjarga henni úr ánauð. Þegar hann heyrir andardrátt eins ræningjans segist hann gefa honum eitt tækifæri til að skila dótturinni, annars muni hann sjá eftir því.

Ræninginn gerir þau mistök að segja: "Gangi þér vel," en með háþróaðri raddgreiningartækni tekst Bryan að komast að því hvaða einstaklingur þetta er. James Bond og Jason Bourne, eins flottir og þeir eru, ættu ekki roð í Bryan Mills.

Hann sýnir slíka útsjónarsemi og styrk að maður hefur ekki séð annað eins langa lengi. Liam Neeson tekst að gera Bryan afar mannlegan og skiljanlegan, þrátt fyrir að hann sé fyrst og fremst drápsmaskína sem engu illu hlífir. Aldrei þessu vant eru hasaratriðin afar raunsæ og vel útfærð, og maður trúir næstum því að hinn 56 ára gamli Liam Neeson sé um áratugi yngri.

Taken er eins og góður þáttur af 24 með aðeins eldri og írskari Jack Bauer. Mjög ofbeldisfull spennumynd sem þó er óhætt að mæla með. Ég er sáttur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Takk fyrir þetta. Held ég skelli mér á þessa!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 30.1.2009 kl. 22:57

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Liam er endingargóður í bransanum, hver var fyrsta flotta myndin hans??

Ásdís Sigurðardóttir, 31.1.2009 kl. 01:27

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ásdís: Ég man fyrst eftir Liam Neeson í Next of Kin (1989), þar sem hann lék stóra bróður Patrick Swayze, en þegar ég skoða IMDB hefur hann leikið í fleiri eldri myndum sem ég hafði gaman af, eins og Dirty Harry myndinni The Dead Pool (1988), The Mission (1986) með Robert DeNiro og Jeremy Irons, fantasíunni Krull (1983) og riddaramyndinni Excalibur (1981).

Hrannar Baldursson, 31.1.2009 kl. 10:13

4 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Búinn að sjá Taken. Aldrei dauður pumktur.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 31.1.2009 kl. 10:33

5 identicon

hef sjaldan skemmt mér jafn vel í bíó

Oddur Ingi (IP-tala skráð) 31.1.2009 kl. 14:25

6 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

 takk !  ég hef sko séð hann í flestum þessum og er ánægð með kall.

Ásdís Sigurðardóttir, 1.2.2009 kl. 14:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband