Af hverju gerum við kröfu um siðferðilega hegðun?

 


 

Síðustu daga hefur farið hátt að menn verði að víkja úr embættum og störfum, og axla ábyrgð. Er höfuðástæðan oft sú að siðferðileg hegðun viðkomandi hefur verið gagnrýnd og þykir óásættanleg, og viðkomandi jafnvel gagnrýndur fyrir spillingu, - sem er þá sjálfsagt ein höfuð andstæða siðferðilegar hegðunar.

 

Af hverju gerum við þessa kröfu um góða siðferðilega hegðun og hvað er eiginlega siðferðileg hegðun?

Fyrst ætla ég að gera tilraun til að svara seinni spurningunni, um hvað siðferðileg hegðun sé, og síðan hinni sem er enn dýpri um af hverju við krefjumst hennar.

Siðferði er nefnilega svolítið magnað. Til er fjöldi kenninga um siðferði og hafa heimspekingar krufið þær í mörg hundruð ár og eru enn ekki komnir að einni niðurstöðu - heimspekingar vilja nefnilega oft leita fleiri spurninga en svara. Samt virðast hugmyndir um gott siðferði alltaf skiptast í tvær fylkingar; annars vegar þá sem setur markmiðin á oddinn: nytjahyggjan (utilitarianism)- sem er nátengd efnishyggju, og hin sem metur meira ferðina að markinu en markmiðið sjálft: mannhyggja (transcendentalism) -  sem er nátengd hughyggju.

 

 


 

Mér dettur í hug að mótmælendur séu að gagnrýna siðferði nytjahyggjunnar, þar sem að hún er það sem ræður ríkjum í stjórnmálum, hagkerfi og framkvæmdum, en megin markmið nytjahyggjunnar er að heildin fái notið farsældar, þó að það geti kostað að einhverjum einstaklingum sé fórnað. Eftir stutta umhugsun kemst ég að þeirri niðurstöðu að mótmælendur séu ekki að gagnrýna nytjahyggjuna sem slíka, heldur að hún sé ríkjandi siðferðikerfi, og að einhver heilindi vanti til að lifa í samræmi við hana.

Hugsanlegar hefur fólk á tilfinningunni að verið sé að heildinni fyrir fáa einstaklinga, í stað þess að verið sé að fórna fáum einstaklingum fyrir heildinaþ Ef svarið er að fáum sé fórnað fyrir heildina, þá er viðkomandi siðferði gott og gilt og í samræmi við nytjahyggjuna, sama hversu vafasöm okkur gæti þótt það siðferðikerfi sem slíkt, en sé hins vegar verið að fórna heildinni fyrir fáa, er ljóst að um alvarlega siðferðilega bresti að ræða sem geta ekki endað með neinu öðru en ósköpum.

Rétt eins og þegar klippt er á línu línudansara.

 

Af hverju krefjumst við siðferðilegrar hegðunar?

Þegar við horfum á knattspyrnuleik og þekkjum reglurnar, og sjáum leikmann slá bolta í mark, þá ofbýður okkur og viðkvæmir einstaklingar gætu jafnvel orðið öskuillir ef dómarinn dæmir mark. Þarna gerist eitthvað ósanngjarnt - og við fáum engu við ráðið. Við verðum alveg brjáluð í skapinu, nema náttúrulega ef við höldum með þeim sem skoraði. Þá er þetta kannski réttlætanlegt. Ef við þekkjum ekki reglurnar og höfum engan áhuga á leiknum, þá stendur okkur sjálfsagt á sama.

 

 

Börn eru sérstaklega næm á réttlæti og sanngirni. Það þarf ekki mikið til að þau skynji þegar jafnvægið er ekki í lagi. Það þarf ekki meira en að í hópi þriggja barna að eitt þeirra fái fleiri liti í hendurnar en hin að upphróp um ósanngirni með réttlátri reiði tekur völdin.

Það er semsagt eitthvað djúpt innra með okkur sem dæmir hvort sem okkur líkar betur eða verr. Ef við skynjum ósanngirni eða óréttlæti, þá truflar það okkur. Næm tilfinning gegn ranglæti er mikilvæg fyrir allar heilsteyptar manneskjur - og þegar þær sjá ranglæti bera sigur - þá ofbýður þeim. Sérstaklega ofbýður þeim þær manneskjur sem sjá ekki hið augljósa óréttlæti, og reiðast þessum manneskjum fyrir blindni þeirra og sinnisleysi.

Það vill heldur enginn sjá hetjuna, alla hans vini og fjölskyldu lúta í duftið fyrir illmennum í kvikmyndum eða skáldsögum, og hví ættum við þá að líða það í lífinu sjálfu? 

Þessi sterka trú okkar á réttlætinu er grundvöllur skilnings okkar á lífinu og tilverunni. Þessi frumhvöt getur reynst okkur illskiljanleg og hvatt okkur til að leita skýringa við henni og hvernig við tengjumst veröldinni á djúpan hátt, með ástundun heimspeki eða trúarleit. Þeir einstaklingar sem fara veg heimspekinnar verða að vera tilbúnir til að opna fyrir fleiri spurningar og kafa enn dýpra í leyndardóma tilverunnar, en þeir sem fara leið trúarinnar geta óhræddir lokað á spurningar því að svörin eru gefin með nokkuð áreiðanlegum kerfum. Hvort sem þau svör eru sönn eða ekki, þá líður fólki betur ef það hefur einhver svör sem rangt er að efast um.

Ég vil gera tilraun til að svara spurningu sem birtist í heiti bloggsins: Við gerum kröfu um siðferðilega hegðun einfaldlega vegna þess að við þurfum að halda jafnvægi í heiminum. Siðferðið er okkur jafn mikilvægt og að geta staðið á tveimur uppréttum, en við göngum að því vísu og áttum okkur ekki á mikilvægi þess fyrr en við getum ekki notað fæturna af einhverjum ástæðum, eða upplifum og verðum vitni að einhvers konar óréttlæti.

 

 

Mig grunar að heild Íslendinga þjáist í dag vegna fárra einstaklinga, sem er greinilegt brot gegn siðferði nytjahyggjunnar - en það kerfi er aðeins  hægt að réttlæta - og jafnvel það þykir vafasamt - ef fáum er fórnað fyrir heildina - en aldrei, aldrei, aldrei - að heildinni sé fórnað fyrir fáa einstaklinga - sem virðist þó hafa gerst og við þurfum að spyrna við með öllum tiltækum og uppbyggjandi ráðum, en þó án þess að grípa til leiða sem valda enn frekari óhamingju og jafnvel ófarsæld, rétt eins og er að gerast á Grikklandi í dag, þar sem ofsareiði og óeirðir gera stöðugt illt verra.

 

Myndir

Hugsuður: Richastic!

Ímynd nytjahyggjunnar - Hamingjusamt svín: Utilitarianism.com

Hönd Guðs eða Maradonna: Soccerfansnetwork.com

Jafnvægi og fíll: Starstore.com


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband