The Philadelphia Story (1940) ***1/2
26.12.2008 | 12:46
Allir kannast við hinn klassíska ástarþríhyrning, þar sem til dæmis tveir karlar berjast um hylli og ást einnar konu. Í The Philadelpha Story fáum við aðeins flóknari útgáfu: ástarfimmhyrning, þar sem karlarnir eru þrír og konurnar tvær. Úr verður hin besta skemmtun.
Ljóðskáldið Macaulay Connor (James Stewart) og myndlistamaðurinn Elizabeth Imbrie (Ruth Hussey) sem starfa hjá slúðurtímaritinu Spy sem dálkahöfundur og ljósmyndari fá það verkefni frá ritstjóra blaðsins, Sidney Kidd (Henry Daniell) að fjalla um brúðkaup í Philadelphia. Þau eiga í einhvers konar rómantísku sambandi en eru ekki á föstu.
Tracy Lord (Katharine Hepburn) og George Kittredge (John Howard) eiga að giftast á laugardegi, en Connor og Imbrie mæta heim Lord fjölskyldunnar, sem er afar illa við blaðasnápa í fylgd fyrrverandi eiginmanns Tracy, C. K. Dexter Haven (Cary Grant).
Hjónaband þeirra Tracy og Dexter hafði lokið með ósköpum tveimur árum fyrr, enda Tracy mjög kröfuhörð og Dexter í vandræðum með áfengisneyslu. Dexter vill fyrir alla muni koma í veg fyrir brúðkaupið, en hann veit að George Kittredge er ósvífinn tækifærissinni sem ætlar sér að nota ríkidæmi Tracy fyrir pólitískan frama. Macaulay Connor hefur einnig mjög sterkar skoðanir á Kittredge og þekkir sögur um hvernig hann kom sér úr fátækt til ríkidæmis.
Macaulay Connor er meinilla við að skoða einkalíf annarra, og líkar það enn verr þegar Lord fjölskyldan, öll sem ein setur á svið blekkingarleik til að þykjast vera venjuleg suðurríkjafjölskylda. Connor ákveður samt að fara á bókasafn til að lesa sér til um fjölskylduna, en finnur þar sjálfa Tracy Lord sem situr og les smásögubók eftir Macaulay. Þau átta sig strax á að þau hafa dæmt hina manneskjuna of fljótt, og áhugi þeirra hvort á öðru fer hratt vaxandi og verður hugsanlega að einhverju meiru þegar þau fá sér í glas seinna um kvöldið.
Það er hreinn unaður að fylgjast með þeim James Stewart og Katherine Hepburn leika saman. Það einfaldlega geislar af þeim og þau hafa nákvæmlega það sem þarf til að allir vilji að þau nái saman á endanum. Það vita allir að Kittridge væri ekki góður eiginmaður fyrir hana. Dexter og Imbrie standa á hliðarlínunni, en hafa afdrifarík áhrif á framvindu sögunnar.
Afar skemmtileg kvikmynd sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Þó að The Philadelphia Story sé orðin 69 ára gömul, er hún mun betri en flestar rómantískar gamanmyndir sem gerðar eru í dag, sérstaklega vegna þess hversu frábær persónusköpunin er hjá risunum þremur: James Stewart, Katherine Hepburn og Cary Grant.
James Stewart fékk óskarinn sem besti leikari í aðalhlutverki og Donald Ogden Stewart fékk óskarinn fyrir besta handritið.
Atriði úr The Philadelphia Story: Somewhere Over the Rainbow
Flokkur: Kvikmyndir | Facebook
Athugasemdir
Verulega góð færsla og við erum stundum sammála
Ómar Ingi, 26.12.2008 kl. 15:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.